Hoppa yfir valmynd
15. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 186/2022 - Úrskurður

 

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 186/2022

Miðvikudaginn 15. júní 2022

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Unnþór Jónsson lögfræðingur.

Með rafrænni kæru, móttekinni 4. apríl 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 29. mars 2022 um upphafstíma greiðslna barnalífeyris vegna náms.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með rafrænni umsókn, móttekinni 16. mars 2022, sótti kærandi um greiðslu barnalífeyris vegna náms frá 9. apríl 2022. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. mars 2022, var umsókn kæranda samþykkt frá 1. maí 2022 til 31. ágúst 2022.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 4. apríl 2022. Með bréfi, dags. 25. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 9. maí 2022, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 10. maí 2022. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að umsókn kæranda um barnalífeyri vegna náms hafi verið afgreidd frá 1. maí 2022 til 31. ágúst 2022. Sótt hafi verið um greiðslur frá afmælisdegi kæranda, þ.e. 9. apríl 2022, þar sem meðlagsgreiðslur hafi fallið niður 8. apríl 2022.

Kærandi spyr af hverju barnalífeyrir hafi ekki verið afgreiddur frá þeim tíma sem óskað hafi verið eftir. Óskað sé eftir leiðréttingu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að kærður sé upphafstími á greiðslu barnalífeyris vegna náms, en með bréfi stofnunarinnar, dags. 29. mars 2022, hafi verið samþykkt að greiða kæranda barnalífeyri vegna náms frá 1. maí 2022.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð sé Tryggingastofnun heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir foreldrar séu látnir, enn fremur ef foreldrar séu ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir.

Þá segi í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að einnig skuli beita V. og VI. kafla laga nr. 100/2007 um almannatryggingar við framkvæmd laga þessara.

Í 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar segi að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og skuli bætur reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Bætur falli niður í lok þess mánaðar er bótarétti ljúki.

Kærandi hafi sótt um barnalífeyri vegna náms með umsókn 16. mars 2022 og hafi skilað inn skólavottorði frá Borgarholtsskóla, dags. 15. mars 2022, sem hafi staðfest að hann hafi lokið 24 feiningum á haustönn 2021 og sé skráður í 34 feiningar á vorönn 2022.

Skýrt sé kveðið á um í 3. gr. laga um félagslega aðstoð að barnalífeyri vegna náms skuli greiða ungmennum á aldrinum 18-20 ára. Réttur á greiðslum barnalífeyris vegna náms stofnist því við 18 ára aldur barns. Kærandi hafi orðið 18 ára í apríl 2022 og með vísan til 53. gr. laga um almannatryggingar um að bætur reiknist frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi, sé einungis heimilt að greiða kæranda barnalífeyri vegna náms frá 1. maí 2022, þ.e. fyrsta dag næsta mánaðar eftir að kærandi hafi orðið 18 ára.

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. mars 2022, þar sem umsókn kæranda um barnalífeyri vegna náms var samþykkt frá 1. maí 2022. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort kærandi eigi rétt á greiðslum barnalífeyris vegna náms frá 9. apríl 2022.

Um barnalífeyri vegna náms er fjallað í 3. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laganna er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að greiða barnalífeyri vegna skólanáms eða starfsþjálfunar ungmennis á aldrinum 18-20 ára ef annað foreldri eða báðir eru látnir og enn fremur ef foreldrar eru ellilífeyrisþegar eða örorkulífeyrisþegar, annað eða báðir.

Samkvæmt 14. gr. laga um félagslega aðstoð gilda ákvæði laga nr. 100/2007 um almannatryggingar um bætur félagslegrar aðstoðar eftir því sem við á. Þá segir í 2. málsl. 13. gr. laga um félagslega aðstoð að beita skuli V. og VI. kafla laga um almannatryggingar við framkvæmd laganna. Í 1. mgr. 53. gr. laga um almannatryggingar kemur fram að réttur til bóta stofnist frá og með þeim degi er umsækjandi teljist uppfylla skilyrði til bótanna og bætur skuli reiknaðar frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur sé fyrir hendi. Þá segir að bætur falli niður í lok þess mánaðar er bótarétti ljúki.

Byggt er á því í kæru að meðlagsgreiðslur með kæranda hafi fallið niður 8. apríl 2022 þar sem hann varð 18 ára þann 9. apríl 2022 og því hafi verið sótt um greiðslu barnalífeyris vegna náms frá og með þeim degi. Fyrir liggur að kærandi uppfyllti skilyrði greiðslna barnalífeyris vegna náms þegar hann varð 18 ára þann 9. apríl 2022, sbr. 1. málsl. 1. mgr. 3. gr. laga um félagslega aðstoð. Aftur á móti reiknast bætur frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir að bótaréttur er fyrir hendi samkvæmt skýru orðlagi 1. mgr. 53. gr laga um almannatryggingar, þ.e. frá 1. maí 2022 í tilviki kæranda. Bent er á að bætur falla að sama skapi ekki niður fyrr en í lok þess mánaðar sem bótarétti lýkur.

Að framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 29. mars 2022, um upphafstíma greiðslna barnalífeyris vegna náms, staðfest.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um upphafstíma barnalífeyris vegna náms A, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta