Hoppa yfir valmynd
19. september 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 21/2006

Þriðjudaginn, 19. september 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 21. apríl 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 18. apríl 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 28. mars 2006 um að synja kæranda um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

„Í nóvember 2005 féll úrskurður í hæstarétti á hendur Vinnuveitanda mínum. „B vegna vangoldinna launa fyrir árin 2004 og 2005. Í dómnum segir að uppsagnir B á hluta starfstengdra kjara séu ólögmætar. Í janúar sl. greiddi B svo öllum starfsmönnum sínum áðurnefnd kjör. Í framhaldi af því 17. febrúar fór ég þess á leit við Tryggingastofnun Ríkisins (TR) að fá endurreiknað upphæð vegna fæðingarorlofs vegna vangoldinna launa fyrir árið 2004. Því er hafnað að hálfu TR með vísan í bréf dagsett 28. mars 2006. Þar sem ljóst þykir að ekki hafa verið reiknaðar fullar tekju að hálfu TR fyrir árið 2004 fer ég hér með þess á leit að úrskurður TR verði endurskoðaður og mér reiknaðar þær tekjur sem ég sannarlega hafði fyrir þetta tímabil samkv. dómi hæstaréttar.“

 

Með bréfi, dagsettu 27. apríl 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 3. maí 2006. Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á beiðni um endurútreikning á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði.

Með umsókn, dags. 11. febrúar 2005, sem móttekin var 14. febrúar 2005, sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og skyldu greiðslur hefjast um þremur mánuðum eftir áætlaðan fæðingardag barns hans.

Umsókn kæranda fylgdu vottorð vegna væntanlegrar barnsfæðingar, dags. 16. febrúar 2005, tilkynning um fæðingarorlof til vinnuveitanda, dags. 11. febrúar 2005, og tveir launaseðlar, dags. 28. janúar 2005 og 11. febrúar 2005.

Þá lágu fyrir við afgreiðslu umsóknar kæranda upplýsingar úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra og upplýsingar úr þjóðskrá Hagstofu Íslands.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 29. mars 2005, var honum tilkynnt að umsókn hans um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði hafi verið samþykkt frá 29. mars 2005 og að mánaðarleg greiðsla næmi 80% af meðaltekjum hans samkvæmt skrám skattyfirvalda tekjuárin 2003 og 2004. Lífeyristryggingasviði barst breytt tilkynning um fæðingarorlof til vinnuveitanda, 14. júní 2005 og var kæranda tilkynnt um breytingu greiðslna, dags. 23. júní 2005. Þá barst lífeyristryggingasviði tilkynning frá kæranda þar sem hann óskaði eftir því að greiða ekki iðgjald í stéttarfélag af greiðslum frá sjóðnum og var honum send tilkynning um breytingu greiðslna, dags. 29. júní 2005.

Kærandi óskaði eftir endurreikningi með bréfi, dags. 17. febrúar 2006, á upphæð fæðingarorlofs í ljósi leiðréttra tekna fyrir tekjuárin 2004 og 2005. Með bréfi lífeyristryggingasviðs, dags. 28. mars 2006, var kæranda tilkynnt um synjun á endurreikningi upphæðar fæðingarorlofs. Í bréfinu var tekið fram að í 3. mgr. 15. gr. fæðingar- og foreldraorlofslaga nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004, væri kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins leitar staðfestingar á hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuáranna skv. 2. og 5. mgr. laganna. Taldi lífeyristryggingasvið að ekki væri unnt að taka tillit til fram kominna leiðréttinga á tekjum kæranda þar sem þær komu ekki fram í upplýsingum úr skrám ríkisskattstjóra um tekjur kæranda á árunum 2004 og 2005.

Þá barst lífeyristryggingasviði breytt tilkynning um fæðingarorlof til vinnuveitanda, 11. apríl 2006, og var kæranda send breytt greiðsluáætlun með bréfi, dags. 24. apríl 2006.

Barn kæranda fæddist 5. apríl 2005, en samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, þá stofnast réttur til fæðingarorlofs við fæðingu barns.

Í 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Í 1. mgr. segir að foreldri öðlist rétt til greiðslna úr sjóðnum eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns. Í 4. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks með breytingum er svo nánar kveðið á um inntak samfellds starfs.

Þá greinir í 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 að mánaðarleg greiðsla til foreldris skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna, miðað við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns. Eins er tiltekið að til launa teljist hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingargjald.

Um útreikning á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi fer samkvæmt 3.-4. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004. Er skýrt tekið fram í ákvæðinu að útreikningur skuli byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Hefur lífeyristryggingasvið túlkað umrætt ákvæði sem um tæmandi talningu á heimildum til gagnaöflunar. Sú túlkun sækir sér m.a. stoð í athugasemdum við 5. gr. frumvarps um breytingu á lögum nr. 95/2000, sbr. lög nr. 90/2004. En með breytingu ákvæðisins voru heimildir umsækjenda til að leggja fram viðbótargögn, ef umsækjandi teldi upplýsingar úr ofangreindum skrám ekki réttar, felldar niður. Töldu frumvarpshöfundar að erfitt gæti verið að sannreyna slík gögn sem umsækjendur sendu inn sjálfir og að engin trygging væri fyrir því að greitt hafi verið tryggingargjald af gögnum sem ekki hafi verið skilað inn til skattyfirvalda.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að greiðslur til kæranda úr Fæðingarorlofssjóði hafi réttilega verið ákvarðaðar í greiðsluáætlun, dags. 24. apríl 2006. Ennfremur telur stofnunin að beiðni kæranda um endurreikning á upphæð fæðingarorlofs hafi réttilega verið hafnað með bréfi, dags. 28. mars 2006.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 15. maí 2006, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.

Kærandi vísar til þess að í nóvember 2005 hafi fallið dómur í Hæstarétti vegna vangoldinna launa frá vinnuveitanda hans sem greiða hefði átt á árunum 2004 og 2005. Starfsmannahald B hefur staðfest að kærandi hafi með vísan til niðurstöðu dóms Hæstaréttar fengið vangoldin laun fyrir árið 2004 samtals X kr. þ.e. vegna skerts ferðatíma X kr. og fargjaldagreiðslur X kr. Greiðslan átti sér stað í janúar 2006. Við útreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þann 29. mars 2005 og 23. júní 2005 lagði Tryggingastofnun ríkisins til grundvallar tekjuárin 2003 og 2004 samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK.

Mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns í fæðingarorlofi skal nema 80% af meðaltali heildarlauna og skal miða við tvö tekjuár á undan fæðingarári barns eða því ári er barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur sbr. 2. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 (ffl.) sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004. Barn kæranda er fætt 5. apríl 2005 og er viðmiðunartímabil útreiknings meðaltals heildarlauna samkvæmt því árin 2003 og 2004.

Samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 95/2000 sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) skal útreikningur til foreldris í fæðingarorlofi byggjast á upplýsingum sem Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda vegna tekjuáranna skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. ffl. Tryggingastofnun ríkisins skal leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna tekjuára skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. Síðan segir í 15. gr. a. sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004: „Hafi breytingar orðið á tekjuskattsálagningu foreldris vegna tekna sem greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði eru byggðar á, sbr. 3. mgr. 15. gr., skal Tryggingastofnun ríkisins leiðrétta greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði til samræmis við álagningu skattyfirvalda.“

Við framangreinda lagabreytingu nr. 90/2004 var eftirfarandi heimild 3. mgr. 15. gr. laganna felld brott: „Telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skal það leggja fram gögn því til staðfestingar.“

Það er mat úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála með hliðsjón af ákvæðum 3. mgr. 15. gr. ffl., sbr. 5. gr. laga nr. 90/2004 og 1. mgr. 15. gr. a. ffl., sbr. 6. gr. laga nr. 90/2004, að ekki sé að svo stöddu hægt að fallast á kröfu kæranda um leiðréttingu greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þar sem engin breyting hefur verið gerð á tekjuskattsálagningu ársins 2004.

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um endurútreikning greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta