Innanríkisráðherra fundaði með allsherjar- og menntamálanefnd um skipulagða glæpastarfsemi
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra og fulltrúar lögreglunnar funduðu í morgun með allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi. Lögreglan veitti nefndarmönnum ýmsar upplýsingar um mat á stöðunni og um aðgerðir.
Auk innanríkisráðherra sátu fundinn af hálfu ráðuneytisins þær Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri og Þórunn J. Hafstein, skrifstofustjóri skrifstofu almannaöryggis, Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, Jón Bjartmarz yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, og aðstoðaryfirlöregluþjónarnir Björgvin Björgvinsson og Karl Steinar Valsson hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.
Á fundinum var farið yfir mat rannsóknarteymis ríkislögreglustjóra, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og lögreglustjórans á Suðurnesjum um starfsemi mótorhjólagengja hér á landi og stöðu skipulagðrar glæpastarfsemi og árangur af starfi teymisins. Tollstjóraembættið hefur einnig komið að málinu. Þá hafa lögregluyfirvöld átt náið samstarf við löggæslu á Norðurlöndunum og Europol. Einnig var rætt um aðgerðir á breiðum grundvelli á næstu misserum til þess að stemma stigu við skipulagðri brotastarfsemi og fyrirsjáanlega þróun í þessum málum.
Björgvin G. Sigurðsson, formaður nefndarinnar, stýrði fundinum en ásamt honum sátu hann þingmennirnir, Birgitta Jónsdóttir, Siv Friðleifsdóttir, Þráinn Bertelsson, Skúli Helgason, Ragnheiður Ríkarðsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.
Innanríkisráðherra sagði fundinn hafa verið afar gagnlegan. ,,Það var gott að finna fyrir vilja þingsins fyrir þverpólitískri aðkomu að baráttu gegn skipulagri glæpastarfsemi. Tilgangurinn var að Alþingi vill fylgjast með því sem er að gerast og taka þátt í stefnumótun sem er í samræmi við mínar óskir því ég hef alltaf lagt þunga áherslu á að þessi mál séu unnin í mjög nánu samstarfi þings, lögreglu og ráðuneytis.
Við réðumst í tilraunaverkefni til árs í apríl og nú erum við að líta yfir farinn veg og horfa til næsta árs og næstu ára og það vil ég gjarnan að verði gert í góðri samstöðu við Alþingi. Þessi fundur er sá fyrsti í röð funda sem efnt verður til eins og formaður nefndarinnar, Björgvin G. Sigurðsson, orðaði á fundinum,” sagði Ögmundur Jónasson einnig.