Hoppa yfir valmynd
25. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Viðbrögð við COVID-19 í brennidepli

Utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein, ásamt fulltrúum ESB, sóttu fjarfund EES-ráðsins.  - mynd

Viðbrögð ríkja Evrópska efnahagssvæðisins við COVID-19 faraldrinum voru í brennidepli á fundi EES-ráðsins í dag. Utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein og fulltrúar ESB sóttu fundinn sem var í fyrsta sinn haldinn í formi fjarfundar.

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra sagði að vel hafi tekist til hér á landi við að bæla faraldurinn niður með ýmsum fyrirbyggjandi aðgerðum, svo sem víðtækum sýnatökum, smitrakningu, einangrun, sóttkví og virkri þátttöku almennings í sóttvarnarráðstöfunum. „Ég legg áherslu á mikilvægi góðs samstarfs á milli ríkja EES-svæðisins í baráttunni við faraldurinn, meðal annars hvað varðar gagnkvæma aðstoð við heimflutninga íbúa sem staddir eru erlendis og með því að efla bein samskipti milli einstakra ráðherra EFTA-ríkjanna innan EES annars vegar og ESB-ríkja hins vegar,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ráðherra tók fram að ljóst sé að efnahagslíf Íslands hafi orðið fyrir þungum áföllum vegna faraldursins, líkt og efnahagslíf flestallra ríkja heims. Hrun hafi orðið í komu ferðamanna til landsins, allt að 28% atvinnuleysi sé á sumum svæðum landsins og erfiðleikar hafi skapast við að koma sjávarafurðum á erlenda markaði auk þess sem verð þeirra hafi fallið talsvert. Til að koma hjólum atvinnulífsins af stað hafi ríkisstjórnin ákveðið að slaka á hömlum á ferðalögum til landsins frá miðjum júnímánuði, þótt áfram verði farið að öllu með gát. 

Ráðherra lagði áherslu á að í ljósi náinna efnahagslegra tengsla milli Íslands og ESB sé óeðlilegt að íslenskar sjávarafurðir njóti ekki fulls tollfrelsis við innflutning til ESB-ríkja, líkt og sambærilegar afurðir frá ýmsum þriðju ríkjum sem hafi minni tengsl við sambandið. Finna þurfi viðunandi lausn á þessu. Hann benti sömuleiðis á að útganga Breta úr ESB hafi breytt þeim forsendum sem til staðar voru við gerð samnings Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarvörur, enda fari útflutningur á íslenskum landbúnaðarvörum á grundvelli samningsins að verulegu leyti til Bretlands.

Guðlaugur Þór vék sérstaklega að samskiptum Íslands og Bretlands og upplýsti að ríkin hefðu fyrr í mánuðinum undirritað samkomulag um samstarf til næstu 10 ára. Það sé algert forgangsmál af hans hálfu að lokið verði við gerð víðtæks viðskiptasamnings milli Íslands, Noregs og Liechtenstein annars vegar og Bretlands hins vegar fyrir lok aðlögunartímabils Bretlands og ESB um næstu áramót.

Að lokum áréttaði Guðlaugur Þór mikilvægi þess að við upptöku nýrra ESB-gerða í EES-samninginn sé þess jafnan gætt að standa vörð um tveggja stoða kerfið sem EES-samningurinn byggir á, enda sé það grundvallarforsenda samningsins.

EES-ráðið fundar tvisvar á ári en ráðið er skipað utanríkisráðherrum EFTA-ríkjanna þriggja innan EES og fulltrúum framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta