Hoppa yfir valmynd
1. mars 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Lokaafstaða íslenskra stjórnvalda um stöðu mannréttinda á Íslandi send mannréttindaráði SÞ

Íslensk stjórnvöld skiluðu í gær lokaafstöðu sinni til tilmæla sem fram komu á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í reglubundnu eftirliti með mannréttindum á Íslandi sem fram fór í Genf 10. október síðastliðinn.

Á fundi ráðsins þann 15. mars nk. mun fulltrúi úr fastanefnd Íslands í Genf kynna niðurstöðurnar. Íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að koma sem flestum þeirra tilmæla sem þau hafa fallist á til framkvæmda fyrir árið 2016, en það verður gert í tengslum við landsáætlun í mannréttindum sem nú er í smíðum undir forystu innanríkisráðuneytisins.

Fjölmörg ríki hrósuðu Íslandi fyrir góða stöðu mannréttindamála í fyrirtökunni í Genf, meðal annars í  aðgerðum í þágu jafnréttis kynjanna, aðgerðum gegn mansali og bættri löggjöf um hælisleitendur. Einnig var Íslandi hrósað fyrir ný lög um innflytjendur, opið vinnuferli við skýrslugerð vegna fyrirtökunnar hjá Sþ, auk þess sem Barnahúsinu var hælt sérstaklega og stjórnvöld hvött til að kynna það á alþjóðavettvangi.

Flest tilmæli þar sem Ísland var talið geta bætt sig lutu að málefnum útlendinga í víðum skilningi, áhyggjum af kynþáttafordómum í íslensku samfélagi, launamun kynjanna, ofbeldi gegn konum og kynferðislegu ofbeldi gegn börnum, auk þess sem Ísland var hvatt til þess að undirgangast alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar sem það hefur ekki gerst aðili að og setja á laggirnar mannréttindastofnun sem standist alþjóðleg viðmið. Einnig höfðu ríki heims áhyggjur af stöðu fangelsismála á Íslandi og vísbendingum um mansal hér á landi.

Í samráði við sérfræðinga stjórnarráðsins upplýsti sendinefnd Íslands um afstöðu Íslands til 52 af 84 tilmælum sem beint var til íslenskra stjórnvalda við fyrirtökuna í október. Við undirbúning hennar og í kjölfarið hafa starfsmenn stjórnarráðsins unnið náið saman þvert á ráðuneyti og í samvinnu við starfsmenn undirstofnana, að því að greina stöðu mannréttindamála hér á landi. Afstaða Íslands til þeirra 32 tilmæla sem ekki var upplýst um við fyrirtökuna hefur nú verið send til mannréttindaráðs SÞ. Að tveimur árum liðnum er Íslandi gert að skila stöðuskýrslu um framgang verkefna, en í næstu umferð úttektarinnar, árið 2016, skal gera grein fyrir framkvæmdinni í skýrslu Íslands og fyrirtöku á grundvelli hennar.

Hafin er vinna við mótun landsáætlunar í mannréttindamálum fyrir Ísland, þá fyrstu sinnar tegundar hérlendis og er stefnt að því að leggja hana fyrir Alþingi næsta haust. Eitt af því sem þar verður fjallað um eru leiðir til að fylgja eftir með skipulegum hætti þeim athugasemdum sem fram komu á vettvangi mannréttindaráðsins um stöðu mannréttindamála hér á landi.

Niðurstöður íslenskra stjórnvalda verða birtar á vef innanríkisráðuneytisins eftir að þær hafa verið kynntar í Genf 15. mars nk.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta