Annáll matvælaráðuneytisins 2022
Matvælaráðuneytið (MAR) var stofnað 1. febrúar 2022 í kjölfar breytinga á Stjórnarráðinu við myndun nýrrar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Helstu málefnasvið ráðuneytisins eru sjávarútvegur, landbúnaður, fiskeldi, matvæli og matvælaöryggi auk skógræktar og landgræðslu.
Á fyrstu starfsdögum MAR setti Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra af stað vinnu á öllum málefnasviðum ráðuneytisins. Eitt stærsta verkefnið var stefnumótun um sjávarútveg undir heitinu „Auðlindin okkar.“ Gert er ráð fyrir að afrakstur verkefnisins líti dagsins ljós sem frumvörp til Alþingis vorið 2024. Einnig var sett af stað vinna við kortlagningu stjórnunar- og eignatengsla í sjávarútvegi.
Aukin strandveiði og kortlagning lagareldis
Að ákvörðun ráðherra var bætt í strandveiðipott 1.500 tonnum sem skiluðu sér af skiptimörkuðum á útmánuðum. Hlutfall strandveiða af leyfilegum heildarafla þorsks nam 4,5% og hefur ekki svo stórum hluta aflans áður verið úthlutað til strandveiða.
Kynnt voru í samráðsgátt tvö áform um lagasetningu sem ætlað er að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda fiskiveiðiflotans og hraða orkuskiptum í samræmi við markmið stjórnvalda.
Hafin var vinna við gerð skýrslu á stöðu lagareldis á Íslandi, en lagareldi er yfirheiti yfir sjókvía-, land, þörunga- og úthafseldi. Samið var við ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting Group Nordic AB um gerð skýrslunnar. Unnin var ítarleg úttekt á stöðu lagareldis á Íslandi og greindir framtíðarmöguleikar og áskoranir greinarinnar. Tekið var mið af umhverfismálum, verðmætasköpun og regluverki.
Verkefni ársins 2022 bera ávöxt
Í ráðuneytinu var jafnframt unnið að undirbúningi endurskoðunar búvörusamninga. Áherslur matvælaráðherra við þá endurskoðun hafa snúið að loftslagsmálum, fæðuöryggi og einföldun búvörusamninga. Á árinu var eitt verkefna ráðuneytisins að takast á við afleiðingar innrásar Rússa í Úkraínu fyrir aðfangakeðjur landbúnaðar. Á árinu 2022 var 3,2 milljörðum króna veitt í sérstakan stuðning við landbúnað vegna þessa og hækkandi áburðarverðs. Þannig hefur verið sýnt í verki að stjórnvöld standa með íslenskum landbúnaði.
Þingið samþykkti nokkur mál sem matvælaráðherra lagði fyrir á árinu 2022. Flest snúa þau að umbótamálum í fiskveiðistjórnarkerfinu, s.s. veiðistjórnun hryggleysingja og bætt eftirlit með fiskveiðum. Í lok nóvember voru gerðar breytingar á lögum um veiðigjald til að bregðast við óæskilegri víxlverkun ívilnana sem gerðar voru vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Þær breytingar leiða til þess að veiðigjöld verða um 2,5 milljörðum króna hærri árið 2023 en ella hefði verið.
Á þessu ári fara þau verkefni sem ýtt var úr vör á fyrsta starfsári nýs matvælaráðuneytis að bera ávöxt. Þannig verður unnið að því að skapa ramma sem almenningur og atvinnugreinarnar geta treyst á til framtíðar. Ásamt stefnumörkun íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum mun sá rammi hafa akkeri sitt í nýrri matvælastefnu sem var unnin í ráðuneytinu. Drög að stefnunni voru kynnt á vel sóttu Matvælaþingi í Hörpu 22. nóvember á síðasta ári. Drögin fara í samráðsgátt stjórnvalda nú í janúar.
Efling nýsköpunar og kornræktar
Í ágúst úthlutaði matvælaráðherra 584,6 milljónum króna úr Matvælasjóði, alls hlutu 58 verkefni styrk af 211 umsóknum sem bárust til sjóðsins.
Landbúnaðarháskóla Íslands var falið að vinna drög að aðgerðaáætlun til eflingar kornræktar og mun lokaskýrslu verða skilað til matvælaráðherra í mars á þessu ári. Einnig var samið við fyrirtækið Environice um gerð aðgerðaáætlunar fyrir eflingu lífrænnar framleiðslu sem verður skilað í byrjun ársins.
Landgræðsluáætlun og landsáætlun í skógrækt voru samræmdar í fyrsta sinn á árinu 2022 undir heitinu Land og líf, bæði stefna og aðgerðaáætlun. Í október tilkynnti matvælaráðherra síðan ákvörðun sína um sameiningu Landgræðslunnar og Skógræktarinnar. Við sameiningu munu allir starfsmenn flytjast yfir í nýja stofnun, og verður áhersla lögð á að fyrirliggjandi mannauður og þekking haldist í málaflokknum.
Unnin var úttekt á almennri lagaumgjörð, stjórnsýslu og starfsháttum matvælaráðuneytisins. Úttektinni hefur verið skilað til matvælaráðherra en tilgangur hennar er að treysta faglegan grundvöll stjórnsýslu matvælaráðuneytisins.
Yfirlit yfir helstu verkefni matvælaráðuneytis má sjá í meðfylgjandi annál.