Hoppa yfir valmynd
18. ágúst 2016 Dómsmálaráðuneytið

Úrskurður nr. 281/2016

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

Þann 18. ágúst 2016 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 281/2016

í stjórnsýslumáli nr. KNU16030055

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Með stjórnsýslukæru, dags. 23. mars 2016, kærði […] hdl., f.h. […], kt. […], ríkisborgara […] (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. mars 2016, um að synja kæranda um dvalarleyfi á Íslandi.

Í kæru er gerð krafa um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda verði veitt heimild til dvalar á Íslandi á grundvelli sérstakra tengsla við landið skv. 1. mgr. 12. gr. f. laga nr. 96/2002 um útlendinga.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 30. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests, sbr. 3. mgr. 30. gr. sömu laga.

II. Málsástæður og rök kæranda

Samkvæmt gögnum málsins sótti kærandi um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar með íslenskum ríkisborgara skv. 13. gr. laga um útlendinga þann […]. Það leyfi var veitt og sótti kærandi um endurnýjun á leyfinu þann 25. september 2015. Umsókn kæranda var synjað með ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 9. mars 2016. Kærandi kærði ákvörðunina til kærunefndar útlendingamála þann 23. mars 2016. Greinargerð og gögn frá kæranda bárust kærunefnd samtímis kæru. Með tölvupósti, dags. 13. apríl 2016, var óskað eftir athugasemdum Útlendingastofnunar vegna kærunnar ef einhverjar væru auk afrits af gögnum málsins. Umbeðin gögn bárust kærunefnd þann 15. og 22. apríl 2016.

Kæra þessi hefur hlotið hefðbundna málsmeðferð, gagnaöflun er lokið og er málið hér með tekið til úrskurðar.

III. Ákvörðun Útlendingastofnunar

Ákvörðun Útlendingastofnunar um synjun á leyfi á grundvelli hjúskapar var byggð á því að […]. Þar sem […] taldi stofnunin skilyrði 13. gr. laga um útlendinga ekki uppfyllt.

Ákvörðun um synjun dvalarleyfis vegna sérstakra tengsla byggði Útlendingastofnun á því að félagsleg tengsl í gegnum atvinnu, sem myndast hefðu á einu ári, gætu ekki talist svo sterk og sérstök að þau uppfylltu skilyrði 12. gr. f laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin fjölskyldutengsl, dvalartíma eða önnur atriði ekki vera til staðar sem fullnægðu skilyrðum ákvæðisins. Stofnunin taldi ákvæðið enn fremur vera undanþáguákvæði sem bæri að túlka þröngt. Þar af leiðandi hafnaði stofnunin umsókn kæranda.

IV. Málsástæður og rök kæranda

Kærandi gerir þá kröfu að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og kæranda veitt dvalarleyfi hér á landi.

Í greinargerð með kæru vísar kærandi til leiðbeinandi sjónarmiða um veitingu dvalarleyfis á grundvelli sérstakra tengsla við landið, sem gefin voru út af innanríkisráðuneytinu þann 10. mars 2014, þar sem fram komi að erfitt sé að setja viðmið um tímalengd dvalar og því þurfi að fara fram heildstætt mat í hverju einstöku máli. Þessu til stuðnings vísar kærandi einnig til úrskurða kærunefndar útlendingamála, einkum úrskurðar í máli nr. 122/2015. Vegna stefnu innanríkisráðherra samkvæmt leiðbeinandi sjónarmiðunum telur kærandi mikilvægt að túlkun á útlendingalögum sé honum í vil.

Kærandi vísar til þess að þótt hann hafi haft dvalarleyfi í rúmt ár þá hafi hann dvalið löglega á landinu í um 21 mánuð og stundað fasta atvinnu í 17 mánuði. Kærandi telur því ekki rétt að vísa til þess að hann hafi aðeins dvalið hér í eitt ár. Hann hafi leitast við að aðlagast íslensku samfélagi eins og best verði á kosið, […], búi í leiguhúsnæði, sé mikilvægur starfsmaður í vinnu sinni og í raun ómissandi fyrir vinnuveitanda sinn, greiði skatta sína hér á landi og stundi félagslíf. Hann hafi ekki gerst brotlegur við lög þann tíma sem hann hefur dvalið hér og hafi myndað félagsleg tengsl við land og þjóð. Yrði hann sendur aftur til heimalands síns sé ólíklegt að hann fengi þar atvinnu. Á dvalartíma sínum hafi hann myndað þau tengsl með dvöl sinni og atvinnu sem fjallað er um í 1. mgr. 12. gr. f laga um útlendinga. Þá uppfylli kærandi einnig skilyrði 11. gr. laganna.

V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í máli þessu er til úrlausnar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sbr. 13. gr. laga um útlendinga, og sérstakra tengsla við landið, sbr. 12. gr. f laganna.

Um kæru þessa gilda lög um útlendinga, með síðari breytingum, og reglugerð um útlendinga nr. 53/2003, ásamt áorðnum breytingum.

Í 13. gr. laganna kemur fram að nánustu aðstandendur íslensks ríkisborgara geti samkvæmt umsókn fengið dvalarleyfi. Nánustu aðstandendur í skilningi 13. gr. eru maki, sambúðarmaki, börn viðkomandi yngri en 18 ára á hans framfæri og í hans forsjá, ættmenni hans eða maka í beinan legg eldri en 66 ára og á þeirra framfæri. Í greinargerð sem fylgdi með kæru kemur fram að kærandi og eiginkona hans hafi slitið samvistum og samkvæmt gögnum frá Þjóðskrá var þeim veittur lögskilnaður þann […]. Það er því niðurstaða kærunefndar að skilyrði til útgáfu dvalarleyfis vegna hjúskapar við íslenskan ríkisborgara séu ekki uppfyllt í tilviki kæranda.

Verður því næst tekið til skoðunar hvort Útlendingastofnun hafi verið rétt að synja kæranda um dvalarleyfi á grundvelli 12. gr. f laga um útlendinga.

Samkvæmt 12. gr. f laga um útlendinga er heimilt að veita útlendingi dvalarleyfi, þótt almennum skilyrðum fyrir dvalaleyfi sé annars ekki fullnægt, ef rík mannúðarsjónarmið standa til þess eða vegna sérstakra tengsla útlendings við landið. Í ákvæðinu eru ekki veittar neinar leiðbeiningar um hvað teljist vera sérstök tengsl við landið en ákvæðið felur í sér að stjórnvöldum er falið að meta í einstökum tilvikum hvort tengsl útlendings séu svo sérstök að þau réttlæti veitingu dvalarleyfis á þessum grundvelli. Við mat á sérstökum tengslum hefur verið litið til þess hve lengi einstaklingur hefur dvalið löglega á landinu, eða hvort hann eigi hér nákomna ættingja, án þess þó að hann falli undir skilgreiningu á hugtakinu aðstandandi skv. 13. gr. laganna. Fær það stoð í greinargerð með ákvæði 2. mgr. 11. gr. eldri laga um útlendinga, sem nú er að finna efnislega óbreytt í 12. gr. f laga um útlendinga, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008. Þá er einnig horft til annarra tengsla við landið svo sem vegna atvinnu, félagslegrar eða menningarlegrar þátttöku.

Í almennum athugasemdum við 12. gr. f laganna, sbr. 10. gr. laga nr. 86/2008, er áréttað að um undanþáguheimild sé að ræða, sem meta þarf í hverju tilviki fyrir sig hvort ástæða sé til að beita. Því ber að túlka ákvæðið þröngt. Kærandi hefur dvalið löglega á landinu frá […]. Sá tími verður almennt að teljast of stuttur til að tengsl hafi myndast sem teljast sérstök í skilningi ákvæðisins. Fyrir liggur að kærandi er mikilvægur starfsmaður hjá vinnuveitanda sínum en það sjónarmið er eitt og sér er ekki næg ástæða til að veita dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla. Í greinargerð sem fylgdi kæru kemur fram að kærandi hafi myndað fjölskyldutengsl við fyrrverandi tengdafjölskyldu sína. Slík venslatengsl teljast, að mati kærunefndar, ekki hafa áhrif á rétt til dvalar á grundvelli sérstakra tengsla við landið. Þá þykir ekki tækt að byggja dvalarleyfi vegna sérstakra tengsla á fullyrðingu kæranda um að ólíklegt sé að hann muni hafa atvinnu í heimalandi sínu. Heildstætt mat á högum kæranda og tengslum hans við landið leiðir því til þess að skilyrði 12. gr. f laga um útlendinga teljast ekki uppfyllt.

Í greinargerð með kæru var vísað til úrskurðar kærunefndar útlendingamála í máli nr. 122/2015. Í umræddu máli hafði aðili dvalið á landinu í um fimm ár og tekið virkan þátt í skipulagðri félagsstarfsemi. Er ekki fallist á að umrætt mál sé sambærilegt máli kæranda.

Að öllu framangreindu virtu og í ljósi þess að ekkert annað er fram komið sem bendir til þess að kærandi hafi sérstök tengsl við Ísland eða að aðstæður hans í heimalandi séu með einhverjum þeim hætti að fallið geti undir ákvæði 12. gr. f er það mat kærunefndar að staðfesta beri ákvörðun Útlendingastofnunar.

Úrskurðarorð

Ákvörðun Útlendingastofnunar er staðfest.

The decision of the Directorate of Immigration is affirmed.

Hjörtur Bragi Sverrisson Pétur Dam Leifsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta