Hoppa yfir valmynd
8. júní 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 5/2000: Úrskurður frá 8. júní 2000.

Ár 2000, fimmtudaginn 8. júní, var í Félagsdómi í málinu nr. 5/2000:

Meinatæknafélag Íslands

(Gísli Tryggvason hdl.)

gegn

Landspítala - háskólasjúkrahúsi

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

kveðinn upp svofelldur

Ú R S K U R Ð U R :

Mál þetta var tekið til úrskurðar um frávísunarkröfu stefnda að loknum munnlegum málflutningi hinn 29. maí sl.

Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Erla Jónsdóttir, Kristján Torfason, og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Meinatæknafélag Íslands, kt. 481178-0299, Lágmúla 7, Reykjavík.

Stefndi er Landspítali - Háskólasjúkrahús, kt. 500300-2130, Eiríksgötu 5, Reykjavík.

  

Dómkröfur stefnanda:

A Viðurkenningarkröfur:

l. Afturvirk röðun Esterar Hafsteinsdóttur samkvæmt úrskurði

Stefnandi kveðst gera þá kröfu að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að starfi Esterar Hafsteinsdóttur, kt. 220961-7299, sem deildarmeinatæknir við veirurannsóknardeild stefnda skuli frá og með l. desember 1997 raðað í launaramma B samkvæmt kjarasamningi stefnanda við fjármálaráðherra f.h. ríkisins o.fl., þ.e.

a) aðallega að starfi Esterar skuli frá og með l. desember 1997 raðað samkvæmt aðlögunarúrskurði frá 2. júlí 1998 í launaramma B, eigi neðar en B9 þrátt fyrir fastar mánaðargreiðslur sem nemi 9 yfirvinnustundum án vinnuframlags, en

b) til vara að starfi Esterar skuli frá og með l. desember 1997 raðað samkvæmt aðlögunarúrskurði frá 2. júlí 1998 í launaramma B þrátt fyrir fastar mánaðarlegar greiðslur sem nemi 24 yfirvinnustundum án vinnuframlags.

2. Almenn afturvirkni röðunar samkvæmt úrskurði

Stefnandi kveðst ennfremur gera þá sjálfstæðu kröfu að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að störfum meinatækna í starfi hjá stefnda, sem taki laun samkvæmt aðlögunarúrskurði frá 2. júlí 1998, skuli almennt raðað samkvæmt úrskurðinum frá og með l . desember 1997.

3. Ólögmæt háttsemi

Þá kveðst stefnandi gera þá viðurkenningarkröfu að Félagsdómur staðfesti með dómi að sú ákvörðun eða háttsemi stefnda að hækka röðun samkvæmt aðlögunarúrskurði frá 2. júlí 1998 í áföngum og frá síðari tíma en l. desember 1997 að því er varðar meinatækna í starfi hjá stefnda, sem taki laun samkvæmt úrskurðinum, og þar með synjun á að viðurkenna kröfur samkvæmt dómkröfuliðum 1 og 2 hafi verið ólögmæt; þess er krafist að framangreind háttsemi stefnda verði dæmd brot gegn úrskurðinum og þar með kjarasamningi stefnanda við fjármálaráðherra f.h. ríkisins o.fl. og brot á lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

4. Ólögmæt mismunun á grundvelli félagsaðildar

Loks kveðst stefnandi krefjast viðurkenningar á því að sú háttsemi stefnda, sem lýst er í dómkröfulið 3, - um leið og stefndi hafi samþykkt kröfur (félagsmanna) annarra stéttarfélaga sambærilegar við dómkröfuliði 1 og 2 - teljist mismunun á grundvelli stéttarfélagsaðildar eða jafngildi slíkri mismunun og fari í bága við 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 74. og 75. gr. stjórnarskrárinnar.

B Fjár- og refsikröfur:

l. Févítis- og sektarkrafa

Stefnandi kveðst ennfremur gera þá kröfu

a) aðallega að stefnda verði með dómi gert að greiða stefnanda févíti sem renni í félagssjóð stefnanda að fjárhæð 500.000,00 kr., en

b) til vara að stefnda verði með dómi gert að greiða sekt í ríkissjóð.

2. Skaðabótakrafa

Loks kveðst stefnandi gera þá kröfu aðallega að stefnda verði með dómi gert að greiða skaðabætur til handa Ester Hafsteinsdóttur, kt. 220961-7299, að fjárhæð 100.000,00 kr., en til vara að lægri fjárhæð að mati dómsins - hvort tveggja ásamt dráttarvöxtum skv 10. gr. vaxtalaga nr. 25/1987, sbr. l. gr. laga nr. 90/1992, aðallega frá og með stefnubirtingardegi, sbr. 4. mgr. 9. gr. vaxtalaga, en til vara frá uppkvaðningu dómsins, og til greiðsludags ásamt vaxtavöxtum skv 1. ml. 12. gr. vaxtalaga í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta.

Þá kveðst stefnandi krefjast málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins - eftir atvikum samkvæmt sundurliðuðum málskostnaðarreikningi sem lagður verði fram við aðalmeðferð ef til hennar kemur.

 

 

Dómkröfur stefnda

Aðallega að málinu verði vísað frá Félagsdómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati Félagsdóms.

Til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati Félagsdóms.

Til þrautavara krefst stefndi lækkunar á févítis-, sektar- og skaðabótakröfum stefnanda og að málskostnaður verði látinn niður falla.

  

Málavextir

Mál þetta kveður stefnandi höfðað vegna Esterar Hafsteinsdóttur, kt. 220961-7299, og annarra félagsmanna stefnanda sem eiga í hlut og þá um leið vegna félagsins sjálfs. Hinn 5. júlí 1997 skrifaði stefnandi ásamt fjármálaráðherra f.h. ríkisins o.fl. undir kjarasamning þar sem ákveðið var að taka upp nýtt launakerfi. Skyldi það taka gildi hinn 1. desember 1997 og vera komið að fullu til framkvæmda hinn 1. febrúar 1998. Samkvæmt. fylgiskjali 1 með þeim kjarasamningi skal sérstök nefnd, aðlögunarnefnd, koma sér saman um nánari forsendur, en þær sem greinir í grein 3.5 í kjarasamningnum um skilgreiningar starfa og röðun starfsmanna í launaramma og launaflokk. Skyldi aðlögunarnefnd ljúka störfum eigi síðar en 31. október 1997. Tækist það ekki skyldi vísa ágreiningi til sérstakrar úrskurðarnefndar. Ekki tókst að ná samkomulagi í aðlögunarnefnd þannig að úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð hinn 2. júlí 1998. Samkvæmt úrskurðinum átti nýja launakerfið að taka gildi hinn l. desember 1997 og vera komið að fullu til framkvæmda hinn 1. september 1998.

Ester Hafsteinsdóttir hafði í gamla launakerfinu 24 tíma í fasta yfirvinnu á mánuði (miðað við 100% starfshlutfall). Þess utan fékk hún greitt sérstaklega fyrir vaktir, útköll og aðra yfirvinnu. Ester var raðað samkvæmt gamla launakerfinu til 1. ágúst 1998 en var þá varpað inn í nýja launakerfið í næstu launatölu í ramma A (A6, námundun uppávið) en fékk áfram greitt hlutfall af fastri yfirvinnu í samræmi við starfshlutfall. Í bréfi frá starfsmannahaldi stefnda, dags. 4. júní 1999, með yfirskriftinni "Röðun samkvæmt nýju launakerfi - Gildir þar til starfsmat hefur farið fram," kemur fram að Ester sé raðað frá og með 1. febrúar 1999 í B-ramma. Kemur fram að starfinu sé raðað innan launarammans að teknu tilliti til þess hvers það krefst af starfsmanni og því raðað að teknu tilliti til tilgreindra þátta í starfinu. Samkvæmt þessu mati raðast Ester í launaflokk B9. Í bréfinu er tekið fram að með vísan til bréfs samningsaðila frá 10. október 1997, taki hin nýja launaflokkaröðun fyrst gildi er persónubundin ráðningarkjör hafi verið tekin til endurskoðunar. Stefnandi kveður það einnig hafa komið fram munnlega af hálfu stefnda að fyrirvari sé á röðun Esterar á þann hátt að hluti af föstum yfirvinnutímum hennar, þ.e. 15 tímar af 24 miðað við fullt starf, falli inn í þessa röðun þannig að 9 tímar standi eftir. Hvorki hafi staðið á Ester né stefnanda að veita atbeina sinn til þess að slíkt samkomulag sé gert eins og hjá öðrum í samræmi við fyrirvarann. Aðeins hefur strandað á dagsetningu á gildistöku röðunar sem stefnandi hafi talið ófrávíkjanlega, þ.e. 1. desember 1997, en á það hafi stefndi ekki fallist á.

Stefnandi bendir á að félagsmenn annarra stéttarfélaga, svo sem Félags íslenskra náttúrufræðinga (FÍN), hafi fengið afturvirkar leiðréttingar frá 1. desember 1997 - þ.e. í samræmi við kröfur stefnanda. Þá séu dæmi um að meinatæknar í starfi hjá stefnda hafi verið að fá launahækkanir samkvæmt nýja launakerfinu í áföngum.

Stefnandi hafi leitað í tvígang til laganefndar Bandalags háskólamanna (BHM) og í kjölfar síðari niðurstöðu nefndarinnar hafi verið ákveðið að höfða mál þetta.

  

Málsástæður og lagarök stefnanda

A Viðurkenningarkröfur

Dómkröfur stefnanda styðjast að sögn við úrskurð úrskurðarnefndar samkvæmt. fylgiskjali 1 með kjarasamningi stefnanda við fjármálaráðherra f.h. ríkisins o.fl. Meirihluti nefndarinnar - fulltrúar stefnda og hlutaðeigandi fagráðuneytis ásamt oddamanni, skipuðum af ríkissáttasemjara - hafi kveðið upp úrskurð hinn 2. júlí 1998 vegna félagsmanna stefnanda í starfi hjá stefnda. Samkvæmt ákvæði 0.1.4 í greindum kjarasamningi telst aðlögunarúrskurður hluti kjarasamnings.

Í lok úrskurðarins komi eftirfarandi fram:

"4. Gildistaka

Hið nýja launakerfi skal taka gildi 1. desember 1997 en vera að fullu komið til framkvæmda 1. september 1998."

Gildistökudagsetninguna kveður stefnandi vera í samræmi við ákvæði 0.1.5 í kjarasamningi, þar sem gildistakan sé ákveðin 1. desember 1997 en síðari dagsetningin hafi verið ákveðin 1. febrúar 1998.

Stefnandi kveðst ítrekað hafa krafið stefnda um efndir og leiðréttingu - almennt og vegna Esterar Hafsteinsdóttur, síðast með bréfi dags. 13. mars 2000. Stefndi hafi á hinn bóginn ekki mótmælt kröfum stefnanda heldur ýmist hunsað þær eða hafnað þeim með ófullnægjandi röksemdum.

Stefnandi kveður stefnda þannig þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir stefnanda fyrr og síðar enn ekki hafa efnt skuldbindingar sínar eða viðurkennt rétt félagsmanna stefnanda samkvæmt framansögðu og sé stefnanda því nauðsyn á að höfða mál þetta til viðurkenningar kröfum og réttindum félagsmanna sinna og aðallega til heimtu févítis í félagssjóð en til vara sektar í ríkissjóð, svo og skaðabóta til handa Ester Hafsteinsdóttur.

Stefnandi kveður ljóst að síðbúin röðun Esterar Hafsteinsdóttur sé röðun samkvæmt aðlögunarúrskurðinum vegna hins nýja launakerfis en þar sé um að ræða bréf starfsmannahalds stefnda til Esterar, dags. 4. júní 1999, með yfirskriftinni "Röðun samkvæmt nýju launakerfi - Gildir þar til starfsmat hefur farið fram." Af því leiði að stefndi sé bundinn af gildistökudagsetningu úrskurðarins, 1. desember 1997, og geti ekki einhliða og að vild valið aðrar og síðari dagsetningar hvort sem um sé að ræða hækkanir í áföngum eður ei. Sama gildi eins og áður segir skv. ákvæði 0.1.5 í kjarasamningi stefnanda við fjármálaráðherra f.h. ríkisins o.fl., þar sem mjög hafi dregist að fá niðurstöðu aðlögunarúrskurðarnefndar hefði verið markleysa að hafa framkvæmdadagsetninguna þá sömu og í kjarasamningi og hafi hún því verið ákveðin tæpum tveimur mánuðum síðar, þ.e. með sama fyrirvara og ráðgerður hafi verið í tilvísuðu kjarasamningsákvæði.

Einu lögmætu ástæðurnar fyrir slíkri síðbúinni hækkun - eftir atvikum í áföngum kveður stefnandi vera ef um það væri að ræða að tiltekinn meinatæknir lyki í millitíðinni tiltekinni námsgráðu eða næði öðrum áfanga í einstaklingsbundnum þáttum sem gæti réttlætt síðbúna hækkun skv. ákvæði 2.4 í aðlögunarúrskurðinum eða ef mat á inntaki tiltekins starfs skv. ákvæði 2.1-2.3 breyttist á tímabilinu sem áfangahækkunin spannar.

Séu slíkar ástæður ekki fyrir hendi sé að mati stefnanda um að ræða ólögmætan drátt á réttmætri launaröðun - eftir atvikum hækkun í áföngum.

Afstaða og háttsemi stefnda sem rakin sé að framan stangist að mati stefnanda á við 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og l. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda með síðari breytingum; samkvæmt þeim skýru lagaákvæðum skuli kjarasamningar vera ófrávíkjanleg lágmarkskjör og lakari samningar við launamenn - hvað þá einhliða gerningar atvinnurekenda um lakari kjör - ógildir. Ljóst sé að það sé ótvíræð skylda stefnda samkvæmt úrskurði aðlögunarúrskurðarnefndar að raða störfum í samræmi við ákvæði úrskurðarins, þ.e. frá tilgreindri gildistökudagsetningu, l. desember 1997; að öðrum kosti hefði sérstök úrskurðarnefnd og oddamaður, sem á reyndi, verið óþörf og niðurstaða - meirihluta - nefndarinnar væri ella markleysa.

Jafnframt beri stefnda að upplýsa starfsmenn sína, félagsmenn stefnanda sem aðra, um þá röðun sem þeim sé ákveðin þar sem úrskurðurinn sé hluti af kjarasamningi, sbr. 3. gr. kjarasamnings stefnanda við fjármálaráðherra f.h. ríkisins o.fl., nú ákvæði 0.1.4 í uppfærðum kjarasamningi þeirra. Þá sé einnig ljóst að starfsmaður stefnda, félagsmaður stefnanda, geti ekki nýtt sér ákvæði 3. liðar úrskurðar úrskurðarnefndar um málskot til samstarfsnefndar nema forsendur séu "fyrirliggjandi" eins og segir í ákvæðinu. Ótvírætt sé skv. 4. lið úrskurðarins og ákvæði 0.1.5 í kjarasamningi að röðun samkvæmt hinu nýja launakerfi skuli gilda frá 1. desember 1997.

Samkvæmt framangreindu telur stefnandi að taka beri til greina allar kröfur stefnanda í dómkröfuliðum 1-3.

Stefnandi vill taka fram vegna dómkröfuliðar 4 að almennt sé talið að sú meginregla gildi í starfsmannarétti og stjórnsýslu að ákvörðun, sem byggir á því hvort aðili máls sé í ákveðnu félagi eða sé ekki í tilteknu félagi, sé ómálefnaleg og að ekki megi líta til slíkra sjónarmiða nema skýr lagaheimild sé fyrir því. Telja verði að slík regla gildi einnig þegar um sé að ræða mismunun milli stéttarfélaga við framkvæmd kjarasamnings. Hafi röðun félagsmanna FÍN í starfi hjá stefnda átt sér stað með öðrum hætti en að ofan greinir um röðun Esterar eða annarra félagsmanna stefnanda í starfi hjá stefnda sé um að ræða ólögmæta mismunun á grundvelli stéttarfélagsaðildar enda séu gildistökuákvæði algerlega sambærileg.

B Fjár- og refsikröfur

l. Févítis- og sektarkrafa

Aðalkrafa a) um févíti og varakrafa b) um sekt styðjast að sögn stefnanda við þá staðreynd að stefndi hafi vanefnt gróflega og af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi þá skyldu sína við stefnanda og félagsmenn hans samkvæmt gildandi kjarasamningi stefnanda við fjármálaráðherra f.h. ríkisins o.fl. Nánar tiltekið hafi stefndi vanefnt að raða frá tilsettum tíma samkvæmt aðlögunarúrskurði, sem kveðinn var upp 2. júlí 1998 af fulltrúum stefnda sjálfs og fulltrúa fagráðuneytis ásamt oddamanni sem ríkissáttasemjari skipaði, en fulltrúar stefnanda hafi ekki staðið að niðurstöðunni. Vanefnd stefnda kveður stefnandi felast í því að raða meinatæknum - félagsmönnum stefnanda - ekki frá 1. desember 1997, sem úrskurðurinn kveði á um sem gildistökudagsetningu hins nýja launakerfis, heldur í áföngum og frá síðari tíma, þ.e. frá dagsetningum sem hvorki eigi sér stoð í aðlögunarúrskurði né í samningum milli stefnanda og stefnda eða annarra fulltrúa ríkisins, sbr. og ákvæði 0.1.5 í kjarasamningi sem kveði skýrt á um sömu gildistökudagsetningu.

Þá kveður stefnandi ljóst að sannanlegt og skýrt brot á kjarasamningi - af þeim grófleika og því saknæmisstigi sem að ofan greini - og þar með brot á lögum nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna hljóti að hafa einhverjar afleiðingar aðrar en viðurkenningu á rétti og skyldu aðila kjarasamnings og þeirra sem leiða rétt sinn af þeim; að öðrum kosti sé ekkert úrræði til þess að tryggja réttar efndir kjarasamninga opinberra starfsmanna - eða a.m.k. stuðla að efndum. Í því sambandi vísar stefnandi til þess að samningsréttur launafólks sé nú stjórnarskrárvarinn eftir stjórnarskrárbreytingu 1995 skv. 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. og l. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar.

Stefnandi kveður eðlilegt að krafist sé aðallega févítis og til vara sektar í máli sem þessu sem sé öðrum þræði af allsherjarréttarlegum toga auk þess sem hliðstæður fyrir sóknaraðild einkaaðila að slíkum kröfum megi finna víða í löggjöf, þ.e. einkarefsimálum, sbr. t.d. 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum og l. mgr. 59. gr. höfundalaga nr. 73/1972 með síðari breytingum; erfitt sé að ímynda sér sóknaraðild ríkissaksóknara gegn ríki eða ríkisstofnun vegna sektarkröfu skv. 35. gr. nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

2. Skaðabótakrafa

Kröfu stefnanda um skaðabætur til handa Ester Hafsteinsdóttur kveður hann byggja á þeirri staðreynd að Ester hafi orðið fyrir tjóni vegna afstöðu stefnda og háttsemi. Orsakartengslin kveður stefnandi skýr enda hafi Ester eins og aðrir meinatæknar í starfi hjá stefnda, félagsmenn stefnanda, orðið af réttmætum launahækkunum og þar með bæði beðið fjártjón og miska auk þess sem stefndi hafi hagnast á brotinu og misbeitt yfirburðastöðu sinni og viðurkenndri forgangsstöðu til túlkunar. Stefnandi kveður ófært að stefndi komist upp með að brjóta kjarasamninga eins og lýst sé í réttarstefnu þessari án þess að það hafi aðrar afleiðingar en síðbúnar leiðréttingar á launagreiðslum. Augljós vandkvæði Esterar við að sýna fram á nákvæma tölulega fjárhæð, sem sé bein afleiðing af háttsemi stefnda, eigi ekki að koma stefnda til góða.

Stefnandi kveðst vilja benda á að í 2. ml. l. mgr. 65. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með síðari breytingum, er gildi sem almenn vinnulöggjöf til fyllingar ákvæðum laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, segi:

"Við ákvörðun skaðabóta má taka tillit til saknæmi brotsins."

Að því er varðar fjárhæð bótanna skírskotar stefnandi til fjölmargra dómafordæma um að bætur megi í tilvikum sem þessum dæma að álitum.

Krafa stefnanda um málskostnað styðst að sögn stefnanda við 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 að því er fjárhæð varðar. Stefnandi telur að taka beri tillit til þess að stefnandi er stéttarfélag sem hefur leitað allra tiltækra úrræða til að leysa málið utan réttar áður en leitað var til heildarsamtaka um atbeina og síðan um aðstoð við málsókn þessa.

Að því er varðar skyldu stefnda til greiðslu málskostnaðar kveður stefnandi kröfu sína aðallega byggjast á að stefndi tapi máli í öllu verulegu, sbr. 1. mg 65. gr. laga nr. 80/1938. Að öðrum kosti styðjist krafa stefnanda um málskostnað til vara við þá staðreynd að stefndi hafi sem opinber atvinnurekandi ekki aðeins yfirburðarstöðu gagnvart einstökum launamönnum heldur einnig svonefnda forgangsstöðu til túlkunar bæði á lögum og reglugerðum er varða starfsmannarétt og kjarasamningum og ráðningarsamningum þótt tvíhliða séu. Einstakir launamenn verði að hlíta ákvörðunum stefnda, sbr. 2. ml. 60. gr. stjórnarskrárinnar, eins og annarra ríkisstofnana sem til þess séu bærar, sbr. 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986. Sama gildi um stefnanda sem stéttarfélag eins og önnur samtök launamanna sem einungis geti látið reyna á afstöðu vinnuveitenda með málsókn fyrir Félagsdómi eins og í þessu tilviki og eftir atvikum fyrir héraðsdómi. Stefndi hafi - bæði almennt og í þessu tilviki - umfram aðra atvinnurekendur lagst gegn öllum ráðum ríkisstarfsmanna og stéttarfélaga til þess að hnekkja ákvörðunum stefnda sem atvinnurekanda um einhliða - og oft óréttmæta - túlkun á framangreindum heimildum.

Þá megi hafa hliðsjón af 4. mgr. 130. gr. eml. en með því að mál þetta sé prófmál sem eitt af mörgum sem séu til meðferðar hjá stefnanda komist stefndi hjá því að gegn honum séu höfðuð mörg mál um sama álitaefni.

Réttarreglur

A viðurkenningarkröfur

Stefnandi kveður skuldbindingar stefnda styðjast við skráðar og óskráðar reglur íslensks vinnu- og starfsmannaréttar og allsherjarréttar um að samninga beri að halda og kaupgjald að gjalda þegar um sé samið eða krafist sé og að lög, reglugerðir, kjarasamninga og ráðningarsamninga - skriflega og munnlega - beri að túlka í samræmi við stjórnarskrá, lagaþróun, launaþróun og af jafnræði og sanngirni. Þá vísar stefnandi til 9., 10. og 24. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna og 1. mgr. 9. gr. og 47. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Vegna dómkröfuliðar 4 í kafla A vísar stefnandi til 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar um samningsrétt launafólks og stéttarfélaga þeirra, sbr. 1. mgr. 74. gr. stjórnarskrárinnar. Þá vísar stefnandi til 4. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og 1. mgr. 8. gr. tilskipunar 95/46/EB sem feli í sér sérstaka lögvernd stéttarfélaga og félagsmanna þeirra að því er stéttarfélagsaðild varðar.

B Fjár- og refsikröfur

Skaðabótakröfu (2.) til handa Ester Hafsteinsdóttur byggir stefnandi á l. ml. l. mgr. 13. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem hljóði svo:

"Aðilar kjarasamnings bera fébótaábyrgð á samningsrofum sem þeir sjálfir eða fulltrúar þeirra gerast sekir um í störfum sínum fyrir þá."

Þá kveður stefnandi aðalkröfu (l. a) um févíti og einnig skaðabótakröfu (2.) styðjast við l. ml. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með síðari breytingum, er gildi sem almenn vinnulöggjöf til fyllingar ákvæðum laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna; í ákvæðinu segi:

"Dómurinn getur dæmt aðilja til að greiða skaðabætur, sektir og til að greiða málskostnað eftir venjulegum reglum."

Stefnandi kveður ljóst að með orðinu "sektir" sé þarna átt við févíti, þ.e. peningaleg viðurlög sem renni til þess málsaðila sem kröfu gerir verði fallist á kröfur hans, enda væri ella óþarft að kveða aftur sérstaklega á um það í 1. mgr. 70. gr. sömu laga að brot gegn lögunum varði sektum - þ.e. refsingu - en í kjölfarið sé kveðið á um að sektirnar renni eins og aðrar sektir af þeim toga í ríkissjóð. Eðli síðarnefndra sekta megi einnig ráða af því að vararefsing sé sérstaklega bönnuð. Sama megi ráða af 2. mgr. 70. gr. sem bætt var við lögin með 8. gr. laga nr. 75/1996 þar sem ábyrgð á tilteknum brotum gegn lögunum sé undanþegin refsingu - þ.e. sektum - en varði þá aðeins skaðabótum eða eftir atvikum févíti, sbr. og 1. mgr. 65. gr. laganna.

Þá vísar stefnandi aðallega til þess að þar sem almenna vinnulöggjöfin sé til fyllingar sérlöggjöf á borð við lög nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna megi beita framangreindum lagaákvæðum til þess að dæma févíti af umræddu tagi. Til vara skírskotar stefnandi til lögjöfnunar enda séu tilvik algerlega sambærileg og sérlögin þegi um viðurlög af þessu tagi.

Að því er varðar lagastoð fyrir varakröfu ( 1. b) um sekt í ríkissjóð - þ.e. refsingu - vísar stefnandi til 35. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sbr. til hliðsjónar 1. mgr. 70. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur með síðari breytingum.

Málskostnaðarkröfu stefnanda styður hann við l. mgr. 65. gr. laga nr. 80/1938, sbr. XXI kafla eml. Fjárhæð málskostnaðar styðst að sögn stefnanda við 129. gr. eml. Kröfu um greiðslu málskostnaðar styður stefnandi við l. mgr. 65. gr. laga nr. 80/1938, sbr. aðallega l. mgr. 130. gr. eml. en til vara 2. ml. 3. mgr. 130. gr. eml.

  

Málsástæður og lagarök stefnda

Frávísunarkrafa stefnda tekur til allra kröfuliða stefnanda og að málinu verði í heild vísað frá Félagsdómi.

Í stefnu komi ekki fram á hvaða lagagrundvelli málið sé lagt fyrir Félagsdóm, en lögsaga dómsins leiðir af ákvæðum 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Beri að túlka lögsögu Félagsdóms þröngt þar sem um sérdómstól sé að ræða, sbr. ítrekuð dómafordæmi. Brýna nauðsyn beri til að gera skýra grein fyrir því í stefnu fyrir Félagsdómi á hvaða grundvelli sakarefni séu fyrir dóminn lögð, einkum þegar málatilbúnaður sé svo flókinn og óljós sem raun ber vitni af hálfu stefnanda. Það hafi farist fyrir í stefnu og sé næg ástæða frávísunar sökum vanreifunar, enda ekki stefnda að geta sér til um á hvaða grundvelli einstakar kröfur geti komið til úrlausnar Félagsdóms. Efnisákvæði laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur taki ekki til þess kjarasamnings sem fjármálaráðherra hafi gert fyrir hönd ríkissjóð við stefnanda, heldur aðeins ákvæði um málsmeðferð fyrir dómi og kæruheimild. Taki 44. gr. laganna ekki til aðila, heldur eftir atvikum 26. gr. laga nr. 94/1986. Leiði það meðal annars af dómi Félagsdóms 21. október 1999 í málinu nr. 7/1999. Er því mótmælt að brotið hafi verið af hálfu stefnda gegn einhverju ákvæðum laga nr. 80/1938 eða að þau lög geti komið til úrlausnar vegna vinnusamninga milli stefnda og félagsmanna stefnanda eða stefnanda.

Fjármálaráðherra hafi gert gildandi kjarasamning fyrir hönd ríkissjóðs ásamt fleirum við stefnanda þessa máls. Fari fjármálaráðherra með fyrirsvar fyrir ríkissjóð við gerð kjarasamninga samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986, en samkvæmt 1. mgr. 26. gr. sömu laga dæmir Félagsdómur aðeins í málum sem rísa á milli samningsaðila. Um fébótaábyrgð vegna samningsrofa sé einnig mælt fyrir um aðila kjarasamnings, en stefndi sé það ekki. Breyti engu í þessu sambandi hvort eða að hve miklu leyti fjármálaráðherra hafi falið stefnda framkvæmd kjarasamnings á grundvelli 2. mgr. 3. gr. laganna.

Stefnandi hafi á hinn bóginn stefnt Landspítala, háskólasjúkrahúsi í máli þessu og forstjóra stofnunarinnar fyrir hennar hönd. Af þessum sökum beri að vísa málinu frá Félagsdómi þar sem lögsaga dómsins nái ekki til þess að leysa úr málinu eins og það sé lagt fyrir enda sé stefndi ekki aðili að kjarasamningi. Einnig er á því byggt að fyrirsvar við þessar aðstæður sé rangt sem valda eigi frávísun málsins. Verði ekki á það fallist beri að sýkna af öllum kröfum stefnanda vegna aðildarskorts stefnda, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Tekið skal fram að ekkert samkomulag um að leggja einhvern þann ágreining er endurspeglast í kröfum stefnanda fyrir Félagsdóm liggi fyrir, hvorki milli aðila þessa máls né milli aðila kjarasamnings. Næg ástæða sé af þessum sökum til að vísa málinu í heild frá Félagsdómi. Þá er einnig byggt á því að skilyrði 27. gr. laga nr. 91/1991 séu í engu uppfyllt um kröfur stefnanda sem séu ólíkar innbyrðis og vegna mismunandi atvika. Viðurkenningarkröfum sé auk þess steypt í samhengisleysu hver á eftir annarri sem í raun verði óleysanlegan heild og ódómhæfur málatilbúnaður. Í heild séu kröfur stefnanda augljóslega andstæðar 24. og 25. gr., svo og 80. gr. laga nr. 91/1991.

Um einstaka kröfuliði eru frávísunar- og sýknukröfur byggðar á því sem að framan greinir og eftirfarandi auk þess sem Félagsdómur kynni að meta ex officio að því er frávísun varðar.

Um viðurkenningarkröfur stefnanda (kröfuliði A)

Kröfuliður 1 undir staflið A

Stefndi telur það ekki heyra undir lögsögu Félagsdóms að kveða á um röðun í launaflokka, hvorki almennt né varðandi einstaka félagsmenn, þ. á m. Ester Hafsteinsdóttur, enda hafi ekki ennþá stofnast til ráðningarkjara þess efnis sem látið sé að liggja í stefnu hvað hana varðar og hafi hún engar tillögur stefnda samþykkt. Séu því ekki lagaskilyrði í 26. gr. laga nr. 94/1986 til að fjalla um kröfur þær er varðar Ester. Vísast einnig til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991. Aðal- og varakrafa undir 1. kröfulið stafliðs A séu einnig ódómhæfar enda ráði þær eigi tilteknu sakarefni til fullnaðarlykta á einn veg eða annan.

Kröfugerðin, hvort sem sé svokölluð aðal- eða varakrafa, byggi og á þeirri röngu forsendu að störfum sé raðað samkvæmt aðlögunarúrskurði frá 2. júlí 1998. Starfsmenn taki laun samkvæmt kjarasamningi. Þótt nefndur úrskurður kveði á um nánari forsendur og röðunarkerfi sem miða beri við þá taki starfsmenn ekki laun samkvæmt aðlögunarúrskurði. Krafa um að starfi Esterar skuli frá og með 1. desember 1997 raðað samkvæmt "aðlögunarúrskurði ... í launaramma B, eigi neðar en B9 þrátt fyrir fastar yfirvinnugreiðslur sem nemi 9 yfirvinnustundum án vinnuframlags." eigi sér enga stoð í lögum eða kjarasamningi og ekki í ráðningarsamningi hennar. Sé það ekki hlutverk Félagsdóms að ákveða fjölda yfirvinnustunda enda ekki efnisatriði við túlkun á kjarasamningi.

Vísast enn til þess að Ester hafi ekki samþykkt fyrir sitt leyti ráðningarkjör þar sem launaflokkur í B ramma sé lagður til grundvallar, hvorki B9 eða annar, en í bréfi frá 4. júní 1999 hafi henni verið bent á að snúa sér til innritunarstöðvar hjá stefnda til að ganga frá ráðningarkjörum. Það sé ekki hlutverk Félagsdóms að kveða á um einstaklingsbundin ráðningarkjör hvorki um launaflokk eða yfirvinnutíma, frekar en það hafi verið hlutverk aðlögunar- eða úrskurðarnefnda, sbr. yfirlýsingu samningsaðila frá 10. október 1997. Liggi enginn samningur fyrir um að Ester taki laun eftir launaflokki B9 með 9 yfirvinnustundum án vinnuframlags eða réttur þess efnis samkvæmt kjarasamningi. Séu þannig engar lagalegar eða kjarasamningsbundnar forsendur fyrir þeirri ráðagerð stefnanda að fela Félagsdómi að kveða á um eða stofna til ráðningarsamnings um laun sem hún hafi ekki samþykkt fyrir sitt leyti gagnvart stefnda, m.ö.o. að samþykkja tilboð með breyttu efni fyrir hönd starfsmanns. Ágreiningurinn geti því ekki lotið að skilning á kjarasamningi eða gildi hans.

Viðurkenningarkrafa stefnanda í 1. lið feli í raun í sér viðurkenningu á tilteknum launakröfum félagsmanna sinna sem m.a. koma fram í bréfi Esterar frá 22. júní 1999 og að ráðningarsamningur hennar skuli vera með ákveðnu efni. Engin stoð sé fyrir slíkri kröfu. Hafi stefndi þegar efnt skyldur sínar samkvæmt kjarasamningnum.

Ákvörðun stefnda frá 4. júní 1999 hafi verið rétt í framhaldi af úrskurði úrskurðarnefndar, 2. júlí 1998, þegar tekið hafi verið tillit til þeirra ákvarðana sem stefndi tók í framhaldi af aðgerðum félagsmanna stefnanda. Hafi stefndi neytt þar réttar síns sem vinnuveitandi. Í framhaldi af úrskurðinum hafi Ester verið raðað í launaflokk A06, sem fyrr segir með 24 föstum yfirvinnutímum og hafi sú röðun gilt frá 1. desember 1997. Ljóst sé að Ester hafi ekki lækkað í launum við mat stefnda á störfum hennar samkvæmt hinu nýja launakerfi. Stefnanda hljóti að vera ljóst að ástæða þess að Ester hafi verið raðað í A06 hafi verið sú að hún hafi ekki lækkað í launum við gildistöku hins nýja launakerfis. Stefnda hafi ekki verið skylt að verða við auknum launakröfum hennar og sé engri skyldu til að dreifa samkvæmt kjarasamningi, lögum eða úrskurði úrskurðarnefndar um að starfi hennar beri að raða í launaramma B, en því mati stefnda hvað starf hennar varðar hafi ekki tekist að hrinda í framkvæmd af ástæðum sem fyrr greinir.

Kröfuliður 2 undir staflið A:

Til stuðnings frávísunarkröfu varðandi þennan lið er vísað til þess sem að framan sé rakið. Umræddur kröfuliður sé með öllu óljós og ómarkviss og lúti ekki að tilteknu ágreiningsefni, né ráði hann tilteknu ágreiningsefni til fullnaðarlykta á einn veg eða annan. Byggir kröfuliðurinn á rangri forsendu um að meinatæknar hafi ekki tekið laun samkvæmt nýjum kjarasamningi frá 1. desember 1997. Félagsmenn stefnanda taki laun samkvæmt kjarasamningi, en svokallaður aðlögunarúrskurður kveði ekki á um annað en nánari forsendur við röðun í launaflokka. Krafa stefnanda samkvæmt þessum tölulið lúti að því að fá viðurkennda almenna túlkun eða mat á réttarstöðu afturvirkt án skýrra tengsla við ákveðið úrlausnarefni og án þess að ágreiningsefnið sé afmakað á glöggan hátt. Sé kröfugerðin því ekki dómhæf eftir 1. mgr. 25. gr. og 80. gr. laga nr. 91/1991. Vísast m.a. til Félagsdóms 7. apríl 2000 í málinu nr. 2/2000. Fyrir liggi sú staðreynd að félagsmönnum stefnanda hafi almennt verið raðað í launaflokka samkvæmt hinu nýja launakerfi frá 1. desember 1997 miðað við mat stefnda haustið 1998. Krafan sé því ekki fram sett á þann hátt að dómur um hana geti leyst úr ágreiningi.

Kröfuliður 3 undir staflið A

Umrædd krafa sé ekki studd gögnum eða skýringum og svo almenns eðlis að dómur verði ekki á hana lagður, ýmist valkvæð eða órökstudd. Í engu sé útskýrt hvernig krafa er sögð sé byggð á "ólögmætri háttsemi" eigi undir Félagsdóm. Byggir hún á rangri forsendu og villu um staðreyndir máls eins og að framan greinir. Þá byggir krafan á þeirri óraunhæfu forsendu að aðrar ódómhæfar kröfur séu réttmætar að mati stefnanda. Krafan vísar ótilgreint til þess að með því að fyrri kröfuliðir stefnanda verði teknir til greina skuli fallast á þessa kröfu. Sé ótilgreint krafist dóms um að brotið hafi verið gegn úrskurði nefndarinnar, kjarasamningi og heilum lagabálki. Blandist málsástæður og lagarök í kröfugerðinni þannig að hún sé engan vegin dómhæf samkvæmt 25. og 80. gr. laga nr. 91/1991.

Það sé rangt að ákvarðanir, er raunar hafi leitt af uppsögnum félagsmanna stefnanda á árinu 1998, hafi falið í sér breytingar á röðun í áföngum. Hér hafi verið um að ræða ákvarðanir sem ekkert hafi átt skylt við það verkefni stefnda að raða Ester eða öðrum í hið nýja launakerfi og falla því utan gildissviðs kjarasamnings aðila. Hafi stefndi í engu brotið gegn úrskurði úrskurðarnefndar eða kjarasamningi. Engum brotum á vinnusamningi eða lögum nr. 94/1986 sé til að dreifa af hálfu stefnda. Að öðru leyti vísast til annarra málsástæðna stefnda til stuðnings frávísun eða sýknu, enda ekki brot á úrskurði eða kjarasamningi að samþykkja ekki kröfur undir lið 1.

Kröfuliður 4 undir staflið A

Krafa stefnanda undir þessu lið sé þannig fram sett að málsástæður og lagarök séu gerðar að aðalefni kröfunnar. Sé sú framsetning andstæð meginreglum einkamálaréttarfars, sbr. 25. gr. og 80. gr. laga nr. 91/1991. Sé krafan ódómhæf af sömu ástæðum og vísað sé til um kröfulið 3, enda sé sá kröfuliður gerður að forsendu fyrir þessari kröfu. Útskýringar á því hvernig launaröðun náttúrufræðinga sé í raun vanti að öllu leyti í málatilbúnað stefnanda. Krafan sé þannig vanreifuð og byggir ekki á neinum frambærilegum gögnum eða skýringum, en hún vísi ótilgreint til "(félagsmanna) annarra stéttarfélaga" . Þá sé það ekki verkefni Félagsdóms að bera saman kjarasamninga einstakra stéttarfélaga eða að leggja mat á framkvæmd þeirra hvors fyrir sig. Sé kröfugerð ekki annað en beiðni um lögfræðilega álitsgerð utan lögsögu Félagsdóms.

Ekki verði séð að slík viðurkenningarkrafa verði gerð fyrir Félagsdómi, sbr. 26. gr. laga nr. 94/1986. Heyri efnisatriði kröfunnar ekki undir lögsögu Félagsdóms. Mál það sem stefnandi hafi höfðað taki til eins starfsmanns stefnda og almennt um félagsmenn. Stefndi hefur aldrei hafnað því að gildistaka ákvarðana hans um röðun Esterar, hafi átt að miðast við annað tímamark en 1. desember 1997 miðað við upphafleg áform um röðun í kjölfar úrskurðar úrskurðarnefndar. Aðrar hækkanir um launaflokka sem hún hafi ekki samþykkt og launahækkanir hjá öðrum eigi hins vegar ekki rætur í framkvæmd úrskurðarins eða kjarasamnings, heldur hafi viðbrögð stefnda við uppsögnum og auknum launakröfum verið umfram skyldu samkvæmt kjarasamningi, enda ótvíræður réttur stefnda við þær aðstæður að breyta mati á lágmarkskröfum sem gerðar séu til starfa. Mótmælt er kröfu um viðurkenningu á ólögmætri mismunun á grundvelli félagsaðildar. Er mál það sem vísað sé til í stefnu, þ.e. röðun náttúrufræðinga ekki sambærilegt máli Esterar eða annarra félagsmanna stefnanda, en í því máli hafi ekki þurft að grípa til sértækra aðgerða vinnuveitanda til þess að mæta uppsögnum starfsmanna. Þá er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að náttúrufræðingar hafi allir fengið seinni launahækkanir frá 1. desember 1997 að telja. Hafi einstaklingsbundnir samningar í þeirra tilviki verið ýmiss konar og með gildistöku eftir atvikum. Ennfremur er einnig mótmælt að ákvæði 74. gr. eða 75. gr. stjórnarskrár styðji kröfur stefnanda eða að brotið hafi verið gegn þeim ákvæðum af hálfu stefnda. Verði ekki séð að það heyri undir Félagsdóm að leysa úr ágreiningi um skýringu stjórnarskrár eða slá því föstu með dómsorði hvort ákvæði stjórnarskrár hafi verið brotin eður ei.

Engri ólögmætri mismunun sé til að dreifa eða ákvörðunum á grundvelli þess hvaða stéttarfélagi starfsmenn stefnda tilheyri. Vísast til þess sem að framan sé rakið um ástæður þess að sérstakar launahækkanir hafi verið gerðar auk þeirra skipana í launaflokka samkvæmt kjarasamningi og úrskurði og giltu frá l. desember 1997.

Um fjár- og refsikröfur stefnanda (kröfuliðir B)

l. Févítis- og sektarkröfur.

Stefndi krefst þess að kröfu um févíti eða sektir verði vísað frá félagsdómi, enda engin heimild fyrir þessum kröfum og séu þær ekki rökstuddar af hálfu stefnanda.

Lög nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, veiti enga heimild til þess að dæma févíti. Verði slíkri kröfu ekki fundinn grundvöllur í 1. málslið 1. mgr. 13. gr. laganna. Í öðru lagi hafi stefnandi ekki sýnt fram á að slíkar kröfur falli undir valdsvið Félagsdóms, sbr. 26. gr. laga nr. 94/1986.

Að því er snertir sektarkröfur stefnanda sé hún einnig órökstudd. Skortir þar að sýnt hafi verið fram á saknæma háttsemi. Auk þess sé ekki rökstutt hvernig Félagsdómur geti fjallað um kröfuna, sbr. 26. gr. laga nr. 94/1986.

Um kröfur þessar vísar stefnandi til þess sem hann telur eðlilegt, en það sé ekki réttarheimild. Þá vísar hann til málshöfðunarreglna 242. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 vegna ærumeiðinga og brota gegn friðhelgi einkalífs í XXV. kafla laganna annars vegar og í höfundalög hins vegar. Hvorugt þessa, sem virðist eiga að vera heimildir eða rökstuðningur fyrir kröfum, geti átt við. Um févítiskröfu sé enginn nánari rökstuðningur eða á grundvelli hvaða heimilda unnt sé að krefjast hennar. Sé því mótmælt að með orðinu sekt í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 80J1938 sé átt við févíti er renni í sjóð stéttarfélags. Hvergi kemur það fram í ákvæðinu. Taka efnisákvæði laganna frá 1938 að því er varðar brot gegn vinnusamningi ekki til kjarasamnings stefnanda við fjármálaráðherra eða vinnusambands félagsmanna stefnanda við stefnda. Gildi því einungis ákvæði þeirra laga um málsmeðferð dómsins eftir atvikum og kæruheimildir. Engum brotum á lögunum sé til að dreifa af hálfu stefnda, verði byggt á efnisákvæðum þeirra.

Sektarkrafa stefnanda virðist byggjast á því að stefndi, sem ekki sé aðili að kjarasamningi, eigi að greiða gagnaðila stefnanda að kjarasamningi, fjármálarðherra fyrir hönd ríkissjóðs sem ekki sé stefnt fyrir Félagsdómi, sekt vegna brota á lögum nr. 94/1986. Ráðagerð um svo fjarstæðukennda yfirfærslu í máli fyrir Félagsdómi sé með öllu óraunhæf og án heimildar.

2. Skaðabótakrafa.

Stefndi krefst frávísunar á skaðabótakröfu. Á hvaða grundvelli 26. gr. laga nr. 94/1986 Félagsdómur eigi að taka kröfuna til efnismeðferðar sé í engu rökstutt í stefnu, en því haldið fram að vegna afstöðu stefnda og háttsemi hafi Ester og aðrir meinatæknar orðið fyrir fjártjóni og miska. Engin gögn séu til stuðnings þessum málatilbúnaði og óraunhæft að 100.000 kr. ósundurgreint, eigi að jafna fjártjón og miska vegna þess að "Ester eins og aðrir meinatæknar í starfi hjá stefnda, félagsmenn stefnanda, orðið af réttmætum launahækkunum." Sé óljóst hvort krafan sé sett fram vegna Esterar eða hvort hún eigi að taka við bótum fyrir sig og annarra hönd. Engri heimild í lögum nr. 94/1986 um að stéttarfélag geti fyrir hönd félagsmanns krafist skaðabóta fyrir Félagsdómi þeim til handa. Hvorki 13. gr. laganna né lögsaga dómsins taki til slíkra krafna. Þá er því mótmælt að skaðabætur verði sóttar á grundvelli 65. gr. laga nr. 80/1938 í máli þessu.

  

Rökstuðningur stefnanda gegn frávísunarkröfu

Af hálfu stefnanda er þess krafist að hafnað verði frávísunarkröfu stefnda í heild, en til vara að einungis verði vísað frá dómi þeim kröfuliðum, sem ekki verði dæmt um. Málsástæður hans voru reifaðar og rökstuddar við munnlegan málflutning. Því er mótmælt að málið fjalli um röðun í launaflokk eða yfirvinnu. Raðað sé eftir aðlögunarúrskurði eftir að hann hafi orðið hluti kjarasamnings. Viðurkenningarkröfur varði ágreining um skilning á kjarasamningi. Málið varði vinnumarkaðsrétt sem Félagsdómur fjalli um og ekki beri ávallt að beita þröngri lögskýringu um lögsögu Félagsdóms. Byggt sé á 3. tl. 26. gr. laga nr. 94/1986, þótt það sé ekki tekið sérstaklega fram í stefnu. Fjár-og refsikröfur tengist allar vinnuréttarkröfum og lögsaga Félagsdóms sé augljós. Stefndi sé réttur aðili máls, þar sem honum hafi verið falið að annast framkvæmd kjarasamnings samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986.

  

Niðurstaða

Með kjarasamningi fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs, Reykjavíkurborgar og St. Franciskuspítala og Reykjalundar annars vegar og stefnanda hins vegar, sem undirritaður var 5. júlí 1997, var framlengdur gildandi kjarasamningur aðila til 31. október 2000. Með þeim samningi hafði verið ákveðið að taka upp nýtt launakerfi. Í fylgiskjali 1 með kjarasamningi aðila er gerð grein fyrir því með hvaða hætti yfirfærsla í nýtt launakerfi skyldi verða. Sérstök nefnd, aðlögunarnefnd, skyldi koma sér saman um þær forsendur sem lagðar yrðu til grundvallar við röðun eða tilfærslu starfa innan launaramma eða milli launaramma í hinu nýja launakerfi. Gert var ráð fyrir því að aðlögunarnefnd hefði lokið störfum eigi síðar en 31. október 1997. Hafi aðlögunarnefnd ekki náð samkomulagi innan þess tíma skyldi ágreiningi vísað til úrskurðarnefndar. Ekki tókst að ná samkomulagi í aðlögunarnefnd þannig að úrskurðarnefndin kvað upp úrskurð hinn 2. júlí 1998. Í úrskurðinum er tekið fram að hann sé hluti af kjarasamningi aðila. Viðurkenningarkröfur stefnanda í málinu varða röðun starfa í launaramma samkvæmt þeim úrskurði.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna fer fjármálaráðherra með fyrirsvar ríkissjóðs við gerð og framkvæmd kjarasamninga samkvæmt þeim lögum. Aðild stefnanda og fyrirsvar í máli þessu styðst við 4. mgr. 27. gr., sbr. 4. gr. laganna. Í 26. gr. laganna er tilgreint í hvaða málum milli samningsaðila Félagsdómur á lögsögu í. Í stefnu er þess ekki getið á hvaða lagagrundvelli málið er lagt fyrir Félagsdóm og fjármálaráðherra hefur ekki verið stefnt til aðildar í málinu fyrir hönd ríkissjóðs ásamt stefnda, eins og rétt hefði verið.

Viðurkenningarkröfur stefnanda eru settar fram undir staflið A í stefnu. Samkvæmt kröfulið 1 a) er aðallega gerð krafa um að starfi Esterar Hafsteinsdóttur deildarmeinatæknis "skuli frá og með l. desember 1997 raðað samkvæmt aðlögunarúrskurði frá 2. júlí 1998 í launaramma B, eigi neðar en B9 þrátt fyrir fastar mánaðargreiðslur sem nemi 9 yfirvinnustundum án vinnuframlags", og samkvæmt kröfulið 1 b) er til vara gerð krafa um "að starfi Esterar skuli frá og með l. desember 1997 raðað samkvæmt aðlögunarúrskurði frá 2. júlí 1998 í launaramma B þrátt fyrir fastar mánaðarlegar greiðslur sem nemi 24 yfirvinnustundum án vinnuframlags". Þessi kröfugerð stefnanda felur í sér kröfu um að Félagsdómur ákveði röðun einstaklings í launaflokk og ákvarði einnig laun hans fyrir fasta mánaðarlega yfirvinnu án vinnuframlags. Samkvæmt kröfulið 2 er sett fram almenn krafa um röðun meinatækna í starfi hjá stefnda á grundvelli úrskurðarins. Úrlausn um þessar dómkröfur stefnanda á ekki undir Félagsdóm á grundvelli 26. gr. laga 94/1986 og eru þær auk þess ekki í samræmi við d-lið 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Dómkröfur samkvæmt kröfulið 3 og 4 undir staflið A um ólögmæta háttsemi og ólögmæta mismunun fela í sér beiðni um lögfræðilega álitsgerð og eru ódómhæfar samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Af þessu leiðir að ekki er tilefni til að fjalla sérstaklega um févítis-, sektar- og skaðabótakröfur stefnanda samkvæmt B lið í stefnu, sem auk þess eru vanreifaðar.

Framangreindir annmarkar á kröfugerð og málatilbúnaði stefnanda leiða til þess að vísa ber máli þessu frá Félagsdómi.

Stefnandi greiði stefnda 150.000 kr. í málskostnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Máli þessu er vísað frá Félagsdómi.

Stefnandi, Meinatæknafélag íslands, greiði stefnda, Landspítala, háskólasjúkrahúsi, 150.000 kr. í málskostnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta