Ráðherra mælir fyrir skýrari og einfaldari löggjöf um gjaldeyrismál
Nýju frumvarpi um gjaldeyrismál er ætlað að einfalda og skýra gildandi regluverk, en 1. umræða um málið er á dagskrá Alþingis í dag. Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra mælir fyrir frumvarpinu, sem er afrakstur heildarendurskoðunar á löggjöf á sviðinu.
Undir þá endurskoðun falla lög um gjaldeyrismál, lög um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og öll stjórnvaldsfyrirmæli sem sett hafa verið á grundvelli þessara laga. Auk þess að stuðla að aðgengilegra og skýrara lagaumhverfi er afrakstur endurskoðunarinnar meðal annars sá að dregið er úr tæknilegum hindrunum fyrir fjárfesta og erlendum aðilum þannig gert auðveldara að kynna sér umhverfi fjárfestinga hér á landi.
Meginreglan um frjáls viðskipti áréttuð
Í frumvarpinu er lagt til að áréttuð verði sú meginregla að gjaldeyrisviðskipti, fjármagnshreyfingar og greiðslur á milli landa skuli vera frjáls, nema annað leiði af lögum. Lýst er ráðstöfunum sem Seðlabankinn getur gripið til í því skyni að fyrirbyggja óstöðugleika og er þar annars vegar átt við stjórntæki á sviði þjóðhagsvarúðar og hins vegar verndunarráðstafanir (höft) við sérstakar aðstæður.
Óbreytt þjóðhagsvarúðartæki
Stjórntæki á sviði þjóðahagsvarúðar eiga sér öll samsvörun í gildandi lögum og varða heimildir Seðlabankans til að setja á á sérstaka bindiskyldu vegna nýs innstreymis erlends gjaldeyris, reglur um útlán lánastofnana tengd erlendum gjaldmiðlum til aðila sem ekki eru varðir fyrir gjaldeyrisáhættu og reglur sem takmarka afleiðuviðskipti þar sem íslensk króna er í samningi gagnvart erlendum gjaldmiðli. Leiðarstef allra þessara tækja er að koma í veg fyrir að það byggist upp áhætta sem ógnað gæti fjármálastöðugleika.
Áfram ströng skilyrði fyrir setningu hafta
Í frumvarpinu er lagt til að Seðlabanka Íslands verði heimilt að setja reglur um verndunarráðstafanir (höft) til að bregðast við hættu á alvarlegri röskun á stöðugleika í gengis- og peningamálum sem teflt gæti stöðugleika fjármálakerfisins í tvísýnu. Lagt er til að óbreytt verði að höft sem þessi verði ekki sett nema að fengnu samþykki fjármála- og efnahagsráðherra en tillagan er sambærileg heimildum gildandi laga um gjaldeyrismál. Lagt er til að Seðlabankanum verði heimilt, við sérstakar og alvarlegar aðstæður, að takmarka meðal annars gjaldeyrisviðskipti, fjármagnshreyfingar á milli landa og greiðslur milli landa og kveða á um skilaskyldu gjaldeyris.
Í frumvarpinu er að finna ákvæði um milligöngu um gjaldeyrisviðskipti, hvort sem er í atvinnuskyni fyrir eigin reikning eða gegn endurgjaldi og sem varðar einnig gjaldeyrisviðskipti milli aðila gegn endurgjaldi. Lagt er til að þeir aðilar einir megi hafa milligöngu um gjaldeyrisviðskipti sem hafa til þess heimild í lögum. Þó er Seðlabankanum heimilað að veita leyfi til starfrækslu gjaldeyrismarkaðar og þannig gert ráð fyrir að rekstur slíks markaðar geti verið á hendi annarra en fjármálafyrirtækja.
Tilkynningarskylda einfölduð verulega
Í frumvarpinu er jafnframt tillaga að ákvæði um upplýsingagjöf um gjaldeyrisviðskipti og fjármagnshreyfingar milli landa. Lagt er til að þeim sem framkvæma gjaldeyrisviðskipti, fjármagnshreyfingar á milli landa og greiðslur á milli landa verði áfram skylt að tilkynna þau viðskipti og hreyfingar til Seðlabanka Íslands en að sú almenna tilkynningarskylda verði einfölduð verulega.
Loks er í frumvarpinu að finna tillögur að ákvæðum um eftirlit með gjaldeyrisviðskiptum og fjármagnshreyfingum auk ákvæða um þvingunarúrræði og viðurlög ef brotið er gegn lögunum og reglum sem lagt er til að Seðlabankanum verði heimilt að setja á grundvelli laganna.
Afrakstur ítarlegrar og vandaðrar vinnu
Frumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn fyrr í þessum mánuði, en frumvarpsdrög voru birt í tvígang í samráðsgátt stjórnvalda, í nóvember 2019 og janúar 2021. Umsagnir bárust frá Samtökum atvinnulífsins og Samtökum fjármálafyrirtækja. Viðbrögð við þeim athugasemdum eru nánar rakin í frumvarpinu.
Þá fékk fjármála- og efnahagsráðuneytið Friðrik Árna Friðriksson Hirst lögfræðing og doktorsnema í refsirétti til að leggja mat á viðurlagakafla frumvarpsdraganna. Hann gerði tvær minniháttar athugasemdir við þau sem tekið hefur verið tillit til. Álitsgerð Friðiks var birt í samráðsgáttinni með frumvarpsdrögunum í janúar 2021. Enn fremur fóru fram samskipti við Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), Efnahags- og framfarastofnunina (OECD) og Alþjóðagjaldeyrisssjóðinn (AGS) við vinnslu málsins.