Hoppa yfir valmynd
3. mars 2008 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra heimsækir SOS-barnaþorp í Botsvana

Barnaþorp SOS
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, utanríkisráðherra, í heimsókn í SOS-barnaþorpi í Botsvana

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, sem stödd er í Botsvana, heimsótti í gær SOS-barnaþorp skammt frá höfuðborg landsins, Gaborone.

Með Ingibjörgu Sólrúnu í för var Sigríður Dúna Kristmundsdóttir sendiherra Íslands í Suður-Afríku. Starfsfólk þorpsins hafði undirbúið heimsóknina vel ásamt börnunum og fengu Ingibjörg og Sigríður góða innsýn í starf SOS-barnaþorpanna.

Framkvæmdastjóri SOS í Botsvana sagði m.a. frá fyrrverandi SOS-börnum sem náð hafa langt í lífi, námi og starfi eftir uppvöxtinn í barnaþorpi. Einnig fengu þær að heyra um nærri sjötíu alnæmissmituðu börn sem búa í barnaþorpunum í Botsvana og fá viðeigandi meðferð í boði SOS og yfirvalda í landinu.

Gestirnir fengu einnig fréttir af nýju fjölskyldueflingarverkefni SOS sem miðar að því að hjálpa fjölskyldum sem eiga á hættu að sundrast vegna félags- og fjárhagslegra erfiðleika, en 150 börn og fjölskyldur þeirra taka þátt í verkefninu. Þá fengu gestirnir að heyra um verkefni sem miðar að því að bjarga 1100 börnum úr barnaþrælkun.

Að kynningu lokinni dönsuðu börnin fyrir gestina og Ingibjörg Sólrún sagði börnunum frá Íslandi en fjarlægðin, veðurfarið og heitir hverir vöktu mikinn áhuga. Ingibjörg og Sigríður heimsóttu síðan heimili barnanna og skoðuðu aðstöðuna.

94 íslenskir styrktarforeldrar eru með börn í Botsvana og 20 Íslendingar eru barnaþorpsvinir og styrkja þannig starf barnaþorpanna í Botsvana.

Myndin er birt með góðfúslegu leyfi SOS barnaþorpa.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta