Hoppa yfir valmynd
9. október 2019 Forsætisráðuneytið

829/2019. Úrskurður frá 27. september 2019

Úrskurður

Hinn 27. september 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 829/2019 í máli ÚNU 19050024.

Kæra, málsatvik og málsmeðferð

Með erindi, dags. 13. maí 2019, kærði A, töf Þekkingarseturs Vestmannaeyja á afgreiðslu beiðni hans um upplýsingar um nöfn umsækjanda í stöðu safnstjóra „Safnaheima“.

Óþarft þykir að rekja frekar það sem fram kemur í gögnum málsins með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Niðurstaða

Í málinu er kærð töf Þekkingarseturs Vestmannaeyja á afgreiðslu beiðni kæranda um upplýsingar. Í 1. mgr. 2. gr. upplýsingalaga, nr. 140/2012, kemur fram að lögin taki til allrar starfsemi stjórnvalda. Þá taka lögin til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera, sbr. 2. mgr. 2. gr. upplýsingalaga. Samkvæmt 3. gr. laganna taka upplýsingalög einnig til einkaaðila, hvort sem þeir eru í opinberri eigu eða ekki, að því leyti sem þeim hefur með lögum eða með ákvörðun eða samningi sem byggist á heimild í lögum verið falið að taka stjórnvaldsákvörðun eða sinna þjónustu sem kveðið er á um í lögum að stjórnvald skuli sinna eða telst að öðru leyti liður í opinberu hlutverki stjórnvalds.

Þekkingarsetur Vestmannaeyja ses er sjálfseignarstofnun sem stundar atvinnurekstur. Stofnunin er m.a. rekstraraðili byggðarsafnsins Sagnheimar. Þekkingarsetur Vestmannaeyja er hvorki stjórnvald né lögaðili í 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Þá er rekstur stofnunarinnar á byggðasafninu Safnheimar ekki þjónusta sem fellur undir 3. gr. upplýsingalaga. Þar af leiðandi taka upplýsingalög ekki til Þekkingarseturs Vestmannaeyja og verður því að vísa frá kæru vegna tafa stofnunarinnar á afgreiðslu beiðni um aðgang að gögnum.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 13. maí 2019, er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta