Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2023 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 90/2023 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Hinn 15. febrúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 90/2023

í stjórnsýslumáli nr. KNU22120057

 

Kæra […]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Hinn 16. desember 2022 kærði […], fd. […], ríkisborgari Georgíu ( hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. nóvember 2022, um að synja umsókn hans um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar.

Kærandi krefst þess aðallega að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að honum verði veitt dvalarleyfi hér á landi. Til vara krefst kærandi þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka málið til nýrrar meðferðar.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og barst kæran fyrir lok kærufrests.

Lagagrundvöllur

Í máli þessu koma einkum til skoðunar ákvæði laga um útlendinga nr. 80/2016 ásamt síðari breytingum, reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 ásamt síðari breytingum, ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, mannréttindasáttmáli Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994 auk annarra alþjóðlegra skuldbindinga Íslands á sviði mannréttinda eftir því sem tilefni er til.

II.            Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um dvalarleyfi vegna starfs sem krefst sérfræðiþekkingar 7. mars 2018. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 15. maí 2018, var umsókn kæranda synjað. Hinn 14. júní 2018 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi vegna skorts á starfsfólki. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 10. júlí 2018, var kæranda veitt dvalarleyfi með gildistíma til 4. júlí 2019. Hinn 28. júní 2019 sótti kærandi um endurnýjun á dvalarleyfi sínu sem var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 5. desember 2019. Hinn 5. ágúst 2022 lagði kærandi fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar við EES- eða EFTA-borgara vegna maka hans sem búsett er hér á landi. Maki kæranda er ríkisfangslaus og fékk veitt dvalarleyfi hér á landi 10. maí 2022 á grundvelli c-liðar 82. gr. laga um útlendinga vegna sonar síns sem er ríkisborgari Lettlands og er búsettur hér á landi. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 2. nóvember 2022, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að dvalarleyfi maka hans samkvæmt 82. gr. laga um útlendinga heimilaði ekki fjölskyldusameiningu. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt kæranda 13. desember 2022. Hinn 16. desember 2022 kærði kærandi ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 6. janúar 2023 ásamt fylgigögnum.

Í kæru óskaði kærandi eftir frestun réttaráhrifa á ákvörðun Útlendingastofnunar á meðan málið væri til meðferðar hjá kærunefndinni, sbr. 2. mgr. 29. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Hinn 26. janúar 2023 féllst kærunefnd á þá beiðni.

III.       Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur m.a. fram að hann hafi sótt um dvalarleyfi hér á landi á grundvelli fjölskyldusameiningar 5. ágúst 2022. Kærandi hafi verið í sambandi með maka sínum frá árinu 2018 og þau hafi gengið í hjónaband árið 2022. Þau hafi haldið afar stöðugu sambandi þrátt fyrir synjun á endurnýjun á leyfi kæranda árið 2019. Þá eigi kærandi í sterku sambandi við son maka síns og hafi fjölskyldan þannig mikla hagsmuni og löngun til þess að fá að dvelja saman sem fjölskyldueining. Ráða má að kærandi telji að ákvörðun Útlendingastofnunar brjóti gegn rannsóknar- og réttmætisreglu stjórnsýsluréttar, skyldu stjórnvalds til rökstuðnings ákvörðunar sinnar og réttmætum væntingum kæranda, sbr. 10. og 22. gr. stjórnsýslulaga, sbr. einnig 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga. Þá sé eining fjölskyldunnar meginreglan í útlendingarétti og hafi bein tengsl við stjórnarskrárvarin mannréttindi, svo sem friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, sbr. 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Verður samkvæmt því og almennt viðurkenndum lögskýringaraðferðum að túlka allar undantekningar á heimild til fjölskyldusameiningar þröngt.

Kærandi byggir á því að samkvæmt ákvæði 1. mgr. 86. gr. laga um útlendinga eigi dvalarréttur einnig við um aðstandendur EES-borgara þótt þeir séu sjálfir ekki EES-borgarar. Ákvæðið eigi við um aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og aðra útlendinga sem ekki séu EES- eða EFTA-borgarar. Samkvæmt efni ákvæðisins gildi 1. og 2. mgr. 85. gr. laga um útlendinga um útlendinga sem ekki séu EES- eða EFTA-borgarar heldur aðstandendur EES- eða EFTA-borgara og því kunni ákvæðið að eiga við um maka kæranda. Tengsl kæranda og maka hans séu raunveruleg og hafi ekkert komið fram sem bendir til annars. Telur kærandi að hann uppfylli skilyrði 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.

Í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi ekki verið vikið að skilyrðum í 70. gr. laga um útlendinga og þeim möguleika sem lesa megi af 3. og 5. mgr. 70. gr. laga um útlendinga að útlendingar geti sameinast maka sem njóti dvalarleyfis á grundvelli foreldratengsla sinna samkvæmt 72. gr. laga um útlendinga. Telur kærandi að hann og maki hans eigi ekki að njóta minni réttarverndar heldur en leiði af ákvæði 72. gr. laga um útlendinga, en samkvæmt því geti umsækjandi um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar eða sambúðar leitt rétt sinn af útlendingi sem sé með dvalarleyfi hér á landi fyrir foreldra á grundvelli ákvæðisins. Kærandi hafi haft réttmætar væntingar um möguleika sinn á að hljóta fjölskyldusameiningu og ákvörðun Útlendingastofnunar sé því afar íþyngjandi. Allur vafi hafi verið túlkaður kæranda í óhag. Útlendingastofnun hafi borið að leiðbeina kæranda um hvernig hann gæti óskað eftir fjölskyldusameiningu eða ráðlagt honum t.d. að sækja um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Kærandi hafi ekki notið aðstoðar lögmanns við meðferð málsins og því hafi leiðbeiningarskylda Útlendingastofnunar verið enn ríkari en ella. Þá fáist ekki séð hvaða forsendur eða lagaákvæði hafi verið lögð til grundvallar í niðurstöðu málsins hjá Útlendingastofnun. Niðurstaða Útlendingastofnunar hafi jafnframt verið þversagnarkennd og efnislega röng og því ekki í samræmi við 13. og 22. gr. stjórnsýslulaga.

Kærandi byggir á því að ekki hafi farið fram mat á þeim hagsmunum sem í húfi séu í máli hans. Vísar kærandi í því sambandi til þeirra sjónarmiða í stjórnsýslurétti að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun sé, þeim mun strangari kröfur verði að gera til rannsóknar á þeim atvikum sem leiði til niðurstöðunnar. Þá telur kærandi að taka verði tillit til hagsmuna maka hans og sonar hennar, enda sé samband kæranda við son maka síns líkt og um blóðföður sé að ræða. Telur kærandi Útlendingastofnun hafa vanrækt rannsóknarskyldu sína um fjölskylduaðstæður hans. Þá sé auðséð að hagsmunir stjórnvalda af synjun umsóknar kæranda séu litlir í samanburði við réttindavarða hagsmuni kæranda og eiginkonu hans við að halda samvistum.

IV.       Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í 69. gr. laga um útlendinga er fjallað um skilyrði fyrir dvalarleyfi vegna fjölskyldusameiningar. Í 1. mgr. ákvæðisins segir að nánasti aðstandandi íslensks eða annars norræns ríkisborgara sem er með fasta búsetu hér á landi eða útlendings sem dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfis samkvæmt 61., 63., 70., 73., 74. og 78. gr. eða ótímabundins dvalarleyfis samkvæmt 58. gr. geti með umsókn fengið dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldusameiningar að fullnægðum skilyrðum 55. gr. og VIII. kafla laganna. Í 2. málsl. sama ákvæðis segir að til nánustu aðstandenda teljist maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára í forsjá hans og á framfæri og foreldrar 67 ára og eldri. Sama gildi um maka, sambúðarmaka og börn þeirra sem stundi framhaldsnám á háskólastigi, doktorsnám og rannsóknir hér á landi á grundvelli 65. gr. laganna.

Í ákvæði 1. mgr. 82. gr. laga um útlendinga kemur fram að aðstandandi EES- eða EFTA-borgara sem fellur undir ákvæði þessa kafla hafi rétt til að dveljast með honum hér á landi. Aðstandendur EES- eða EFTA-borgara sem hafi dvalarrétt eða rétt til ótímabundinnar dvalar hér á landi skuli óháð ríkisfangi eiga rétt á að stunda atvinnu eða gerast sjálfstætt starfandi einstaklingar hér á landi. Í 2. mgr. 82. gr. er nánar tilgreint hverjir teljast aðstandendur EES- og EFTA-borgara.

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um fjölskyldusameiningu við maka sinn á grundvelli 82. gr. laga um útlendinga. Maki kæranda dvelst sjálf hér á landi á grundvelli c-liðar 2.mgr. 82. gr. laga um útlendinga. Af gögnum málsins liggur fyrir að maki kæranda er skráð ríkisfangslaus og er hún því ekki EES- eða EFTA-borgari. Er því ekki grundvöllur fyrir beitingu 82. gr. laga um útlendinga í máli kæranda.

Eins og áður greinir heimilar ákvæði 69. gr. laga um útlendinga fjölskyldusameiningu við aðstandendur eingöngu í þeim tilfellum sem útlendingur dvelst hér á landi á grundvelli dvalarleyfa sem í ákvæðinu eru upp talin. Heimilar ákvæðið því ekki fjölskyldusameiningu við þá sem hér dvelja sem aðstandendur EES- eða EFTA-borgara á grundvelli 82. gr. laga um útlendinga. Með vísan til framangreinds og skýrs orðalags 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga er það niðurstaða kærunefndar að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli fjölskyldusameiningar samkvæmt 1. mgr. 69. gr. laga, sbr. 70. gr. laga um útlendinga, séu ekki uppfyllt.

Hvað varðar athugasemdir kæranda um að Útlendingastofnun hefði átt að skoða hvort að undanþáguákvæði 3. mgr. sbr. 5. mgr. 70. gr. laga um útlendinga veitti kæranda rýmri heimild til fjölskyldusameiningar hér á landi telur kærunefnd ástæðu til þess að ítreka að maki kæranda dvelur hér á landi á grundvelli ákvæðis c-liðar 2. mgr. 82. gr. laganna, og hefur aðeins haft leyfi til dvalar hér á landi á þeim grundvelli í um níu mánuði. Þá eru aðstæður maka kæranda og sonar hennar ekki í líkingu við skilyrði þau sem eru grundvöllur fjölskyldusameiningar samkvæmt 72. gr. laga um útlendinga enda er maki kæranda ekki eldri en 67 ára og sonur hennar hefur náð 18 ára aldri. Verður því ekki séð að framangreind undanþáguákvæði geti átt við í tilviki kæranda.

V.            Samantekt og leiðbeiningar

Að framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar að kærandi uppfylli ekki skilyrði 82. gr. laga um útlendinga fyrir veitingu dvalarleyfis fyrir aðstandendur EES- eða EFTA-borgara, sbr. 1. mgr. 69. gr. laga um útlendinga.

Kærandi hefur greint frá því að eiga náið samband með maka sínum og stjúpsyni sem búa hér á landi. Með tilliti til þess bendir kærunefnd á að kærandi getur lagt fram umsókn um dvalarleyfi á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sbr. 78. gr. laga um útlendinga. Kærunefnd tekur þó fram að með þessum leiðbeiningum tekur nefndin enga afstöðu til þess hvort kærandi uppfylli skilyrði slíks leyfis.

 

 

 

Úrskurðarorð:

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

Þorsteinn Gunnarsson

 

 

 

Gunnar Páll Baldvinsson                                                                                             Sandra Hlíf Ocares


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta