Hoppa yfir valmynd
17. desember 2020 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 433/2020 Úrskurður

 

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 17. desember 2020 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 433/2020

í stjórnsýslumáli nr. KNU20110027

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 10. nóvember 2020 kærði [...], f.d. [...], ríkisborgari Gíneu (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. október 2020, um að synja honum um endurnýjun á dvalarleyfi, sbr. 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.

Af kæru má ráða að kærandi krefjist þess að hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.            Málsmeðferð

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sótti kærandi um alþjóðlega vernd hér á landi þann 2. ágúst 2012 hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarasvæðinu. Kærandi kvaðst heita [...], vera fæddur […] og vera ríkisborgari Gíneu. Þar sem kærandi framvísaði ekki gögnum sem voru til þess fallin að sanna auðkenni hans var hann boðaður í aldursgreiningu. Niðurstaða aldursgreiningar, dags. 24. ágúst 2012, var að kærandi væri u.þ.b. […] að aldri eða eldri. Ekki væri þó hægt að útiloka að uppgefinn aldur, […] ára, væri réttur. Þann 10. september 2012 sendi Útlendingastofnun beiðni á spænsk yfirvöld vegna dvalar kæranda þar í landi. Í svari, sem barst þann 26. október 2012, kom fram að kærandi væri þekktur á Spáni sem [...], f.d. [...], ríkisborgari Senegal. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun þann 27. mars 2014 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 31. mars 2014, var kæranda veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum skv. 12. gr. f. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Ákvörðun Útlendingastofnunar var birt kæranda þann 10. apríl 2014 og var dvalarleyfi hans gefið út til eins árs. Hefur það dvalarleyfi verið endurnýjað nokkrum sinnum, síðast með gildistíma til 13. nóvember 2019.

Þann 9. desember 2019 sótti kærandi um endurnýjun á dvalarleyfi sínu. Kærandi fékk senda tilkynningu frá Útlendingastofnun, dags. 21. apríl 2020, þar sem fram kom að til skoðunar væri hjá stofnuninni að synja umsókn hans á grundvelli 59. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 og almennra stjórnsýslureglna. Með vísan til 12. gr. laga um útlendinga og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 var kæranda gefinn kostur á að tjá sig um efni málsins í viðtali þann 6. maí 2020. Þá var honum veittur frestur til 16. júní s.á. til að leggja fram gögn til stuðnings framburði sínum, en engin gögn bárust stofnuninni innan veitts frests. Með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 27. október 2020, var umsókn kæranda um endurnýjun dvalarleyfis synjað. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 10. nóvember sl. Í tölvupósti umboðsmanns kæranda til kærunefndar, dags. 9. desember sl., kom fram að kærandi hygðist ekki ætla að skila greinargerð í málinu.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kærandi hafi, við komu til landsins árið 2012, greint frá því að hann heiti [...] og væri fæddur […], þ.e. […] ára að aldri. Kærandi hafi því verið metinn barn að aldri. Þá hafi hann greint frá því í viðtali hjá stofnuninni þann 27. mars 2014 að hann hafi ekki komið til Spánar fyrr en árið 2011. Dvöl hans þar í landi hafi ekki verið löng og hafi hann og frændi hans ferðast saman frá Tenerife til Danmerkur með flugi. Þaðan hafi þeir farið til Íslands sem laumufarþegar um borð í skipi.

Fram kemur að þann [...] hafi kærandi verið sakfelldur í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. b. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og dæmdur til fangelsisrefsingar í tíu mánuði. Kærandi hafi áfrýjað dóminum til Landsréttar og með dómi Landsréttar frá [...] hafi kærandi verið dæmdur til fangelsisrefsingar í tólf mánuði fyrir fyrrgreint brot. Er vísað til samantektarskýrslu lögreglu, dags. 22. febrúar 2018, vegna rannsóknar á ofangreindu broti kæranda. Komi þar m.a. fram að lögregla hafi við húsleit lagt hald á tvö gínesk vegabréf, annars vegar á nafninu [...], f.d. […], og hins vegar á nafninu [...], f.d. [...]. Rannsókn lögreglu á vegabréfunum hafi leitt í ljós að hið fyrrnefnda vegabréf væri breytifalsað en það síðarnefnda væri ófalsað. Þá hafi lögregla lagt hald á fjölda gagna frá Spáni, þ. á m. dvalarleyfisskírteini frá 2006, tvær útgefnar „kennitölur“, bankabækur og hjónavígsluvottorð, sem staðfesti að kærandi hafi búið á Spáni um nokkurra ára skeið undir nafninu [...]. Lögregla hafi auk þess lagt hald á minnislykla og minniskort úr farsíma sem á hafi verið ljósmyndir er staðfesti að frásögn kæranda af ferðaleið hans til Íslands standist ekki. 

Með vísan til framangreinds, og að teknu tilliti til framburðar kæranda í skýrslutökum hjá lögreglu og viðtali hjá hjá Útlendingastofnun þann 6. maí 2020, var það mat stofnunarinnar að kærandi heiti í raun [...], f.d. hans sé [...] og hann hafi, gegn betri vitund, veitt stofnuninni rangar upplýsingar þegar hann hafi sótt um alþjóðlega vernd hér á landi. Að mati Útlendingastofnunar hefðu ofangreindar upplýsingar haft svo verulega þýðingu við ákvörðunartöku í máli kæranda að forsendur hinnar upprunalegu ákvörðunar væru brostnar. Að framangreindu virtu taldi Útlendingastofnun að skilyrði ákvæðis 5. mgr. 74. gr. laga um útlendinga um endurnýjun dvalarleyfis á grundvelli mannúðarsjónarmiða væru ekki uppfyllt. Umsókn kæranda var því synjað.

Með ákvörðun Útlendingastofnunar var kæranda frávísað og veittur 30 daga frestur til að yfirgefa landið á grundvelli 2. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Þá var kæranda tilkynnt um að honum kynni að verða brottvísað á grundvelli 98 og 101 gr. laga um útlendinga, yfirgæfi hann ekki landið innan veitts frests.

IV.       Málsástæður og rök kæranda

Kærandi framvísaði ekki greinargerð í málinu. 

V.        Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Líkt og að ofan er rakið var kæranda veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum skv. 12. gr. f. laga nr. 96/2002 um útlendinga þann 31. mars 2014. Í minnisblaði Útlendingastofnunar, dags. 31. mars 2014, eru forsendur þess að kæranda var veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum raktar. Er m.a. vísað til þess að kærandi hafi komið úr virkilega erfiðum félagslegum aðstæðum í heimaríki sínu, Gíneu, og þá hafi hann verið fórnarlamb mansals á Spáni. Var honum veitt dvalarleyfi af mannúðarástæðum með vísan til hinna erfiðu og íþyngjandi félagslegu og almennu aðstæðna sem biðu hans í heimaríki auk þess sem litið var til lengd dvalar hans hér á landi. Með vísan til 5. mgr. sama ákvæðis var dvalarleyfi kæranda gefið út til eins árs og endurnýjun leyfisins háð því að forsendur fyrir veitingu þess myndu ekki breytast. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hefur kærandi fengið dvalarleyfi sitt endurnýjað nokkrum sinnum, síðast þann 11. september 2019 með gildistíma til 13. nóvember 2019. Kærandi sótti um endurnýjun á dvalarleyfi sínu að nýju þann 9. desember 2019 og var umsókn hans synjað þann 27. október 2020 með vísan til 5. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Samkvæmt 2. málsl. 5. mgr. 74. gr. laga um útlendinga er Útlendingastofnun heimilt að endurnýja dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða í allt að tvö ár í senn enda hafi forsendur fyrir veitingu leyfisins ekki breyst.

Fyrirliggjandi í gögnum málsins er skýrsla frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, dags. 22. febrúar 2018, sem ber heitið „Samantekt vegna rannsóknar lögreglu á málefnum [...] og [...]“. Er vísað til þess að rannsókn lögreglu hafi hafist vegna tilkynningar um heimilisofbeldi sem tilkynnt hafi verið lögreglu þann 19. nóvember 2017, en þá hafi lögregla verið send að heimili þáverandi kærustu kæranda. Hafi hún tjáð lögreglu að hún hefði þá komist að því að kærandi væri hugsanlega ekki sá sem hann segðist vera. Við rannsókn lögreglu hafi komið í ljós að kærandi hafi, undir nafninu [...], fengið dvalarleyfi fyrir barn á Spáni árið 2006 sem runnið hafi út árið 2007, er hann hafi náð […] ára aldri. Hafi fundist dvalarleyfiskort undir því nafni með mynd af honum og fingrafari í gögnum hans. Kærandi hafi því sannarlega notað nafnið [...] og verið staddur á Spáni árið 2006. Við leit á heimili kæranda hafi komið í ljós vegabréf á nafninu [...], frá Gíneu, sem lögregla hafi látið rannsaka, en vegabréfið hafi reynst ófalsað. Fyrra vegabréf sem haldlagt hafði verið á nafninu [...] hafi reynst falsað. Í samantektinni kemur fram að kærandi hafi, undir nafninu [...], verið kvæntur konu að nafni [...], fd. […], og hafi brúðkaupsdagur þeirra verið 29. október 2010 á Tenerife. Hafi allmargir pappírar varðandi þetta fundist við rannsókn lögreglu, m.a. hjónavígsluvottorð, leyfi til giftingar, staðfesting á giftingunni o.fl. Á einu skjalinu hafi verið uppgefið vegabréfsnúmer en það sé sama númer og á hinu ófalsaða vegabréfi. Þá hafi fundist fæðingarvottorð á nafninu [...], fd. [...] fæddum í Gíneu, en ekki væri búið að sannreyna uppruna þess. Hafi kærandi í skýrslutöku hjá lögreglu árið 2017 játað að hafa notað nafnið [...] en kvaðst hafa notað nafnið í þeim tilgangi að flytja frá Spáni til annars Evrópulands, auk þess að hafa fengið dvalarleyfi á Spáni undir þessu nafni. Hafi hann búið í Madríd er hann var með dvalarleyfið.

Við frekari rannsókn hafi komið í ljós að kærandi hafi verið með gilt dvalarleyfi á Spáni til 29. nóvember 2015 og að fyrrverandi maki kæranda hafi sótt um skilnað við hann á Tenerife. Kærandi hafi verið yfirheyrður í lok desember 2018 á Litla hrauni þar sem hann hafi játað að hafa greint rangt frá vissum atriðum við komu sína til Íslands, m.a. hvaða leið hann hafi komið. Hafi hann játað að hafa komið með flugvél til Íslands frá Barcelona. Þá hafi hann játað að hafa ekki greint frá því að hafa verið með gilt dvalarleyfi á Spáni við komuna til Íslands en hann hafi þó haldið sig við fyrri framburð um uppruna sinn, þ.e. að rétt nafn hans væri [...]. Við meðferð máls kæranda hjá Héraðsdómi Reykjavíkur og Landsrétti vegna framangreinds sakamáls gegn kæranda er vísað til hans sem [...].

Að virtum gögnum málsins, þ. á. m. ofangreindri samantektarskýrslu lögreglu, skjalarannsóknarskýrslna lögreglu, upplýsingum frá spænskum yfirvöldum þann 19. desember 2017, skýrslutöku af kæranda hjá lögreglu þann 28. desember 2017 og viðtals við kæranda hjá Útlendingastofnun þann 6. maí 2020, telur kærunefnd ljóst að forsendur fyrir veitingu dvalarleyfis kæranda hafi breyst verulega. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós óyggjandi upplýsingar, þ. á m. um auðkenni kæranda, stöðu hans á Spáni og ferðaleið til Íslands, sem stangist á við framburð hans er var grundvöllur fyrir veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum skv. 12. gr. f. þágildandi laga um útlendinga nr. 96/2002. Þá hafi kærandi ekki framvísað gögnum eða veitt trúverðugar skýringar á misræmi í framburði hans og gagna sem lögreglan aflaði við rannsókn sína. Því er það mat kærunefndar að kærandi sé ekki sá sem hann kvaðst vera er hann lagði fram umsókn sína um alþjóðlega vernd árið 2012 og er trúverðugleiki frásagnar hans af aðstæðum hans í heimaríki því brostinn og verður frásögn hans þar af leiðandi ekki lögð til grundvallar. Að framangreindu virtu telur kærunefnd að Útlendingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um endurnýjun á dvalarleyfi hans á grundvelli mannúðarsjónarmiða, enda hafi forsendur fyrir veitingu leyfisins breyst og má segja að upphaflegar forsendur fyrir veitingu þess séu ekki lengur til staðar.

Í 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga segir að áður en tekin er ákvörðun í máli útlendings skal hann eiga þess kost að tjá sig um efni máls skriflega eða munnlega enda komi ekki fram í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft að mati viðkomandi stjórnvalds. Sambærilega efnisreglu er að finna í 13. gr. stjórnsýslulaga. Af gögnum málsins er ljóst að kæranda var gefið tækifæri á að tjá sig um hinar framkomnu upplýsingar við meðferð málsins hjá Útlendingastofnun, þ. á m. í viðtali þann 6. maí sl. Þá var honum veittur frestur til 16. júní sl. til að framvísa gögnum framburði sínum til stuðnings. Var meðferð málsins því í samræmi við 13. gr. stjórnsýslulaga, sbr. 1. mgr. 12. gr. laga um útlendinga.

Með vísan til alls framangreinds er ákvörðun Útlendingastofnunar staðfest.

 

 

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

 

 

 

Jóna Aðalheiður Pálmadóttir

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                               Þorbjörg Inga Jónsdóttir

 


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta