Nr. 395/2018 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 25. september 2018 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 395/2018
í stjórnsýslumáli nr. KNU18070020
Kæra [...]
á ákvörðun
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestur og kæruheimild
Með kæru, dags. 9. júlí 2018, kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Kína (hér eftir nefnd kærandi), þá ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. júní 2018, að synja henni um vegabréfsáritun til Íslands.
Kærandi krefst þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og að henni verði veitt vegabréfsáritun til landsins. Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga nr. 80/2016 um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsatvik og málsmeðferð
Með umsókn, dags. 15. maí 2018, óskaði kærandi eftir vegabréfsáritun til Íslands í 30 daga hjá sendiráði Íslands í Peking í Kína. Vinkona kæranda lagði einnig fram umsókn um vegabréfsáritun vegna sama tímabils. Í gögnum málsins kemur fram að unnusti kæranda, sem er íslenskur ríkisborgari, hafi boðið kæranda og vinkonu hennar að koma hingað til lands. Hafi tilgangur ferðarinnar verið að hitta unnusta sinn og ferðast um landið. Útlendingastofnun synjaði umsókn kæranda þann 20. júní 2018 og barst kæranda ákvörðunin þann 26. sama mánaðar. Kærandi kærði ákvörðun Útlendingastofnunar til kærunefndar útlendingamála þann 9. júlí 2018, en kæru fylgdu athugasemdir frá kæranda og fylgigögn. Þá bárust viðbótarathugasemdir frá kæranda þann 30. júlí sl.
III. Ákvörðun Útlendingastofnunar
Útlendingastofnun synjaði kæranda um vegabréfsáritun þar sem tilgangur dvalar hennar þótti ótrúverðugur. Í símtali við starfsmann íslenska sendiráðsins í Peking vegna umsóknarinnar hefði kærandi lýst því yfir að hún hefði ekki ákveðið hvort hún myndi yfirgefa Ísland eða ekki. Ef henni líkaði dvölin gæti verið að hún myndi ganga í hjónaband hér á landi. Þá kom fram að áðurnefnd vinkona kæranda hafi verið gift íslenskum ríkisborgara sem sé kunningi unnusta kæranda. Þau væru skilin en samkvæmt upplýsingum frá kæranda myndi fyrrverandi eiginmaður hennar ferðast með þeim. Í ákvörðuninni kom fram að ekki hafi verið unnt að ganga úr skugga um að kærandi myndi yfirgefa Schengen-svæðið áður en vegabréfsáritun hennar rynni út. Við skoðun á umsóknum um vegabréfsáritanir væri einnig horft til tengsla umsækjanda við heimaríki við mat á því hvort umsækjandi myndi yfirgefa Schengen-svæðið, m.a. staðfestingu á atvinnu og hvort umsækjandi ætti fasteignir í heimaríki. Fram kom að kærandi hafi nýlega sagt upp atvinnu sinni og selt fasteign sína og því væru tengsl hennar við heimaríki ekki talin sterk. Var tilgangur ferðar kæranda hingað til lands einnig dreginn í efa.
Þar sem kærandi þótti ekki uppfylla skilyrði 20. gr. laga um útlendinga og 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010 um skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar þótti ástæða til að synja umsókn hennar.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi lagt fram umsókn um vegabréfsáritun hingað til lands á grundvelli heimboðs unnusta hennar. Unnusti kæranda hafi einnig boðið vinkonu hennar hingað til lands en umsókn hennar hafi einnig verið synjað. Fram kemur að kærandi hafi kynnst unnusta sínum í brúðkaupi vinkonu sinnar í heimaríki í október 2013. Síðan þá hafi unnusti hennar heimsótt hana í heimaríki í þrjú skipti, síðast í desember sl. Þar hafi verið ákveðið að kærandi og vinkona hennar kæmu til Íslands í júlí og ágúst 2018. Kærandi og vinkona hennar hafi lagt fram umsókn um vegabréfsáritun en Útlendingastofnun hafi hins vegar ekki tekið neitt tillit til áreiðanleika framlagðra gagna og upplýsinga heldur byggt ákvörðun sína á rangfærslum, dylgjum og ósannindum.
Í greinargerð gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnun, sem raktar eru í átta liðum. Í fyrsta lagi gerir kærandi athugasemd við að í ákvörðun Útlendingastofnunar hafi upplýsingar sem kærandi hafi veitt um tilgang ferðar ekki verið taldar áreiðanlegar. Kærandi kveður öll umbeðin gögn hafa fylgt umsókn hennar um vegabréfsáritun og að engin gögn hafi verið fölsuð eða í ósamræmi við það sem beðið hafi verið um. Í umsókninni hafi m.a. komið skýrt fram að kærandi hafi átt að gista á heimili unnusta hennar og að hann sæi um alla fjármögnun ferðarinnar. Unnusti kæranda hafi verið í samskiptum við sendiráð Íslands í Peking fyrir framlagningu umsóknarinnar og hafi hvorki sendiráðið né Útlendingastofnun óskað eftir frekar gögnum eða útskýringum vegna umsóknarinnar. Í öðru lagi vísar kærandi til þess sem fram kemur í ákvörðun Útlendingastofnunar um að kærandi hafi, í símtali við starfsmann sendiráðs Íslands í Peking, lýst því yfir að hún hefði ekki ákveðið hvort hún myndi yfirgefa Ísland þar sem hún myndi hugsanlega ganga í hjónaband hér á landi. Í greinargerð þvertekur kærandi fyrir að hafa látið þessi orð falla og er fullyrt að einhver í afgreiðsluferlinu hafi skáldað ummælin upp og eignað henni. Kærandi hafi verið með flugmiða fram og til baka og viti að hún hafi ekki heimild til að ílengjast í öðru landi umfram heimild yfirvalda þess lands.
Í þriðja lagi vísar kærandi til umfjöllunar í ákvörðun Útlendingastofnunar um að vinkona hennar, sem hafi einnig sótt um vegabréfsáritun hingað til lands, hafi verið gift íslenskum ríkisborgara sem myndi einnig ferðast með þeim. Samkvæmt Útlendingastofnun hafi vinkona kæranda lýst þessu yfir í símtali við starfsmann sendiráðsins Íslands í Peking, en kærandi segir ummælin ósönn eða í besta falli gróflega rangtúlkuð. Er rakið að vinkona kæranda hafi verið gestgjafi unnusta kæranda í fyrstu ferð hans til Kína árið 2013 og hann þá gist á heimili hennar. Unnusti kæranda og vinkona hennar hafi orðið góðir vinir og hafi unnusti kæranda viljað endurgjalda vinkonu hennar gestrisnina. Þá hafi unnusti kæranda viljað að vinkona hennar kæmi með enda hafi kærandi ekkert ferðast að ráði nema innan Kína. Kærandi tali nær enga ensku, sé hrædd við að fljúga og hafi því þarfnast ferðafélaga. Að því er varðar staðhæfingu um að fyrrverandi eiginmaður vinkonu kæranda myndi ferðast með þeim byggir kærandi á því að það sé ósatt enda hafi unnusti hennar aðeins keypt flugmiða fyrir hana og vinkonu hennar. Fyrrverandi eiginmaður vinkonu kæranda hafi hins vegar ætlað að vera á hér á landi á sama tíma og hún og því hafi orð hennar hugsanlega verið rangtúlkuð af starfsmanni sendiráðs Íslands í Peking. Fram kemur að hjúskaparstaða vinkonu kæranda hafi ekki komið heimboði unnusta hennar við á nokkurn hátt, enda hafi unnusti kæranda boðið vinkonu hennar í heimsókn á eigin forsendum og vegna vinskapar þeirra.
Í fjórða lagi vísar kærandi til þess mats að ekki hafi verið unnt að ganga úr skugga um ætlun kæranda til að yfirgefa Schengen-svæðið áður en vegabréfsáritun hennar rynni út. Í þessu sambandi tekur kærandi fram að umsókn hennar hafi verið í samræmi við þær kröfur sem gerðar hafi verið og að öll gögn hafi verið frumrit. Þá hafi unnusti kæranda verið í stöðugum samskiptum við íslenska sendiráðið í Peking og Útlendingastofnun og margboðið að veita frekari upplýsingar ef einhver vafaatriði væru uppi í málinu. Hvorki sendiráðið né Útlendingastofnun hafi hins vegar óskað eftir frekari skýringum vegna umsóknarinnar. Í fimmta lagi vísar kærandi til umfjöllunar Útlendingastofnunar um þau atriði sem könnuð eru við mat á tengslum umsækjanda við heimaríki, t.d. varðandi atvinnu og fasteignir. Telur kærandi að í ákvörðun Útlendingastofnunar sé farið frjálslega með staðreyndir um þau skjöl og upplýsingar sem krafist sé að fylgi með umsókn um vegabréfsáritun, en t.d. sé hvergi kveðið á í lögum að það sé skilyrði að umsækjandi sé fasteignaeigandi.
Í sjötta lagi komi fram í hinni kærðu ákvörðun að kærandi hafi nýlega sagt upp vinnunni og selt íbúð í hennar eigu. Í greinargerð er rakið að kærandi hafi talsvert fyrir framlagningu umsóknar um vegabréfsáritun þurft að hætta vinnu vegna persónulegra ástæðna, sem einnig snerti heilsufar föður hennar. Í heimaríki kæranda séu fjölskyldubönd mjög sterk og annað óhugsandi en að börn sjái um foreldra sína ef þeir veikjast þannig að þeir eigi erfitt með að sjá um sig sjálfir. Fram kemur að kærandi hafi nægan pening sjálf til eigin framfærslu. Hvað varðar staðhæfingu um að kærandi hafi nýlega selt íbúð sína segir kærandi það vera bein ósannindi. Kærandi hafi áður verið í sambúð með manni og að þau hafi fest kaup á íbúð. Sambúðarmaki kæranda hafi hins vegar látist árið 2009 og þar sem kærandi hafi ekki getað staðið undir afborgunum á íbúðinni hafi hún selt hana árið 2009 eða 2010.
Í sjöunda lagi gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi metið tilgang ferðar hennar ótrúverðugan. Kærandi kveður efann mega rekja til rangfærslna og ósanninda í hinni kærðu ákvörðun og að ekki hafi verið byggt á réttum upplýsingum. Þá hafi unnusti kæranda algerlega óflekkað mannorð og ábyrgst ferð kæranda að öllu leyti. Ferð kæranda hingað til lands hafi verið hugsuð sem skemmtiferð fyrir hana og vinkonu hennar en ekki skipulögð til að fá þær til að gerast flóttamenn á Schengen-svæðinu. Í áttunda lagi telur kærandi, með vísan til framangreinds, að það sé fráleit niðurstaða að hún teljist „immigration risk“, eins og byggt hafi verið á í ákvörðun Útlendingastofnunar, en kærandi hafi ekki undan neinu eða neinum að flýja.
Í viðbótarathugasemdum kæranda kemur fram að hún hafi fengið endurrit á samtölum hennar við starfsmann sendiráðs Íslands í Peking vegna umsóknar hennar um vegabréfsáritun hér á landi. Kærandi byggir á því að samtölin hafi verið ítarlegri en endurritin gefi til kynna. Samkvæmt endurritinu kvaðst kærandi hafa hætt að vinna fyrir nokkrum mánuðum, sem hafi verið breytt í „nýlega“ í ákvörðun Útlendingastofnunar. Varðandi svör kæranda um að hún myndi mögulega ganga í hjúskap með unnusta sínum og flytja hingað til lands segir kæranda vanta talsvert inn í samtalið. Kærandi hafi verið spurð hvort hún hygðist giftast unnusta sínum og svarað því til að ef hann myndi biðja hennar myndi hún játast honum. Starfsmaður sendiráðsins hafi þá spurt hvort kærandi ætlaði að flytja til hingað til lands og hafi kærandi þá sagt að það væri óákveðið, en að ef unnusti hennar myndi biðja hennar og bjóða henni að flytja hingað til lands gæti hún hugsað sér það, ef henni litist vel á það. Tekur kærandi fram að hún hafi verið að tala um framtíðina, þ.e. hvað gæti gerst eftir ferðina hingað til lands. Spurningarnar hafi verið persónulegar og leiðandi og hafi kærandi hvergi gefið í skyn að hún hafi ætlað sér að verða eftir á hér á landi. Byggir kærandi á því að fullyrðing í ákvörðun Útlendingastofnunar um að hún hafi tjáð starfsmanni sendiráðsins að hún hafi ekki ákveðið hvort hún myndi yfirgefa Ísland eða ekki sé skáldskapur starfsmanna Útlendingastofnunar.
V. Niðurstaða
Um kæru þessa gilda lög um útlendinga nr. 80/2016 ásamt reglugerð um vegabréfsáritanir nr. 1160/2010, Schengen-samningurinn og verklagsreglur þess samnings.
Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga um útlendinga þurfa útlendingar að hafa vegabréfsáritun til að koma hingað til lands, nema annað sé ákveðið í reglum sem ráðherra setur. Ríkisborgarar Kína þurfa vegabréfsáritun til Íslands. Í 6. mgr. 20. gr. laga um útlendinga koma fram skilyrði til útgáfu vegabréfsáritunar og í 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir er tilgreint hvenær synja skuli um vegabréfsáritun. Heimilt er skv. fyrrgreindri 6. mgr. 20. gr. að veita útlendingi vegabréfsáritun sem gildir á öllu Schengen-svæðinu ef grunnskilyrðum a – h liða sömu greinar er fullnægt.
Samkvæmt 7. mgr. 20. gr. útlendingalaga skal vegabréfsáritun ekki veitt ef ástæða er til að vefengja uppgefinn tilgang ferðar útlendings hingað til lands eða réttmæti upplýsinga sem hann hefur veitt. Er þessi regla áréttuð í 8. mgr. ákvæðisins en þar kemur fram að við mat á umsókn um vegabréfsáritun skuli auk þjóðernis taka tillit til félagslegrar stöðu og hættu á að útlendingur dvelji lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt.
Með aðild að Schengen-samstarfinu og undirritun Brussel-samningsins þann 18. maí 1999 tókust íslensk stjórnvöld á hendur skyldu til að fylgja samræmdum reglum um útgáfu vegabréfsáritana. Hafa stjórnvöld sem annast afgreiðslu umsókna um vegabréfsáritanir mótað tilteknar verklagsreglur til að styðjast við, byggðar á efnisreglum Schengen–samningsins, en með aðild Íslands að Schengen-samstarfinu fylgir skuldbinding til þess að fylgja sameiginlegri stefnu að því er lýtur ferðum fólks, sbr. reglugerð Evrópuþingsins og Ráðsins (EB) nr. 810/2009 um vegabréfsáritanir.
Við veitingu vegabréfsáritana ber íslenskum stjórnvöldum sem einu af Schengen-ríkjunum ekki aðeins að ganga úr skugga um að öllum formskilyrðum sé fullnægt heldur einnig að meta hvort hætta sé talin á að viðkomandi útlendingur muni dvelja lengur á Schengen-svæðinu en honum er heimilt og/eða snúi ekki aftur til heimalands. Þessi skylda íslenskra stjórnvalda er lögfest í 8. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þannig er reynt af fremsta megni að stemma stigu við því að gildandi reglur um dvalarleyfi séu sniðgengnar með því að útlendingur sæki um vegabréfsáritun í staðinn. Í athugasemdum með frumvarpi til laga um útlendinga kemur fram að rétt sé að lögfesta ákveðin sjónarmið sem beri að miða við í mati á umsókn um vegabréfsáritun. Séu þessi sjónarmið í samræmi við markmið útlendingalaganna og hafi mótast í framkvæmd Schengen-ríkjanna. Ennfremur segir í athugasemdum með frumvarpinu að við mat á einstökum atriðum sé nauðsynlegt að taka tillit til reynslu og framkvæmdar annarra Schengen-ríkja. Leiði það af eðli samstarfsins að mikilvægt sé að samræmis sé gætt á þessu sviði svo sömu skilyrði gildi um vegabréfsáritanir á Schengen-svæðinu.
Samkvæmt 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir skal með fyrirvara um 1. mgr. 25. gr. reglugerðarinnar synjað um vegabréfsáritun í nokkrum tilvikum, m.a. ef umsækjandi getur ekki fært rök fyrir tilgangi og skilyrðum fyrirhugaðrar dvalar sinnar eða ef rökstudd ástæða er til að draga í efa ásetning hans til að yfirgefa yfirráðasvæði aðildarríkjanna áður en vegabréfsáritunin sem sótt er um rennur út. Til hliðsjónar bendir nefndin á að í dómaframkvæmd Evrópudómstólsins hvað varðar túlkun á 32. gr. reglugerðar nr. 810/2009 um vegabréfsáritanir sem svarar til 32. gr. reglugerðar nr. 1160/2010 um vegabréfsáritanir hefur verið talið að við mat á því hvort þar til bær yfirvöld skuli gefa út vegabréfsáritun sé ekki gerð krafa um að þau hafi fullvissu fyrir því hvort umsækjandi muni yfirgefa svæði aðildarríkis áður en áritun rennur út heldur sé hlutverk stjórnvalda fremur fólgið í að leiða í ljós hvort skynsamlegur vafi ríki í þessum efnum, sbr. til dæmis dómur í máli C-84/12 Koushkaki frá 19. desember 2013 (einkum 67.-69. mgr. dómsins).
Í B-kafla í viðauka 2 við reglugerð um vegabréfsáritanir eru tilgreind skjöl sem gera m.a. kleift að meta ásetning umsækjanda um að fara frá yfirráðasvæði aðildarríkjanna. Er þar vísað til miða til heimferðar eða hringferðar eða bókun slíks miða, sönnun þess að hlutaðeigandi eigi fé í búsetulandi, sönnun um starf, reikningsyfirlit banka, sönnun þess að hlutaðeigandi eigi fasteign, sönnun þess að hlutaðeigandi hafi aðlagast búsetulandinu, ættartengsl og starfsheiti. Samkvæmt framangreindu lúta þau skjöl sem lögð eru til grundvallar við mat á ásetningi umsækjanda um vegabréfsáritun um að yfirgefa Schengen-svæðið einkum að tengslum viðkomandi við heimaríki.
Íslenska sendiráðið í Peking tekur á móti og fer með meðferð umsókna um vegabréfsáritanir til Íslands sem lagðar eru fram í Peking, sbr. 10. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Þyki skilyrði ekki fyrir hendi til útgáfu áritunar er mál lagt fyrir Útlendingastofnun til ákvörðunar. Í gögnum málsins eru upplýsingar frá fulltrúa íslenska sendiráðsins í Peking þar sem fram kemur að kærandi sé frá Guangxi héraði í Kína sem sé „high-risk area“. Þá hafi kærandi nýlega sagt starfi sínu lausu og selt íbúð sína. Er greint frá því að kærandi hafi lýst því yfir að hún myndi mögulega gifta sig hér á landi ef henni líkaði dvölin. Kærandi hafi ekki getað sannað nægileg tengsl við heimaríki og var það mat fulltrúa sendiráðsins að of áhættusamt væri að veita henni vegabréfsáritun hér á landi. Lagði fulltrúinn því til að umsókn kæranda um vegabréfsáritun yrði synjað. Voru framangreind sjónarmið m.a. lögð til grundvallar í hinni kærðu ákvörðun til stuðnings því að draga í efa tilgang ferðar kæranda hingað til lands og ásetning hennar til að yfirgefa Schengen-svæðið áður en vegabréfsáritun hennar rynni út.
Í máli þessu liggur fyrir að kæranda var boðið hingað til lands af gestgjafa, þ.e. unnusta sínum sem er íslenskur ríkisborgari. Kveðst kærandi hafa kynnst unnusta sínum í brúðkaupi vinkonu sinnar í heimaríki árið 2013 og að þau hafi í framhaldinu tekið upp samband. Unnusti kæranda hafi heimsótt hana í þrjú skipti til heimaríkis, síðast í desember 2017. Gögn málsins bera með sér að unnusti kæranda hafi ætlað að standa straum af kostnaði vegna ferðarinnar hingað til lands og sjá kæranda fyrir gistingu á heimili sínu. Hafi tilgangur ferðarinnar verið að njóta samvista við hvort annað og ferðast um Ísland. Í gögnum málsins eru flugbókanir vegna ferðar kæranda frá heimaríki hingað til lands þann 15. júlí 2018 og frá Íslandi þann 13. ágúst sl.
Svo sem rakið hefur verið gerir kærandi margvíslegar athugasemdir við að Útlendingastofnun hafi dregið í efa ásetning hennar til yfirgefa Schengen-svæðið áður en vegabréfsáritun hennar rynni út. Vísar kærandi m.a. til þess að hún hafi ekki selt fyrrnefnda íbúð nýlega heldur árið 2009 eða 2010 í kjölfar þess að fyrrverandi eiginmaður hennar hafi látist. Þá hafi kærandi sagt starfi sínu lausu af persónulegum ástæðum, sem tengist m.a. því að faðir hennar þurfi á umönnun að halda, en kærandi sé nú búsett í foreldrahúsum. Fram kemur að kærandi hafi nægt fé til að framfleyta sjálfri sér. Kærandi byggir einnig á því að spurningar til hennar í samtali við starfsmann sendiráðs Íslands í Peking varðandi hugsanlegan hjúskap hér á landi hafi verið leiðandi og að hún hafi hvergi gefið í skyn að hún ætlaði sér að verða eftir hér á landi.
Við mat á því hvort ástæða sé til að draga tilgang ferðar kæranda hingað til lands í efa sem og ásetning kæranda um að yfirgefa Schengen-svæðið áður en vegabréfsáritun hennar hefði runnið út verður aðallega horft til þess sem fram kom í samskiptum hennar við íslenska sendiráð í Peking vegna umsóknar hennar um vegabréfsáritun og til þeirra atriða sem tilgreind eru í B-hluta í viðauka 2 við reglugerð um vegabréfsáritanir um tengsl kæranda við heimaríki. Í gögnum málsins eru endurrit af samtölum kæranda við fulltrúa íslenska sendiráðsins Í Peking.
Kærandi telur að talsvert vanti inn í endurrit af samtali hennar við fulltrúa sendiráðsins. Þó svo að kærunefnd telji það betri stjórnsýslu að hljóðrita viðtalið eða gefa umsækjenda færi á að gera athugasemdir við endurritið áður en það er lagt til grundvallar við ákvörðun um veitingu vegabréfsáritunar telur kærunefnd að endurritið gefi, eins og hér stendur á og að teknu tilliti til athugasemda kæranda, nægilega skýra mynd af því sem fram fór á milli kæranda og sendiráðsins. Verður því við úrlausn málsins einnig byggt á því sem fram kemur í endurriti viðtalsins.
Í samtalinu var kærandi spurð hvað tæki við hjá henni þegar hún myndi snúa aftur til Kína eftir dvöl hér á landi. Kvað kærandi að hún myndi leita sér að vinnu. Kærandi á ekki fasteign í heimaríki og er án atvinnu og verða efnahagsleg tengsl hennar við heimaríki því ekki metin sterk. Skiptir í þessu sambandi ekki máli hvort kærandi hafi selt fasteign sína árið 2009 eða 2010 eins og hún hefur lýst eða nýlega. Liggur einnig fyrir það mat sendiráðs Íslands í Peking að áhættusamt sé að veita vegabréfsáritanir til einstaklinga sem eru búsettir í sama héraði í heimaríki og kærandi.
Samkvæmt öllu framangreindu tekur kærunefnd undir það mat Útlendingastofnunar að rökstudd ástæða hafi verið til að draga í efa ásetning kæranda um að fara frá Schengen-svæðinu áður en vegabréfsáritun hennar rynni út, sbr. b-lið 1. mgr. 32. gr. reglugerðar um vegabréfsáritanir. Hafi þannig verið hætta á að kærandi myndi dveljast lengur á Schengen-svæðinu en henni hafi verið heimilt, sbr. 8. mgr. 20. gr. laga um útlendinga. Verður hin kærða ákvörðun um að synja kæranda um vegabréfsáritun til landsins því staðfest.
Í tilefni umfjöllunar Útlendingastofnunar um áhrif hugleiðinga kæranda, um hugsanlegan hjúskap hennar við íslenskan mann á Íslandi, á veitingu vegabréfsáritunar til hennar vill kærunefnd árétta að slík fyrirætlan útilokar ekki veitingu vegabréfsáritunar séu önnur skilyrði áritunarinnar uppfyllt. Í þessu sambandi er vísað til úrskurðar kærunefndar nr. 95/2015 í máli KNU15060006.
Úrskurðarorð
Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.
The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.
Fyrir hönd kærunefndar útlendingamála,
Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður