Hoppa yfir valmynd
28. september 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 9/2000: Dómur frá 28. september 2000.

Ár 2000, fimmtudaginn 28. september, er í Félagsdómi í málinu nr. 9/2000.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Alþýðusambandi Íslands vegna

Verkamannasambands Íslands f.h.

Verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs.

(Ástráður Haraldsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur

D Ó M U R

Mál þetta sem dómtekið var 26. september sl. er höfðað með stefnu áritaðri um birtingu 22. september sl.

Málið dæma Kristjana Jónsdóttir, Gylfi Knudsen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Kristján Torfason og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

Stefnandi er Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, kt. 080451-4749, með starfsstöð í Arnarhváli í Reykjavík.

Stefndi er Alþýðusambandi Íslands, Grensásvegi 16a, Reykjavík, kt. 420169-6209, vegna Verkamannasambands Íslands, Skipholti 50c, Reykjavík, kt. 680269-5219, fyrir hönd verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs, kt. 460172-2259, Austurvegi 56, Selfossi.

Dómkröfur stefnanda

1. Að viðurkennt verði með dómi að boðað verkfall verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs hjá þeim félagsmönnum sem starfa á Heilbrigðisstofnuninni, Selfossi, sem boðað var þann 12. september 2000 og hefjast skal á miðnætti, aðfararnótt 29. september 2000, sé ólögmætt.

2. Að stefnda verði gert að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt mati Félagsdóms.

 

Dómkröfur stefnda

Að stefndi verði alfarið sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati Félagsdóms eða samkvæmt málskostnaðaryfirliti lögmanns stefnda.

 

Hinn 27. september sl. var nýr kjarasamningur milli aðila undirritaður og ofangreindri vinnustöðvun, sem taka átti gildi aðfararnótt 29. september, frestað til miðnættis aðfararnótt 13. október nk. hafi kjarasamningur ekki verið staðfestur í atkvæðagreiðslu sem fram á að fara eigi síðar en 6. október nk.

 

Málavextir

Milli stefnanda og verkalýðsfélagsins Þórs, kt. 460172-2259, var í gildi kjarasamningur, en frá síðustu áramótum sameinaðist það verkalýðsfélaginu Bárunni á Eyrarbakka undir nafninu Báran-Þór, kt. 460172-2259. Var í gildi kjarasamningur til 31. maí 2000, undirritaður 28. apríl 1997. Gerður var nýr kjarasamningur en á fundi sem haldinn var með starfsfólki Heilbrigðisstofnunarinnar, Selfossi, 20. júlí síðastliðinn var hann felldur. Var í framhaldi af því haldið áfram viðræðum um gerð nýs kjarasamnings.

Með símskeyti, dags. 12. september síðastliðinn, sem barst stefnanda sama dag, var formanni samningsnefndar ríkisins tilkynnt um niðurstöður allsherjar-atkvæðagreiðslu sem fram fór deginum áður meðal þeirra félagsmanna verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs á Selfossi sem starfa á Heilbrigðisstofnuninni, Selfossi. Kom fram í bréfinu að samþykkt hefði verið að boða til ótímabundins verkfalls þeirra félagsmanna, er hefjast skyldi á miðnætti aðfararnótt 29. september 2000, hafi samningar ekki tekist innan þess tíma. Kom fram hvernig atkvæði hefðu fallið og að verkfallsboðun hefði samkvæmt því verið samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Var staðfest undirritun formanns verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs undir símskeytið.

Með bréfi stefnanda til verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs, dags. 13. september 2000, var boðuðu verkfalli mótmælt þar sem það væri ólögmætt samkvæmt ákvæðum laga nr. 33/1915 um verkfall opinberra starfsmanna. Var skorað á félagið að afturkalla verkfallsboðun og gera ráðuneytinu grein fyrir afstöðu sinni í síðasta lagi kl. 16:00.

Í svarbréfi formanns Bárunnar-Þórs til stefnanda, er barst daginn eftir, var vísað til lista í auglýsingu nr. 68/1995 um skrá samkvæmt 2. mgr. 19. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og tekið fram að enginn sem verkfallsboðunin næði til væri þar tilgreindur Lýsti formaðurinn yfir að eftir að málið hefði verið rannsakað ítarlega yrði ekki séð að fullyrðingar stefnanda ættu við rök að styðjast og þar sem ekki hefði orðið árangur af viðræðum um gerð nýs kjarasamnings yrði af hálfu félagsins haldið fast við umrædda verkfallsboðun.

Þann 16. þessa mánaðar var ritað undir kjarasamning milli stefnanda og verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs með gildistíma frá l. september 2000 til 31. desember 2003, en með fyrirvara um samþykki félagsmanna.

Þann 19. þessa mánaðar ritaði stefnandi formanni verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs bréf þar sem bent var á að um alvarlegan misskilning væri að ræða í bréfi félagsins frá 14. sama mánaðar. Var á það bent að meginregla samkvæmt lögum nr. 33/1915 um verkföll opinberra starfsmanna væri sú að verkföll sem beindust gegn opinberum aðilum væru bönnuð. Frá þeirri meginreglu væri ein undantekning, sú sem greindi í 14. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Var greinin tekin orðrétt upp í bréfi stefnanda og bent á að verkalýðsfélagið Báran-Þór byggði rétt sinn til kjarasamningsgerðar ekki á lögum nr. 94/1986, heldur á lögum nr. 80/1938, þar sem ekki væri að finna sambærilega undanþágureglu frá lögum nr. 33/1915. Undanþágulistinn í auglýsingu nr. 68/1995 ætti því einungis við um störf þeirra sem sæktu rétt sinn til kjarasamningsgerðar til laga nr. 94/1986. Í greindu bréfi lýsti stefnandi einnig því áliti sínu að með undirritun kjarasamnings aðila 16. september síðastliðinn hefði komist á friðarskylda milli aðila og að því væri brostinn grundvöllur fyrir boðuðu verkfalli, en í því sambandi skipti engu máli þótt kjarasamningnum hefði verið hafnað á fundi félagsmanna.

Stefnandi telur ljóst af bréfi lögmanns verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs. dags. 20. þessa mánaðar að boðuðu verkfalli verði ekki aflýst og verði stefnandi því að líta svo á að félagið muni að óbreyttu hrinda því í framkvæmd. Sé hætt við að starfsemi stofnunarinnar, sem eigi undir lög nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, raskist verulega ef af verkfalli verði. Samkvæmt embættisskyldu kveðst stefnandi því knúinn til að fá banni við verkfalli opinberra starfsmanna, í þessu tilviki, framfylgt fyrir Félagsdómi svo að ekki komi til verkfalls á Heilbrigðisstofnuninni, Selfossi.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja á eftirfarandi málsástæðum og lagarökum, kröfum sínum til stuðnings.

Samkvæmt 14. gr. laga nr. 80/1938 sé stéttarfélögum heimilt að gera verkföll í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum og til verndar rétti sínum, með þeim skilyrðum og takmörkunum einum sem sett séu í lögum. Meðal þeirra laga er takmarki rétt til verkfalls séu lög nr. 33/1915, svo sem einnig sé áréttað í 48. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. athugasemdir með frumvarpi sem varð að þeim lögum. Hafi löggjafinn áréttað gildi laganna frá 1915, bæði með lögum nr. 94/1986 og lögum nr. 70/1996, svo sem skýrt komi fram í lögskýringargögnum.

Í lögum nr. 33/1915 um verkfall opinberra starfsmanna komi fram sú meginregla að verkföll sem beint sé gegn opinberum aðilum séu bönnuð og þar með ólögmæt, sbr. einkum ákvæði 1. gr. laganna. Séu þarfir spítala meðal þeirra verndarhagsmuna sem greinin taki til.

Samkvæmt 3. tölulið 2. mgr. l. gr. laga nr. 94/1986 taki lögin ekki til starfsmanna stofnana og fyrirtækja ríkis og sveitarfélaga þegar kaup þeirra og kjör fari eftir kjarasamningum stéttarfélaga þeirra og vinnuveitenda, sbr. lög nr. 80/1938 og lög nr. 19/1979. Ótvírætt sé að stefnandi og verkalýðsfélagið Báran-Þór hafi gert kjarasamninga á grundvelli laga nr. 80/1938, svo sem skýrlega komi fram í kjarasamningum þeim sem gerðir hafi verið.

Réttur þeirra sem falli undir lögin nr. 94/1986 til verkfalls komi fram í 14. gr. laganna með þeim undantekningum sem greini meðal annars í 19. gr. sömu laga. Þar sem verkfallsheimild þeirra sem greinir í 14. gr. laga nr. 94/1986 sé einungis bundin við þá sem undir lögin falli og með þeim undantekningum, sem meðal annars greini í 19. gr., hafi skrá sú sem birt sé í stjórnartíðindum með auglýsingu nr. 68/1995 enga þýðingu í tilviki félagsmanna Bárunnar-Þórs sem starfi á Heilbrigðisstofnuninni, Selfossi. Þar sem þeir falli ekki undir lög nr. 94/1986 hafi þeir ekki verkfallsrétt og sé óheimilt að taka þá í eða stofna til verkfalls samkvæmt lögum nr. 33/1915.

Af framansögðu telur stefnandi boðað verkfall verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs vegna félagsmanna er starfa á Heilbrigðisstofnuninni, Selfossi vera andstætt lögum nr. 80/1938 þar sem það brjóti í bága við lög nr. 33/1915. Beri af þeim sökum að taka kröfur stefnanda til greina.

Stefnandi byggir einnig á því að með undirritun kjarasamnings aðila 16. september síðastliðinn hafi komist á friðarskylda milli aðila og því sé brostinn grundvöllur fyrir verkfalli því sem boðað hafi verið þann 12. sama mánaðar. Skipti engu máli í því sambandi að kjarasamningnum hafi verið hafnað á fundi félagsmanna. Friðarskylda sé ein af meginreglum vinnumarkaðsréttar og komi víða fram í ákvæðum laga nr. 80/1938. Þegar undirritaður hafi verið kjarasamningur, þótt hann hafi verið með fyrirvara um samþykki félagsmanna, hafi orðið að fara fram nýjar samningaviðræður eða viðræðutilraunir þannig að uppfyllt væri skilyrði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938, meðal annars um að fullreynt væri að árangur yrði eigi þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara. Telur stefnandi það skilyrði verkfallsboðunar ekki komið fram og vísar því til stuðnings einnig til grunnraka 5. gr. nefndra laga. Stefnanda hafi ekki borist formleg tilkynning um að kjarasamningurinn hefði verið felldur fyrr en 20. september, en í tilkynningunni hafi verið óskað eftir viðræðum um nýjan kjarasamning.

Til stuðnings kröfum um málskostnað vísar stefnandi til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 65. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Að því er varðar aðild málsins og fyrirsvar kveðst fjármálaráðherra svara fyrir stefnanda í þessu máli þar sem hann hafi gert kjarasamning við Verkalýðsfélagið Báruna-Þór á grundvelli laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. einnig ákvæði 8. og 9. töluliðs I. kafla 5. gr. auglýsingar nr. 96/1969 um staðfestingu forseta Íslands á reglugerð um Stjórnarráð Íslands.

Til að svara fyrir stefnda í málinu sé Grétari Þorsteinssyni, formanni stefnda stefnt, en verkalýðsfélagið Báran-Þór kveður stefnandi vera samningsaðila gagnvart sér um kaup og kjör félagsmanna þess er starfa á Heilbrigðisstofnuninni, Selfossi, sbr. 5. gr. laga nr. 80/1938. Þar sem verkalýsfélagið Báran-Þór sé aðili að Verkamannasambandi Íslands og Alþýðusambandi Íslands sé sambandinu stefnt, sbr. 45. gr. laga nr. 80/1938.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Stefndi kveður það rangt vera sem haldið sé fram af stefnanda að á Íslandi sé í gildi almennt bann við verkfalli starfsmanna ríkisins. Hið rétta sé að samkvæmt gildandi lögum sé stéttarfélögum starfsmanna ríkisins almennt heimilt að gera kjarasamninga og verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning eins og það sé orðað í 48. gr. starfsmannalaga. Frá þessari meginreglu séu þröngt afmarkaðar undantekningar sem byggist á sérstaklega brýnni þörf til að halda uppi lágmarks öryggisgæslu, nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu og slíkri lágmarksstarfsemi til að hafa neyðarviðbúnað til að tryggja almannaheill.

Reglukerfið á vinnumarkaði á Íslandi skiptist í mjög grófum dráttum í tvennt. Annars vegar það kerfi sem gildi um almennan vinnumarkað og hins vegar það kerfi sem gildi um starfsmenn ríkisins. Í báðum kerfum gildi sú meginregla að stéttarfélög hafi verkfallsrétt.

