Hoppa yfir valmynd
2. febrúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 395/2016

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 395/2016

Fimmtudaginn 2. febrúar 2017

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Guðrún Agnes Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. október 2016, kærir A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 29. september 2016, um synjun á umsókn hans um fæðingarstyrk námsmanna.

I. Málavextir og málsmeðferð

Með umsóknum, sem bárust Fæðingarorlofssjóði 18. júlí 2016, sótti kærandi annars vegar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður og hins vegar fæðingarstyrk námsmanna í þrjá mánuði vegna væntanlegrar fæðingar barns hans X 2016. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 12. ágúst 2016, var kærandi upplýstur um að ráða mætti af upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra að hann uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, um að hafa verið í minnst 25% starfshlutfalli samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a laganna síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns þar sem engar/lágar tekjur væru skráðar á hann á tímabilinu febrúar til júní 2016. Kæranda var í framhaldinu leiðbeint um hvað teldist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði samkvæmt 2. mgr. 13. gr. a. laganna og gefinn kostur á að leggja fram gögn því til staðfestingar. Að öðrum kosti mætti hann eiga von á því að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði yrði synjað. Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 21. september 2016, var óskað eftir frekari gögnum frá kæranda vegna umsóknar hans um fæðingarstyrk námsmanna. Kærandi lagði fram frekari gögn en með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 27. september 2016, var umsókn hans synjað á þeirri forsendu að hann uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000. Kærandi lagði fram frekari gögn en með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 29. september 2016, var umsókn hans synjað á ný. Kærandi lagði þá fram viðbótargögn en með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 5. október 2016, var honum tilkynnt að gögnin breyttu ekki fyrri afgreiðslu sjóðsins.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 13. október 2016. Með bréfi, dags. 14. október 2016, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs ásamt gögnum málsins. Greinargerð sjóðsins barst með bréfi, dags. 31. október 2016, og með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. nóvember 2016, var greinargerðin send kæranda til kynningar. Athugasemdir bárust ekki.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að í janúar 2016 hafi hann farið í nám á B braut við C og byrjað á starfsnámssamningi hjá D. Fyrir þann tíma hafi hann verið í 100% vinnu. Kærandi hafi ekki skrifað strax undir skriflegan samning þar sem hann hafi ekki vitað að þess þyrfti. Kærandi bendir á að hann hafi verið ráðinn sem nemi og fengið vinnutíma og laun samkvæmt því. Hann hafi verið í dagskóla og unnið eftir skóla á ákveðnum dögum en suma aðra daga hafi hann unnið allan daginn. Í lok vorannar hafi kærandi farið í 100% starf, enn sem nemi, en tekið tveggja vikna launalaust sumarfrí í júní 2016.

Kærandi tekur fram að hann hafi fengið þær upplýsingar frá Fæðingarorlofssjóði að ástæða þess að hann hafi hvorki fengið fæðingarorlof né fæðingarstyrk námsmanna væri vegna tveggja vikna sumarleyfis í júní 2016. Kærandi telji það óréttlátt þar sem hann hafi verið í 100% starfi og námi í tólf mánuði fyrir fæðingardag barns.

III. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs

Í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs er vísað til 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof þar sem kveðið sé á um að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 2. mgr. 7. gr. laganna komi fram að starfsmaður samkvæmt lögunum sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Í 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 komi fram að þátttaka á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV. kafla feli í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr., eða sjálfstætt starfandi einstaklingur, sbr. 3. mgr. 7. gr. Fullt starf starfsmanns miðist við 172 vinnustundir á mánuði, en þó skuli jafnan tekið tillit til fjölda vinnustunda sem samkvæmt kjarasamningi teljist fullt starf. Í 2. mgr. sé síðan talið upp í eftirfarandi fimm stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt gildandi lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til sjúkratryggingastofnunarinnar samkvæmt lögum um sjúkratryggingar og lögum um slysatryggingar almannatrygginga, eða fær greiðslur úr sjúkrasjóði stéttarfélags enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa,

e. sá tími er foreldri fær tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlegra fatlaðra barna eða hefði átt rétt á slíkum greiðslum hefði foreldri sótt um þær til Tryggingastofnunar ríkisins.

Barn kæranda hafi fæðst þann X 2016. Ávinnslutímabil kæranda sem starfsmanns sé því frá X 2016 og fram að fæðingu barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði hafi kærandi þurft, samkvæmt framangreindu, að hafa verið í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli á tímabilinu, sbr. 2. mgr. 7. gr., 1. mgr. 13. gr. og 1. og 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000. Samkvæmt skrám ríkisskattstjóra hafi kærandi fengið lágar greiðslur frá E ehf. í febrúar, mars og júní 2016. Ljóst sé af launaseðlum að kærandi nái ekki 25% starfshlutfalli framangreinda mánuði. Þá liggi fyrir í gögnum málsins að kærandi hafi stundað nám við C í dagskóla á vorönn 2016, auk þess að vera á námssamningi í B frá 1. janúar til 31. desember 2016. Þau laun sem kærandi hafi fengið frá E ehf. á tímabilinu hafi því verið í tengslum við námssamninginn og hluti af hans námi samkvæmt lögum nr. 92/2008 um framhaldsskóla og reglugerðar nr. 840/2011 um vinnustaðanám og starfsþjálfun á vinnustað. Samkvæmt framangreindu verði ekki séð að kærandi hafi verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns þann X 2016.

Þá komi til skoðunar hvort kærandi eigi rétt á fæðingarstyrk sem foreldri í fullu námi. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 eigi foreldrar sem hafi verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma rétt á fæðingarstyrk. Foreldri skuli leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og hafi staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma. Heimilt sé að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist. Skilgreiningu á fullu námi sé að finna í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 74/2008. Þar komi fram að fullt nám í skilningi laganna teljist vera 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem standi yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms.

Við mat á því hvort kærandi hafi stundað fullt nám samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingardag barnsins sé horft til tímabilsins frá X 2015 fram að fæðingardegi þess. Á staðfestingu á skólavist og námsferilsáætlun frá C komi fram að á framangreindu tólf mánaða tímabili hafi kærandi einungis stundað nám við skólann á vorönn 2016, eða tímabilinu 4. janúar til 27. maí 2016. Samkvæmt gögnum málsins hafi kærandi lokið 13 einingum á því tímabili. Þegar um sé að ræða nám við framhaldsskóla teljist 18 einingar á önn almennt vera 100% nám og því teljist 13–18 einingar vera fullt nám samkvæmt lögum nr. 95/2000. Samkvæmt því hafi kærandi staðist kröfur um námsframvindu á vorönn 2016 eða í um fimm mánuði. Þá verði ekki séð af þeim gögnum sem liggi fyrir um námsframvindu og uppsetningu náms kæranda að hann uppfylli almenna skilyrðið um að hafa verið í fullu námi samfellt í að minnsta kosti sex mánuði síðustu tólf mánuðina fyrir fæðingardag barns og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma.

Í 11. og 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 sé að finna undanþágur frá framangreindu skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna. Í 11. mgr. 19. gr. laganna komi fram að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk samkvæmt 1. mgr. hafi foreldri verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fram til þess að námið hófst. Kærandi hafi byrjað í námi 4. janúar 2016 en upphaf tólf mánaða tímabilsins sé X 2015. Því sé ljóst að kærandi nái ekki að hafa verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði á innlendum vinnumarkaði á tólf mánaða tímabilinu áður en nám hans hafi hafist þann 4. janúar 2016. Í 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 komi síðan fram að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hafi lokið að minnsta kosti einnar annar námi samkvæmt 1. mgr. og hafi síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði sé að nám og starf hafi verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði. Líkt og að framan greini hafi kærandi verið í fullu námi á vorönn 2016 sem hafi lokið 27. maí 2016. Samkvæmt staðfestingu frá vinnuveitanda kæranda hafi hann ekki verið í vinnu frá þeim tíma og fram til 14. júní 2016. Það sem eftir lifði mánaðarins hafi kærandi hins vegar unnið 30,5 klukkustundir eins og fram komi á launaseðli fyrir júní. Þá liggi fyrir í gögnum málsins að kærandi sé ekki ráðinn í tiltekið starfshlutfall heldur sé hann á námssamningi sem sé hluti af hans námi. Þannig verði ekki séð að a-liður 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 um launalaust leyfi geti tekið til aðstæðna kæranda. Í samræmi við það uppfylli kærandi ekki skilyrði undanþáguákvæðis 12. mgr. 19. gr. laganna um að hafa verið samfellt á vinnumarkaði frá því að námi hans lauk 27. maí 2016.

Með vísan til alls framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að kærandi uppfylli hvorki skilyrði til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði sem starfsmaður né til fæðingarstyrks sem foreldri í fullu námi. Kærandi eigi þess í stað rétt á fæðingarstyrk samkvæmt 18. gr. laga nr. 95/2000.

IV. Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um að synja umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof eiga foreldrar, sem verið hafa í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns, frumættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og staðist kröfur um námsframvindu á þeim tíma, rétt til fæðingarstyrks. Foreldri skal leggja fram staðfestingu frá viðkomandi skóla um að það hafi verið skráð í fullt nám og staðist kröfur um námsframvindu. Heimilt er að taka tillit til ástundunar náms í stað námsárangurs á þeirri skólaönn sem barn fæðist.

Í 4. mgr. 7. gr. laga nr. 95/2000 segir að fullt nám samkvæmt lögunum sé 75–100% samfellt nám, verklegt eða bóklegt, í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi sem stendur yfir í að minnsta kosti sex mánuði. Enn fremur sé átt við 75–100% nám á háskólastigi og annað nám sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Einstök námskeið teljist ekki til náms. Þegar um er að ræða nám við framhaldsskóla teljast 18 einingar á önn almennt vera 100% nám og fullt nám í skilningi laganna því 13–18 einingar.

Barn kæranda fæddist X 2016. Tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er því frá X 2015 fram að fæðingardegi barnsins. Óumdeilt er að kærandi uppfyllir framangreint skilyrði um fullt nám á vorönn 2016 og að hann stundaði ekki nám á haustönn 2015. Það er því mat úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki fullnægt skilyrði 1. mgr. 19. gr. laganna um að hafa verið í fullu námi í að minnsta kosti sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns.

Í 12. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 er kveðið á um undanþágu þess efnis að heimilt sé að greiða foreldri fæðingarstyrk sem námsmanni þegar foreldri hafi lokið að minnsta kosti einnar annar námi samkvæmt 1. mgr. og hafi síðan verið samfellt á innlendum vinnumarkaði. Skilyrði er að nám og starf hafi verið samfellt í að minnsta kosti sex mánuði. Líkt og áður greinir var kærandi í fullu námi á vorönn 2016 en samkvæmt staðfestingu á skólavist kæranda stóð vorönnin til 27. maí 2016. Samkvæmt gögnum málsins starfaði kærandi sem nemi í B hjá E ehf. í hlutastarfi samhliða námi. Tímabilið 26. maí til 13. júní 2016 var kærandi í launalausu leyfi, sbr. vottorð vinnuveitanda hans, dags. 27. september 2016, en hóf aftur störf þann 14. júní 2016 og var að störfum fram yfir fæðingu barns hans. Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs hefur komið fram að kærandi hafi ekki verið ráðinn til E ehf. í tiltekið starfshlutfall heldur hafi hann verið á námssamningi sem væri hluti af hans námi. Að því virtu gæti a-liður 2. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 ekki átt við um leyfi hans dagana 26. maí til 13. júní 2016.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. a laga nr. 95/2000 felur þátttaka á innlendum vinnumarkaði í sér að starfa sem starfsmaður, sbr. 2. mgr. 7. gr. laganna, en þar segir að starfsmaður sé hver sá sem vinnur launuð störf í annarra þjónustu í að minnsta kosti 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Þá kemur meðal annars fram í 2. mgr. 13. gr. a laganna að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist enn fremur orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 30/1987 um orlof eiga allir þeir, sem starfa í þjónustu annarra gegn launum, hvort sem þau eru greidd í peningum eða öðrum verðmætum, rétt á orlofi og orlofslaunum samkvæmt reglum laganna. Í 5. gr. laganna kemur fram að atvinnurekandi ákveði í samráði við launþega hvenær orlof skuli veitt. Í gögnum málsins liggur fyrir ráðningarsamningur vegna starfs kæranda og launaseðlar vegna greiðslna til hans. Að mati úrskurðarnefndarinnar er því ljóst að kærandi hafi starfað í þjónustu annarra gegn launum og hafi því átt rétt á orlofi á grundvelli laga nr. 30/1987. Að því virtu fellur leyfi hans undir ákvæði a-liðar 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000.

Með vísan til framangreinds er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi uppfylli skilyrði 12. mgr. 19. gr. laganna um að nám og starf hafi varað samfellt í að minnsta kosti sex mánuði og telur nefndin rétt að fallast á umsókn kæranda um fæðingarstyrk námsmanna í þrjá mánuði, enda virðist ágreiningslaust að hann uppfyllir skilyrði 19. gr. laga nr. 95/2000 að öðru leyti.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 29. september 2016, um synjun á umsókn A, um fæðingarstyrk námsmanna er felld úr gildi. Kæranda skal greiddur fæðingarstyrkur á grundvelli 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Guðrún A. Þorsteinsdóttir, formaður

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta