Hoppa yfir valmynd
13. september 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 28/2005

Þriðjudaginn, 13. september 2005

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 19. júlí 2005 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 18. júlí 2005.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 29. apríl 2005 um að synja kæranda um framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Ég undirrituð A ætla hér með að kæra úrskurð lífeyristryggingasviðs um lengingu á greiðslum úr fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu. Frá og með miðjum júní 2004 fór ég í 50% vinnu vegna hækkunar á blóðþrýstingi þar sem þetta lagaðist ekki strax þurfti ég að leggja niður vinnu 19. október 2004. Þá var komin í ljós vaxtarskerðing hjá barninu mínu og þar sem ég hafði verið með meðgöngueitrun á fyrri meðgöngu minni var það talið ráðlagt að láta mig hætta. Ég fór þá niður í Tryggingastofnun og sótti um einn mánuð fyrir fram í fæðingarorlof en var synjað vegna þess að ég átti að eiga 13. nóvember 2004 og það var ekki heill mánuður. Þá var mér ráðlagt að sækja um sjúkradagpeninga. Sem ég gerði en fékk aldrei neitt svar um þá. Þannig að ég ákvað að fara í fæðingarorlof frá og með 1. nóvember þar sem ég þurfti að fá útborguð laun mánaðarmótin eftir. Þá var mér sagt að ég ætti að prófa að sækja um lengingu eftir á sem ég gerði en fæ synjun á það. Mig langar bara að fá að vita hvenær ég á rétt á að fá lengingu ef ekki núna? Ég átti strákinn minn 27. nóvember 2004 og það er meira en mánuður frá 19. október 2004. Þar sem ég fékk synjun á lengingu fyrirfram og ekkert svar um sjúkradagpeningana og synjun um lengingu eftir á. Þá langar mig að vita hvenær konur eða allavega ég á rétt á að fá lengingu. Ef ekki núna hvenær þá? “

 

Með bréfi, dagsettu 4. ágúst 2005, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 15. ágúst 2005. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Með umsókn, dags. 20. september 2004, sem móttekin var 13. október 2004, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í sex mánuði frá 1. nóvember 2004 að telja. Umsókn hennar var vegna barns sem fætt er 27. nóvember 2004, en áætlaður fæðingardagur þess var 13. nóvember 2004.

Umsókn kæranda fylgdu vottorð um áætlaðan fæðingardag, dags. 5. október 2004, tilkynning um fæðingarorlof, dags. 22. september 2004 og launaseðlar vegna starfa hennar í ágúst og september 2004. Enn fremur lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra.

Umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði var samþykkt og afgreidd með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 3. nóvember 2004.

Þann 31. mars 2005 barst Tryggingastofnun ríkisins umsókn og læknisvottorð, dags. 1. mars 2005, vegna lengingar fæðingarorlofs vegna sjúkdóms móður og varðaði umsókn þessi og læknisvottorð veikindi kæranda á meðgöngunni.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 29. apríl 2005, var umsókn kæranda um lengingu fæðingarorlofs synjað á þeim grundvelli að kærandi hefði ekki lagt niður störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns hennar.

Í 4. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma en þó aldrei lengur en tvo mánuði. Í 7. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 er kveðið nánar á um þann rétt sem 4. mgr. 17. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof veitir.

Samkvæmt upplýsingum frá kæranda varð hún að hætta störfum vegna veikinda á meðgöngu þann 19. október 2004. Í umsókn og læknisvottorði vegna lengingar fæðingarorlofs vegna sjúkdóms móður kemur jafnframt fram að kærandi hafi hætt störfum vegna sjúkdóms þann 19. október 2004. Þá fékk kærandi, samkvæmt upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra, greidd laun fram í nóvember 2004. Áætlaður fæðingardagur barns kæranda var 13. nóvember 2004, eins og fram hefur komið. Lífeyristryggingasvið getur því ekki fallist á að kærandi hafi uppfyllt framangreint skilyrði 4. mgr. 7. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof um að hafa lagt niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns hennar og telur þar af leiðandi að rétt hafi verið að synja umsókn kæranda um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Vegna þess sem fram kemur í kæru kæranda um umsóknir hennar um lengingu/framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og sjúkradagpeninga skal tekið fram að eina umsókn kæranda um lengingu eða framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði sem skráð hefur verið móttekin hjá lífeyristryggingasviði er framangreind umsókn, dags. 1. mars 2005, um lengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda kæranda á meðgöngu. Þá verður ekki séð, samkvæmt upplýsingum frá sjúkratryggingasviði Tryggingastofnunar ríkisins og umboði almannatrygginga í B, að kærandi hafi sótt um sjúkradagpeninga.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 17. ágúst 2005, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu.

Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns. Jafnframt segir þar að þó skuli konu heimilt að hefja töku fæðingarorlofs allt að einum mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag sem staðfestur skal með læknisvottorði.

Í 4. mgr. 17. gr. ffl. segir að sé þungaðri konu nauðsynlegt af heilsufarsástæðum að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag, skuli hún eiga rétt á greiðslum í fæðingarorlofi þann tíma, en þó aldrei lengur en tvo mánuði, sbr. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000. Í athugasemdum með 17. gr. frumvarps til laga nr. 95/2000 kemur fram að með heilsufarsástæðum í 4. mgr. sé átt við sjúkdóma sem upp koma vegna meðgöngu og valdi óvinnufærni og sjúkdóma, tímabundna og langvarandi, sem versni á meðgöngu og valdi óvinnufærni.

Kærandi ól barn 27. nóvember 2004. Samkvæmt gögnum málsins féll kærandi af launaskrá í nóvember 2004. Áætlaður fæðingardagur barnsins var 13. nóvember 2004.

Hvorki er að finna í lögum um fæðingar- og foreldraorlof né reglugerð nr. 909/2000 heimild til undantekningar frá þeirri reglu að miða framlengingu á greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu við það að kona þurfi að leggja niður launuð störf meira en mánuði fyrir áætlaðan fæðingardag barns. Með hliðsjón af framangreindu og gögnum málsins er það því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi eigi ekki rétt á framlengingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á framlengingu á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði vegna veikinda á meðgöngu til A er staðfest.

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta