Hoppa yfir valmynd
16. desember 2019 Utanríkisráðuneytið

Ísland styður við aukið aðgengi að orku í Malaví

Ljósmynd: ©GIZ/EnDev Project  - mynd

Aldrei hafa jafn margir jarðarbúar haft aðgang að rafmagni eins og árið 2019. Enn hafa þó einn af hverjum fimm jarðabúum ekki aðgang að nútímalegu og áreiðanlegu orkuneti og þjónustu og þrír milljarðar manna reiða sig á við, kol, viðarkol eða tað til að elda og hita húsnæði sín. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer sjö er að tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði fyrir árið 2030. Til að það markmið náist þarf enn að ná til um milljarðs manna, af þeim búa 9 af hverjum 10 þeirra í ríkjum í sunnanverðri Afríku.

Í Malaví, einu fátækasta ríki heims og elsta núverandi samstarfslandi Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, búa tæplega 18 milljónir manna með ört vaxandi íbúafjölda í landi sem að flatarmáli er litlu stærra en Ísland. Fá lönd í sunnanverðri Afríku eru jafn illa stödd og Malaví hvað varðar aðgang að orku. Rúmlega 11% landsmanna hafa aðgang að rafmagni og flestir þeirra búa í borgum landsins. Raforkan er fengin úr einu vatnsaflsvirkjun landsins sem framleiðir um 384 megavött (MWh) á ári sem er rúmleg geta Búrfellsvirkjunar á Íslandi. Virkjun sólarorku til rafmagnsframleiðslu hefur hins vegar tvöfaldast í landinu á síðastliðnum áratug og þar liggur helsti vaxtarbroddurinn í orkuframleiðslu.

Dagsdaglega þarf hinn almenni Malavi að nýta við, kol, viðarkol eða tað til að elda og hita húsnæði sitt en kolin eru framleidd úr trjám á einkar ósjálfbæran hátt. Afleiðingar þess að mikill mannfjöldi er háður því að nota jarðefni (lífmassa) til að reka heimili sín setur mikinn þrýsting á skóga landsins sem hefur stuðlað að miklu niðurbroti skóga og skógareyðingu, sem er um 2.6% á ári. Eldiviður er auk þess aðallega notaður á opnum steinhlöðnum eldstæðum sem notaðar eru jafnt í sveitum sem og þéttbýli og borgum. Fyrir utan að vera óhagkvæmur hitagjafi sem stuðlar að eyðingu mikilvægra skógarauðlinda, þá gefur brennandi viður á opnum eldstóðum frá sér mikinn og heilsuspillandi reyk sem fer illa með öndunarfæri þeirra sem elda mest og eru oftast við eldhúsin, sem eru aðallega konur og börn.

Orkufátækt fólks sem býr við slíkar aðstæður hefur gríðarleg áhrif á grunnþarfir fólks og heilsufarslega og félagslega þætti og gerir fólki erfitt að því að reka heimili, hvað þá fyrirtæki, stunda landbúnað eða aðra þjónustu. Skortur á aðgengi að áreiðanlegri orku heldur fólki í fjötrum fátæktar.

Stefnt að því að veita 24 þúsund manns aðgang að sólarrafhlöðum

Í viðleitni til að auka aðgang að orku, efla skilvirkni orku og auka notkun endurnýjanlegrar orku í Mangochi-héraði í sunnanverðri Malaví, skrifaði sendiráð Íslands í Lilongwe nýverið undir þriggja ára samstarfssamning við Energising Development (EnDev), verkefnstoð þýsku þróunarsamvinnustofnunarinnar (GIZ). Alls verður 98 milljónum króna varið í verkefnið sem á að auka eftirspurn eftir og notkun á orkusparandi eldstæðum og auka útbreiðslu og notkun á sólarrafhlöðum til rafmagnsframleiðslu bæði til einkanotkunar og notkunar t.a.m. í skólum, heilsugæslustöðvum og fyrirtækjum í héraðinu.

Nálgun EnDev byggir á því að byggja upp sjálfbæra markaði fyrir orkusparandi eldhlóðir með því að virkja bæði framboð og eftirspurn eftir slíkum vörum og tækni. Eftirspurnin er sköpuð með því að vekja athygli fólks á eldhlóð úr leir sem þarf minni eldivið til að halda hita, sem kallast Chitetezo Mbaula og er framleidd víða í Malaví. Framboð er skapað með því að þjálfa fólk í að framleiða slíkar eldhlóðir úr leir sem er aðgengilegur víða í jarðvegi í landinu. Markmið verkefnisins í Mangochi er að 120 þúsund manns muni notast við slíkar orkusparandi eldhlóðir, sem er heilsusamlegri og umhverfisvænni orkukostur fyrir fólk í sveitum Malaví. Auk þess er þess vænst að 24 þúsund manns fái aðgang að rafmagni í gegnum sólarrafhlöður. Þess fyrir utan verður unnið að því að gefa skólum og heilsugæslustöðvum meiri aðgang að rafmagni í gegnum sólarorku og auka orkusparandi eldstæði í eldhúsum þessara stofnana og aðgang fyrirtækja í héraðinu að því sama. Markmiðið er auk þess að skapa 200 störf í héraðinu í kringum framleiðslu á orkusparandi eldhlóðunum og við sölu, viðhald og viðgerðir á sólarrafhlöðum.

Frá árinu 2005 hefur EnDev unnið í 25 ríkjum í sunnanverðri Afríku, Asíu og Suður-Ameríku við að draga úr orkufátækt. Með því að auka útbreiðslu á orkusparandi eldhlóðum í Malaví síðastliðinn ár hefur EnDev gefið yfir þrjú hundruð þúsund manns aðgang að betri orku til að elda og minnkað þannig útblástur koltvísýrings um 26 þúsund tonn á líftíma eldhlóðanna, sem er 2-4 ár. Það jafngildir yfir 23 þúsund flugferðum fram og tilbaka frá Lilongve, höfuðborg Malaví, til Frankfurt í Þýskalandi.

Þróunarsamvinna við Malaví á 30 ára afmæli í ár. Íslendingar hafa unnið í Mangochi-héraði frá árinu 1989 og unnið fyrst við Monkey Bay-flóann á sviði fiskveiða og fiskimála sem síðar þróaðist út í stuðning við heilsugæslu og lýðheilsu, grunnmenntun, og vatns-og hreinlætismál. Frá árinu 2012 hefur Ísland stutt við og fjármagnað áætlanir héraðsyfirvalda við að byggja upp grunnþjónustustig heilbrigðisstofnanna og grunnskóla auk þess að tryggja aðgang að vatni og hreinlætisaðstöðu. Sérstaklega er líka stutt við getu héraðsskrifstofunnar til reka þjónustu við íbúa sína á sem skilvirkastan hátt auk þess að leggja áherslu á valdeflingu kvenna og ungmenna sérstaklega. Nú bætist aðgangur að orku í þessa flóru þróunarverkefna.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
5. Jafnrétti kynjanna
8. Góð atvinna og hagvöxtur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta