Hoppa yfir valmynd
5. október 2020 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 453/2020 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 453/2020

Mánudaginn 5. október 2020

A

gegn

Vinnumálastofnun – Fæðingarorlofssjóði

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Arnar Kristinsson lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Með kæru, dags. 22. september 2020, kærði A til úrskurðarnefndar velferðarmála greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs, dags. 3. mars 2020.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði vegna barnsfæðingar 24. febrúar 2020. Umsókn kæranda var samþykkt og henni kynnt greiðsluáætlun með ákvörðun, dags. 3. mars 2020, þar sem fram kom að mánaðarleg greiðsla til hennar yrði 234.978 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 22. september 2020 og veitti kærandi samhliða skýringar á því að kæra barst að liðnum kærufresti. Með erindi úrskurðarnefndar 2. október 2020 var óskað eftir gögnum málsins frá Fæðingarorlofssjóði og bárust þau samdægurs.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að þremur dögum eftir að hún hafi fengið senda greiðsluáætlun frá Fæðingarorlofssjóði hafi hún gert athugasemdir við útreikning á greiðsluáætluninni þar sem hún væri byggð á greiðslum í dreifðu fæðingarorlofi. Kærandi hafi óskaði eftir endurskoðun og jafnframt tekið fram að hún hafi tekið á sig mikla tekjuskerðingu með því að dreifa fyrra fæðingarorlofi sínu á 11 mánuði. Kærandi teldi það afar ósanngjarnt að það leiddi sjálfkrafa til þeirrar refsingar að greiðslur fyrir núverandi fæðingarorlof myndu lækka sem því næmi. Í svari starfsmanns Fæðingarorlofssjóðs komi fram að lögum samkvæmt bæri að taka mið af launum yfir eitt ár sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingarmánuð barns. Að öðru leyti hafi ekki verið gefið neitt fyrir að greiðsluáætlunin væri byggð á greiðslum í dreifðu fæðingarorlofi. Kærandi hafi frá þessum tíma bitið í það súra og þegið mun lægri fæðingarorlofsgreiðslur en í fyrra fæðingarorlofi sínu, þar sem útreikningur á greiðslunum væri jú lögum samkvæmt.

Kærandi vísar til álits umboðsmanns Alþingis í máli nr. 5862/2009 en í því hafi foreldri kvartað yfir úrskurði úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála þar sem ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um útreikning greiðslna til þess í fæðingarorlofi hafi verið staðfest. Þar sem foreldrið hafi dreift fæðingarorlofi með eldra barni á tólf mánuði hafi greiðslur sem fram kæmu á viðmiðunartímabilinu vegna fæðingar yngra barns þess samkvæmt útreikningi Fæðingarorlofssjóðs verið 50% af þeim meðaltekjum sem foreldrið hafi verið með í fyrra orlofi með uppreikningi í stað 100% ef um sex mánaða fæðingarorlof hefði verið að ræða. Það hafi verið niðurstaða umboðsmanns að úrskurður nefndarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög. Með hliðsjón af tilvitnuðu áliti umboðsmanns Alþingis hafi kærandi áhuga á að úrskurðarnefnd velferðarmála taki mál hennar fyrir og taki afstöðu til útreiknings á greiðsluáætlun í fæðingarorlofi kæranda.

Hvað varðar þriggja mánaða kærufrest til nefndarinnar vilji kærandi að tekið verði mið af því að hún hafi gert athugasemdir við greiðsluáætlun Fæðingarorlofssjóðs þremur dögum eftir að henni hafi borist hún en réttari viðbrögð hefðu verið að senda athugasemdirnar beint á úrskurðarnefnd velferðarmála. Með hliðsjón af framangreindu áliti umboðsmanns Alþingis hefði Fæðingarorlofssjóður átt að taka greiðsluáætlunina til endurskoðunar og nota ekki greiðslur úr fyrra fæðingarorlofi til viðmiðunar. Í svari starfsmanns Fæðingarorlofssjóðs frá 11. mars 2020 hefði átt að benda á heimild til að kæra ágreiningsefni til úrskurðarnefndar velferðarmála. Það sé mikill þekkingarmunur á milli kæranda og starfsfólks Fæðingarorlofssjóðs er varðar túlkun laga um fæðingar- og foreldraorlof og hvaða leiðir séu færar þegar upp komi ágreiningsefni. Þriggja mánaða kærufresturinn hafi runnið út þar sem kærandi hafi gert ráð fyrir að svarið frá 11. mars 2020 væri endanlegt svar og hún ekki haft neina ástæðu eða getu til að rengja það, nema réttlætiskenndina.

Kærandi óski eftir að úrskurðarnefnd velferðarmála taki mál hennar fyrir og taki afstöðu til útreiknings á greiðsluáætlun í fæðingarorlofi hennar. Til vara óski kærandi eftir að nefndin bendi á í hvaða annan ákjósanlegan farveg hún geti beint máli sínu sem kunni að leiða til sanngjarnrar niðurstöðu.

III.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 3. mars 2020, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði 234.978 kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 um úrskurðarnefnd velferðarmála skal stjórnsýslukæra berast úrskurðarnefnd velferðarmála skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun, nema á annan veg sé mælt í lögum sem hin kærða ákvörðun byggist á. Hin kærða ákvörðun var tilkynnt kæranda með bréfi Fæðingarorlofssjóðs, dags. 3. mars 2020, en ákvörðunin var kærð til úrskurðarnefndar velferðarmála með kæru, móttekinni 22. september 2020. Kærufrestur samkvæmt 5. gr. laga nr. 85/2015 var því liðinn þegar kæra barst nefndinni.

Í 5. mgr. 7. gr. laga nr. 85/2015 er vísað til þess að um málsmeðferð, sem ekki er kveðið á um í lögunum, fari samkvæmt ákvæðum stjórnsýslulaga og ákvæðum laga sem málskotsréttur til nefndarinnar byggist á hverju sinni. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Með vísan til þessa er nauðsynlegt að taka til skoðunar hvort fyrir hendi séu atriði sem hafa þýðingu við mat á því hvort afsakanlegt verði talið að kæran hafi borist að liðnum kærufresti eða hvort veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga, en ákvæðið mælir fyrir um skyldubundið mat stjórnvalds á því hvort atvik séu með þeim hætti að rétt sé að taka stjórnsýslukæru til efnislegrar meðferðar, þrátt fyrir að lögbundinn kærufrestur sé liðinn.

Fyrir liggur að kæranda var í hinni kærðu ákvörðun, dags. 3. mars 2020, leiðbeint um kæruheimild til úrskurðarnefndar velferðarmála og um tímalengd kærufrests. Upplýsingar um kæruheimild lágu því fyrir þegar þann dag. Þær ástæður sem kærandi hefur að öðru leyti tilgreint vegna kærufrestsins eru að mati úrskurðarnefndarinnar ekki þess eðlis að afsakanlegt verði talið að kæra hafi borist að liðnum kærufresti. Þá verður heldur ekki séð að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Með hliðsjón af framangreindu er kærunni vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála, sbr. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kæru A, er vísað frá úrskurðarnefnd velferðarmála.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta