Umtalsverður samdráttur í heildarlosun Stjórnarráðsins á árinu 2020
Verulega dró úr heildarlosun gróðurhúsalofttegunda hjá Stjórnarráðinu í fyrra. Samdráttinn má að miklu leyti rekja til kórónuveirufaraldursins.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindráðherra, lagði fram minnisblað á ríkisstjórnarfundi á föstudag um framgang loftslagsstefnu stjórnarráðsins. Stefnan nær til helstu loftslagsáhrifa allra ráðuneyta og er tilgangur hennar að draga markvisst úr losun gróðurhúsalofttegunda af starfsemi Stjórnarráðsins.
Árið 2020 nam heildarlosun Stjórnarráðsins 511 tonnum, sem er umtalsvert minna en viðmiðunarárið 2018, þegar uppreiknuð losun nam 1.448 tonnum. Stærsti áhrifaþátturinn í þessum mikla samdrætti er að verulega dró úr stærstu losunarþáttum, sem voru millilandaflug og ferðir innanlands.
Loftslagsstefna stjórnarráðsins var sett árið 2019. Þar var m.a. sett fram markmið um að dregið yrði úr losun vegna millilandaflugs um 2% á fyrsta tímabili aðgerðaáætlunar loftslagsstefnunnar, eða út árið 2022. Þótt flug kunni að aukast aftur að loknum kórónuveirufaraldrinum er líklegt að markmið um 2% samdrátt í losun vegna þess náist varanlega og jafnvel gott betur, ekki síst vegna fjölgunar fjarfunda, sem telja má líklegt að séu komnir til að vera sem hluti af alþjóðastarfi ráðuneytanna.
Sex ráðuneyti hafa nú kolefnisjafnað starfsemi sína og innleiðingu Grænna skrefa í ríkisrekstri miðar vel. Grænu skrefin eru fimm skrefa leið fyrir ríkisstofnanir til að draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna. Fimm ráðuneyti hafa nú lokið við öll fimm skrefin og fjögur ráðuneyti lokið fjórum skrefum. Flest ráðuneyti áætla að ljúka fimmta skrefinu síðar í sumar. Verulega hefur fjölgað í hópi ríkisstofnana sem vinna að innleiðingu grænna skrefa, en 125 stofnanir af um 200 hafa hafið ferlið. Í september á síðasta ári unnu 89 stofnanir að þessu markmiði.
Í loftslagsstefnunni var sett fram markmið um að draga úr losun vegna aksturs um 30%. Það markmið hefur náðst og meira til, því dregið hefur úr losun um 48%. Bílafloti Stjórnarráðsins hefur verið endurnýjaður og samanstendur nú af sjö hreinum rafmagnsbílum og fimm tvinnbílum. Þá eru rafhjól eða rafhlaupahjól til taks fyrir starfsfólk í flestum ráðuneytum til að draga úr þörf fyrir akstur innanbæjar, auk þess sem starfsfólki hefur verið gert mögulegt að vinna í fjarvinnu einn dag í viku.