„Tungumálið er mikilvægasta verkfærið okkar. Á leikskólastiginu er lagður grunnur að menntun einstaklingsins og við vitum hversu mikilvægur málþroski hvers og eins er fyrir félags- og vitsmunaþroska síðar meir. Við erum stolt af því öfluga starfi sem fram fer í leikskólum hér á landi og sjálf tel ég mikil sóknarfæri felast þar, meðal annars í því að efla málþroska og byrjendalæsi leikskólabarna,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra sem ávarpaði þátttakendur á námskeiði leikskólakennara um hljóðakerfi og hljóðanám í Gerðubergi í morgun.
Fjöldi leikskóla notar hljóðanám með markvissum hætti. Viðfangsefni námskeiðsins í dag var kennsluefni og nálgun sem kennd er við hundinn Lubba en þar er unnið á skapandi hátt með mál og læsi. Höfundar þess efnis eru talmeinafræðingarnir Eyrún Ísfold Gísladóttir og Þóra Másdóttir en þær hafa unnið að útfærslu efnisins og þróun í rúm 10 ár. Góð reynsla hefur verið af notkun þess en efnið hentar breiðum hópi, til dæmis bráðgerum börnum, tvítyngdum sem og börnum sem eiga í erfiðleikum með lestur og ritun.