Hoppa yfir valmynd
23. október 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 271/2024-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 271/2024

Miðvikudaginn 23. október 2024

A

gegn

Sjúkratryggingum Íslands

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með kæru sem barst 12. júní 2024, kærði B lögmaður, f.h. A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands frá 7. júní 2024 um bætur til kæranda úr sjúklingatryggingu.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um bætur úr sjúklingatryggingu með umsókn, dags. 6. júlí 2021, vegna afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítala á tímabilinu X – X. Sjúkratryggingar Íslands synjuðu umsókn kæranda með ákvörðun, dags. 8. febrúar 2024, á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kærandi kærði ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 26. mars 2024. Sjúkratryggingar Íslands ákváðu að endurupptaka málið þar sem nýjar upplýsingar bárust með kæru og afturkallaði lögmaður kæranda kæru til úrskurðarnefndar. Með ákvörðun, dags. 7. júní 2024, synjuðu Sjúkratrygginga Íslands á ný umsókn kæranda á þeim grundvelli að ekki lægi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum mætti rekja til þátta sem féllu undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 12. júní 2024. Með bréfi, dags. 13. júní 2024, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Sjúkratrygginga Íslands ásamt gögnum málsins. Greinargerð Sjúkratrygginga Íslands barst með bréfi, dags. 21. júní 2024. Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 27. júní 2024, var greinargerð Sjúkratrygginga Íslands send kæranda til kynningar. Engar athugasemdir bárust.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi óskar eftir endurskoðun á ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja umsókn um bætur úr sjúklingatryggingu.

Í kæru er greint frá því að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með tilkynningu sem hafi borist Sjúkratryggingum Íslands þann 7. júlí 2021. Með bréfi, dags. 8. febrúar 2024, hafi Sjúkratryggingar Íslands hafnað því að kærandi ætti bótarétt úr sjúklingatryggingu samkvæmt framangreindum lögum. Þann 25. mars 2024 hafi kærandi kært höfnun Sjúkratrygginga Íslands til úrskurðarnefndar velferðarmála. Þann 13. maí 2024 hafi borist bréf frá Sjúkratryggingum Íslands þess efnis að mál kæranda yrði endurupptekið og hafi kæran því í framhaldinu verið afturkölluð. Með bréfi, dags. 7. júní 2024, hafi borist niðurstaða endurupptöku Sjúkratrygginga Íslands í málinu en bótaskyldu úr sjúklingatryggingu hafi aftur verið hafnað. Kærandi geti á engan hátt sætt sig við framangreinda niðurstöðu stofnunarinnar og byggi á því að bótaskylda sé til staðar úr sjúklingatryggingu.

Aðdraganda málsins megi rekja til slyss sem kærandi hafi orðið fyrir þann X þegar hún hafi verið að […] og misstigið sig með þeim afleiðingum að hún hafi lent illa á jörðinni. Kærandi kvaðst strax hafa fundið fyrir fyrir verkjum í hægri fæti og hægri úlnlið en þar sem hún hafi ekki getað stigið í fótinn hafi hún hringt á sjúkrabifreið. Kærandi hafi verið flutt með sjúkrabifreið á slysadeild Landspítala þar sem tekin hafi verið röntgenmynd af hægri úlnlið og hægri ökkla kæranda. Niðurstöður hafi ekki sýnt merki um beináverka og hafi kærandi því verið útskrifuð heim með teygjusokk og verkjalyf.

Kærandi hafi áfram verið með talsverða verki frá hægri úlnlið og fæti og hafi því leitað aftur á slysadeild Landspítala þann X þar sem hún hafi aftur verið tekin til röntgenmyndgreiningar. Niðurstöður rannsókna hafi þá sýnt fram á brot í hægri úlnlið sem hafi ekki greinst við fyrri myndrannsókn en aftur hafi kærandi ekki verið greind með neina beináverka á hægri fæti. Þann X hafi kærandi áfram leitað á Heilsugæsluna C vegna viðvarandi einkenna frá hægri fæti og hafi hún verið send í röntgenmyndatöku þann X þar sem aftur hafi ekki greinst brot. Þann X hafi kærandi aftur leitað á Heilsugæsluna C þar sem hún hafi fundið til við gang í tábergi og iljum. Grunur hafi vaknað um plantar faseitis og hafi kærandi hlotið ráðleggingar í samræmi við þá greiningu. Kærandi hafi leitað á Heilsugæsluna D þann X vegna einkenna frá hægri fæti og hafi því aftur verið tekin til röntgenmyndgreiningar þar sem aðeins hafi greinst vægar slitbreytingar en brot hafi ekki greinst. Þá hafi röntgenlæknir ráðlagt segulómskoðun væru einkenni þrálát. Í framhaldinu hafi kærandi verið send í segulómskoðun, sem framkvæmd hafi verið þann X og hafi sýnt beinbjúg í öðru ristarbeini ásamt broti undir brjóskplötu fjarlægrar liðflatar beinsins. Þann X hafi niðurstöður segulómskoðunarinnar verið teknar fyrir á fundi bæklunarlækna á Landspítala. Þar hafi komið í ljós beindrep í fjærenda annars ristarbeins og hafi bæklunarlæknar talið áverka og útlit samsvara svokölluðum Freiberg sjúkdómi.

Kærandi hafi talið sig eiga rétt á bótum úr sjúklingatryggingu hjá Sjúkratryggingum Íslands. Hafi hún byggt á því að umrætt brot hefði ekki greinst í rúm tvö ár þrátt fyrir ítrekaðar komur á slysadeild og Heilsugæslu C. Þar til brotið hafi greinst hafi kærandi þjáðst af stanslausum verkjum í fætinum sem hafi háð henni í daglegu lífi. Í endurákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 7. júní 2024, hafi bótaskyldu úr sjúklingatryggingu verið hafnað þar sem stofnunin telji að kærandi hafi fyrst brotnað við áverka sem getið sé um í sjúkraskrá þann X, en þar segi að einstaklingur í hælaskóm hafi stigið ofan á hægri rist kæranda. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé því ekki um óeðlilega langan tíma að ræða þar sem niðurstöður segulómskoðunar hafi legið fyrir þann X og hafi verið teknar fyrir á röntgenfundi bæklunarlækna á Landspítala viku síðar.

Kærandi mótmæli afstöðu Sjúkratrygginga Íslands og vilji koma eftirfarandi á framfæri í því samhengi.

Kærandi byggi kröfu um rétt til bóta úr sjúklingatryggingu á því að hún hafi orðið fyrir líkamlegu tjóni vegna vangreiningar og ófullnægjandi læknismeðferðar á tímabilinu X til X. Byggi hún rétt sinn til bóta á 2. gr. sjúklingatryggingalaga en samkvæmt upphafsmálslið greinarinnar skuli greiða bætur á grundvelli laganna, án tillits til þess hvort einhver beri skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers af þeim atvikum sem tilgreind séu í 1. til 4. tölul. 2. gr. Ákvæðið áskilji aðeins að tjón megi að öllum líkindum rekja til þeirra atvika sem lögin varði, sem þýði að slakað sé á kröfum um sönnun um orsakatengsl leiki vafi á um þau, sbr. Hrd. 388/2021, þar sem fyrrnefnd sjónarmið hafi verið staðfest af Hæstarétti. Kærandi telur hafið yfir vafa að einkenni hennar megi rekja til þess að ekki tókst að greina brotið í svo langan tíma. Hún leggur áherslu á að jafnvel þótt brotið hafi ekki fundist, þá hafi áframhaldandi einkenni hennar átt að leiða til þess að frekari rannsóknir yrðu gerðar. Það hafi ekki verið fyrr en að tekin hafi verið tölvusneiðmynd um tveimur árum síðar sem brotið hafi greinst.

Samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu eigi þeir rétt til bóta sem verði fyrir meðal annars líkamstjóni í tengslum við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð hér á landi. Kærandi telji að líkamstjón hennar megi rekja til þess að ekki hafi verið staðið rétt að læknismeðferð, sbr. 1. tölul. 2. gr. laganna þar sem brotið hafi ekki verið greint fyrr en rúmlega tveimur árum síðar, þrátt fyrir að hún hafi ítrekað leitað læknisaðstoðar vegna einkenna sinna. Samkvæmt 1. tölul. heyri undir lögin þau atvik, þar sem ætla megi að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræði hefði verið hagað eins vel og vandlega og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði, sbr. Hrd. 388/2021, þar sem talið hafi verið að hafið væri yfir vafa að lækniskoðun hefði ekki verið framkvæmd eins vel og unnt hafi verið.

Líkt og komi fram í gögnum málsins hafi kærandi leitað á slysadeild Landspítala strax eftir slysið með töluverð einkenni frá hægri fæti. Ekkert brot hafi greinst og ekki hafi verið framkvæmd tölvusneiðmynd þrátt fyrir að kærandi hafi sagst ekki getað stigið í fótinn. Kærandi hafi ítrekað leitað á slysadeild Landspítala, Heilsugæsluna C og Heilsugæsluna D án þess að fá fullnægjandi rannsókn eða meðhöndlun. Hún telji að vangreining og ófullnægjandi læknismeðferð hafi valdið henni tjóni þar sem með réttri greiningu og fullnægjandi meðferð hefði mátt framkvæma rétta meðhöndlun strax eftir slysið.

Máli sínu til stuðnings bendi kærandi á sjúkragögn en í komunótu frá X segi:

„...Hefur verið með sáran verk frá hæ. rist í nokkra mdr. versnun í byrjun X. Verið dettin, áverki á hæ. fót árið X, meðal annars. Þar sem verkur var ekki að ganga yfir frá hæ. fæti, ákv. að fá MRI hjá Orkuhúsinu, þann X sl. Niðurstaða. er metatarsal brot II sem og subchondral brot í caput MT2, einnig usurulíkar lesionir i CMC liðum beggja vegna brotsins. Sem þarf í framhaldi að vinna upp mtt. RA. Fyrst þarf að taka afstöðu til brotsins, reynt hefur verið í 3x á hafa samband við bæklun Fossvogi til að setja málið í farveg þar, bað ekki tekist. Sjúklingur hefur leitað á slysó vegna þessa, síðast þann X en var snúið frá án læknisskoðunar eða mats. A er nú í endurhæfingu á E, meðferð sem hún hefur beðið eftir í rúmt ár, á mjög erfitt með að taka þátt í líkamlegri þjálfun þar vegna verkja frá brotinu.“

Með vísan til framangreindrar umfjöllunar og meðfylgjandi gagna telji kærandi sig uppfylla skilyrði 1. tölul. 2. gr. laganna þannig að hún eigi rétt til bóta vegna líkamstjóns. Að mati kæranda sé auðsýnt að það hefði átt að senda hana í frekari rannsóknir strax á árinu X vegna viðvarandi einkenna og þá hefði brotið mögulega greinst fyrr en raun bar vitni og ástand kæranda kynni að vera betra í dag. Þar sem kærandi hafi ekki fengið rétta greiningu í upphafi hafi henni ekki verið ráðlagt tímanlega að hún mætti ekki stíga í fótinn. Kærandi hafi því sett fullt álag á fótinn allan þann tíma sem hún hafi verið vangreind, sem hún telji eiga þátt í þeim einkennum sem hún glími við nú.

Í endurákvörðun Sjúkratrygginga Íslands sé á því byggt að kærandi hafi brotnað við áverka sem getið sé um í sjúkraskrá þann X, en þar segi að einstaklingur í hælaskóm hafa stigið ofan á hægri rist kæranda. Því liggi ekki fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum megi rekja til þátta sem falli undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laganna.

Kærandi sé ósammála niðurstöðu Sjúkratrygginga Íslands og telji ósannað að hún hafi fyrst brotnað við áverka sjö dögum fyrir röntgenmyndatöku þann X, enda hafi hún þjáðst af þrálátum verkjum í hægri fæti frá slysdegi þann X. Kærandi vísi til þess að ekki hafi verið framkvæmd segulómskoðun fyrr en þann X og því ómögulegt að bera saman ástand hennar fyrir og eftir umræddan áverka. Kærandi hafi verið tekin til röntgenmyndgreiningar endurtekið á árunum X-X þar sem aldrei hafi greinst brot, hvorki þann X né við fyrri rannsóknir. Sjúkratryggingar Íslands beri sönnunarbyrðina fyrir þessari fullyrðingu sinni og sé hún með öllu ósönnuð. Með tilliti til þeirrar vanrækslu sem hafi verið á greiningu kæranda verði Sjúkratryggingar Íslands að bera hallann af framangreindum sönnunarskorti.

Með vísan til þessa sem og gagna málsins kæri kærandi höfnun Sjúkratryggingar Íslands á bótarétti hennar samkvæmt lögum um sjúklingatryggingu og telji að skilyrðum laganna sé fullnægt þannig að hún eigi rétt til bóta vegna líkamstjóns sem rekja megi til þess að brot á hægri ökkla hafi ekki greinst fyrr en tveimur árum síðar.

III. Sjónarmið Sjúkratrygginga Íslands

Í greinargerð Sjúkratrygginga Íslands segir að kærandi hafi sótt um bætur úr sjúklingatryggingu samkvæmt lögum nr. 111/2000 með umsókn sem hafi borist stofnuninni þann 8. júlí 2021. Sótt hafi verið um bætur vegna afleiðinga meðferðar sem hafi farið fram á Landspítala á tímabilinu X-X. Með ákvörðun, dags. 8. febrúar 2024, hafi Sjúkratryggingar Íslands synjað bótaskyldu á þeim grundvelli að ekki væri um að ræða tjón sem að félli undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Sú ákvörðun hafi verið kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála þann 26. mars 2024. Í fylgiskjali með kæru hafi komið fram rökstuðningur kæranda sem ekki hafi legið fyrir við gerð ákvörðunar sem hafi orðið til þess að Sjúkratryggingar Íslands hafi ákveðið að endurupptaka ákvörðun sína, dags. 8. febrúar 2024, og taka málið aftur til meðferðar. Með endurákvörðun, dags. 7. júní 2024, hafi fyrri ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um synjun á bótaskyldu verið staðfest.

Að mati Sjúkratrygginga Íslands komi afstaða stofnunarinnar til kæruefnisins fram með fullnægjandi hætti í ákvörðunum stofnunarinnar, dags. 8. febrúar 2024 og 7. júní 2024. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé því ekki þörf á að svara kæru efnislega með frekari hætti. Sjúkratryggingar Íslands vísi því til þeirrar umfjöllunar sem fram komi í gögnum málsins. Engin ný gögn hafi verið lögð fram sem taka þurfi afstöðu til.

Með vísan til framangreinds beri að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

Í ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands, dags. 7. júní 2024, segir að samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi kærandi leitað á slysadeild Landspítala þann X vegna áverka á hægri fæti. Teknar hafi verið röntgenmyndir sem hafi ekki sýnt beináverka. Þann X og X hafi kærandi verið send í röntgenmyndatökur í Orkuhúsinu og enn hafi engin brot greinst. Þá hafi jafnframt verið teknar myndir þann X á Landspítala þar sem engir beináverkar hafi sést. Það sé ljóst af fyrirliggjandi gögnum að kærandi hafi verið mynduð endurtekið árið X. Það sé vel þekkt að einföld, ótilfærð brot sjáist ekki á fyrstu mynd en hefði brot verið til staðar sæist það á myndum nokkrum vikum síðar þegar gróandi væri kominn í brotalínuna.

Í sjúkraskráfærslu heilsugæslunnar D, dags. X, komi fram að sjö dögum áður hafi einstaklingur í hælaskóm stigið ofan á hægri rist kæranda. Í kjölfarið hafi kærandi verið send í röntgenmyndatöku af hægri fæti á Röntgen Domus. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi hvorki brot né tilfærslur greinst.

Kærandi hafi leitað á heilsugæsluna D þann X vegna einkenna frá fæti og hafi heilsugæslulæknir hennar ákveðið að senda hana í segulómskoðun sem framkvæmd hafi verið þann X í Orkuhúsinu. Niðurstaða segulómskoðunar hafi verið sú að brot væri til staðar í hægra tábergi og bólgubreytingar í MT 2, subchondral brot í caput MT 2. Eftirfarandi komi fram í niðurstöðum segulómskoðunar:

„Segulómun hægra táberg: Til samanburðar er röntgenrannsókn af rist frá X og X OM. Við rtg í X er tilkomið subchondral brot/caput nekrosa og lytisk breyting í caput MT 2 og lítilsháttar lækkun á liðbili í MTP lið 2. Við segulómun sést í dag mikill beinbjúgur í caput MT 2 og samræmist það brotinu en einnig er vægri beinbjúgur í mið- og distal þriðjungi MT 2, þykkun á cortex.“

Af þessu megi ráða að brot hafi þegar verið til staðar við röntgenmyndatöku þann X.

Með tilliti til þess sem fram hafi komið, telji Sjúkratryggingar Íslands að kærandi hafi brotnað við fyrrnefndan áverka sjö dögum fyrir röntgenmyndatöku þann X og að brotið hafi verið til staðar við úrlestur röntgenmyndanna líkt og fram komi í niðurstöðum segulómskoðunar þann X.

Meðferð kæranda hjá Heilsugæslunni D og Röntgen Domus komi ekki til skoðunar hjá Sjúkratryggingum Íslands og sé kæranda bent á að hafa samband við vátryggingafélag viðkomandi lækna.

Niðurstöður segulómunar hafi legið fyrir þann X. Samkvæmt sjúkraskrárfærslu Landspítala, dags. X, hafi heimilislæknir kæranda haft samband við bæklunardeild Landspítala og beðið um að niðurstöður segulómskoðunar yrðu bornar undir sérfræðinga á bæklunardeild. Myndir kæranda hafi verið teknar fyrir á röntgenfundi bæklunarlækna á Landspítala viku síðar, þann X. Að mati Sjúkratrygginga Íslands sé ekki um óeðlilega langan tíma að ræða. Reynt hafi verið að hafa samband við heilsugæslulækni kæranda símleiðis en hún hafi ekki svarað.

Í ljósi þess sem að framan er rakið sé það mat Sjúkratrygginga Íslands að ekki liggi fyrir bótaskylt tjón sem að öllum líkindum megi rekja til þátta sem falli undir gildissvið sjúklingatryggingar samkvæmt 2. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Ekki sé því heimilt að verða við umsókn kæranda um bætur úr sjúklingatryggingu.

IV. Niðurstaða

Mál þetta varðar synjun Sjúkratrygginga Íslands um bætur á grundvelli laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að afleiðinga meðferðar sem fór fram á Landspítala á tímabilinu X – X séu bótaskyldar samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Í 2. gr. laga um sjúklingatryggingu segir um tjónsatvik sem lögin taka til:

„Bætur skal greiða án tillits til þess hvort einhver ber skaðabótaábyrgð samkvæmt reglum skaðabótaréttarins, enda megi að öllum líkindum rekja tjónið til einhvers eftirtalinna atvika:

1.    Ætla má að komast hefði mátt hjá tjóni ef rannsókn eða meðferð við þær aðstæður sem um ræðir hefði verið hagað eins vel og unnt hefði verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði.

2.    Tjón hlýst af bilun eða galla í tæki, áhöldum eða öðrum búnaði sem notaður er við rannsókn eða sjúkdómsmeðferð.

3.    Mat sem síðar er gert leiðir í ljós að komast hefði mátt hjá tjóni með því að beita annarri meðferðaraðferð eða -tækni sem völ var á og hefði frá læknisfræðilegu sjónarmiði gert sama gagn við meðferð sjúklings.

4.    Tjón hlýst af meðferð eða rannsókn, þ.m.t. aðgerð, sem ætlað er að greina sjúkdóm og tjónið er af sýkingu eða öðrum fylgikvilla sem er meiri en svo að sanngjarnt sé að sjúklingur þoli það bótalaust. Annars vegar skal líta til þess hve tjón er mikið og hins vegar til sjúkdóms og heilsufars sjúklings að öðru leyti. Þá skal taka mið af því hvort algengt er að tjón verði af meðferð eins og þeirri sem sjúklingur gekkst undir og hvort eða að hve miklu leyti gera mátti ráð fyrir að hætta væri á slíku tjóni.“

Í athugasemdum við 2. gr. í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að það sé skilyrði bótaskyldu að tjón tengist rannsókn eða sjúkdómsmeðferð, en verði ekki rakið til skaðlegra afleiðinga og tjóns sem hljótist af sjúkdómi sem sjúklingur sé haldinn fyrir. Afleiðingar sem raktar verða til sjúkdóms sjálfs eru þannig ekki bótaskyldar, en hins vegar getur tjón verið bótaskylt ef það er fyrst og fremst rakið til mistaka eða dráttar á greiningu eða við meðferð. Í athugasemdunum segir að bæta skuli tjón sjúklings ef könnun og mat á málsatvikum leiði í ljós að líklegra sé að tjónið stafi af til dæmis rangri meðferð en öðrum orsökum. Sé niðurstaðan hins vegar sú að eins líklegt sé að tjónið sé óháð meðferðinni sé bótaréttur ekki fyrir hendi.

Ákvæði 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu lýtur að því hvort rétt hafi verið staðið að læknismeðferð. Ákvæðið tekur til allra mistaka sem verða við rannsókn, meðferð og svo framvegis. Í athugasemdum við ákvæðið í frumvarpi til laga um sjúklingatryggingu segir að orðið mistök sé hér notað í mun víðtækari merkingu en almennt tíðkist í lögfræði. Ekki skipti því máli hvernig mistökin séu, átt sé meðal annars við hvers konar ranga meðferð, hvort sem orsök hennar sé röng sjúkdómsgreining sem rekja megi til atriða sem falli undir 1. eða 2. tölul. 2. gr. eða annað sem verði til þess að annaðhvort sé beitt meðferð sem eigi ekki læknisfræðilega rétt á sér eða látið sé hjá líða að grípa til meðferðar sem við eigi. Í athugasemdunum segir enn frekar að samkvæmt 1. tölul. sé það ekki skilyrði að unnt sé að telja að læknir eða annar starfsmaður sem hlut hafi átt að máli hafi við meðferð sjúklings gerst sekur um handvömm eða vanrækslu sem komast hefði mátt hjá með meiri aðgæslu.

Samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu skal greiða bætur, enda megi að öllum líkindum rekja tjón til nánar tilgreindra tilvika sem meðal annars eru talin röng meðferð. Þetta felur í sér líkindareglu, þannig að séu meiri líkur á því en minni að tjón kæranda verði rakið til dæmis til mistaka skuli að öðrum skilyrðum uppfylltum greiða bætur samkvæmt lögunum.

Kærandi byggir kröfu sína um bætur úr sjúklingatryggingu á 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu. Kærandi telur að senda hefði átt hana í frekari rannsóknir strax á árinu X vegna viðvarandi einkenna og þá hefði brotið mögulega greinst fyrr og ástand hennnar kynni að vera betra nú.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, tekur sjálfstæða afstöðu til bótaskyldu í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna sem nefndin telur nægjanleg. Fyrir liggur að kærandi hafði glímt við langvarandi einkenni frá X með einkennum frá hægri fæti og höfðu verið teknar röntgenmyndir af fætinum í þrígang án þess að brot hafi greinst. Í segulómun X sást síðan brot og mátti þá greina að brotið hafi verið til staðar við röntgen rannsókn X hjá Röntgen Domus en ekki fyrr. Heimilislæknir kæranda bað um að bæklunarlæknir á Landspítala skoðaði málið X og var það gert X. Úrskurðarnefnd velferðarmála fær því ekki ráðið að dráttur hafi orðið á greiningu hjá Landspítala. Það er mat úrskurðarnefndarinnar að meðferð hafi verið hagað eins vel og unnt hafi verið og í samræmi við þekkingu og reynslu á viðkomandi sviði. Verður því ekki fallist á að bótaskylda sé til staðar á grundvelli 1. tölul. 2. gr. laga um sjúklingatryggingu.

Með vísan til þess, sem rakið er hér að framan, er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði bótaskyldu samkvæmt 2. gr. laga um sjúklingatryggingu séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda. Synjun Sjúkratrygginga Íslands á bótaskyldu samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu er því staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Sjúkratrygginga Íslands um að synja A, um bætur samkvæmt lögum nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta