Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2023 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Orkuöryggi best tryggt með hreinum orkuskiptum og sanngjörnum reglum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra ásamt Ebbu Busch, orku-, viðskipta- og iðnaðarráðherra Svíþjóðar og Andreas Carlson, innviða og húsnæðisráðherra Svíþjóðar.  - mynd

Mikilvægt er að tryggja orkuöryggi Evrópu og það verður best gert með hreinum orkuskiptum og sanngjörnu regluverki. Þetta sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra á fundum evrópskra orku- og samgönguráðherra, sem haldnir voru í Stokkhólmi í gær og í dag.

Á fundunum var m.a. rætt um skipulag orkumarkaða, orkuöryggi fyrir næsta vetur og til frambúðar, framtíðarstefnu í orkumálum til að tryggja samkeppnishæfi iðnaðar og leiðir til að stuðla að hraðari orkuskiptum í samgöngum. Guðlaugur Þór vakti athygli á því að staða Íslands í orkumálum sé ólík stöðu flestra annarra Evrópuríkja, þar sem Ísland er sjálfu sér nægt varðandi raforku og hita, þökk sé endurnýjanlegum innlendum orkulindum. Ísland sé reiðubúið að deila sinni þekkingu, ekki hvað síst varðandi jarðhita, en þar eigi Evrópa meiri möguleika en margir átti sig á.

Ráðherra benti á að Ísland standi sig vel er kemur að orkuskiptum í vegasamgöngum. Hlutfall vistvænna ökutækja í landinu sé yfir helmingur nýskráninga og Ísland í öðru sæti á eftir Noregi í nýskráningum rafbíla. Líkt og hjá öðrum ríkjum sé hins vegar lengra í land varðandi orkuskipti á sjó og í flugi. Ísland ætli sér hins vegar einnig að vera í fararbroddi varðandi þessi orkuskipti og vinna við slíkt sé þegar hafin. Guðlaugur Þór skipaði nýlega starfshóp sem er falið að skoða og leggja fram tillögur að því hvaða leiðir séu færar til að hraða orkuskiptum í flugi, með notkun endurnýjanlegs eldsneytis fyrir millilandaflug.

Í máli sínu lagði Guðlaugur Þór líka áherslu á mikilvægi þess að reglugerðir og stefnur Evrópusambandsins varðandi orkuskipti væru sanngjarnar. Fyrirhuguð reglugerð ESB um losunarskatt á flug kunni að mismuna löndum og opni á hættuna á kolefnisleka. Sagði ráðherra Ísland ekki geti nýtt sér aðrar samgöngumáta með sama hætti og flest önnur Evrópuríki og að Atlantshafsflugi verði ekki hætt þrátt fyrir að millilendingum á Íslandi kynni að fækka. „Við höfum látið áhyggjur okkar af þessu máli í ljós og það er mikilvægt hagsmunamál fyrir Ísland að það verði gætt sanngirnis í þessu máli,,“ sagði Guðlaugur Þór.

Ísland styðji metnaðarfulla loftslagsstefnu Evrópuríkja og aðgerðir til að stöðva kolefnisleka, sem og leiðir til að tryggja samkeppnishæfi umhverfisvænna fyrirtækja á Evrópska efnahagssvæðinu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta