Ráðherra friðlýsir hraunhella í Þeistareykjahrauni
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í dag friðlýsingu hraunhella í Þeistareykjahrauni.
Hraunhellarnir, sem fundust á svæðinu árið 2016, eru meðal heillegustu hraunhella sem þekkjast á jörðinni. Þeir einkennast af óvenju miklum og fjölbreyttum náttúrumyndunum á borð við dropsteina, hraunstrá og öðrum viðkvæmum hraunmyndunum. Dropsteinar hafa verið friðlýstir á Íslandi frá árinu 1974.
Sérstaða þekktra hella á hellasvæðinu í Þeistareykjahrauni felst m.a. í fjölda og þéttleika viðkvæmra náttúrumyndana, en einnig því hve heillegir þeir eru. Hellarnir hafa varðveist óraskaðir allt frá því að Þeistareykjahraun myndaðist í eldsumbrotum u.þ.b. 1500 árum fyrir landnám Íslands.
Markmið friðlýsingarinnar er að varðveita og vernda til framtíðar einstaka hella, náttúrumyndanir þeirra, hraun sem og gróðurfar og örveruflóru sem fyrirfinnst í og við hellana. Jafnframt er markmið friðlýsingarinnar að standa vörð um ásýnd og einkenni hellanna. Þá er með friðlýsingunni stuðlað að því að sjálfbærni sé höfð að leiðarljósi við nýtingu innan svæðisins, ásamt því að treysta rannsóknar- og fræðslugildi þess.
„Það er ánægjulegt að friðlýsa þessar einstöku náttúrumyndanir sem hellarnir í hrauninu eru. Þeir eru ekki bara einstakir á landsvísu, heldur einnig á heimsvísu og okkur ber svo sannarlega skylda til að varðveita slíkar náttúruminjar,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.
Viðstaddir undirskriftina voru auk ráðherra, oddviti sveitastjórnar og fulltrúar ráðuneytisins, sveitastjórnar, Umhverfisstofnunar og Vatnajökulsþjóðgarðs , en friðlýsingin hefur verið unnin í góðu samráði fulltrúa þessara aðila.