Mannanafnanefnd, úrskurðir 10. október 2005
Ár 2005, mánudaginn 10. október er fundur haldinn í mannanafnanefnd í Lögbergi, húsi lagadeildar Háskóla Íslands. Fyrir er tekið:
mál nr. 92/2005
Fundur í mannanafnanefnd haldinn mánudaginn 10. október 2005 í Lögbergi, húsi laga-deildar Háskóla Íslands. Fundurinn hófst kl. 16:30. Mætt voru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir (KLÍ), Baldur Sigurðsson (BS) og Erlendur Jónsson (ES).
Eiginnafn: Penelope Elín (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Um er að ræða nafnrétt barns af erlendum uppruna samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 10. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Mál af því tagi heyra ekki undir mannanafnanefnd heldur eru þau afgreidd hjá Hagstofu Íslands – Þjóðskrá. Málinu er því vísað frá manna-nafnanefnd og úrskurðarbeiðanda bent á að snúa sér til Hagstofunnar með erindi sitt.
Úrskurðarorð:
Málinu er vísað frá mannanafnanefnd.
mál nr. 93/2005
Millinafn: Valberg
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Nafnið Valberg er ekki til á mannanafnaskrá sem millinafn. Hins vegar er Valberg skráð í þjóðskrá sem ættarnafn og eiginnafn í karlkyni. Ættarnafn er einungis heimilt sem milli-nafn í þeim tilvikum sem getur í 7. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Þar sem úrskurðarbeiðendur falla ekki undir þar tilgreind skilyrði er beiðni þeirra um nafnið Valberg sem millinafn hafnað.
Úrskurðarorð:
Beiðni um millinafnið Valberg er hafnað.
mál nr. 94/2005
Eiginnafn: Emelý (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Um er að ræða beiðni um nafnbreytingu samkvæmt 13. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn. Þær beiðnir falla undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Málinu er því vísað frá mannanafnanefnd og úrskurðarbeiðanda bent á að snúa sér til ráðuneytisins með erindi sitt.
Úrskurðarorð:
Málinu er vísað frá mannanafnanefnd.
mál nr. 95/2005
Eiginnafn: Gabríel Annas (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Gabríel er skráð á mannanafnaskrá. Eiginnafnið Annas tekur eignarfalls-endingu (Annasar) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Annas er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá, þó ekki fyrr en beiðni um skráningu nafnsins (skírnarskýrsla) hefur borist Hagstofu Íslands.
mál nr. 96/2005
Eiginnafn: Aletta Sif (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Sif er skráð á mannanafnaskrá. Eiginnafnið Aletta tekur eignarfallsendingu (Alettu) og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Aletta er tekin til greina og skal það fært á mannanafnaskrá, þó ekki fyrr en beiðni um skráningu nafnsins (skírnarskýrsla) hefur borist Hagstofu Íslands.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 20:00.