Mál nr. 14/2000: Úrskurður frá 20. desember 2000.
Ár 2000, miðvikudaginn 20 desember, var í Félagsdómi í málinu nr. 14/2000.
Vélstjórafélag Íslands f.h.
Halldórs Sigurðssonar
(Friðrik Á. Hermannsson hdl.)
gegn
Reykjavíkurborg og
Orkuveitu Reykjavíkur
(Hjörleifur Kvaran hrl.)
kveðinn upp svofelldur
Ú R S K U R Ð U R :
Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu 13. desember sl.
Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Gísli Gíslason og Gunnar Sæmundsson.
Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, kt. 690269-3419, Borgartúni 18, Reykjavík, f.h. Halldórs Sigurðssonar, kt. 110734-4339, Æsufelli 2, Reykjavík.
Stefndi er Reykjavíkurborg, kt. 530269-7609, Ráðhúsinu, Reykjavík og Orkuveita Reykjavíkur, kt. 551298-3029, Suðurlandsbraut 34, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Að viðurkennt verði að Halldór Sigurðsson, kt. 110734-4339, Æsufelli 2, Reykjavík, vélfræðingur hjá stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, hafi frá 1. júlí 1999 til 31. október 2000, átt að taka að lágmarki laun samkvæmt 7. þrepi 137. launaflokks í endurútgefnum hluta kjarasamnings milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar með gildistíma frá 1. apríl 1997 til 31. október 2000.
Að stefndu verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Dómkröfur stefnda
Stefndu, Reykjavíkurborg og Orkuveita Reykjavíkur, krefjast þess aðallega að máli þessu verði vísað frá Félagsdómi og að stefnanda verði gert að greiða stefndu málskostnað samkvæmt mati Félagsdóms.
Til vara krefjast stefndu sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda samkvæmt mati Félagsdóms.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefndu verði hrundið. Jafnframt gerir hann kröfu til málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Málsatvik
Með auglýsingu í Morgunblaðinu hinn 18. janúar 1981 auglýsti Rafmagnsveita Reykjavíkur eftir starfsmanni til viðgerða á orkusölumælum. Í auglýsingunni er þess getið að æskileg menntun sé úrsmíði eða vélvirkjun, rafvirkjun og reynsla í nákvæmri vinnu. Hinn 11. maí 1981 var Halldór Sigurðsson ráðinn í starf við mælaviðgerðir við mælastöð á innlagnadeild Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Frá ráðningu hefur Halldór gengt þessu starfi og tekið kjör samkvæmt kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar.
Við undirritun núgildandi kjarasamnings milli Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurborgar, sem gildir frá 1. apríl 1997 til 31. október 2000, var samið um að taka upp viðræður um nýtt launakerfi (bókun 5). Hinn 5. desember 1998 sömdu aðilar um tilteknar launahækkanir afturvirkt frá 1. apríl 1998 en jafnframt urðu aðilar sammála um að taka upp nýtt launakerfi miðað við 1. júlí 1999. Innleiðing hins nýja launakerfis dróst fram í desember 1999 en gilti afturvirkt miðað við 1. júlí 1999 í samræmi við ákvæði kjarasamningsins. Samkvæmt þessu nýja kerfi var áðurgildandi kafli 1.3 í kjarasamningi Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar um starfsheiti og röðun þeirra felldur brott. Þess í stað var tekið upp í kjarasamninginn nýtt launakerfi.
Í samræmi við grein 1.3.1 í umræddum kjarasamningi var sett á laggirnar sérstök matsnefnd hjá Orkuveitu Reykjavíkur sem skipuð var jafnmörgum fulltrúum vinnuveitanda og starfsmanna úr Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Matsnefnd átti samkvæmt nýju launakerfi að flokka störf í fyrirtækinu og ákveða vægi matsþátta í hinu nýja kerfi en matsþættirnir voru ákvarðaðir af samningsaðilum. Hlutverk forstöðumanns samkvæmt nýju launakerfi var að gera tillögu til matsnefndar um mat á sérhverju starfi og þar með tillögu um innbyrðis röðun starfa. Síðan tók matsnefnd afstöðu til tillagna forstöðumanns. Matsnefndin komst að samhljóða niðurstöðu um starf Halldórs þess efnis að til væri starfið mælaviðgerðarmaður og hlaut það starf 290 stig í matinu og var því raðað í lfl. 129.
Á grundvelli greinar 1.3.2. í kjarasamningi aðila um hæfnislaun var það mat forstöðumanns Orkuveitu Reykjavíkur, að vélfræðimenntun Halldórs nýttist í starfi hans sem mælaviðgerðarmaður og því var Halldóri raðað einum launaflokki ofar en ella eða í lfl. 130.
Halldór leitaði til Þorleifs Finnssonar, sviðsstjóra síns hjá Orkuveitu Reykjavíkur, vegna óánægju með röðun starfs síns. Í tölvupósti 24. janúar sl. til starfsmannastjóra Orkuveitunnar óskaði sviðsstjórinn skýringa á því hvers vegna starf Halldórs hafi ekki fylgt störfum annarra vélfræðinga hjá Orkuveitu Reykjavíkur við endurskoðun launakjara. Starfsmannastjórinn svaraði tölvuskeyti sviðsstjórans í tölvuskeyti, dags. þann 7. febrúar 2000, þar sem fram kemur að launanefnd Orkuveitunnar hafi farið yfir athugasemdir sviðsstjórans en taldi að ekki þyrfti vélfræðing til að sinna starfinu.
Með bréfi 17. apríl sl. til Orkuveitunnar óskaði formaður Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar eftir skýringum á röðun Halldórs í launaflokk og hvaða forsendur voru lagðar til grundvallar við það mat. Bréfi þessu var svarað með bréfi starfsmannastjóra Orkuveitu Reykjavíkur 27. apríl sl.
Með bréfi lögmanns Halldórs Sigurðssonar til starfsmannastjóra Orkuveitunnar dags. 21. júlí sl. var því mótmælt að starfi Halldórs Sigurðssonar hafi við launakerfisbreytinguna 1. desember 1999 ekki verið raðað í sama launaflokk og störf annarra vélfræðinga hjá Orkuveitu Reykjavíkur og þess krafist að launamismunur milli launaflokkaröðunar á starfi Halldórs og starfi vélfræðings yrði greiddur fyrir tímabilið frá 1. júlí 1999 til 31. júlí 2000. Bréf þetta var framsent til kjaraþróunardeildar Reykjavíkurborgar. Í svarbréfi kjaraþróunardeildar er gerð grein fyrir ástæðum launaröðunar Halldórs Sigurðssonar m.a. með vísan til gildandi kjarasamnings Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurborgar og launakröfum Halldórs hafnað.
Halldór Sigurðsson hefur ekki viljað samþykkja þá niðurstöðu að laun hans tækju ekki lengur mið af starfheitinu vélfræðingur og hefur stefnandi því höfðað mál þetta til viðurkenningar á nefndum réttindum hans.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi kveðst byggja á eftirfarandi málsástæðum fyrir hönd Halldórs Sigurðssonar:
Halldór Sigurðsson hafi verið ráðinn sem vélfræðingur á mælastöð Rafmagnsveitu Reykjavíkur, nú Orkuveita Reykjavíkur, árið 1981. Sérstaklega hafi verið auglýst eftir vélvirkja í stöðuna og hafi starfsheiti Halldórs ætíð verið vélfræðingur á launaseðlum og í starfslýsingu. Starfsheiti Halldórs hafi verið breytt fyrirvaralaust þann 21. desember 1999, starfsheitið vélfræðingur hafi verið fellt niður á launaseðlinum og sé hann nú titlaður mælaviðgerðarmaður í launakerfi Reykjavíkurborgar. Afleiðingar þessa liggi fyrst og fremst í lægri launum Halldórs en annarra vélfræðinga frá 1. júlí 1999 eða sem nemi rúmum 40.000 kr. á mánuði frá 1. júlí til 31. desember 1999 og rúmum 20.000 kr. frá áramótum 1999/2000.
Ekki sé hægt að fallast á einhliða rétt fyrirsvarsmanna stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, til að svipta Halldór Sigurðsson starfsheitinu vélfræðingur og veita honum nýtt starfsheiti sem feli í sér verulega launaskerðingu. Starfsheitið vélfræðingur sé mikilvægur þáttur í ráðningarkjörum hans hjá Reykjavíkurborg og þá sérstaklega með tilliti til þess hvernig raðað sé í launaflokka samkvæmt kjarasamningi milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Með vísan til almennra reglna samningaréttarins verði ekki talið að stefndu hafi verið rétt að endurákvarða ráðningarkjör Halldórs einhliða. Halldór hafi mótmælt þessari kjararýrnun enda séu miklir hagsmunir í húfi, ekki einungis sú kjaraskerðing sem nú þegar hafi komið til framkvæmda heldur einnig framtíðarskerðing á ráðningarkjörum hans en Halldór muni fara á eftirlaun árið 2001. Hafi stefndu í hyggju að breyta ráðningarkjörum Halldórs með framangreindum hætti beri þeim að gera það á grundvelli reglugerðar um réttindi og skyldur starfsmanna Reykjavíkurborgar. Vart verði slík ákvörðun tekin öðruvísi en að undangenginni uppsögn.
Stefnandi byggir einnig á því að kjarasamningur sá sem í gildi sé milli Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og stefndu, Reykjavíkurborgar, og endurútgefinn hluti hans, feli ekki í sér fyrirvaralausa heimild til að breyta starfsheiti Halldórs án samþykkis hans. Enga slíka heimild sé að finna, hvorki í kjarasamningnum sjálfum né endurútgefnum hluta hans.
Skilningur stefnanda sé einfaldlega sá að kjarasamningsákvæðið feli í sér heimild til að hækka launþega stefnda, Reykjavíkurborgar, miðað við núverandi röðun í launaflokka, umfram það sem til þessa hafi tíðkast. Vélfræðingur hafi ákveðna lágmarksröðun (launaflokk 137) en matsnefndin geti komist að þeirri niðurstöðu að honum beri hærri launaflokkur með tilliti til hæfni hans umfram þær kröfur sem gerðar séu til hans sem vélfræðings. Enga heimild sé hins vegar að finna til lækkunar; lágmarksröðun vélfræðinga í launaflokk sé launaflokkur 137. Þessi sjónarmið stefnanda séu staðfest í bréfi formanns Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar til lögmanns stefnanda dags. 25. september sl.
Halldór Sigurðsson hafi um árabil verið titlaður vélfræðingur hjá stefnda, Orkuveitu Reykjavíkurborgar, og hafi launakjör hans verið í samræmi við launakjör annarra vélfræðinga hjá stefnda. Halldór njóti því verndar kjarasamningsins; ekki sé hægt að rýra starfskjör hans einhliða eins og stefndi, Orkuveita Reykjavíkurborgar, hafi gert í þessu tilviki. Er hér vísað til meginreglna vinnuréttarins og 1. gr. laga nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993.
Ekki verði betur séð en ákvæði kjarasamningsins miði að því að meta störf og hæfni hvers einstaklings og raða honum í launaflokk í samræmi við þær niðurstöður sem þannig fáist. Skýrt sé tekið fram að mat þetta eigi einungis að fara fram innan hvers starfshóps, hvert starfsheiti feli í sér ákveðna lágmarksviðmiðun; m.ö.o. að ekki sé heimilt að svipta menn starfsheitum fyrirvaralaust eins og gert hafi verið í tilfelli Halldórs Sigurðssonar. Svipting starfsheitis beinist gegn ráðningarkjörum launþega, sérstaklega ef starfsheitið tengist með beinum hætti launakjörum viðkomandi. Þess háttar heimild sé ekki að finna í nefndum kjarasamningi og verði að telja þá niðurstöðu hæpna að aðilar vinnumarkaðarins geti samið svo um að tilteknir launþegar missi starfsheiti sín sem byggjast á persónubundnum samningum, ráðningarsamningum, enda alltaf unnt að semja um betri rétt í ráðningarsamningum en samkvæmt kjarasamningum en aldrei verri. Vísað er hér m.a. til Hæstaréttardóms 1998.1281 um skýrt orðalag í kjarasamningi ef réttarstaða launþega eigi að breytast til hins verra.
Auk framangreinds er bent á misræmi um röðun í launaflokka eftir því hvaða stéttarfélagi viðkomandi starfsmaður tilheyrir. Í samningum milli Reykjavíkurborgar og Rafiðnaðarsambands Íslands sé mælasetjari (rafvirki) settur í launaflokk 135 en fái eftir breytinguna launaflokk 137, sem sé sá launaflokkur sem vélfræðingar tilheyra, en mælaprófun/mælaviðgerðarmaður sé í launaflokki 135. Um mismunandi launakjör launþega sem vinni sömu störf hjá hinu opinbera er vísað til Hrd. 1997.1008.
Kjarni málsins sé sá að Halldór Sigurðsson sé ráðinn sem vélfræðingur til stefnda, Orkuveitu Reykjavíkurborgar og laun hans byggist á því starfsheiti. Starfsheiti hans verði ekki breytt einhliða með tilheyrandi kjararýrnun.
Um aðild: Því er haldið fram af hálfu stefnanda að Halldór Sigurðsson sé félagsmaður Vélstjórafélags Íslands en taki laun samkvæmt kjarasamningi milli Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og Reykjavíkurborgar. Orkuveitu Reykjavíkur sé stefnt í málinu sem vinnuveitanda Halldórs Sigurðssonar enda sé það Orkuveita Reykjavíkur sem neiti honum um greiðslu launa samkvæmt 7. þrepi 137 launaflokks nefnds kjarasamnings. Reykjavíkurborg sé talin hafa hagsmuni af niðurstöðu málsins enda sjái Reykjavíkurborg um gerð kjarasamningsins við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Þá er einnig vísað til beinna afskipta Reykjavíkurborgar að málinu, sbr. bréf forstöðumanns kjaraþróunardeildar Reykjavíkur, dags. þann 1. ágúst sl. Þyki því rétt að stefna bæði Reykjavíkurborg og Orkuveitu Reykjavíkur í máli þessu.
Samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, dæmi Félagsdómur í málum sem rísi á milli samningsaðila um ágreining um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Þyki mál þetta því eiga undir Félagsdóm.
Samkvæmt 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986 reki stéttarfélög mál sín og félagsmanna sinna fyrir Félagsdómi. Halldór Sigurðsson sé félagsmaður Vélstjórafélags Íslands og þyki því rétt að Vélstjórafélag Íslands flytji mál þetta fyrir hans hönd.
Þyki lög nr. 94/1986 ekki eiga við í málinu kveðst stefnandi byggja á 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, en þar segi að verkefni Félagsdóms sé að dæma í málum sem rísi út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans. Þá kveðst stefnandi byggja á 45. gr. sömu laga en þar segi að sambönd verkalýðsfélaga og atvinnurekendafélaga reki fyrir hönd félagsmanna sinna mál fyrir dóminum. Félög sem ekki séu meðlimir sambandanna reki sjálf mál sín og félagsmanna sinna.
Stefnandi kveðst byggja á almennum reglum samningaréttarins, kjarasamningi milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og endurútgefnum hluta kjarasamningsins, með gildistíma frá 1. apríl 1997 til 31. október 2000, 1. gr. laga nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. og 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. og 45. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og Hrd. 1998.1281.
Málsástæður og lagarök stefndu vegna frávísunarkröfu
Stefndu krefjast þess að máli þessu verði vísað frá Félagsdómi, í fyrsta lagi, með þeim rökum að mál þetta verði ekki borið undir Félagsdóm af Vélstjórafélagi Íslands. Skilyrði þess að mál verði lögð undir dómsvald Félagsdóms komi fram í 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar sé kveðið á um að Félagsdómur dæmi í málum sem rísi á milli samningsaðila. Enginn samningur sé í gildi milli stefnanda og stefndu. Af þeim sökum einum beri að vísa máli þessu frá Félagsdómi. Í stefnu vísi stefnandi máli sínu til stuðnings til 3. tl. 26. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þar sé kveðið á um að Félagsdómur dæmi í málum sem rísa á milli samningsaðila vegna ágreinings um skilning á kjarasamningi eða gildi hans. Í máli þessu krefjist stefnandi dómsúrlausnar á skilningi kjarasamnings sem hann eigi enga aðild að. Ákvæði 3. tl. 26. gr. laganna varði úrlausn um skilning á kjarasamningi þeirra aðila sem hann gera. Vélstjórafélag Íslands geti ekki verið aðili að dómsmáli sem varðar skilning á kjarasamningi stefndu við Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar. Af þessari ástæðu beri að vísa málinu frá Félagsdómi.
Stefndu krefjast þess að máli þessu verði vísað frá Félagsdómi, í öðru lagi, með þeim rökum að stefnandi hafi einungis stefnt Reykjavíkurborg og Orkuveitu Reykjavíkur til að þola dóm í máli þessu en ekki Starfsmannafélagi Reykjavíkurborgar. Dómkröfur stefnanda í máli þessu séu hins vegar þess eðlis að þau muni hafa bindandi áhrif fyrir Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar og hljóti því að vera óhjákvæmilegt að stefna þeim aðila samhliða Reykjavíkurborg og Orkuveitu Reykjavíkur, sbr. 18. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Það sé ljóst að Starfsmannafélag Reykjavíkurborgar eigi ríkra hagsmuna að gæta við úrlausn þessa máls enda sé í máli þessu deilt um sjálfan grundvöll kjarasamnings Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Útilokað sé að Félagsdómur geti, án aðildar þess félags að dómsmáli þessu, kveðið upp dóm sem hafi bindandi áhrif fyrir það. Fjölmargir dómar Félagsdóms staðfesti nauðsyn þess að það stéttarfélag sem fari með samningsumboð fyrir starfsmenn eða gert hafi kjarasamning fyrir þá eigi aðild að málum fyrir dóminum.
Niðurstaða
Í máli þessu gerir stefnandi, Vélstjórafélag Íslands, kröfu til þess að viðurkennt verði að Halldór Sigurðsson, vélfræðingur hjá stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, hafi frá 1. júlí 1999 til 31. október 2000, átt að taka að lágmarki laun samkvæmt 7. þrepi 137. launaflokks í endurútgefnum hluta kjarasamnings milli Reykjavíkurborgar og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar með gildistíma frá 1. apríl 1997 til 31. október 2000. Við gerð þess kjarasamnings var samið um nýtt launakerfi og sérstakri matsnefnd komið á fót sem átti að flokka störf hjá stefnda, Orkuveitu Reykjavíkur, og ákveða vægi matsþátta í hinu nýja launakerfi. Við þá launaflokkaröðun var Halldóri Sigurðssyni raðað sem mælaviðgerðarmanni til starfslauna í launaflokk 130, að teknu tilliti til heimildarhækkunnar, en ekki í launaflokk 137, eins og öðrum vélfræðingum sem hjá stefnda starfa. Við þá niðurstöðu vill hann ekki una.
Samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna dæmir Félagsdómur í málum sem rísa á milli samningsaðila vegna ágreinings um skilning á kjarasamningi eða gildi hans
Mál þetta varðar skilning á kjarasamningi milli stefnda, Reykjavíkurborgar, og Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar. Stefnandi, Vélstjórafélag Íslands, er ekki aðili að þeim kjarasamningi. Af því leiðir að stefnandi getur ekki borið ágreining á greindum kjarasamningi undir Félagsdóm á grundvelli fyrrgreinds ákvæðis, sem stefnandi vísar aðallega til. Þá fellur málið hvorki undir valdsvið Félagsdóms samkvæmt öðrum ákvæðum 26. gr. laganna né 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sem stefnandi ber við til vara, sbr. ákvæði I. kafla laga nr. 94/1986 um gildissvið þeirra laga og samningsaðild samkvæmt þeim. Ber því að fallast á frávísunarkröfu stefndu í málinu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.
Málskostnaður fellur niður.