Þegar ríkið komi fram sem annar samningsaðila að kjarasamningi gildi um gerð slíkra samninga lögin nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Í einstökum tilvikum geti það gerst að ríkið eigi aðild að kjarasamningi sem gerður sé á almennum vinnumarkaði og sem þá sé byggður á lögum nr. 80/1938. Þetta gerist þá einkum varðandi fyrirtæki sem séu í eigu ríkisins en hafi einkaréttarlega stöðu, t.d. hlutafélag í eigu ríkisins.

Lögin nr. 33/1915 taki einungis til þeirra sem geri kjarasamninga á grundvelli laganna nr. 94/1986 og hinna sem séu undanþegnir ákvæðum þeirra laga sbr. 1. gr. laganna. Lögin nr. 33/1915 taki ekki og hafi aldrei tekið til þeirra sem heyri undir lögin nr. 80/1938. Þegar ríkið komi fram sem samningsaðili sé því annað hvort og yfirleitt um að ræða samninga gerða á grundvelli laganna nr. 94/1986 eða þá að ríkið taki einkaréttarlega stöðu eins og hver annar atvinnurekandi samkvæmt lögum nr. 80/1938, sbr. 3. tl. 1. gr. 1aga nr. 94/1986. Lögin um verkfallsbann frá 1915 hafi einungis takmarkaða þýðingu varðandi fyrra tilfellið en komi málum ekki við þegar samningur sé gerður á grundvelli vinnulöggjafarinnar. Þegar ríkið komi fram sem almennur atvinnurekandi samkvæmt lögum nr. 80/1938, sbr. 3. tl. 1. gr. laga nr. 94/1986, hafi aldrei verið umdeilt að þeir starfsmenn sem slíkir kjarasamningar taki til njóti verkfallsréttar.

Í huga stefnda sé ekki vafi á því að lögin nr. 94/1986 sé sá grundvöllur sem gildandi kjarasamningur aðilanna frá 1997 byggi á. Engu breyti í því sambandi þó að lokagrein samningsins vísi til 5. gr. vinnulöggjafarinnar um afgreiðsluhætti. Jafnvel hefði engu breytt þó samningurinn hefði sjálfur tekið fram að hann væri gerður á grundvelli vinnulöggjafarinnar. Lögin í landinu taki af allan vafa um að kjarasamningar sem fjármálaráðherra geri við starfsmenn ríkisins séu gerðir á grundvelli laganna um kjarasamning opinberra starfsmanna. Þar séu tíundaðar þær reglur sem um gerð slíkra samninga gildi.

Jafnvel þó talið yrði að samningur aðila byggði á vinnulöggjöfinni myndi það engu breyta um þá staðreynd að stefndi hafi verkfallsrétt enda sé sá réttur skýrlega tryggður í vinnulöggjöfinni sjálfri. Félagsmálasáttmáli Evrópu, 6. gr., verji verkfallsréttinn berum orðum. Alþjóðasamningurinn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi verji óbeint verkfallsréttinn sem og samþykktir Alþjóða vinnumálastofnunarinnar nr. 87 og 98. Í stjórnarskránni sé verkfallsrétturinn óbeint varinn af ákvæði 74. gr. um félagafrelsi og þá sérstaklega með vísun hennar til frjálsrar starfsemi stéttarfélaga. Lögin um kjarasamning opinberra starfsmanna lögfesti meginregluna um verkfallsrétt í 14. gr og sama geri lögin um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í 48. gr. Allt séu þetta ákvæði sem séu gildandi samkvæmt íslenskum lögum eða alþjóðasáttmálum sem Ísland eigi aðild að.

Lögin nr. 33 frá 1915 um verkfall opinberra starfsmanna fjalli um þá sem vinni störf samkvæmt embættisskyldu eða sem sýslan í þarfir landsins, Landsbankans, spítala, sveitar, sýslu eða kaupstaðar, eins og það sé orðað í lögunum. Þar sé þeim bannað að gera verkfall að viðlögðum sektum eða fangelsi eða embættis- eða sýslunarmissi, ef miklar sakir séu, enda liggi eigi þyngri refsing við samkvæmt öðrum lögum. Þegar lög þessi hafi verið sett hafi starfsmenn ríkisins fyrst og fremst verið fámennur hópur embættismanna. Rétt skýring og beiting laganna nú, verði ekki tryggð, nema með því að skýra þau í ljósi breyttra aðstæðna og þeirra breytinga annarra sem orðið hafi á lagaumhverfi á vinnumarkaði.

Eins og glöggt megi ráða af bréfi ríkissáttasemjara til lögmanns stefnda, dags. 25. september 2000, hafi sá skilningur verið uppi, og hafi ekki verið umdeildur, að almennu stéttarfélögin hafi verkfallsrétt gagnvart ríkinu og beiti þeim rétti þegar þörf krefji. Þannig hafi t.d. fyrirrennari stefnda, verkalýðsfélagið Þór, gert verkfall á Sjúkrahúsi Suðurlands 4. - 6. maí 1988. Engar athugasemdir hafi komið fram um lögmæti þess verkfalls.

Eins og fram komi í stefnu telji stefnandi sig knúinn til, samkvæmt embættisskyldu, að fá banni við verkfalli opinberra starfsmanna í þessu tilviki framfylgt fyrir Félagsdómi svo að ekki komi til þess á Heilbrigðisstofnuninni, Selfossi.

Í framhaldi af þessu liggi beint við að spyrja. Fjármálaráðherrar hafi á gildistíma laganna um kjarasamning opinberra starfsmanna tekið við a.m.k. 35 verkfallsboðunum frá stéttarfélögum á almenna markaðinum án þess að hafa uppi þessi andsvör um ólögmæti þeirra. Er stefnandi með þessu að halda því fram að þeir hafi verið að brjóta gegn embættisskyldu sinni?

Stefnanda sé auðvitað fullkunnugt um að málum sé ekki svo varið sem hann haldi fram í stefnu. Stefnanda sé það fullljóst að almennu stéttarfélögin njóti verkfallsréttar og að lögin nr. 33/1915 taki ekki til þeirra. Málatilbúnaður stefnanda sæti því furðu. Hvers vegna til hans sé stofnað sé vandséð en það verði að vera hlutverk stefnanda að skýra það.

Málsástæða stefnanda um að friðarskylda hafi komist á með undirritun kjarasamnings þann 16. september eigi ekki við rök að styðjast. Kjarasamningurinn hafi verið undirritaður með skýrum fyrirvara um samþykki félagsmanna stefnda eins og tíðkanlegt sé við gerð kjarasamninga. Það samþykki hafi ekki fengist og þar með hafi komist á nákvæmlega sama ástand sem hafi ríkt áður en til undirritunarinnar kom. Engin fordæmi Félagsdóms styðji annan skilning. Gildi einu í þessu sambandi hvort talið verði að samningurinn hafi verið gerður á grundvelli vinnulöggjafarinnar eða laganna nr. 94/1986.

 

Niðurstaða

Hinn 8. júní 1995 var undirritaður kjarasamningur milli fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, stefnanda í máli þessu, og verkalýðsfélagsins Þórs er tók til allra starfa ófaglærðs starfsfólks á félagssvæði stéttarfélagsins sem unnin eru á vegum ríkisins á sjúkrahúsum. Með kjarasamningi dags. 28. apríl 1997, var þessi kjarasamningur framlengdur til 31. maí 2000 með þeim breytingum og fyrirvörum sem fólust í síðarnefnda samningnum. Fram kemur í gögnum málsins að um sl. áramót sameinaðist verkalýðsfélagið Þór verkalýðsfélaginu Bárunni og er hið sameinaða félag, verkalýðsfélagið Báran-Þór, stefndi í máli þessu. Gerður var nýr kjarasamningur, en á fundi starfsfólks Heilbrigðisstofnunarinnar á Selfossi 20. júlí sl. var samningurinn felldur. Voru samningaviðræður þá teknar upp að nýju er leiddi til undirritunar kjarasamnings aðila 16. september sl. Af hálfu stefnda var samningur þessi undirritaður með fyrirvara um samþykki félagsmanna. Á fundi starfsfólksins 18. september sl., var samningurinn felldur. Með bréfi, dags. 19. september sl., tilkynnti stefndi Samninganefnd ríkisins um þessi málsúrslit og óskaði jafnframt eftir viðræðum um nýjan kjarasamning. Þegar hér var komið höfðu þeir félagsmenn stefnda, sem starfa hjá Heilbrigðisstofnuninni, samþykkt 11. september sl. að boða til ótímabundins verkfalls er hefjast skyldi á miðnætti aðfaranótt 29. þessa mánaðar, hefðu samningar ekki tekist fyrir þann tíma. Hinn 12. september sl. var samninganefnd ríkisins tilkynnt þetta.

Stefnandi ber því við að hið boðaða verkfall sé andstætt lögum nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, þar sem það brjóti í bága við lög nr. 33/1915 um verkfall opinberra starfsmanna. Í síðastgreindum lögum komi fram sú meginstefna að verkföll, sem beinist gegn opinberum aðilum, séu bönnuð og þar með ólögmæt. Þar sem umræddir félagsmenn stefnda falli ekki undir lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna hafi þeir ekki verkfallsrétt.

Aðila málsins greinir á um hvort lög um stéttarfélög og vinnudeilur eða lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna séu grundvöllur síðastgildandi kjarasamnings aðila.

Samkvæmt 5. gr. laganna um stéttarfélög og vinnudeilur eru stéttarfélög lögformlegur samningsaðili um kaup og kjör meðlima sinna og er heimilt að vinna að framgangi krafna sinna í vinnudeilum með verkfalli samkvæmt II. kafla laganna. Það er einnig meginregla samkvæmt lögunum um kjarasamninga opinberra starfsmanna að þeim stéttarfélögum, sem eru samningsaðilar samkvæmt lögunum, er heimilt að gera verkfall í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sett eru í lögunum. Er tekið fram að ákvæði laga nr. 33/1915 nái ekki til þeirra sem heimilt er að gera verkfall samkvæmt lögunum. Með 48. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er verkfallsrétturinn áréttaður, en í greininni er svo mælt fyrir að stéttarfélagi sé heimilt að gera verkfall hjá ríkinu í þeim tilgangi að stuðla að framgangi krafna sinna í deilu um kjarasamning með þeim skilyrðum og takmörkunum sem sett eru í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna, lögum um stéttarfélög og vinnudeilur og öðrum lögum.

Samkvæmt framansögðu er verkfallsréttur meginregla og sætir þeim takmörkunum einum sem greindar eru í lögum. Af því leiðir að undantekningar frá þessari meginreglu ber að skýra þröngt.

Í 1. gr. laga nr. 33/1915 er mælt fyrir um refsiviðurlög hvers þess er sjálfur tekur þátt í verkfalli, enda skyldi starfið unnið samkvæmt embættisskyldu eða sem sýslan í þarfir landsins, Landsbankans, spítala, sveitar, sýslu eða kaupstaðar..."

Í ljósi framangreindrar meginreglu um verkfallsrétt verður ekki talið að lög nr. 33/1915 taki fyrir þann rétt í því tilviki sem hér um ræðir hvorki samkvæmt berum orðum þessara laga né skýringu á þeim með tilliti til hinna yngri laga. Þykir ekki skipta máli í þessu sambandi hvort lög nr. 80/1938 eða lög nr. 94/1986 eiga hér við.

Stefnandi ber því við að friðarskylda hafi komist á með undirritun samningsins 16. september sl. og ekki sé uppfyllt skilyrði 3. mgr. 15. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 3. gr. laga nr. 75/1996, sem sett er fyrir ákvörðun um boðun vinnustöðvunar að samningaviðræður eða viðræðutilraunir um framlagðar kröfur hafi reynst árangurslausar þrátt fyrir milligöngu sáttasemjara.

Ekkert liggur annað fyrir en að ákvörðun um verkfallið og boðun þess hafi verið tekin með lögmætum hætti. Þá verður ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að með undirritun kjarasamningsins 16. september sl. hafi grundvöllur brostið, vegna friðarskyldu aðila, fyrir verkfalli því sem boðað var 12. sama mánaðar, enda var kjarasamningurinn felldur við atkvæðagreiðslu starfsfólksins 18. september sl.

Samkvæmt framansögðu er kröfum stefnanda í máli þessu hafnað.

Stefnandi greiði stefnda 250.000 krónur í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

D Ó M S O R Ð

Kröfum stefnanda, íslenska ríkisins, á hendur Alþýðusambandi Íslands vegna Verkamannasambands Íslands f.h. verkalýðsfélagsins Bárunnar-Þórs, er hafnað.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta