Bráðabirgðaþjónusta veitt í tjöldum á lóð sjúkrahússins
Komin eru upp nokkur stór tjöld á lóð héraðssjúkrahússins í Mangochi í Malaví sem kviknaði í um miðjan aprílmánuð. Í tjöldunum er reynt að veita þá þjónustu sem veitt var á mæðra- og ungbarnaeftirlitsdeildinni. Sú deild brann til kaldra kola í eldsvoðanum. „Þótt allir leggi sig fram þá er þjónustan að sjálfsögðu lakari við þær aðstæður en hún var,“ segir Vilhjálmur Wiium deildarstjóri tvíhliða þróunarsamvinnu í utanríkisráðuneytinu.
„Tjaldborgin er hluti af þeirri endurbyggingaráætlun sem héraðsyfirvöld og malavísk heilbrigðisyfirvöld hafa útbúið. Nú vinna stjórnvöld að því að reisa nýja byggingu og endurnýja ýmis tæki og tól sem urðu eldinum að bráð. Margir hafa lagt hönd á plóg og búið er að safna peningum fyrir nýjum tækjum og tólum. Hins vegar á enn eftir að fjármagna nýja byggingu,“ segir Vilhjálmur.
Íslendingar aðstoða við enduruppbyggingu
María Erla Marelsdóttir sendiherra gagnvart Malaví og skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins tilkynnti malavískum yfirvöldum á dögunum um stuðning íslenskra stjórnvalda við endurbygginguna. Í byrjun þessa mánaðar sótti hún héraðssjúkrahúsið heim og sá með eigin augum eyðilegginguna. Þegar eldurinn gaus upp lögðust allir á eitt að reyna að slökkva eldinn og María Erla fékk að heyra sögur af hetjudáðum, til dæmis af nokkrum ungum mönnum sem stukku upp á þak á brennandi byggingunni til að skvetta vatni sem næst eldsupptökum. Aðrir lögðu sig í hættu til að verja næstu byggingu, en þar inni voru lyf ásamt ýmsum eldfimum efnum. Á einhvern undraverðan hátt náðist að koma í veg fyrir að eldurinn bærist þangað, en aðeins er um einn metri á milli bygginganna. Ýmsir náðu að sækja margvíslega hluti sem voru innandyra í brennandi byggingunni og koma þeim út.
Íslendingar hafa verið í samstarfi við héraðsyfirvöld í Mangochi um árabil og íslenskum stjórnvöldum barst beiðni eftir brunann um aðstoð við að byggja nýtt húsnæði í stað þess sem brann. Að sögn Vilhjálms munu íslensk stjórnvöld aðstoða við það starf eftir fremsta megni, sendiráð Íslands í Lilongve og héraðsyfirvöld muni í sameiningu vinna það starf á næstu mánuðum. „Malavar lýstu yfir miklu þakklæti til Íslendinga vegna þessarar aðstoðar og þrátt fyrir allt ríkir tilhlökkun yfir nýrri byggingu og bættri starfsemi,“ segir Vilhjálmur og bætir við að byggingin sem deildin var í sé gjörónýt, jafna þurfi hana við jörðu og byggja nýja.