Hoppa yfir valmynd
26. september 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 32/2006

Þriðjudaginn, 26. september 2006

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

  

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 17. júlí 2006 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dagsett 13. júlí 2006.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dagsettu 21. júní 2006 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir meðal annars:

Undirrituð fékk neitun um fæðingarorlof skv. meðfylgjandi gögnum. Ég kom til landsins frá B-landi 30. nóvember 2005, þar sem ég hafði stundað nám frá því í ágúst 2005, en námið var áætlað 1 ár til að byrja með. Ég varð ófrísk og sökum veikinda á upphafsmánuðum meðgöngu og skv. læknisráði (sjá meðf. gögn) gat ég ekki stundað námið og ákvað því að koma heim til Íslands og freista þess að ná heilsu til þess að geta unnið. Það skal tekið fram að læknar í B-landi ráðlögðu mér að fljúga ekki til Íslands fyrr en um mánaðarmótin nóv./des. 2005. Ég skrifaði undir ráðningarsamning við E-fyrirtæki þann 13.desember 2005 en treysti mér ekki til að hefja störf, vegna veikindanna, fyrr en 2. janúar 2006, sem ég og gerði. Sjúkradagpeningar voru afgreiddir til mín vegna þessara daga í desember 2005 og var það vel. Þar sem ég hafði ekki hafið störfin hjá E-fyrirtæki sem ég var ráðin til voru þessi dagpeningar greiddir mér sem námsmanni, sem ég auðvitað var ekki á þessu tímabili. Ég starfaði síðan, að eins miklu leyti og mér var unnt, á F fram til 14. maí 2006 en frá þeim tíma og fram til áætlaðs fæðingardags barnsins, sem var 13. júní, fékk ég sjúkradagpeninga.

Ég hef starfað á Íslandi öll ár frá því ég var 14 ára gömul, með námi og í sumarstörfum nær eingöngu við umönnun aldraðra og síðan við umönnun fatlaðra barna. Ég hóf nám í D-borg, eins og áður sagði, í ágúst 2005 og ég lít svo á að mér sé refsað vegna þess að ég skráði lögheimili mitt úr landi, sem mér var þó ráðlagt og raunar sagt að ég yrði að gera, af starfsmönnum Hagstofu.

Barnið mitt fæddist 9. júní 2006, faðirinn er B-lenskur og kemur varla til með að koma að nokkru leyti að uppeldi dóttur okkar. Rök mín eru því eftirfarandi:

Frá 1. janúar 2006 til fæðingardags dóttur minnar eru 5 mánuðir og 9 dagar. Það vantar sem sagt 15 virka daga (þ.e. vinnudaga) upp á að ég hafi starfað fulla 6 mánuði á leikskólanum.

Sjúkradagpeningagreiðslan frá 13.12.2005 er mér veitt sem námsmanni, sem er ekki rétt, því samkvæmt meðf. gögnum var ég hætt í náminu löngu fyrir þann tíma.

Þar sem ég varð fyrir því óláni að verða veik á meðgöngunni og fékk þessa marg umtöluðu dagpeninga frá 13.12.05, tel ég að um sé að ræða, að hefði ég ekki verið veik, hefði ég verið í vinnunni, svo þar koma 14 virkir dagar til viðbótar við þá daga sem að ofan greinir. Svo niðurstaða mín er sú, hefði barnið fæðst á áætluðum fæðingardegi en ekki 4 dögum fyrr væri ég með fulla 6 mánuði unna, en af því að barnið fæddist 9. júní en ekki 13.6. eins og til stóð, þá vantar, (skv. mínum útreikningum) 1 dag upp á fulla 6 mánuði í starfi.“

 

Með bréfi, dagsettu 19. júlí 2006, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dagsett 16. ágúst 2006. Í greinargerðinni segir:

„Í 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, er kveðið á um rétt foreldra til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði. Þar segir í 1. mgr. að foreldri á innlendum vinnumarkaði öðlist rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Í 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar er síðan talið upp í eftirfarandi fjórum stafliðum hvað teljist jafnframt til þátttöku á vinnumarkaði,

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Barn kæranda er fætt 9. júní 2006. Sex mánaða viðmiðunartímabil er, samkvæmt framangreindu ákvæði 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, 9. desember 2005 fram að fæðingardegi barnsins. Til að öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði þurfti kærandi því að hafa verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði tímabilið 4. september 2005 til 3. mars 2006.

Í gögnum málsins kemur fram að kærandi fluttist erlendis til að hefja nám 15. ágúst 2005. Í kjölfar veikinda á meðgöngu hættir kærandi svo námi og flytur hingað til lands 30. nóvember, samkvæmt þjóðskrá Hagstofu Íslands. Einnig liggur ekki annað fyrir en að kærandi hafi verið á vinnumarkaði hér á landi þangað til hún fór til náms.

Þá liggur það fyrir að kærandi var í fullu starfi frá 3. janúar til 14. febrúar 2006. Þá fékk kærandi greidda sjúkradagpeninga frá 15. febrúar 2006 til 17. mars 2006. 18. mars 2006 hóf kærandi að nýju störf í lækkuðu starfshlutfalli, 62,7%, fram til 20. maí 2006. Var hún frá því á biðtíma og fékk greidda sjúkradagpeninga fram að fæðingu barnsins.

Ljóst er því að kærandi var starfandi og þátttakandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, frá 3. janúar 2006 og fram að fæðingardegi barnsins.

Hvað varðar tímabilið 9. desember 2005 til 2. janúar 2006 þá var kærandi á biðtíma og fékk greidda sjúkradagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins sem námsmaður, sbr. 9. mgr. 38. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, með síðari breytingum, i.f. Í c-lið 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 er kveðið á um að sá tími sem foreldri fær greidda sjúkradagpeninga eða er á biðtíma eftir þeim teljist til tíma sem foreldri er þátttakandi á vinnumarkaði. Þó er ákvæðið skilyrt við að foreldri fái sjúkradagpeninga, enda hafi það látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum.

Verður framangreint ákvæði ekki skýrt á annan veg en að það útiloki því með að sá tími er foreldri fær greidda sjúkradagpeninga vegna þess að veikindi hafi valdið töfum á námi, teljist til tíma er foreldri er þátttakandi á vinnumarkaði.

Leit lífeyristryggingasvið því svo á að afgreiðsla sjúkradagpeninga til kæranda fyrir tímabilið 9. desember 2005 til 2. janúar 2006 gæti ekki, ein og sér, valdið því að kærandi teldist þátttakandi á vinnumarkaði á tímabilinu.

Þá hefur kærandi bent á að hún hafi undirritað ráðningarsamning við vinnuveitanda sinn 13. desember 2006. Telur lífeyristryggingasvið að ekki sé unnt að líta svo á að kærandi hefði hafið starfssamband við vinnuveitanda sinn í skilningi 3. gr. reglugerðar 1056/2004, fyrr en henni hafi verið kleift að hefja störf, sem hún og gerði í janúarbyrjun 2006.

Þá hefur að framan verið gerð grein fyrir því að kærandi átti ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið.

Verður því, samkvæmt framansögðu, vart á annað fallist en að kærandi uppfylli ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, sbr. og 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Þá ber að geta þess að í 10. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000, sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004 er kveðið á um að foreldri á innlendum vinnumarkaði sem á rétt til fæðingarorlofs, skv. 8. gr. laganna, en uppfyllir ekki framangreint skilyrði 1. mgr. 13. gr. eigi rétt á fæðingarstyrk skv. 18. gr. laganna.

Var kærandi afgreiddur um fæðingarstyrk á grundvelli framangreinds ákvæðis, sbr. greiðsluáætlun, dags. 3. júlí 2006.

Með vísan til framangreinds telur Tryggingastofnun ríkisins að greiðslur fæðingarstyrks til kæranda hafi réttilega verið ákvarðað í greiðsluáætlun, dags. 3. júlí 2006. Ennfremur telur stofnunin að umsókn kæranda um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hafi réttilega verið synjað með bréfi, dags. 30. júní 2006.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dagsettu 25. ágúst 2006, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

 

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með bréfi dagsettu 8. september 2006, þar segir meðal annars:

„Ég undirritaði samning við E-fyrirtæki 13. des. 2005 sem ég sendi afrit af til Tryggingastofnunar og jafnframt til úrskurðarnefndar. Eins og fram kemur í gögnum í málinu gat ég ekki hafið störf vegna veikinda á meðgöngu fyrr heldur en 2. janúar 2006. Ég skil því ekki hvaða rök eru fyrir því að ég fékk sjúkradagpeninga sem námsmaður, þegar öll þau gögn sem ég sendi til TR sýna fram á annað. Ég varð jú að hætta í námi, ekki fresta því eins og fram kemur í greinargerð Tryggingastofnunar og finnst mér undarleg sú afgreiðsla í ljósi þess að öll gögn varðandi skólann og skólalokin voru þeim send eins og réttilega er getið í gagnayfirliti þeirra. Eins og oft hefur komið fram bæði með innsendum gögnum og með bréfaskrifum mínum, varð ég að hætta náminu vegna veikinda og sendi því til staðfestingar, læknisvottorð, yfirlýsingu frá skólanum ásamt endurgreiðslu bréfi vegna skólagjalda, til TR. Svo ég enn og aftur tíunda það, að ég skil ekki að litið sé á mig sem námsmann hjá Tryggingastofnun ríkisins. Frestun á námi er í mínum huga að ég sjái fram á að ég muni hefja nám aftur innan einhvers ákveðins tíma, það er hinsvegar óvíst.Ég get ekki skilið og mun sennilega aldrei skilja að ég skuli missa allan rétt til alls hér á landi við það að yfirgefa landið í um það bil 3 mánuði. Ég hef alltaf unnið og borgað mína skatta og skyldur til íslenska ríkisins.“

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Samkvæmt 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) sbr. 4. gr. laga nr. 90/2004, öðlast foreldri rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns eða þann tíma þegar barn kemur inn á heimili við ættleiðingu eða varanlegt fóstur, sbr. 2. og 4. mgr. 8. gr.

Í 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er skilgreint hvað felist í því að starfa á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaganna, þ.e. að starfa í annarra þjónustu í a.m.k. 25% starfshlutfalli í hverjum mánuði eða að starfa við eigin rekstur, án tillits til félagsforms, í því umfangi að hlutaðeiganda sé gert að standa mánaðarlega, eða með öðrum reglulegum hætti samkvæmt ákvörðun skattyfirvalda, skil á tryggingagjaldi.

Til atvinnuþátttöku skv. 2. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar telst jafnframt:

a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur, er á biðtíma eftir slíkum bótum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldrið skráð sig án atvinnu samkvæmt lögum nr. 12/1997, um atvinnuleysistryggingar. Hið sama gildir eigi foreldri rétt á greiðslum úr Tryggingasjóði sjálfstætt starfandi einstaklinga samkvæmt lögum nr. 46/1997, um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga, er á biðtíma eftir dagpeningum eða hefði átt rétt á þeim hefði foreldri sótt um þá til Tryggingastofnunar ríkisins samkvæmt lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.

Kærandi ól barn 9. júní 2006. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 9. desember 2005 fram að fæðingardegi barns. Samkvæmt gögnum málsins ritaði kærandi undir ráðningarsamning við E-fyrirtæki vegna starfa á F þann 13. desember 2005. Tilgreint var í ráðningarsamningi að ráðning hæfist 2. janúar 2006. Kærandi fékk greidda sjúkradagpeninga sem námsmaður, að loknu 14 daga biðtíma, frá 15. desember 2005 til 2. janúar 2006, en þá hóf hún störf samkvæmt ráðningarsamningi.

Ágreiningslaust er að frá 2. janúar 2006 fram að fæðingardegi barns þann 9. júní 2006 var kærandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi fæðingar- og foreldraorlofslaga, sbr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi óvinnufær frá 1. desember 2005 til 2. janúar 2006 er hún hóf störf hjá E-fyrirtæki. Samkvæmt upplýsingum sem aflað var hjá sjúkratryggingasviði Tryggingastofnunar ríkisins átti kærandi ekki rétt á greiðslu sjúkradagpeninga sem launþegi þann tíma þar sem hún hafði ekki verið í starfi síðustu tvo mánuðina áður en hún varð óvinnufær.

Þar sem kærandi lét ekki af launuðum störfum af heilsufarsástæðum og átti ekki rétt til greiðslu sjúkradagpeninga sem launþegi verður hún ekki talin hafa verið á innlendum vinnumarkaði í desember 2005, í skilningi laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof, sbr. c. lið 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Kærandi uppfyllir þannig ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir fæðingardag barns sbr. 1. og 2. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 1056/2004. Samkvæmt því ber að staðfesta þá ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

  

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta