Föstudagspóstur 18. ágúst 2023
Heil og sæl,
Fyrsti póstur haustannar kemur hér og við lítum yfir nokkra vel valda mola af því sem hefur átt sér stað í utanríkisþjónustunni síðastliðinn mánuð. Landsmenn snúa í auknum mæli aftur til vinnu eftir sumarleyfi um þetta leyti og við vonum að flest séu endurnærð og tilbúin að takast á við verkefni vetrarins.
Árlegur ráðherrafundur um sjálfbæra þróun fór fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York í lok júlí. Á fundinum gefst ríkjum heims tækifæri til að kynna stöðu sína á vinnu í þágu heimsmarkmiðanna og var þetta í annað sinn sem Ísland skilar inn skýrslu og greinir frá stöðu sinni. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flutti myndbandsávarp. Skýrsluna má lesa hér.
Reason to rejoice. #Iceland 🇮🇸 has successfully presented its 2️⃣ #VNR during #HLPF2023 🇺🇳
— Iceland at UN 🇮🇸 (@IcelandUN) July 19, 2023
Huge amount of work & grateful to various #stakeholders for their input. Also 🙏 to 🇹🇿 +🇳🇴 + #CSOs for pointed questions. Work continues towards achieving #SDGs.
📽️https://t.co/tDMmmFYgxP pic.twitter.com/M5tAqGCy0r
Starfsemi sendiráðs Íslands í Moskvu var lögð niður þann 1. ágúst síðastliðinn og á sama tíma var tilkynnt um áform íslenskra stjórnvalda að auka viðveru Íslands í Kænugarði. Utanríkisráðuneyti Litáens og Íslands gerðu með sér samkomulag um að íslenskir stjórnarerindrekar fái vinnuaðstöðu í sendiráði Litáens í borginni. Með þessu vilja stjórnvöld sýna úkraínsku þjóðinni samstöðu á tímum ólögmæts innrásarstríðs Rússlands.
Landhelgisgæsla Íslands hefur í umboði utanríkisráðuneytisins annast æfingar á öryggissvæðinu í Keflavík í sumar. Flugsveit þýska flughersins kynnti sér aðstæður hér á landi með þrjátíu manna liði í lok júlí og um þessar mundir stendur bandaríski flugherinn fyrir æfingum með bandalagsríkjum í Norður-Evrópu. 200 manna flugsveit kom til landsins síðastliðinn sunnudag og hefur viðveru á öryggissvæðinu næstu vikur á meðan æfingar standa yfir.
Mikilvæg tímamót urðu í Þórshöfn í Færeyjum þegar regnbogafánanum var í fyrsta sinn flaggað við aðalræðisskrifstofu Íslands þar í landi. Samstarfsráðherra Norðurlandanna, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, heimsótti Færeyjar til að taka þátt í gleðigöngunni í Þórshöfn og funda með ráðherrum í ríkisstjórn landsins og heimsækja norrænar stofnanir og var fánanum flaggað af tilefninu. Samstarfsráðherra hélt ræðu í upphafi gleðigöngunnar þar sem hann kom inn á það bakslag sem orðið hefur í réttindabaráttunni víða um heim og áréttaði mikilvægi þess að berjast áfram fyrir sjálfsögðum mannréttindum hinsegin fólks.
Sendiráð Íslands í Póllandi hefur líka sinnt hinseginbaráttunni af krafti undanfarið. Sendiráðsstarfsmenn hafa gert sér ferð til að taka þátt í smærri göngum víða um landið undir merkjum frumkvæðisins "Diplomats for Equality".
Sendiráðsstarfsmenn sendiráðs Íslands í Danmörku ganga undir sama hatti í gleðigöngunni í Kaupmannahöfn á morgun.
Íslendingadagurinn var haldinn hátíðlegur í Manitoba, Winnipeg. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sótti hátíðarhöldin fyrir hönd íslenskra stjórnvalda. Tók Áslaug Arna meðal annars þátt í skrúðgöngu, fjallkonuhádegisverði og mótttöku formanns Íslendingadagsins, ásamt því að flytja ávarp við hátíðarhöldin. Hápunktur og megintilgangur ferðarinnar var þó undirritun samkomulags milli Íslands og Kanada um vinnudvöl ungmenna á aldrinum 18-30 ára.
Greint var frá því í Heimsljósi, fréttaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál, að knattspyrnulið frá Malaví væri væntanlegt á Rey Cup. Liðið var sigurvisst og kom á mótið fyrir tilstilli tveggja Íslendinga sem báðir hafa tengsl við sendiráð Íslands í Lilongve, höfuðborg Malaví þar sem Ísland hefur átt samstarf við stjórnvöld í rúma þrjá áratugi á vettvangi þróunarsamvinnu.
Það kom svo á daginn að Malavísku drengirnir höfðu aldeilis eitthvað fyrir sér í sigurvissunni enda sigruðu þeir mótið í sínum aldursflokki. Af því tilefni bauð forseti Íslands þeim í heimsókn til Bessastaða.
Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson kom víðar við sögu en sendiráð Íslands í Berlín sagði frá heimsókn hans á þungarokkshátíðina Wacken þar í landi. Á hátíðinni komu fram hvorki meira né minna en 4 íslenskar þungarokkshljómsveitir. Í tengslum við hátíðina var forsetinn fenginn til að ræða um samband norræns menningararfs og þungarokkssenunnar.
Síðastliðinn föstudag opnuðu sendiherrahjónin í Helsinki, Harald Aspelund og Ásthildur Jónsdóttir, myndlistarsýningu íslensku listakonunnar Ásdísar Arnardóttur og finnsku listakonunnar Laura Pehkonen. Sýningin ber yfirskriftina "Visual Dialogues" þar sem listakonurnar eiga í samtali um íslenska náttúru í gegnum ólíka miðla.
Þórdís Sigurðardóttir, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Kampala, Finnbogi Rútur Arnarson staðgengill forstöðumanns og Vaka Lind Birkisdóttir starfsnemi kvöddu starfsliðið í sendiráði Íslands í Kampala með kurt og pí.
Nýr sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Árni Þór Sigurðsson, tók til starfa í sendiráðinu um síðustu mánaðarmót. Árni Þór kemur til Kaupmannahafnar beint frá Moskvu og mun með haustinu afhenda Margréti Þórhildi Danadrottningu trúnaðarbréf sitt.
Um svipað leyti afhenti Helga Hauksdóttir, fráfarandi sendiherra í Kaupmannahöfn og núverandi sendiherra í Vín og nýr fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu fulltrúabréf sitt gagnvart Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (IAEA).
Helga tók við af Kristínu A. Árnadóttur sendiherra sem hefur nú látið af störfum fyrir utanríkisþjónustuna og hverfur á vit nýrra ævintýra með haustinu.
Leaving Vienna and heading home 🇮🇸. Stating in my last OSCE PC “…we are seeing the worst of patriarchal elements in the war fought on our grounds; the greed for power, male aggression and dominance, killings and distruction. “
— Kristín A Árnadóttir (@KAArnadottir) July 29, 2023
Sturla Sigurjónsson, sendiherra Íslands í London bauð á dögunum til útgáfuhófs í samstarfi við Penguin Random House UK í vikunni í tilefni af enskri útgáfu glæpasögunnar "Reykjavík" eftir Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Ragnar Jónasson glæpasagnahöfund.
Ragnar Þorvarðarson sendiráðunautur í sendiráði Íslands í Tókýó tók á móti Cabinet Governor of Fukuoka þar sem þeir ræddu viðskiptahöft Íslands á innflutningi varnings frá Japan, nýlega heimsókn forseta Íslands og jafnréttismál.
Og í Japan minntist sendiráð Íslands þess einnig að 78 ár eru liðin frá því að kjarnorkusprengju var varpað á Hiroshima.
Bergdís Ellertsdóttir, sendiherra Íslands í Washington átti nokkra hugvekjandi fundi í sumar, meðal annars með Geeta Rao Gupta, nýjum sendiherra Bandaríkjanna fyrir hnattræn málefni kvenna þar sem sendiherrarnir ræddu sameiginleg áherslumál, áskoranir og mögulega samstarfsfleti.
Good meeting today at @StateDept btw 🇮🇸 Amb. @BEllertsdottir & 🇺🇸 Amb. at-Large for Women’s issues @geetaraogupta. The ambassadors discussed common priorities, 🌍challenges & worrying backlashes as well as opportunities for collaboration to advance gender equality globally #SGD5 pic.twitter.com/40tNJcFr1C
— Iceland in US 🇮🇸 (@IcelandInUS) July 27, 2023
Þá sendi hún Íslendingum kveðju í tilefni af hápunkti hinsegindaga í Reykjavík, sjálfri gleðigöngunni.
Today is a big day in #Iceland 🌈☀️@ReykjavikPride celebrating the beauty and strength of #Diversity. #TransRightsAreHumanRights 👊🏼Fight #HateSpeech pic.twitter.com/R4MKkVh0ND
— Bergdís Ellertsdóttir (@BEllertsdottir) August 12, 2023
Við endum þennan föstudagspóst í Póllandi þar sem sendiráðsstarfsmenn deildu með fylgjendum sínum uppskrift að íslenskri skyrköku, skreyttri bláberjum. Við mælum með því að kíkja í berjamó um helgina, baka svo skyrkökuna og skreyta. Verði ykkur að góðu!