Hoppa yfir valmynd
25. september 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 139/2011

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 25. september 2012 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A nr. 139/2011.

 

1.

Málsatvik og kæruefni

 

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 3. ágúst 2011, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að stofnunin hefði á fundi sínum 29. júlí 2011 fjallað um rétt kæranda til atvinnuleysistrygginga. Á fundinum var tekin sú ákvörðun að stöðva greiðslu atvinnuleysisbóta til kæranda á grundvelli 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, og endurkrefja kæranda um ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 235.705 kr. með 15% álagi á grundvelli 39. gr. sömu laga. Kærandi vildi ekki una þessari ákvörðun og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða með erindi, dags. 7. október 2011. Kærandi krefst þess að fallið verði frá endurkröfu á hendur honum og að bótaréttur hans sé virtur fram að þeim tíma er kærandi fékk vinnu aftur. Vinnumálastofnun krefst þess að viðurkennt verði að stofnuninni hafi verið heimilt að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda, að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysistrygginga frá 6. maí til 19. júní 2011 og að kæranda beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 235.705 kr.

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 7. febrúar 2011. Í júlí barst Vinnumálastofnun tilkynning um tilfallandi tekjur frá kæranda. Í athugasemd með tilkynningu segir kærandi að hann sé með VSK-númer á sinni kennitölu. Í ljósi þeirra upplýsinga leitaði Vinnumálastofnun eftir frekari gögnum um rekstrarfyrirkomulag á starfsemi kæranda. Kom þá í ljós að kærandi hafði opnað rekstur á eigin kennitölu 6. maí 2011.

Í ljósi fyrirmæla f-liðar 1. mgr. 18. gr., sbr. einnig 20. gr., laga um atvinnuleysistryggingar voru greiðslur til kæranda stöðvaðar enda uppfyllti kærandi ekki skilyrði laganna frá 6. maí 2011. Ákvörðun þessi var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 3. ágúst 2011, og var kæranda jafnframt gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur frá 6. maí til 19. júní 2011 að fjárhæð 235.705 kr. en í þeirri fjárhæð er 15% álag.

Eins og fram kemur í tölvupóstsamskiptum kæranda við þjónustufulltrúa Vinnumálastofnunar var kæranda kunnugt um að ákvörðun stofnunarinnar var komin til vegna þess að almenn skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga eru ekki uppfyllt nema hann hafi stöðvað rekstur.

 

Í kæru sinni, dags. 7. október 2011, bendir kærandi á að stofnun VSK-númersins hafi verið vegna kaupa á trillu sem hann hugðist róa um sumarið. Kærandi hafði samband við Vinnumálastofnun þar sem hann hafði heyrt af úrræði í formi styrks/bóta fyrir fólk sem vildi hefja eigin rekstur allt að sex mánuðum. Það hefði hentað kæranda þar sem vitað mál hafi verið að engin laun væru í útgerðinni fyrsta árið, ekkert frekar en í öðrum nýjum fyrirtækjum, en þar sem útgerð flokkist ekki undir nýsköpun eða frumkvöðlastarfsemi hafi kærandi ekki talist gildur í það úrræði.

Kærandi kveður Vinnumálastofnun hafa bent sér á að opna VSK-númer og ef hann hefði einhverjar tekjur af útgerðinni myndi hann tilkynna þær á síðu stofnunarinnar. Við stofnun VSK-númersins hafi kærandi orðið að gefa upp áætlaðar tekjur sem hann ritaði 50.000 kr. á mánuði þótt þær væru ekki svo háar. Því er kæranda óskiljanlegt hvers vegna honum hafi verið refsað fyrir að hafa farið eftir ráðleggingum Vinnumálastofnunar. Honum hafi ekki verið tjáð það fyrr en hann hafi hringt í stofnunina eftir að hann fékk endurkröfuna að bannað væri að hefja eigin rekstur meðan viðkomandi þiggur bætur.

Kærandi bendir á að hann hafi aldrei þegið neinar bætur og hafi dregið það eins lengi og hægt hafi verið. Bótatími kæranda sé nokkrir mánuðir en hann hafi enga möguleika á að endurgreiða þessa kröfu komi til þess að hún standi. Kærandi hafi nú fengið tímabundna vinnu við smíðar og þiggi ekki bætur.

 

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 1. mars 2012, vísar stofnunin máli sínu til stuðnings til f- og g-liðar 18. gr. laganna, en samkvæmt þeim sé eitt af skilyrðum fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklings að hann hafi stöðvað rekstur og leggi fram staðfestingu um stöðvun reksturs, sbr. 21. gr. laganna. Hvorki sjálfstætt starfandi einstaklingur né launamaður í skilningi 3. gr. laga um atvinnuleysistryggingar uppfylli skilyrði laganna, hefji hann rekstur eða haldi áfram rekstri samhliða töku atvinnuleysisbóta. Samkvæmt 20. gr. laganna teljist rekstur stöðvaður hafi atvinnuleitandi tilkynnt til launagreiðendaskrár ríkisskattstjóra að hann hafi stöðvað rekstur og að öll starfsemi hafi verið stöðvuð. Sé Vinnumálastofnun gert að líta til hreyfinga í virðisaukaskattsskrá ríkisskattstjóra við mat á því hvort starfsemi hafi verið stöðvuð.

Vinnumálastofnun telur sér ekki vera heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til atvinnuleitanda á sama tímabili og rekstur hans sé opinn í skilningi laganna.

Í máli þessu liggi fyrir yfirlit yfir reiknað endurgjald þar sem fram komi að kærandi hafi opnað rekstur 6. maí 2011. Kærandi hafi ekki mótmælt því að hafa stofnað rekstur á þeim tíma sem um ræði en haldi því fram að hann hafi verið að fylgja ráðleggingum fulltrúa Vinnumálastofnunar. Í tölvupósti til Vinnumálastofnunar segist kærandi hafa talað við þjónustufulltrúa í síma um mál sitt og honum hafi verið bent á að gera þetta bara beint, vera á bótum og tilkynna allar tekjur og ef þær yrðu miklar myndu bæturnar bara minnka á móti. Kærandi hafi í framhaldi opnað VSK-númer og hafið rekstur. Í erindi sínu segi kærandi að honum hafi ekki verið ljóst að óheimilt væri að hefja rekstur á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur hjá stofnuninni. Við athugun á máli kæranda kom í ljós að umrædd samskipti hafi ekki verið skráð í tölvukerfi stofnunarinnar. Vinnumálstofnun geti því ekki fallist á það að fulltrúi stofnunarinnar hafi veitt kæranda leiðbeiningar um að hefja starfsemi á því rekstrarformi sem samræmist ekki skilyrðum laga um atvinnuleysistryggingar.

Kærandi hafi frá upphafi tilkynnt um tilvonandi störf sín til Vinnumálastofnunar og ekki á nokkurn hátt reynt að halda störfum sínum leyndum fyrir stofnuninni eða gert tilraun til að halda nauðsynlegum upplýsingum frá stofnuninni. Samkvæmt upplýsingum úr tölvukerfi Vinnumálastofnunar og samskiptasögu stofnunarinnar hafi kærandi tilkynnt að hann væri að starfa á tímabilinu. Þótt ekki komi til skoðunar að beita atvinnuleitanda viðurlögum á grundvelli laga um atvinnuleysistryggingar telur Vinnumálastofnun sér ekki heimilt að greiða atvinnuleysisbætur til einstaklings sem ekki uppfyllir almenn skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 8. mars 2012, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum fyrir 22. mars 2012. Engar frekari athugasemdir bárust frá kæranda.

Í september 2012 aflaði úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða nánari upplýsinga hjá B, lögfræðingi hjá Vinnumálastofnun, á þeirri staðhæfingu kæranda að Vinnumálastofnun hafi bent honum á að opna VSK-númer og ef hann hefði einhverjar tekjur af rekstrinum myndi hann tilkynna þær á síðu stofnunarinnar. Af hálfu B kemur fram að eins og fram komi í greinargerð Vinnumálastofnunar sé ekkert skráð um þessi umræddu „samskipti“ í kerfinu hjá stofnuninni. Almennar bollaleggingar eða almennar fyrirspurnir frá einstaklingum séu ekki skráðar í kerfið nema viðkomandi gefi upp kennitölu sína. Yfirleitt fylgi kennitölur ekki slíkum spurningum. B kveðst þó þora að fullyrða að fulltrúi Vinnumálastofnunar hafi ekki veitt upplýsingar símleiðis um að atvinnuleitandi mætti hefja rekstur samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta, án þess að tilkynna slíkt til stofnunarinnar.

Úrskurðarnefndin ræddi símleiðis við kæranda, 14. september 2012, og innti hann eftir nánari upplýsingum um símtal sitt við þjónustufulltrúa Vinnumálastofnunar. Hann kvað fulltrúann vera konu sem hefði haft starfsstöð í Reykjavík og hún hefði veitt honum þær upplýsingar sem hann hefði fært fram við meðferð málsins. Aðspurður kvaðst hann ekki vita nafn konunnar sem hann ræddi við.

 

2.

Niðurstaða

 

Sjálfstætt starfandi einstaklingar eru tryggðir samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar þegar þeir verða atvinnulausir skv. 1. gr., sbr. b-lið 3. gr. laganna. Í IV. kafla laganna er fjallað um skilyrði fyrir atvinnuleysistryggingum sjálfstætt starfandi einstaklinga. Samkvæmt f- og g-lið 1. mgr. 18. gr. laganna telst sjálfstætt starfandi einstaklingur tryggður samkvæmt lögunum ef hann hefur stöðvað rekstur, sbr. 20. gr., og ef hann leggur fram staðfestingu um stöðvun rekstrar, sbr. 21. gr.

Í málinu er ágreiningslaust að kærandi stofnaði VSK-númer 6. maí 2011 og hóf þannig eigin rekstur. Með því er staðfest að kærandi var starfandi sem sjálfstætt starfandi einstaklingur á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur. Samkvæmt f- og g-lið 1. mgr. 18. gr. laga um atvinnuleysistryggingar átti kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta.

Kærandi kveðst hins vegar hafa fengið þau ráð hjá Vinnumálastofnun að opna VSK-númer og ef hann fengi tekjur af starfseminni ætti hann að tilkynna þær á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Engum gögnum er til að dreifa sem staðfesta þessa frásögn kæranda, til dæmis er ekkert skráð um þetta atriði í samskiptasögu Vinnumálastofnunar. Kærandi veit ekki deili á þeim starfsmanni Vinnumálastofnunar sem hann kveðst hafa fengið þessar leiðbeiningar frá og fram hefur komið af hálfu Vinnumálastofnunar að starfsmenn stofnunarinnar eigi ekki að veita upplýsingar símleiðis um að atvinnuleitandi megi hefja rekstur samhliða greiðslu atvinnuleysisbóta, án þess að tilkynna slíkt til stofnunarinnar. Með vísan til framanritaðs er óvarlegt að leggja til grundvallar við úrlausn máls þessa að kærandi hafi fengið rangar leiðbeiningar Vinnumálastofnunar sem síðan urðu til þess að kærandi hóf eigin atvinnurekstur í byrjun maí 2011.

Það leiðir af ofangreindu að rétt var af hálfu Vinnumálastofnunar að stöðva greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda. Jafnframt átti kærandi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrir tímabilið 6. maí til 19. júní 2011. Í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að standa skil á ofgreiddum atvinnuleysisbótum ásamt 15% álagi. Ekki er ágreiningur um það á milli aðila að sú fjárhæð sé 235.705 kr.

 

Með hliðsjón af framansögðu, og með vísan til þeirra raka sem Vinnumálastofnun hefur fært fram fyrir hinni kærðu ákvörðun verður hún staðfest.


 

Úrskurðarorð

 

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 29. júlí 2011 í máli A þess efnis að kærandi eigi ekki rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta er staðfest.

Kærandi endurgreiði ofgreiddar atvinnuleysisbætur að fjárhæð samtals 235.705 kr.

 

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta