Hoppa yfir valmynd
6. júlí 2022 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Útgáfa handbókar um viðurkenningu háskóla

Út er komin leiðbeinandi handbók um viðurkenningu háskóla. Handbókin lýsir þeim kröfum sem gerðar eru til umsókna um viðurkenningu ráðherra til að fá að starfa sem háskóli og leiðbeinir frekar með tillögum að gögnum sem leggja má fram til stuðnings slíkri umsókn.

Þörf hefur verið fyrir handbók um viðurkenningu háskóla sem er hvort tveggja leiðbeiningar fyrir stofnanir og lýsing á þeim kröfum sem gerðar eru til umsókna stofnana um viðurkenningu ráðherra sem fer með háskólamál til að starfa sem háskóli. Einnig hefur verið þörf á vinnulýsingu við mat á slíkum umsóknum fyrir úttektaraðila. Er þessari handbók ætlað að mæta þeirri þörf.

Með lögum um háskóla nr. 63/2006 var settur lagalegur rammi fyrir allar háskólastofnanir á Íslandi. Í reglugerð nr. 1067/2006 er kröfum til viðurkenningar náms á háskólastigi lýst, reglugerð 37/2007 er um viðurkenningu doktorsnáms í háskólum og reglugerð nr. 1368/2018 um eftirlit með gæðum kennslu og rannsókna í háskólum.

Í handbókinni er að finna lýsingu á þeim lagalegu kröfum sem gerðar eru til háskóla auk lýsinga á þeim gögnum sem fylgja ættu umsókn til ráðuneytis um viðurkenningu til að bjóða nám á háskólastigi. Stofnanir þurfa að geta veitt skýr dæmi og gögn þeim til stuðnings um hvernig aðbúnaður og stuðningur við nemendur og akademíska starfsmenn tryggir gæði náms, kennslu og rannsóknir á viðkomandi fræðasviði og að starfsemin lúti þeim gæðakröfum sem til hennar eru gerðar, bæði á Íslandi og innan evrópska háskólasvæðisins. Umfjöllun handbókarinnar er sett í samhengi, eftir því sem við á, við lög um háskóla nr. 63/2006 og Kröfur og leiðbeiningar fyrir gæðastaðla á samevrópska háskólasvæðinu (e. Standards and Guidelines for Quality Assurance in the European Higher Education Area – ESG 2015).

Handbókin er í fyrstu gefin út á ensku þar sem úttektaraðilar á háskólastigi eru erlendir sérfræðingar en íslensk útgáfa verður gerð aðgengileg áður en langt um líður.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta