Hoppa yfir valmynd
28. mars 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 186/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 28. mars 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 186/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU23020029

 

Beiðni [...] um endurupptöku

 

I.       Málsatvik

Með úrskurði kærunefndar útlendingamála nr. 67/2023, dags. 1. febrúar 2023, staðfesti nefndin ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 17. nóvember 2022, um að synja [...], fd. [...], ríkisborgara Indlands (hér eftir kærandi), um vegabréfsáritun til Íslands. Niðurstaða kærunefndar var birt kæranda 2. febrúar 2023. Hinn 11. febrúar 2023 barst kærunefnd beiðni kæranda um endurupptöku.

Af beiðni kæranda um endurupptöku má ráða að hún sé byggð á 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

II.        Málsástæður og rök kæranda

Í beiðni kæranda um endurupptöku kemur fram að ósanngjarnt sé að synja honum um vegabréfsáritun til Íslands á þeim grundvelli að hann hafi takmörkuð fjárráð. Engar upplýsingar sé að finna um lágmarksfjárhæðir sem þurfi að eiga og sýna fram á hyggist maður ferðast til Íslands. Kærandi eigi fleiri bankareikninga og hafi auðveldlega getað sýnt fram á frekari fjárráð. Þá hafi úrskurður kærunefndar að geyma fleiri synjunarástæður en áður hafi komið fram.  

Kærandi vísar einnig til þess að viðtalið við hann um Ísland hafi ekki verið langt. Hvergi komi fram að ferðamenn sem hyggist koma til landsins þurfi að búa yfir ákveðinni þekkingu á landinu.

III.      Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga á aðili máls rétt á því að mál sé tekið upp á ný ef ákvörðun hefur byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða íþyngjandi ákvörðun um boð eða bann hefur byggst á atvikum sem breyst hafa verulega frá því að ákvörðun var tekin.

Eins og áður hefur komið fram kvað kærunefnd upp úrskurð í máli kæranda 1. febrúar 2023. Með úrskurðinum staðfesti kærunefnd ákvörðun Útlendingastofnunar um að synja kæranda um vegabréfsáritun til landsins. Var niðurstaða nefndarinnar m.a. byggð á því að kærandi hefði ekki fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar hér á landi, sbr. ii-liður a-liðar 1. mgr. 33. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir nr. 795/2022. Hafi því verið ástæða til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar kæranda hingað til lands, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Við matið leit kærunefnd til þess að kærandi hafi bókað flug og gistingu á vefsíðu sem auglýsir að hún útbúi flugmiða, hótelbókanir og ferðatryggingar fyrir vegabréfsumsóknir. Búið hafi verið að afbóka hótelbókun kæranda og þá hafi ekki verið hægt að staðfesta flugbókun hans. Kærandi hafi þá vitað lítið sem ekkert um Íslands, hafi ætlað að dvelja í Reykjavík allan tímann en hafi samt sem áður sent inn nýja hótelbókun fyrir hótel í Reykjanesbæ. Þá sé kærandi án atvinnu í heimaríki og samkvæmt bankayfirliti hafi hann takmörkuð fjárráð. Í ljósi alls framangreinds var það mat kærunefndar að tilgangur ferðar kæranda hingað til lands væri ótrúverðugur.

Kærandi reisir beiðni sína um endurupptöku m.a. á því að hvergi komi fram upplýsingar um lágmarksfjárhæð sem ferðamaður þurfi að eiga til að geta ferðast til Íslands. Þá sé óeðlilegt að gera kröfur um að ferðamenn hafi víðtæka þekkingu á landinu svo þeir geti ferðast hingað. Kærunefnd bendir á að fjárráð kæranda hafi aðeins verið einn af mörgum þáttum sem nefndin horfði til í niðurstöðu sinni í máli kæranda. Þrátt fyrir yfirlýsingar kæranda um sterkari fjárráð en bankayfirlit hans sýnir fram á hefur kærandi ekki lagt fram frekari gögn, hvorki með umsókn sinni, kæru eða beiðni um endurupptöku. Í leiðbeiningum með umsókn um vegabréfsáritun kemur fram að kærandi þurfi að sýna fram á að geta greitt fyrir gistingu þá daga sem hann ætli að dvelja hér á landi, flugmiða báðar leiðir og uppihald á dvalartímanum. Af framlögðu bankayfirliti kæranda var ekki að sjá að kærandi hefði nægileg fjárráð til greiðslu framangreindra þátta og hefði kæranda því mátt vera ljóst að hann hefði þurft að leggja fram frekari gögn þess efnis.

Í ljósi framangreinds og með vísan til þess að kærandi hefur ekki lagt fram ný gögn eða upplýsingar með beiðni sinni um endurupptöku er það niðurstaða kærunefndar að ekki sé hægt að fallast á að úrskurður kærunefndar útlendingamála, dags. 1. febrúar 2023, hafi byggst á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik eða að atvik málsins hafi breyst verulega frá því að fyrrgreindur úrskurður var kveðinn upp, sbr. 1. og 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. stjórnsýslulaga.

Að öllu framangreindu virtu er kröfu kæranda um endurupptöku málsins því hafnað.

 

Úrskurðarorð:

 

Kröfu kæranda um endurupptöku er hafnað.

The appellant‘s request to re-examine the cases is denied.

 

Þorsteinn Gunnarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta