Mikill áhugi á nýsköpun í opinberum rekstri og þjónustu
Nýsköpun hjá ríkisstofnunun og áhugaverð verkefni á þessu sviði voru rædd á fjölmennum fundi 25. janúar sl. um nýsköpun í opinberum rekstri ríkis og sveitarfélaga.
Að fundinum stóðu stóðu fjármála- og efnahagsráðuneytið, ásamt Stofnun stjórnsýslufræða við Háskóla Íslands, Félagi forstöðumanna ríkisstofnana og Ríkisendurskoðun.
M.a. var fjallað um stöðu nýsköpunar hjá ríkisstofnunum, góðar hugmyndir frá Norðurlöndum um stuðning við nýsköpun og ólíka stofnanamenningu á einkamarkaði og hjá hinu opinbera. Þá var rætt um aðferðir stjórnenda til að hvetja til nýsköpunar og sagt var frá fimm áhugaverðum nýsköpunarverkefnum í opinberum rekstri á Íslandi.
Fram kom að fjármála- og efnahagsráðuneytið hefur hafið undirbúning að könnun á nýsköpun hjá hinu opinbera sem byggir á könnun frá Danmörku, svokölluðum innovationsbarometer. Hin Norðurlöndin hafa framkvæmt eða eru að undirbúa sambærilegar kannanir og verða niðurstöður því samanburðarhæfar milli landanna fimm. Hér á landi verður könnunin framkvæmd í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og mun því taka til bæði ríkis og sveitarfélaga. Einnig kom fram að nýsköpunarverðlaun í opinberri þjónustu og stjórnsýslu sem hafa veitt hafa verið fjórum sinnum, síðast árið 2015, verða veitt aftur í vor með svipuðu sniði og áður.
Í myndskeiðunum hér fyrir neðan má sjá Skúla Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóra greina frá aðferðafræði við nýsköpun innan stofnunarinnar og Maríu Rut Kristinsdóttur segja frá áskorunum við að koma á samstarfi þeirra fjölmörgu ólíku aðila sem saman settu á fót Bjarkarhlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis.
Hljóðupptaka frá fundinum á vef Stofnunar stjórnsýslufræða og stjórnmála