Hoppa yfir valmynd
30. ágúst 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 15/2005

Þriðjudaginn, 30. ágúst 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 21. mars 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 25. febrúar 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 8. febrúar 2005 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Úrskurðurinn vanmetur þær einingar sem undirritaður lauk/stundaði á haustönn 2004 um 24 einingar.

Á vorönn 2004 lauk undirritaður tveimur 8 eininga námskeiðum og hóf auk þess vinnu við tvær 8 eininga rannsóknarritgerðir sem var lokið á haustönn 2004. Auk fyrrnefndra rannsóknarritgerða lauk undirritaður 8 eininga námskeiði á haustönn og hóf vinnu við þriðju 8 eininga rannsóknarritgerðina. Það er að segja á vorönn 2004 lauk undirritaður 16 einingum og hóf vinnu að öðrum 16 einingum Á haustönn 2004 lauk undirritaður síðan samtals 24 einingum og var skráður í og vann að öðrum 8 einingum í viðbót, þ.e. samtals 32 einingar.

Samtals lauk undirritaður því 40 einingum á vor- og haustönn árið 2004 og vann auk þess að átta einingum í viðbót þá önn sem barnið fæddist ( 11. desember [2004]). Þessar upplýsingar eru staðfestar í meðfylgjandi bréfi af yfirmanni MSc. námsins hér, B. Þessi framgangur ásamt ástundun á þeirri önn sem barnið fæddist, sem heimilt er að taka tillit til skv. reglugerð, er ótvírætt meira en 75% nám „í a.m.k. 6 mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns“.

Auk þess að vinna að fyrrnefndum kúrsum og rannsóknarritgerðum bætist við að undirritaður hóf vinnu við 40 eininga lokaritgerð á haustönn [2004] auk þess að fá annað eldra rannsóknarverkefni unnið við H-háskólann metið af deildinni til 8 eininga á haustönn 2005.

Það má einnig benda á í þessu sambandi að í viðkomandi tveggja ára, fjögurra anna, 120 eininga MSc. námi í D-fræði við I-háskóla er lokaritgerðin meira en hálft dagsverk (40 einingar). Þetta gerir það að verkum að á þrjár annir dreifast tíu námskeið eða rannsóknarritgerðir (8 eininga), alls 80 einingar. Fullur námsárangur gagnvart deildinni þessa þrjár annir er því að meðaltali 27 einingar á önn, ásamt því að samhliða hefja undirbúning að lokaritgerð þar sem hún er stærri en hálft ársverk.“

 

Með bréfi, dagsettu 6. apríl 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 29. apríl 2005. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.).

Kærandi sótti með umsókn, dags. 26. október 2004, sem móttekin var 8. nóvember 2004, um fæðingarstyrk námsmanna í fimm mánuði frá 30. nóvember 2004 að telja. Áætlaður fæðingardagur barns hans var 30. nóvember 2004.

Með umsókn kæranda fylgdu mæðraeftirlitsskýrsla og staðfesting frá „F“ við I-háskóla, dags. 1. nóvember 2004.

Með rafbréfi, dags. 25. nóvember 2004, óskaði lífeyristryggingasvið eftir frekari upplýsingum frá kæranda varðandi nám hans, ásamt gögnum til staðfestingar á að kærandi ætti ekki rétt á fæðingarorlofsgreiðslum í búsetulandi hans. Sama dag barst starfsmanni lífeyristryggingasviðs rafbréf frá kæranda þar sem hann gerði grein fyrir námsframvindu sinni og í framhaldinu barst lífeyristryggingasviði staðfesting Köbenhavns kommune um að kærandi ætti ekki rétt til fæðingarorlofsgreiðslna í Danmörku. Einnig gengu rafbréf á milli starfsmanns lífeyristryggingasviðs, kæranda og „F“ við I-háskóla. Þá barst lífeyristryggingasviði, þann 24. janúar 2005, ný staðfesting frá „F“ við I-háskóla um námsframvindu kæranda.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 8. febrúar 2005, var umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna synjað á þeim grundvelli að hann uppfyllti ekki skilyrði um fullt nám. Þá var tekið fram að í stað fæðingarstyrks námsmanna yrði kæranda greiddur fæðingarstyrkur sem foreldri utan vinnumarkaðar.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Þar kemur fram að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almanna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Enn fremur að heimilt sé að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 915/2002, er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Enn fremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var, eins og að framan greinir, 30. nóvember 2004 en í gögnum málsins er ekki að finna staðfestar upplýsingar um fæðingardag barnsins.

Til að fullnægja skilyrðunum um fullt nám þurfti kærandi því að hafa verið í 75-100% samfelldu námi í a.m.k. sex mánuði á tólf mánaða tímabili fyrir fæðingu barns hans. Þarf af þeim sökum að líta hvort tveggja til náms hans á vorönn og haustönn 2004. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var kærandi í námi við I-háskóla báðar annirnar, þar sem 30 einingar (ects) á önn telst vera 100% nám. Á vorönn 2004 lauk kærandi námi til 16 eininga (ects) og á haustönn lauk hann námi til 24 eininga (ects) og hafði hann byrjað nám í 16 af þeim einingum (ects) á vorönn 2004. Þá hóf hann á haustönn 2004 að auki nám til 8 eininga (ects), sem hann lauk ekki á þeirri önn og byrjaði undirbúning að lokaverkefni sínu sem skal verða 40 einingar (ects). Engar upplýsingar liggja fyrir um hvað nám það sem hann hóf á haustönn 2004 en lauk ekki hafi verið metið til hve margra eininga þá önn.

Lífeyristryggingasvið telur, með vísan til alls framangreinds, að ekki liggi fyrir staðfesting á að kærandi hafi verið í fullu námi í 6 mánuði á síðustu 12 mánuðunum fyrir fæðingu barns hans og því hafi verið rétt að synja umsókn hans um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna samkvæmt 19. gr. ffl. Þá verður af gögnum málsins ekki ráðið að nokkur þeirra undanþáguheimilda, sem veittar eru í ffl. og reglugerð nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks með síðari breytingum, eigi við um aðstæður kæranda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 4. maí 2005, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki. Úrskurðarnefndin óskaði eftir því með bréfi dagsettu 2. júní 2005 að nánari grein yrði gerð um skil á verkefnum og lok eininga sem kærandi var skráður í á vorönn 2004, en lauk ekki við. Frekari upplýsingar um námsframvindu og verkefnaskil á vormisseri og haustmisseri 2004 bárust með yfirliti „G“, I-háskóla dagsett 22. júní 2005.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla hefur dregist nokkuð meðal annars vegna þess að beðið var eftir frekari gögnum frá kæranda málsins.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi rétt til fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Heimilt er að meta sambærilegt nám í öðrum ríkjum, enda uppfylli foreldri lögheimilisskilyrði skv. 12. gr. eða undanþáguákvæði 13. gr. Í 2. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar sbr. reglugerðarbreytingu nr. 915/2002, segir að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla, um að foreldri hafi verið skráð í 75-100% nám og hafi sýnt viðunandi námsárangur. Ennfremur að heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms á þeirri önn er barn fæðist.

Barn kæranda er fætt 11. desember 2004. Með hliðsjón af því er tólf mánaða viðmiðunartímabilið frá 11. desember 2003 fram að fæðingardegi barns.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi skráður í 32 eininga nám á vormisseri 2004. Af þeim lauk hann 16 einingum á vormisseri og vann jafnframt að tveimur 8 eininga rannsóknarritgerðum sem hann lauk við á fyrri hluta haustmisseris 2004. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum er jafnframt staðfest að á haustmisseri 2004 var kærandi, auk þeirra 16 eininga sem ólokið var frá vormisseri, skráður í 16 eininga nám. Af þeim lauk hann 8 einingum á haustmisserinu og vann að 8 eininga verkefni sem hann skilaði í upphafi vormisseris. Auk þess hóf hann að vinna að 40 eininga lokaritgerð á haustmisseri 2004.

Með hliðsjón af framangreindu var kærandi skráður í samtals 48 eininga nám á vormisseri og haustmisseri 2004 og hafði jafnframt hafið undirbúning að 40 eininga lokaverkefni. Þegar litið er til þess og námsframvindu hans á þeim tíma telur úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála nægilega staðfest að hann uppfylli skilyrði um a.m.k. sex mánaða fullt nám á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns þann 11. desember 2004, sbr. 1. og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um greiðslu fæðingarstyrk, sem námsmanni er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta