Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Forsætisráðuneytið

961/2020. Úrskurður frá 17. desember 2020.

Úrskurður

Hinn 17. desember 2020 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 961/2020 í máli ÚNU 20100020.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 15. október 2020, kærði A, fréttamaður, synjun mennta- og menningarmálaráðuneytis á beiðni hans, dags. 1. október 2020, um aðgang að greinargerð starfshóps um varðveislu fleiri handrita á Íslandi.

Beiðni kæranda var synjað með svari ráðuneytisins, dags. 15. október 2020. Í svarinu er rakið að starfshópi um varðveislu fleiri handrita á Íslandi hafi verið falið að gera tillögur til ríkisstjórnar um efnið. Greinargerðin sem kærandi óskaði aðgangs að innihéldi m.a. tillögur um hvernig staðið yrði að viðræðum við Dani um möguleika á að fleiri handrit yrðu varðveitt á Íslandi. Ekki lægi enn fyrir til hvaða aðgerða yrði gripið á grundvelli tillagna hópsins. Greinargerðin hefði hins vegar verið lögð fram á fundi ríkisstjórnar 25. september 2020 til kynningar.

Synjun ráðuneytisins var annars vegar studd við 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, þar sem fram kemur að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir. Þar sem innihald greinargerðarinnar hefði ekki verið formlega kynnt dönskum stjórnvöldum væri það mat ráðuneytisins að hætta væri á að samningaviðræður biðu tjón ef almenningur fengi aðgang að greinargerðinni áður en dönsk stjórnvöld fengju tækifæri til að kynna sér efni hennar.

Hins vegar var synjun ráðuneytisins studd við 1. og 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga, þar sem greinargerðin hefði verið tekin saman fyrir ríkisstjórnarfund til undirbúnings ákvörðunar. Hún félli þannig undir 1. tölul. 6. gr. þar sem fram kemur að upplýsingaréttur almennings taki ekki til gagna sem tekin hafa verið saman fyrir fundi ráðherra. Þá félli hún einnig undir 5. tölul. sömu greinar, um takmörkun á aðgangi þegar um vinnugögn er að ræða.

Málsmeðferð

Kæran var kynnt mennta- og menningarmálaráðuneyti með bréfi, dags. 19. október 2020, og ráðu¬neytinu gefinn kostur á að koma á framfæri umsögn vegna kærunnar og afritum af gögnum sem kæran lýtur að.

Í umsögn ráðuneytisins, dags. 2. nóvember 2020, voru ítrekuð þau sjónarmið sem fram komu í svari ráðuneytisins til kæranda. Það væri mat ráðuneytisins að hætta væri á að samningaviðræður biðu tjón ef almenningur fengi aðgang að greinargerðinni áður en dönsk stjórnvöld fengju tækifæri til að kynna sér efni hennar. Efni greinargerðarinnar gæti til að mynda verið ranglega þýtt yfir á dönsku og borist þannig til danskra stjórnvalda án atbeina mennta- og menningarmálaráðuneytisins, og þannig skaðað samningaviðræður. Þá varðaði málið menningararf þjóðarinnar og væri því um að ræða mikilvæga almannahagsmuni. Ríkisstjórnin þyrfti að hafa færi á að undirbúa ákvörðun í málinu, og ákvörðun hennar yrði lögð til grundvallar hugsanlegum samningaviðræðum við dönsk stjórnvöld. Greinargerðin yrði gerð aðgengileg en ekki fyrr en dönsk stjórnvöld hefðu haft tækifæri til að kynna sér efni hennar að tilstuðlan íslenskra stjórnvalda.

Umsögn ráðuneytisins fylgdi afrit af þeim gögnum sem kæranda var synjað um aðgang að. Þá óskaði úrskurðarnefndin með erindi, dags. 2. desember 2020, eftir afriti af skipunarbréfum meðlima starfshópsins.

Umsögn mennta- og menningarmálaráðuneytis var kynnt kæranda með bréfi, dags. 3. nóvember 2020, og kæranda veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í erindi kæranda, dags. 18. nóvember 2020, er gerð athugasemd við það sem fram kemur í umsögn ráðuneytisins að innihald greinargerðarinnar hafi ekki verið formlega kynnt dönskum stjórnvöldum. Að mati kæranda liggi nokkuð skýrt fyrir að viðræður Íslendinga og Dana eigi að snúast um að Danir afhendi þau fornrit sem enn eru varðveitt í Kaupmannahöfn. Það geti varla skaðað samningaviðræður þegar vilji ráðherra liggi ljós fyrir.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda á grundvelli 5. gr. upplýsingalaga til aðgangs að greinargerð starfshóps sem skipaður var til að gera tillögur til ríkisstjórnar um hvernig staðið yrði að viðræðum við Dani um möguleika á að fleiri handrit yrðu varðveitt á Íslandi. Fyrir liggur að greinargerð starfshópsins var kynnt á fundi ríkisstjórnar 25. september 2020. Ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytis um að synja kæranda um aðgang að greinargerðinni er byggð annars vegar á 1. og 5. tölul. 6. gr. upplýsingalaga, sbr. 8. gr. sömu laga, og hins vegar á 2. tölul. 10. gr. sömu laga.

Í 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga er að finna takmörkun á þeim upplýsingarétti almennings sem mælt er fyrir um í 5. gr. sömu laga. Í greininni felst að réttur almennings til aðgangs að gögnum tekur ekki til fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og gagna sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi. Í athugasemdum við 6. gr. í frumvarpi því sem varð að upplýsingalögum segir eftirfarandi:

„Segja má að tilgangur þessarar reglu sé fyrst og fremst sá að varðveita möguleika þeirra stjórn¬valda sem þarna eru nefnd til pólitískrar stefnumörkunar og samráðs. Undanþágan gildir um öll gögn sem undirbúin eru fyrir fundi þar sem saman koma tveir ráðherrar eða fleiri hvort heldur er á formlegum ríkisstjórnarfundi eða við aðrar óformlegri aðstæður. Mikilvægir almannahagsmunir búa að baki því að stjórnvöldum sé gefið færi til stefnumótunar og undirbúnings mikilvægra ákvarðana, þar á meðal til að ræða leiðir í því efni sem ekki eru fallnar til vinsælda og til að höndla með viðkvæmar upplýsingar. Þrátt fyrir að einnig búi ríkir almannahagsmunir að baki því sjónarmiði að starfsemi stjórnvalda sé gegnsæ og opin verður á sama tíma að tryggja möguleika stjórnvalda til leyndar í því skyni að varðveita hagsmuni ríkisins og almennings.“

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur kynnt sér þá greinargerð sem kæranda var synjað um aðgang að og hefur fyrirsögnina „Tillögur starfshóps til ríkisstjórnar um hvernig staðið verði að viðræðum við Dani um möguleika á því að fleiri handrit verði varðveitt á Íslandi“. Fyrirsögn greinargerðarinnar og innihald bera með sér að hún hafi verið tekið saman fyrir fund ríkisstjórnar og styðst það jafnframt við skýringar mennta- og menningarmálaráðuneytis og þess sem fram kemur í skipunarbréfum meðlima starfshópsins. Þá liggur fyrir að greinargerðin var kynnt á fundi ríkisstjórnar 25. september 2020. Það er því mat úrskurðarnefndar að ráðuneytinu hafi verið heimilt að synja kæranda um aðgang að greinargerðinni á grundvelli 1. tölul. 6. gr. upplýsingalaga.

Samkvæmt 11. gr. upplýsingalaga um aukinn aðgang hefði ráðuneytinu verið heimilt að veita kæranda aðgang að greinargerð starfshópsins. Í samræmi við 2. mgr. sömu greinar var því þó ekki skylt að taka afstöðu til þess sérstaklega í rökstuðningi fyrir synjun beiðninnar hvort veita skyldi slíkan aðgang, þar sem slík skylda er aðeins fyrir hendi sé synjun reist á ákvæðum 2.–5. tölul. 6. gr. og 10. gr. upplýsingalaga. Þá hefur komið fram af hálfu ráðuneytisins að greinargerð starfshópsins verði gerð aðgengileg almenningi þegar dönsk stjórnvöld hafa haft tækifæri til að kynna sér efni hennar að tilstuðlan íslenskra stjórnvalda.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að mennta- og menningarmálaráðuneytinu hafi verið heimilt að synja beiðni kæranda um aðgang að greinargerðinni.

Að fenginni þessari niðurstöðu er óþarft að leysa úr því hvort mennta- og menningarmála-ráðuneytinu hafi verið heimilt að synja beiðni kæranda á grundvelli 5. tölul. 6. gr., sbr. 8. gr. upplýsingalaga, eða 2. tölul. 10. gr. upplýsingalaga.

Úrskurðarorð

Staðfest er ákvörðun mennta- og menningarmálaráðuneytis, dags. 15. október 2020, að synja beiðni A, fréttamanns,  um aðgang að greinargerð starfshóps um varðveislu fleiri handrita á Íslandi.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Símon Sigvaldason

Sigríður Árnadóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta