30 ára afmæli samstarfs Portúgals við EES-ríkin á vettvangi Uppbyggingasjóðs EES
Portúgal er eitt af sex umdæmislöndum sendiráðsins í París og það er þannig eitt af hlutverkum sendiráðsins að gæta hagsmuna Íslands í Portúgal og veita Íslendingum á svæðinu þjónustu. Sendiráðið tekur m.a. þátt í vinnu í tengslum við samstarf Íslands, Noregs og Liechtenstein við Portúgal undir hatti Uppbyggingasjóðs EES. Í lok október var haldið upp á 30 ára afmæli samstarfs Portúgals við EES-ríkin á vettvangi sjóðsins og boðað til stórrar ráðstefnu þar sem litið var yfir farinn veg, fjallað um þau samstarfsverkefni sem litið hafa dagsins ljós á þessu tímabili og horft til framtíðar. Varamaður sendiherra Íslands í París, Una Jóhannsdóttir, tók þátt í pallborðsumræðum um mikilvægi uppbyggingasjóðsins fyrir tvíhliða samstarf ríkjanna og Evrópusamstarf, ásamt Mariu Varteressian aðstoðarráðherra í utanríkisráðuneyti Noregs og Maríu Mineiro framkvæmdastýru sjóðsins í Portúgal.
Uppbyggingasjóðurinn gegnir lykilhlutverki í tvíhliða samskiptum Íslands og Portúgal og hafa verkefni fjármögnuð af sjóðnum aukið samstarf ríkjanna m.a. á sviði grænnar orku, jafnréttis, umhverfismála og bláa hagkerfisins. Ársfundur EES-ríkjanna og Portúgal vegna samstarfs á vettvangi uppbyggingasjóðsins var haldinn í kjölfar ráðstefnunnar en nú eru að hefjast viðræður um fjármögnun fyrir næsta tímabil.