Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 197/2023-Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 197/2023

Fimmtudaginn 24. ágúst 2023

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 18. apríl 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 22. febrúar 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri en meta henni örorkustyrk tímabundið.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn, móttekinni 25. janúar 2023. Með ákvörðun Tryggingastofnunar, dags. 22. febrúar 2023, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að skilyrði staðals væru ekki uppfyllt en henni var metinn örorkustyrkur frá 1. janúar 2023 til 31. desember 2025. Kærandi sótti um að örorkulífeyri að nýju með umsókn 8. mars 2023 og umsókninni var synjað með bréfi, dags. 20. mars á þeim grundvelli að ný gögn gæfu ekki tilefni til endurmats.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 18. apríl 2023. Með bréfi, dags. 19. apríl 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 12. maí 2023, barst greinargerð stofnunarinnar og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. maí 2023. Athugasemdir bárust frá kæranda 29. maí 2023 og voru þær kynntar Tryggingastofnun ríkisins með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 5. júní 2023. Með bréfi, dags. 22. júní 2023, tilkynnti Tryggingastofnun um að ákveðið hefði verið að endurskoða afgreiðslu stofnunarinnar og að kærandi yrði boðuð aftur í skoðun vegna örorkumats. Með bréfi, dags. 23. júní 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir afstöðu kæranda til bréfs stofnunarinnar. Með tölvupósti sama dag greindi kærandi frá því að hún vildi ekki að kæra yrði lögð niður. Með tölvupósti 4. júlí 2023 greindi kærandi frá því að umsókn hennar um örorkulífeyri hefði verið samþykkt. 

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærð sé niðurstaða Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á örorkulífeyri. Þá er fjallað um málavexti og veikindi kæranda.

Í athugasemdum kæranda frá 12. maí 2023 eru gerðar ítarlegar athugasemdir við mat skoðunarlæknis með hliðsjón af gögnum málsins.

Í athugasemdum kæranda frá 23. maí 2023 segir að kærandi hafni beiðni Tryggingastofnunar um að málið verði fellt niður hjá úrskurðarnefndinni. Kærandi vilji gjarnan að nefndin meti málið og að hún fái jafnframt hlutlaust álit og skriflegar athugasemdir úrskurðarnefndar. Reynsla kæranda af Tryggingarstofnun hafi ekki verið jákvæð og traust sé því takmarkað. Ákvörðun um boð um fund gefi ekki nægilega ástæðu fyrir kæranda til þess að leggja málið niður og leggja þannig velferð sína í hendur Tryggingarstofnunar. Bréf stofnunarinnar gefi ekki til kynna neina skýra afstöðu eða viðurkenningu á því ranglæti sem kærandi hafi þurft að þola. Það beri engan vott um iðrun eða játningu á ófaglegum vinnubrögðum sem hafi, svo mánuðum skiptir, haft slæm áhrif á heilsufar kæranda. 

Kærandi geti mætt á fund nýs skoðunarlæknis en vilji jafnframt ekki að kæra verði lögð niður án þess að örugg niðurstaða sé í höfn. 

Í athugasemdum kæranda frá 4. júlí 2023 segir að kæranda hafi borist samþykkt á örorkumati. Niðurstaðan sé sú að kærandi hafi fengið það sem hún eigi rétt á, læknisfræðilega og lagalega séð. Það sem kæranda þyki ábótavant sé að hún hafi ekki fengið neina viðurkenningu á því ranglæti sem hún hafi þurft að þola vegna ófaglegra vinnubragða Tryggingastofnunar og skoðunarlæknis á þeirra vegum. Í marga mánuði hafi kærandi lifað í óvissu um sína velferð og viðurværi sem hafi haft mjög neikvæð áhrif á hennar heilsu. Þegar Tryggingarstofnun hafi óskað eftir því við úrskurðarnefnd að kæran yrði felld niður hafi kærandi fengið á tilfinninguna að „sópa ætti málinu undir teppi“.

Kærandi hafi áhyggjur af því að kæra verði felld niður, án þess að úrskurðarnefndin fari yfir málið og komi með hlutlaust álit og skriflegar athugasemdir. Kærandi sé ósátt við að þessi mistök fari hvergi á skrá og þar af leiðandi verði engar úrbætur gerðar af hálfu Tryggingastofnunar til þess koma í veg fyrir að samskonar vinnubrögð viðgangist í framtíðinni.

Eftir að hafa farið í matsviðtal hjá öðrum lækni hafi kærandi enn betur séð hversu illa fyrra viðtalið hafi verið framkvæmt. Í þeim gögnum og athugasemdum sem hafi fylgt kæru komi fram að skýrsla skoðunarlæknis hafi innihaldið rangfærslur (uppspuna) sem Tryggingastofnun hafi ekki sett nein spurningamerki við og byggði niðurstöður og röksemdafærslur sínar á. Í ljósi þess telji kærandi vert að skoðað verði hvort eigi að tilkynna vinnubrögðin til Landlæknis. Einnig þyki kæranda að Tryggingarstofnun þurfi að fá utanaðkomandi áminningu og ábendingu um að taka þurfi vinnubrögð til skoðunar innanhúss.

 

 

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins frá 12. maí 2023 segir að stofnunin fari fram á staðfestingu ákvörðunar frá 22. febrúar 2023 um að synja kæranda um örorkulífeyri og aðrar tengdar greiðslur.  

Í bréfi Tryggingastofnunar frá 22. júní 2023 segir að við yfirferð athugasemda kæranda í tengslum við kærumálið hafi verið ákveðið að endurskoða afgreiðslu stofnunarinnar. Tryggingastofnun hafi ákveðið að kærandi yrði boðuð aftur í skoðun vegna örorkumats. Þar sem málið hafi verið tekið fyrir að nýju hjá stofnuninni sé farið fram á að málið verði fellt niður hjá úrskurðarnefndinni.

IV.  Niðurstaða

Kærumál þetta varðaði upphaflega ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. febrúar 2023, um að synja kæranda um örorkulífeyri. Undir rekstri málsins tók Tryggingastofnun nýja ákvörðun, dags. 3. júlí 2023, þar sem fallist var að greiðslur örorkulífeyris vegna tímabilsins 1. janúar 2023 til 31. desember 2025.

Í tölvupósti kæranda frá 4. júlí 2023 segir að kærandi hafi fengið það sem hún eigi rétt á en hún hafi ekki fengið neina viðurkenningu á því ranglæti sem hún hafi þurft að þola vegna ófaglegra vinnubragða Tryggingastofnunar og skoðunarlæknis á þeirra vegum.

Í 1. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála segir að úrskurðarnefndin skuli úrskurða í kærumálum vegna stjórnvaldsákvarðana eftir því sem mælt sé fyrir um í lögum sem kveði á um málskot til nefndarinnar. Þá segir í 1. mgr. 13. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar að úrskurðarnefndin kveði upp úrskurði um ágreiningsefni vegna ákvarðana sem teknar séu á grundvelli laganna.

Af framangreindu leiðir að úrskurðarvald úrskurðarnefndar velferðarmála er bundið við stjórnvaldsákvarðanir sem Tryggingastofnun tekur samkvæmt lögum um almannatryggingar og þeim reglugerðum sem settar eru með stoð í lögunum. Eins og úrskurðarvald nefndarinnar er afmarkað fellur það því utan valdsviðs nefndarinnar að fjalla almennt um kvartanir er lúta að vinnubrögðum Tryggingastofnunar í málum sem stofnunin hefur til umfjöllunar.

Fyrir liggur að Tryggingastofnun hefur samþykkt umsókn kæranda um örorkulífeyri. Af málatilbúnaði kæranda verður ekki séð að ágreiningur sé uppi um þá niðurstöðu heldur snúa athugasemdirnar að vinnubrögðum Tryggingastofnunar. Þegar af þeirri ástæðu er kæru vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

Kæranda er bent á að ef hún er ósátt við málsmeðferð Tryggingastofnunar getur hún freistað þess að bera umkvartanir sínar undir félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem fer með yfirstjórn Tryggingastofnunar ríkisins, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga um almannatryggingar.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefndinni.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta