Aukning í rafrænni þjónustu sýslumanna
Dómsmálaráðuneytið vekur athygli á því að hjá sýslumönnum hefur undanfarið átt sér stað mikil vinna við að bæta þjónustu embættanna, m.a. með auknu framboði rafrænna eyðublaða. Í ljósi aðstæðna var ákveðið að leggja enn meiri áherslu á að fjölga rafrænum eyðublöðum og eru þau nú orðin 43 talsins. Nálgast má eyðublöðin á island.is og syslumenn.is.
Með þessum aðgerðum er leitast við að efla þjónustu við almenning þannig að hægt sé að leggja fram eyðublöð með rafrænni undirskrift, án þess að skila þurfi umsóknunum inn á pappír eða að mæta á staðinn eins og verið hefur. Þykja þessar aðgerðir sérstaklega mikilvægar við núverandi aðstæður, þegar allir leggjast á eitt um að draga úr smithættu vegna kórónuveirunnar. Í ljósi aðstæðna hefur verið settur aukinn kraftur í þessi verkefni með það að markmiði að fjölga kostum þeirrar þjónustu sem almenningur getur sótt með rafrænum hætti.
Almenningur er hvattur til að kynna sér framangreindar vefsíður og velja merkið „Stafrænt form“ á lista yfir eyðublöð sýslumanna, kjósi þeir að skila erindunum inn með þeim hætti.
Þá vill ráðuneytið jafnframt vekja athygli á frétt á vef sýslumanna, þar sem almenningur er hvattur til að forðast heimsóknir nema erindin séu brýn og nýta í staðinn rafrænar lausnir, svo sem rafræn eyðublöð – sjá: https://www.syslumenn.is/stodflokkar/forsidugreinar/breyttur-afgreidslutimi-og-thjonusta-syslumanna
Fyrri frétt dómsmálaráðuneytisins um innleiðingu rafrænna eyðublaða hjá sýslumönnum.