Hoppa yfir valmynd
20. júní 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 19/2006

Þriðjudaginn, 20. júní 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 31. mars 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 12. janúar 2006 um útreikning greiðslna til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Þann 15. desember s.l. fæddist okkur hjónum drengur og sótti ég um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði. Í bréfi dagsettu 12. janúar fékk ég útreikning og byggi ég þá röksemdarfærslu á þremur þáttum.

Á því 24 mánaða tímabili sem útreikningurinn nær til eru aðeins 20 tekjumánuðir skýrist það af því að ég eignaðist barn á árinu 2003 og kaus að vera heima hjá því um nokkurra mánaða skeið umfram þann tíma sem að ég átti rétt á fæðingarorlofsgreiðslum.

Á þessu 24 mánaða tímabili fékk ég fæðingarorlofsgreiðslur í 6 mánuði og eins og alkunna er eru þær 75 % af launum. Við útreikning fæðingarorlofsgreiðslna vegna síðara barnsins reiknast því 75 % hlutfall af 75 % launum.

Að auki þykir mér það einkennilegt að ekki skuli miðað við launagreiðslur á árinu 2005 en barnið fæddist þegar liðnir voru 350 dagar af árinu! Það er því augljóst að launatekjur á árinu 2005 gefa miklu betri mynd af þeim tekjum sem fjölskyldan hafði á 12 mánaða tímabili áður en barnið fæddist og illskiljanlegt af hverju miða á við annað tímabil!

Vil ég með bréfi þessu kæra fyrrnefnda greiðsluáætlun. Ofangreind rök þykja mér öll hníga að því að það sé bæði sanngjarnt og eðlilegt að nefndin endurskoði fyrr útreiknaðar greiðslur þar sem að mér er ekki „refsað“ fyrir að eiga börn með skömmu millibili (75% hlutfall), að sá aukatími sem ég kaus að verja með fyrra barninu sé til einhvers metinn og að tekið sé tillit til tekna síðustu 12 mánaða áður en barnið fæddist.“

 

Með bréfi, dagsettu 5. apríl 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 8. maí 2006. Í greinargerðinni segir:

„Með bréfi lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 1. desember 2005, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi verið samþykkt frá 5. desember 2005 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af skráðum meðaltekjum hans samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2003 og 2004. Bar bréfið með sér að útreikningur greiðslna kæranda væri miðaður við tekjur hans árin 2003 og 2004.

Samhliða bréfi þessu var kæranda sent annað bréf, dags. 1. desember 2005, þar sem fram kom að af hálfu lífeyristryggingasviðs hefði verið litið svo á að kærandi hefði verið þátttakandi á vinnumarkaði tímabilin nóvember 2003 og júní til ágúst 2004, í skilningi laga- og reglugerðarákvæða um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, þrátt fyrir að hann hefði verið tekjulaus þann tíma. Kæranda var hins vegar gefinn kostur á, teldi hann sig ekki hafa verið þátttakanda á vinnumarkaði allt tímabilið, að leggja fram gögn til staðfestingar á því.

Kærandi óskaði eftir breyttu fyrirkomulagi töku fæðingarorlofs og sendi Lífeyristryggingasvið kæranda greiðsluáætlun því til staðfestingar, dags. 28. desember 2005.

Lífeyristryggingasviði barst að lokum yfirlýsing um nám kæranda frá Lánasjóði íslenskra námsmanna, dags. 27. desember 2005, þar sem fram kom að kærandi hafði stundað nám á tímabilinu 1. september 2003 til 31. maí 2004. Með hliðsjón af yfirlýsingunni taldi lífeyristryggingasviði sér heimilt að líta svo á að kærandi hafi verið utan vinnumarkaðar í nóvember 2003, og var kæranda því send ný greiðsluáætlun, dags. 12. janúar 2006.

Barn kæranda fæddist 15. desember 2005, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, stofnast réttur til töku fæðingarorlofs við fæðingu barns.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 2. mgr. 13. gr. laganna segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Þá segir einnig að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Í 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks segir enn fremur að mánaðarleg greiðsla til foreldris á innlendum vinnumarkaði, sem sé starfsmaður og leggi niður störf, skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Þar segir einnig að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald og að jafnframt teljist til launa þær greiðslur sem koma til samkvæmt a.-d.-liðum 3. gr. reglugerðarinnar.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi laga nr. 95/2000, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. er síðan talið upp í eftirfarandi fjórum stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Í ljósi þess hve þátttaka á innlendum vinnumarkaði er skilgreind með víðtækum hætti samkvæmt framangreindum reglugerðarákvæðum hefur lífeyristryggingasvið tekið upp það verklag við útreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði til foreldra að taka inn í útreikninga á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði alla mánuði þess tveggja ára tímabils sem miða skal við samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof, nema fyrir liggi staðfesting á að foreldrið hafi ekki verið þátttakandi á vinnumarkaði tiltekið tímabil. Jafnframt hefur foreldrum, sem hafa haft tekjulausa mánuði á viðmiðunartímabilinu eða það tekjulága að ætla megi að starfshlutfall sé minna en 25%, verið sent bréf eins og bréf það sem kæranda var sent, þar sem gerð er grein fyrir að lífeyristryggingasvið hafi litið svo á að foreldrið hafi starfað á innlendum vinnumarkaði allt viðmiðunartímabil útreiknings greiðslnanna en foreldrinu gefinn kostur á að leggja fram gögn til staðfestingar á að það hafi verið utan vinnumarkaðar og óska eftir endurskoðun á útreikningi greiðslna, telji það sig ekki hafa verið þátttakanda á vinnumarkaði tiltekið tímabil.

Hvað varðar fyrsta og annan hluta röksemdafærslu kæranda, þá með hliðsjón af framangreindu, sem og úrskurði úrskurðarnefndarinnar í máli nr. 33/2005, dags. 15. nóvember 2005, telur lífeyristryggingasvið rétt að líta svo á að kærandi hafi starfað á innlendum vinnumarkaði alla almanaksmánuði áranna 2003 og 2004, í skilningi laga nr. 95/2000 og reglugerðar nr. 1056/2004, að nóvembermánuði 2003 undanskildum, þ.e. 23 mánuði. Einnig telur lífeyristryggingasvið óumdeilanlegt að tekjur kæranda tímabilið desember 2003 til og með maí 2004, sem lagðar eru til grundvallar meðaltali heildarlauna kæranda 2003-2004, séu rétt laun kæranda í skilningi 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 6., sbr. 1. tl. 7. gr. laga nr. 113/1990 um tryggingagjald.

Hvað varðar þriðja hluta röksemdafærslu kæranda þá telur lífeyristryggingasvið að 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, kveði skýrt á um það að miða skuli við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns, þegar meðaltal heildarlauna foreldris er áætlað. Má einnig geta að í athugasemdum við 4. gr. frumvarps þess er varð að lögum nr. 90/2004 var m.a. tekið fram að með tekjuári væri hér átt við almanaksár. Er þessi tilhögun m.a. talin mikilvæg til að samræmi sé á milli kerfa Fæðingarorlofssjóðs og skattyfirvalda.

Með vísan til alls framangreinds telur lífeyristryggingasvið því að áðurnefnt bréf lífeyristryggingasviðs til kæranda, dags. 12. janúar 2006, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 16. maí 2006, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 90/2004 (ffl.), segir að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna og skuli miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald.

Samkvæmt 11. mgr. 13. gr. ffl. er félagsmálaráðherra heimilt að kveða í reglugerð nánar á um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem sett er á grundvelli laga nr. 95/2000 teljast auk launa og þóknana samkvæmt lögum um tryggingagjald greiðslur sem koma til skv. a-d liðum 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar einnig til launa. Greiðslur í orlofi eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi, sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar teljast þannig með launum við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt því skal telja greiðslur í fyrra fæðingarorlofi kæranda með launum hans við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Í 3. málsl. 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabilinu sem foreldri hefur starfað á innlendum vinnumarkaði. Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar 1056/2004 er kveðið á um að það að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi IV., V. og VII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum, feli í sér að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði. Til þátttöku á vinnumarkaði telst enn fremur orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti sbr. a-lið 2. mgr. 3. gr.

Barn kæranda fæddist 15. desember 2005. Viðmiðunartímabil til grundvallar við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eru því árin 2003 og 2004 sbr. 2. mgr. 13. gr. ffl.. Hvorki ákvæði ffl. né reglugerðar nr. 1056/2004 heimila að vikið sé frá reglu 2. mgr. 13. gr. um viðmiðunartímabil tekjuútreiknings. Í hinni kærðu ákvörðun er á því byggt að kærandi hafi verið á vinnumarkaði allt viðmiðunartímabilið utan nóvember 2003.

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum var kærandi með öllu tekjulaus í nóvember 2003 og mánuðina júní til ágúst 2004. Ágreiningslaust er að kærandi var ekki á vinnumarkaði í nóvember 2003. Á tímabilinu desember 2003 til maí 2004 var kærandi í fæðingarorlofi og fékk greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði. Samkvæmt gögnum málsins hóf hann störf hjá nýjum vinnuveitanda, B í september 2004. Með hliðsjón af því telur úrskurðarnefndin nægilega fram komið að kærandi hafi ekki verið á vinnumarkaði á tímabilinu júní til ágúst 2004. Samkvæmt því telst kærandi hafa starfað í 20 mánuði á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabilinu.

Útreikningur á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skal byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Tryggingastofnun ríkisins skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda, sbr. 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga 90/2004. Samkvæmt gögnum málsins liggur skýrt fyrir hvaða tekjur kærandi hafði á viðmiðunartímabilinu og staðfestar voru af skattyfirvöldum enda er ekki ágreiningur um þær fjárhæðir.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja um breytingu á útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skal á því byggt að kærandi hafi starfað 20 mánuði á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili tekjuútreiknings, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 13. gr.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um útreikning greiðslna til A úr Fæðingarorlofssjóði er hafnað. Við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði skal á því byggt að kærandi hafi starfað 20 mánuði á innlendum vinnumarkaði á viðmiðunartímabili tekjuútreiknings, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 13. gr.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta