Hoppa yfir valmynd
8. nóvember 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 22/2005

Miðvikudaginn, 8. nóvember 2005

A

gegn

Tímaritaútgáfu Fróða ehf.

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 7. júní 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 6. júní 2005.

Kærð var ákvörðun Tímaritaútgáfunnar Fróða ehf., kt. 471004-3590, um að gefa kæranda ekki kost á að hverfa aftur að fyrra starfi að loknu fæðingaorlofi eða að sambærilegu starfi.

 

Með bréfi dagsettu 22. júní 2005 var óskað eftir afstöðu Tímaritaútgáfunnar Fróða ehf. til framkominnar kæru. Greinargerð G, hrl. f.h. Tímaritaútgáfunnar Fróða ehf. barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála 15. júlí 2005 og var hún dagsett 12. júlí 2005. Kærandi fékk greinargerðina til kynningar með bréfi dagsettu 4. ágúst 2005. Athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 21. ágúst 2005. Með bréfi dagsettu 7. september 2005 voru athugasemdir kæranda sendar lögmanni Tímaritaútgáfunnar Fróða ehf. til kynningar og veittur kostur á að koma að frekari athugasemdum af hálfu fyrirtækisins. Sérstaklega óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir því að Tímaritaútgáfan Fróði ehf. tæki afstöðu til þess sem á væri byggt af hálfu kæranda um að fyrirtækið hafi brotið gegn 29. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem hún hafi ekki átt þess kost að hverfa aftur að fyrra starfi sínu að loknu fæðingarorlofi. Svar barst með bréfi lögmannsins dagsettu 26. september 2005. Kæranda var sent bréfið til kynningar og gerði hún athugasemdir með bréfi dagsettu 19. október 2005.

 

I. Málavextir

Kærandi var ráðinn ritstjóri tímaritsins B hjá Tímaritaútgáfunni Fróða ehf. í maí 2001 og tók til starfa 1. ágúst sama ár. Hún ól barn 17. júlí 2004 og sama dag hóf hún fæðingarorlof sem standa átti í 8 mánuði. Þegar því myndi ljúka hugðist hún taka sumarleyfi. Kærandi áætlaði að hefja aftur störf 25. apríl 2005 að loknu fæðingarorlofi og sumarleyfi.

Meðan á fæðingarorlofinu stóð eða þann 9. mars 2004 sá kærandi frétt í fjölmiðli um að nýir ritstjórar hefðu verið ráðnir við tímaritið B. Í framhaldi af því leitar hún fregna hjá fyrirtækinu um málið. Viðræður fóru fram milli framkvæmdastjóra fyrirtækisins og kæranda þann 22. mars 2004. Með tölvupósti til framkvæmdastjórans þann. 8. apríl 2005 tilkynnir kærandi að hún hafi leitað til F um aðstoð og óskar eftir að gengið verði frá starfslokum hennar í gegnum framkvæmdastjóra F.

Kærandi telur Tímaritaútgáfuna Fróða ehf. hafa brotið gegn 29. og 30. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof. Kærandi hefur starfað við fjölmiðla frá árinu 1995 og verið ritstjóri tveggja tímarita. Hún hefur lokið B.A.-prófi í D og M.A.-námi í E.

 

II. Málsrök kæranda

Eftir að kærandi komst að því að ráðið hafði verið í hennar starf hjá Tímaritaútgáfunni Fróða ehf. kveðst hún hafa fundað með framkvæmdastjóra fyrirtækisins. Hún greinir frá því að henni hafi verið ljóst eftir þann fund að hún fengi ekki starfið sitt að loknu fæðingarorlofi. Henni hafi ekki verið boðið sambærilegt starf. Framkvæmdastjórinn hafi einungis nefnt að fyrirhugað væri á næstunni að gefa út tímarit fyrir H, annað um I og það þriðja um J. Telur hún að ritstjórnarstörf á slíkum tímaritum hefðu ekki getað talist sambærileg við það starf sem hún hafði sem ritstjóri B.

Óskað hafi verið eftir því við kæranda að hún kæmi með hugmyndir að nýju tímariti, sem hún hafi gert. Hugmyndir sínar hafi hún síðan sent til framkvæmdastjóra þann 29. mars 2005. Hún kveðst ítrekað hafa reynt að fá viðbrögð við þeim en ekki fengið. Þann 5. apríl hafi hún óskað eftir því við framkvæmdastjóra F að hann lyki málinu fyrir sig gagnvart Tímaritaútgáfunni Fróða ehf. enda hafi það aldrei komið til umræðu að hún hyrfi aftur að starfi sínu.

 

III. Málsrök Tímaritaútgáfunnar Fróða ehf.

Í greinargerð Tímaritaútgáfunnar Fróða ehf. er greint frá því að þáverandi framkvæmdastjóri fyrirtækisins hafi staðið í viðræðum við kæranda um vinnufyrirkomulag og áframhaldandi störf kæranda í þágu fyrirtækisins. Hafi þeim viðræðum lokið með því að kærandi hafi litið svo á að henni hafi verið sagt upp störfum 22. mars 2005.

Tímaritaútgáfan Fróði ehf. kveður kæranda hafa snúið aftur til starfa 17. mars 2005 og hafi því starfslok hennar orðið eftir að fæðingaorlofi hennar hafi verið lokið og verði því ekki annað séð en að ákvæði VIII. kafla laga nr. 95/2000 eigi ekki við. Starfsmenn sem hafi nýtt sér rétt sinn hafi því ekki meiri uppsagnarvernd en þeir sem ekki eru í aðstöðu til að nýta sér slíkan rétt. Vernd 30. gr. laga nr. 95/2000 sé undantekning frá meginreglu almenns vinnumarkaðar um frjálsan uppsagnarrétt vinnuveitanda sem taki til afmarkaðs tímabils, þ.e. frá upphafi töku fæðingaorlofs fram til þess að töku orlofsins sé lokið.

Tímaritaútgáfan Fróði ehf. kveður starfslok kæranda hafa borið að eftir töku fæðingarorlofs, kröfur á hendur fyrirtækinu vegna starfsloka hafi verið inntar af hendi og við þeim tekið athugasemdalaust, án þess að hún hafi sinnt vinnuskyldum fyrir fyrirtækið meðan á uppsagnarfresti stóð. Tímaritaútgáfan Fróði ehf. telur að ekki hafi verið brotið á kæranda, heldur þvert á móti hafi fyrirtækið gert allt til þess að hún fengi sambærilegt starf. Hún hafi hins vegar hafnað báðum ritstjórastörfum sem fyrirtækið hafi boðið henni og slitið viðræðum um hið nýja tímarit á meðan viðræður voru á algeru byrjunarstigi.

 

IV. Niðurstaða úrskurðarnefndar

Kæra varðar ákvörðun Tímaritaútgáfunnar Fróða ehf. um að gefa kæranda ekki kost á að hverfa aftur að fyrra starfi sínu að loknu fæðingaorlofi eða að sambærilegu starfi.

Barn kæranda er fætt 17. júlí 2004. Kærandi hóf átta mánaða fæðingarorlof þann dag og í framhaldi af því hugðist hún taka sumarleyfi.

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) helst ráðningarsamband milli starfsmanns og vinnuveitanda óbreytt í fæðingarorlofi. Starfsmaður skal eiga rétt á að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingaorlofi. Sé þess ekki kostur skal hann eiga rétt á sambærilegu starfi hjá vinnuveitanda í samræmi við ráðningarsamning, sbr. 2. mgr. 29. gr. ffl.

Í athugasemdum við 29. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof segir:

„Einnig eru tekin af öll tvímæli um rétt starfsmanns til að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingar- og foreldraorlofi. Í því felst þó ekki takmörkun á réttindum fyrirtækis eða stofnunar til að gera almennar rekstrarlegar breytingar sem kunna að hafa áhrif á stöðu starfsmanns á svipaðan hátt og þær hafa áhrif á störf annarra starfsmanna.“

Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála er álitaefnið í máli þessu, þegar litið er til efnis 29. gr. ffl. og athugasemda í greinargerð, hvort kærandi hafi átt þess kost að hverfa aftur að starfi sínu að loknu fæðingarorlofi eða að sambærilegu starfi. Telja verður að sönnunarbyrði hvað það varðar hvíli á Tímaritaútgáfunni Fróða ehf.

Samkvæmt gögnum málsins stóð kæranda ekki til boða við lok fæðingarorlofs að hverfa aftur að starfi sínu sem ritstjóri B. Tímaritaútgáfan Fróði ehf. hefur ekki vísað til þess að rekstrarlegar breytingar hafi verið ástæða þess. Því er haldið fram af hálfu fyrirtækisins að kæranda hafi staðið til boða að gerast ritstjóri að öðru tímariti og með því sambærilegt starf. Ekkert liggur hins vegar fyrir um að kæranda hafi verið boðið ákveðið starf. Eingöngu er vísað til óljósra fyrirætlana eða hugmynda fyrirtækisins um að hefja útgáfu nýrra tímarita. Það að kærandi leitaði til stéttarfélags síns eftir að hafa árangurslaust reynt að fá upplýsingar um stöðu sína verður að teljast eðlilegt eins og á stóð.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála að Tímaritaútgáfan Fróði ehf. hafi brotið gegn ákvæði 29. gr. laga nr. 95/2000 með því að gefa kæranda ekki kost á því að hverfa aftur að starfi sínu sem ritstjóri B að loknu fæðingarorlofi eða að sambærilegu starfi hjá fyrirtækinu.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Tímaritaútgáfan Fróði ehf., kt. 471004-3590, braut gegn ákvæði 29. gr. laga nr. 95/2000 með því að gefa A ekki kost á því að hverfa að fyrra starfi sínu eftir lok fæðingarorlofs eða að sambærilegu starfi.

 

   

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta