Hoppa yfir valmynd
21. desember 2022 Matvælaráðuneytið

Úrskurður nr. 2 - Ákvörðun Fiskistofu um að fella úr gildi strandveiðileyfi

Stjórnsýslukæra

Matvælaráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dags. 20. júlí 2022, frá [A], lögmanni f.h. [B ehf.] þar sem kærð er ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. júlí 2022, um að fella niður strandveiðileyfi fyrir bátinn [C] fyrir fiskveiðiárið 2021/2022.

Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

 

 

Kröfur kæranda

Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi ákvörðun Fiskistofu, dags. 20. júlí 2022, um að fella niður strandveiðileyfi fyrir bátinn [C] fyrir fiskveiðiárið 2021/2022.

 

 

Málsatvik

Málsatvik eru þau að Fiskistofa auglýsti eftir umsóknum um leyfi til strandveiða, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2022, um strandveiðar fiskveiðiárið 2021/2022 og opnaði fyrir strandveiðiumsóknir þann 26. apríl 2022 í kjölfar gildistöku reglugerðarinnar, sem tók gildi og var birt þann 25. apríl 2022. Kærandi sótti um leyfi til strandveiða fyrir fiskiskipið [C] þann 13. maí 2022 og var leyfið útgefið 16. maí 2022 með heimild í 6. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða.

Með bréfi, dags.14. júlí 2022 tilkynnti Fiskistofa um að strandveiðileyfi félagsins hefði verið fellt niður og var framangreind ákvörðun tekin með gildistöku daginn eftir, 15. júlí 2022. Ákvörðunin var byggð á 3. málsl. 4. mgr. 3. gr., sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 460/2022, sbr. 11. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006. Þar segir að skoðun Fiskistofu hafi leitt í ljós að eigandi fiskiskipsins [C], [D], hafi þegar verið með aðild að gildandi strandveiðileyfi fyrir fiskiskipið [E] þegar sótt hafi verið um strandveiðileyfi fyrir fiskiskipið [C] þann 13. maí 2022, sem veitt hafi verið þann 16. maí 2022. Sótt hafi verið um leyfi til strandveiða fyrir fiskiskipið [E] þann 29. apríl 2022 og hafi leyfið verið útgefið 2. maí 2022 og gilt frá því tímamarki. Leyfishafi sé útgerðaraðili skipsins, [F], eigandi skipsins sé jafnframt [F] Lögskráður á skipið samkvæmt umsókn sé tiltekinn aðili sem sé 1% eigandi þess. Leyfishafi strandveiðileyfis bátsins [C] sé útgerð skipsins, [B] Eigandi skipsins sé [D] sem sé einnig lögskráður á skipið. Í 11. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006 komi fram að enginn eigenda lögaðila sem eigi bát með strandveiðileyfi geti átt aðild að nema einu strandveiðileyfi. Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2022 sem sett sé með stoð í 6. gr. a laga nr. 116/2006, sé einungis heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Enginn eigenda lögaðila sem eigi bát með strandveiðileyfi geti átt aðild að nema einu strandveiðileyfi. Fiskistofa skuli fella niður strandveiðileyfi fiskiskips, ef fyrir liggi gögn sem sýni fram á að skilyrði 1. og 2. málsl. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2022 séu ekki uppfyllt. Á grundvelli fyrirliggjandi gagna, umsókna [F] og kæranda ([B]) um leyfi til strandveiða, sem og gagna úr skipaskrá, frá Creditinfo og fyrirtækjaskrá Skattsins, sé ljóst að [D] sé eigandi beggja skipa, [E] og [C]. Hann sé skráður raunverulegur eigandi beggja félaga (beint eignarhald á hlutafé/stofnfé) með 50% eignarhluta í [F] og 50% eignarhluta í [B] Samkvæmt skipaskrá sé [D] skráður 100% eigandi að fiskiskipinu [C] og sé hann jafnframt 50% eigandi að fiskiskipinu [E] í gegnum félagið [F] Sé því ljóst að sami eigandi, [D], eigi aðild að báðum þeim strandveiðileyfum, sem um ræði. Af þeim sökum brjóti strandveiðileyfi kæranda vegna fiskiskipsins Læða SH-127 (6698), sem útgefið var 16. maí 2022, í bága við 1. og 2. málsl. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2022, sbr. 11. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006. Eins og máli þessu sé háttað og meðferð málsins hafi leitt í ljós, á grundvelli fyrirliggjandi gagna, skuli Fiskistofa fella niður strandveiðileyfi fiskiskipsins Læða SH-127 (6698), þá þegar, þar sem skilyrði framangreinds ákvæðis reglugerðar nr. 460/2022 séu ekki uppfyllt. Að mati Fiskistofu teljist mál þetta vera nægilega upplýst og atvik og staðreyndir málsins, sem þýðingu hafi að lögum, vera sönnuð.

Þá kom þar fram að ákvörðunina megi kæra til matvælaráðuneytisins innan þriggja mánaða frá því hún barst til málsaðila, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar.

 

 

Málsrök með stjórnsýslukæru og málsmeðferð

Með stjórnsýslukæru, dags. 20. júlí 2022, kærði [A], lögmaður f.h. [B ehf.] til matvælaráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. júlí 2022, um fella niður strandveiðileyfi fyrir bátinn [C] fyrir fiskveiðiárið 2021/2022.

Í stjórnsýslukæru segir m.a. að þann 14. júlí 2022 hafi Fiskistofa tekið ákvörðun um að fella niður strandveiðileyfi kæranda með gildistöku daginn eftir, 15. júlí 2022. Ekki verði séð af gögnum málsins að þessi ákvörðun Fiskistofu hafi verið tilkynnt kæranda með öðrum hætti. Þessi ákvörðun Fiskistofu hafi ekki komist til vitundar kæranda fyrr en 19. júlí 2022. Ákvörðun Fiskistofu hafi verið tekin án þess gætt hafi verið andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar af þessari ástæðu sé ákvörðunin ólögmæt. Gögn sem Fiskistofa vísi til virðist hafa verið fyrirliggjandi hjá stofnuninni frá því í maí 2022. Fiskistofu hafi því þá þegar samkvæmt 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 borið að vekja athygli kæranda á því ef stofnunin teldi vera annmarka á leyfi félagsins er hún gaf þau út en ekki þegar strandveiðitímabili sé að ljúka. Þess sé krafist að framangreind ákvörðun Fiskistofu verði úrskurðuð ólögmæt og felld úr gildi og eftir atvikum að kæranda verði veittur kostur á að andmæla ef áformað sé að taka nýja ákvörðun.

Með tölvubréfi, dags. 5. ágúst 2022, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.

Með tölvubréfi, dags. 10. ágúst 2022, barst ráðuneytinu umsögn Fiskistofu, dags. sama dag, um málið. Þar er vísað til seinni undantekningarreglu frá andmælareglunni í niðurlagi 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en þar kemur fram að ef talið verði augljóslega óþarft að veita aðila færi á að tjá sig um mál áður en stjórnvald taki ákvörðun sé ekki nauðsynlegt að veita andmælarétt. Ef upplýsingar og atvik máls séu þess eðlis að ekki sé við því að búast að málsaðili geti þar neinu breytt, líkt og í þessu máli, sé talið óþarft að veita honum færi á að tjá sig um málið áður en því sé til lykta ráðið. Ákvörðun Fiskistofu hafi byggt á gögnum úr opinberum skrám og gögnum byggðum á þeim, m.a. skipaskrá, gögnum frá Creditinfo og fyrirtækjaskrá Skattsins. Á grundvelli þeirra hafi Fiskistofa talið málið nægilega upplýst og atvik og staðreyndir málsins, sem þýðingu höfðu að lögum, vera sönnuð. Jafnvel þó af þeirri gagnaöflun hafi komið í ljós upplýsingar sem hafi verið málsaðila í óhag og höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins, hafi verið talið óþarft að veita aðila málsins rétt til andmæla. Um hafi verið að ræða upplýsingar úr opinberum skrám, sem jafnan séu réttar og væri því ekki ætlandi að upplýsingar frá málsaðila gætu þar neinu breytt um en af þeim varð ráðið að kærandi uppfyllti ekki skilyrði reglugerðar nr. 460/2022. Upplýsingarnar hafi verið óumdeildar og framangreind undantekning í niðurlagi 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 átt við. Reglur 13. og 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 séu samhangandi, enda sé forsenda þess að aðili geti kynnt sér gögn máls og tjáð síg um það að hann hafi vitneskju um að mál hans sé til meðferðar hjá stjórnvaldi. Fiskistofa telji að af efni 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sé ljóst að tilkynningarskyldan nái aðeins til þeirra mála þar sem aðili eigi andmælarétt samkvæmt 13. gr. sömu laga. Fiskistofa sé bundin af lögum og hafi verið skylt að bregðast við því ólögmæta ástandi sem upp hafi verið komið og koma því í lögmætt horf. Ekki hafi uppgötvast að kærandi átti aðild að öðru strandveiðileyfi í andstöðu við 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2022 fyrr en 12. júlí 2022. Hröð málsmeðferð og ákvörðun Fiskistofu hafi verið í samræmi við afdráttarlaust orðalag 3. málsl. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2022. Í ákvæðinu segi að Fiskistofa skuli fella niður strandveiðileyfi fiskiskips, þá þegar, ef fyrir liggi gögn sem sýni fram á að skilyrði 1. og 2. málsl. séu ekki uppfyllt. Þann 26. apríl 2022 hafi Fiskistofa birt tilkynningu á heimasíðu sinni þess efnis að opnað hafi verið fyrir strandveiðiumsóknir. Hafi þar verið tiltekinn frestur til að senda inn umsókn um strandveiðileyfi ef umsækjandi ætlaði sér að hefja strandveiðar á upphafsdegi þeirra, 2. maí 2022. Þar hafi komið fram að umsókn yrði að berast fyrir kl. 13:30 föstudaginn 29. apríl 2022. Í nánari upplýsingum um strandveiðar á hlekk í tilkynningunni hafi komið fram að sækja yrði um fyrir kl. 14:00 á virkum degi ef hefja ætti veiðar næsta dag eða fyrir kl. 13:30 á föstudegi ef hefja skyldi veiðar næsta mánudag. Við afgreiðslu umsókna um strandveiðileyfi hafi Fiskistofa lagt áherslu á stuttan afgreiðslutíma til að koma til móts við þarfir þeirra útgerða sem stundi veiðarnar. Af þeim sökum hafi Fiskistofa alla jafna ekki lagt í mikla rannsóknavinnu varðandi eignarhald útgerða við afgreiðslu umsókna um strandveiðileyfi enda um að ræða mikið magn umsókna. Hafi þessi stjórnsýsluframkvæmd, þar sem meiri áhersla hafi verið lögð á málshraða en rannsóknarregluna, verið við lýði um árabil og leiði af orðalagi reglugerðar nr. 460/2022. Af þessari framkvæmd Fiskistofu við útgáfu strandveiðileyfa leiði að erfitt sé að meta fyllilega allar þær umsóknir um leyfi til strandveiða sem berist við afgreiðslu þeirra. Hafi eignarhald á bát kæranda verið skoðað eftir að leyfið var veitt og það fellt niður án tafar þegar í ljós kom að eigandi kæranda átti aðild að fleiri en einu strandveiðileyfi, sbr. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2022. Einungis sé heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Óumdeilt sé af fyrirliggjandi gögnum að kærandi var með aðild að útgefnu strandveiðileyfi fyrir bátinn [E] þegar kæranda var veitt leyfi til strandveiða fyrir bátinn [C]. Af þeim sökum hafi Fiskistofu borið að fella niður leyfi kæranda, útgefið 16. maí 2022 og telji Fiskistofa að staðfesta beri hina kærðu ákvörðun.

Umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins fylgdu eftirtalin gögn í ljósritum: 1) Ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. júlí 2022. 2) Afrit úr skipaskrá - [C], dags. 14. júlí 2022. 3) Afrit úr skipaskrá - [E], dags. 14. júlí 2022. 4) Umsókn kæranda, [B], um strandveiðileyfi, dags. 13. maí 2022. 5) Umsókn [F] um strandveiðileyfi, dags. 29. apríl 2022. 6) Strandveiðileyfi kæranda. 7) Strandveiðileyfi [F] 8) Skýrsla Creditinfo - Endanlegir eigendur ([B]), dags. 14. júlí 2022. 9) Skýrsla Creditinfo - Endanlegir eigendur ([F]), dags. 14. júlí 2022.

Með tölvubréfi, dags. 15. ágúst 2022, sendi ráðuneytið ljósrit af umsögn Fiskistofu, dags. 10. ágúst 2022, til lögmanns kæranda og veitti félaginu kost á að gera athugasemdir við hana. Frestur var veittur til og með 31. ágúst 2022.

Engar athugasemdir bárust ráðuneytinu frá lögmanni kæranda við umsögn Fiskistofu, dags. 10. ágúst 2022.

 

 

Rökstuðningur

I.  Kæruheimild er í 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en kærufrestur er þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. sömu laga. Ákvörðun Fiskistofu er dags. 8. júlí 2022 en kæran barst ráðuneytinu 20. sama mánaðar, innan kærufrests. Kæran verður því tekin til efnismeðferðar.

 

II. Um strandveiðar gildir ákvæði 6. gr. a laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, en þar segir m.a. að á hverju fiskveiðiári sé ráðherra heimilt að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski skv. 5. mgr. 8. gr. laganna sem nýtt skuli til veiða með handfærum á tímabilinu frá 1. maí til 31. ágúst samkvæmt sérstökum leyfum Fiskistofu. Í lögunum eru slíkar veiðar nefndar strandveiðar og leyfi til þeirra veiða strandveiðileyfi. Afli sem fæst við strandveiðar reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra skipa er þær veiðar stunda. Þeim heimildum sem ráðstafað er til strandveiða skal skipt á fjögur landsvæði. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um skiptingu landsvæða. Þá skal Fiskistofa með auglýsingu í Stjórnartíðindum stöðva strandveiðar þegar sýnt er að leyfilegum heildarafla, að ufsa undanskildum, verði náð samkvæmt reglugerð sem ráðherra setur um strandveiðar fyrir hvert ár. Strandveiðar eru háðar sérstöku leyfi Fiskistofu. Fiskistofu er aðeins heimilt að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða ef uppfyllt eru ákvæði 5. gr. og er einungis heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Eigandi fiskiskips skal vera lögskráður á skipið. Óheimilt er að veita fiskiskipi leyfi til strandveiða hafi aflamark umfram það aflamark sem flutt hefur verið til þess á sama fiskveiðiári verið flutt af því. Frá útgáfudegi strandveiðileyfis er fiskiskipi óheimilt til loka fiskveiðiárs að stunda veiðar í atvinnuskyni samkvæmt öðrum leyfum nema strandveiðileyfi hafi verið fellt úr gildi skv. 5. mgr. Strandveiðileyfi eru bundin við tiltekin landsvæði, sbr. 1. málsl. 2. mgr. Skal leyfið veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðar viðkomandi fiskiskips er skráð, samkvæmt þjóðskrá eða fyrirtækjaskrá Skattsins, og skal öllum afla fiskiskips landað í löndunarhöfn þess landsvæðis, sbr. þó 10. mgr. Sama fiskiskipi verður aðeins veitt leyfi frá einu landsvæði á hverju veiðitímabili. Leyfi til strandveiða eru bundin tilteknum skilyrðum. Fiskistofa skal auglýsa árlega eftir umsóknum um leyfi til strandveiða.  Enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild að nema einu strandveiðileyfi, sbr. 3. málsl. 11. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006. Ráðherra skal setja nánari reglur um framkvæmd strandveiða.

Einnig gildir um strandveiðar reglugerð nr. 460/2022, um strandveiðar fiskveiðiárið 2021/2022, en þar eru ítarlegri ákvæði um framkvæmd strandveiða fyrir umrætt fiskveiðiár. Í 5. gr. reglugerðarinnar er fjallað um framkvæmd veiðanna en þar kemur fram að leyfi til handfæraveiða samkvæmt reglugerðinni séu bundin tilteknum skilyrðum, sem þar eru tilgreind. 

 

III. Í stjórnsýslukæru er byggt á því að Fiskistofa hafi ekki sinnt rannsóknarskyldu sinni samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem kærandi fékk útgefið leyfi sem var síðar fellt úr gildi. Þann 26. apríl 2022 birti Fiskistofa tilkynningu á heimasíðu sinni þess efnis að opnað hafi verið fyrir strandveiðiumsóknir. Fiskistofa hefur við meðferð málsins upplýst að við afgreiðslu umsókna hafi verið lögð áhersla á stuttan afgreiðslutíma til að koma til móts við þarfir þeirra útgerða sem stundi veiðarnar. Af þeim sökum hafi Fiskistofa alla jafna ekki lagt í mikla rannsóknavinnu varðandi eignarhald útgerða við afgreiðslu umsókna um strandveiðileyfi enda um að ræða mikið magn umsókna. Hafi þessi stjórnsýsluframkvæmd, þar sem meiri áhersla hafi verið lögð á málshraða en rannsóknarregluna, verið við lýði um árabil og leiði af orðalagi reglugerðar nr. 460/2022. Af framkvæmd Fiskistofu við útgáfu strandveiðileyfa hafi leitt að erfitt sé að meta fyllilega allar umsóknir um leyfi til strandveiða sem hafi borist við afgreiðslu þeirra. Hafi eignarhald á skipi kæranda verið skoðað eftir að leyfið hafi verið veitt og það fellt niður án tafar þegar í ljós hafi komið að kærandi átti aðild að fleiri en einu strandveiðileyfi, sbr. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2022.

 

IV. Í stjórnsýslukæru er einnig byggt á því að ákvörðun Fiskistofu hafi verið tekin án þess að gætt hafi verið andmælareglu 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og þegar af þeirri ástæðu hafi ákvörðunin verið ólögmæt. Af hálfu Fiskistofu er byggt á því að í niðurlagi 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 komi fram að ef talið verður augljóslega óþarft að veita aðila færi á að tjá sig um mál áður en stjórnvald tekur ákvörðun sé ekki nauðsynlegt að veita andmælarétt. Ef upplýsingar og atvik máls séu þess eðlis að ekki sé við því að búast að málsaðili geti þar neinu breytt, sé talið óþarft að veita honum færi á að tjá sig um málið áður en ákvörðun sé tekin í því. Ákvörðun Fiskistofu hafi verið byggð á gögnum úr opinberum skrám og gögnum byggðum á þeim, m.a. skipaskrá og fyrirtækjaskrá Skattsins. Einnig er byggt á því að kæranda hafi ekki verið tilkynnt að mál félagsins væri til meðferðar, sbr. 14. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 en Fiskistofa telur að þar sem ekki hafi verið skylt að veita kæranda andmælarétt hafi það ekki verið skylt.

 

V. Ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. júlí 2022, um að fella niður strandveiðileyfi kæranda var byggð á 3. málsl. 4. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006 en þar segir að einungis er heimilt að veita hverri útgerð, eiganda, einstaklingi eða lögaðila, leyfi til strandveiða fyrir eitt fiskiskip. Í 3. málsl. 4. mgr. 3. gr., sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 460/2022, sbr. 11. mgr. 6. gr. a laga nr. 116/2006 kemur fram að enginn eigenda lögaðila sem á bát með strandveiðileyfi getur átt aðild að nema einu strandveiðileyfi. Fiskistofa skal fella niður strandveiðileyfi fiskiskips þá þegar ef fyrir liggja gögn sem sýna fram á að skilyrði 1. og 2. málsl. eru ekki uppfyllt, sbr. 3. málsl. 4. mgr. 3. gr reglugerðarinnar. Sambærileg ákvæði eru í 7. og 8. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2022.

Eignarhald á skipi kæranda var skoðað af Fiskistofu eftir að leyfið var veitt og það fellt niður án tafar þegar í ljós kom að kærandi átti aðild að fleiri en einu strandveiðileyfi, sbr. 4. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 460/2022.

Áður en slík ákvörðun er tekin verður að gæta að málsmeðferðarreglum stjórnsýslulaga nr. 37/1993, m.a. rannsóknarreglu 10. gr., veita andmælarétt samkvæmt 13. gr. og tilkynna aðila máls að mál hans sé til meðferðar, sbr. 14. gr.

Ákvörðun Fiskistofu byggði á gögnum úr opinberum skrám og gögnum byggðum á þeim, m.a. skipaskrá og fyrirtækjaskrá Skattsins. Af þeirri gagnaöflun komu í ljós upplýsingar sem voru kæranda í óhag og höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins en um var að ræða verulega íþyngjandi ákvörðun.

Það er mat ráðuneytisins að þær málsástæður sem Fiskistofa hefur sett fram í þessu máli um nauðsyn þess að málshraðareglu sé gætt við útgáfu strandveiðileyfis geti ekki undanþegið stofnunina þeirri skyldu að gæta að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Fiskistofu bar að framkvæma rannsókn á eignarhaldi á bát kæranda og hvort kærandi uppfyllti að öðru leyti skilyrði áður en útgáfa leyfis fór fram. Þar sem það var ekki gert verður að telja að stofnunin hafi ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. sömu laga. Þegar litið er til framangreinds er það mat ráðuneytisins að undanþáguákvæði í niðurlagi 13. gr. sömu laga hafi ekki átt við  og að Fiskistofu hafi samkvæmt því borið að veita kæranda andmælarétt áður en hin kærða ákvörðun var tekin. Þá er það forsenda þess að aðili geti kynnt sér gögn máls og tjáð síg um það að hann hafi vitneskju um að mál hans sé til meðferðar hjá stjórnvaldi og bar Fiskistofu að tilkynna kæranda um að málið væri til meðferðar, sbr. 14. gr. sömu laga.

Þegar litið er til atvika þessa máls er það mat ráðuneytisins að málsmeðferð Fiskistofu sé haldin verulegum annmörkum, m.a. var ekki gætt að rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, kæranda ekki veittur andmælaréttur áður en hin kærða ákvörðun var tekin, sbr. 13. gr. sömu laga og honum ekki tilkynnt um að mál hans væri til meðferðar, sbr. 14. gr. sömu laga.

Með vísan til framanritaðs og þegar af þeirri ástæðu sem þar kemur fram er það mat ráðuneytisins að fella beri úr gildi hina kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. júlí 2022 og leggja fyrir Fiskistofu að taka málið aftur til meðferðar.

Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.

Úrskurður

Ákvörðun Fiskistofu, dags. 14. júlí 2022, um að fella niður strandveiðileyfi fyrir bátinn [C], er felld úr gildi.

Lagt er fyrir Fiskistofu að taka málið aftur til meðferðar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta