Mál nr. 10/2000: Dómur frá 27. febrúar 2001.
Ár 2000, þriðjudaginn 27. febrúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 10/2000.
Samband íslenskra bankamanna
f.h. Haraldar Ellingsen gegn
samninganefnd bankanna f.h.
Þjóðhagsstofnunar
kveðinn upp svofelldur
D Ó M U R :
Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 6. febrúar sl.
Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Guðni Á. Haraldsson og Valgeir Pálsson.
Stefnandi er Samband íslenskra bankamanna, kt. 550269-7679, Snorrabraut 29, Reykjavík, f.h. Haraldar Ellingsen, kt. 220535-2239, Vesturbergi 177, Reykjavík.
Stefndi er samninganefnd bankanna, kt. 491182-0329, Austurstræti 11, Reykjavík, f.h. Þjóðhagsstofnunar, kt. 440475-0199, Kalkofnsvegi 1, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda
Aðalkrafa
Að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að túlka beri ákvæði greinar 12.6.1 í kjarasamningi Sambands íslenskra bankamanna og samninganefndar bankanna f.h. bankanna á þann veg að stefnda sé skylt að greiða stefnanda desemberuppbót (13. mánuð) sem lífeyrisgreiðslu frá desember 1996.
Varakrafa
Að viðurkennt verði með dómi Félagsdóms að túlka beri ákvæði greinar 12.6.1 í kjarasamningi Sambands íslenskra bankamanna og samninganefndar bankanna f.h. bankanna á þann veg að stefnda sé skylt að greiða stefnanda 60% af desemberuppbót (13. mánuði) sem lífeyrisgreiðslu frá desember 1996.
Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt ákvörðun dómsins og að stefndi verði dæmdur til að bæta stefnanda þann kostnað sem hann hefur af greiðslu virðisaukaskatts á málskostnaðinn.
Dómkröfur stefnda
Stefndi krefst þess að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda.
Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt mati Félagsdóms. Við ákvörðun málskostnaðarins verði tekið tillit til kostnaðar stefnda af virðisaukaskattskyldu lögmannsþjónustu.
Upphaflega gerði stefndi kröfu til þess að málinu yrði vísað frá dómi en féll frá þeirri kröfu undir rekstri málsins.
Málsatvik
Samband íslenskra bankamanna er stéttarfélag sem fer með samningsumboð við gerð kjarasamninga f.h. félagsmanna sinna. Innan sambandsins eru fyrst og fremst launþegar sem starfa hjá bönkum og sparisjóðum, en einnig starfsmenn ýmissa dótturfyrirtækja þeirra svo og sjóða og starfsmenn Byggðastofnunar, Lánasýslu ríkisins og Þjóðhagsstofnunar.
Um Þjóðhagsstofnun gilda lög nr. 54/1974. Samkvæmt 5. gr. laganna greiða ríkissjóður og Seðlabanki Íslands sameiginlega kostnað af starfsemi hennar. Samkvæmt lagagreininni skal gerður sérstakur samningur um fjármál stofnunarinnar. Sá samningur var gerður 2. desember 1974. Í 5. gr. samningsins kemur fram að laun og kjör starfsfólks stofnunarinnar skuli vera samkvæmt reglugerð um störf og launakjör í bankakerfinu og að starfsfólkið skuli áfram vera í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins (LSR).
Haraldur Ellingsen varð starfsmaður Þjóðhagsstofnunar (ÞHS) í upphafi árs 1975, þ.e. skömmu eftir að stofnunin tók til starfa samkvæmt lögum nr. 54/1974. Áður, þ.e. allt frá 1961, mun Haraldur hafa starfað hjá Framkvæmdabanka Íslands, Efnahagsstofnun, Efnahagssamvinnustofnun Evrópu og Framkvæmdastofnun ríkisins. Starfstími hjá einstökum stofnunum mun vera í samræmi við iðgjaldagreiðslutímabilin sem fram koma í bréfi LSR frá 20. nóvember 1998. Allan tímann var Haraldur sjóðfélagi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Á starfstíma Haraldar voru iðgjöld greidd af föstum launum fyrir dagvinnu og orlofsuppbót. Réttindaávinnsla hefur verið samkvæmt reglum LSR. Haraldur var í föstu starfi hjá Þjóðhagsstofnun til loka árs 1995. Þann 1. janúar 1996, þá sextugur að aldri, lét hann af föstu starfi og hóf töku lífeyris frá LSR á grundvelli 95 ára reglunnar. Hann hefur frá sama tímamarki verið lausráðinn starfsmaður Þjóðhagsstofnunar í 45% starfi.
Hjá Þjóðhagsstofnun hefur Haraldur fengið greidd laun samkvæmt kjarasamningi bankamanna. Er sá kjarasamningur gerður milli Sambands íslenskra bankamanna (SÍB) og samninganefndar bankanna fyrir hönd banka og sparisjóða.
Við gerð kjarasamnings aðila í desember 1980 var samið um sambærileg lífeyrisréttindi allra félagsmanna SÍB. Kom ákvæðið fram í bókun 5 í kjarasamningnum og hefur ákvæðið staðið nær óbreytt frá þeim tíma til dagsins í dag og er nú gr. 12.6.1 í núgildandi kjarasamningi.
Ákvæðið í núverandi kjarasamningi er eftirfarandi:
"Aðilar eru sammála um að fara fram á það við stjórnir lífeyrissjóða ríkisbankanna og viðkomandi sjóðfélaga að við endurskoðun á reglugerðum lífeyrissjóðanna verði tekin upp 95 ára lífeyrisregla. Aðrir bankar með 8 starfsmenn eða fleiri tryggi áfram sambærileg réttindi og bætur til handa sínum starfsmönnum og starfsmenn ríkisbankanna njóta."
Samkvæmt launakerfi SÍB fá allir félagsmenn greidd tvöföld laun í desembermánuði þ.e. aukalega svokallaða desemberuppbót eða 13. mánuðinn.
Stefnandi, Haraldur Ellingsen, fór á eftirlaun samkvæmt 95 ára reglunni á árinu 1996. Við útborgun lífeyris til hans í desember sama ár varð hann þess áskynja að hann fékk ekki greiddan lífeyri af desemberuppbótinni frá lífeyrissjóðnum. Hann gerði athugasemdir við forstjóra Þjóðhagsstofnunar með bréfi dags. 16. desember 1996, sem sendi athugasemdir hans áfram til fjármálaráðuneytisins.
Í svarbréfi ráðuneytisins er því haldið fram að samkvæmt reglum Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins séu ekki inntar af hendi greiðslur úr sjóðnum af öðru en því sem þar sé upp talið, en desemberuppbót sú sem greidd sé til bankastarfsmanna sé ekki nefnd þar. Fram kemur að lífeyrir miðist við föst laun, við dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót. Iðgjald sé því ekki greitt af öðrum launum.
Stefnandi telur hins vegar að stefndi, Þjóðhagsstofnun, sem hafi tekið á sig þá skuldbindingu að tryggja starfsmönnum sínum sambærilegan lífeyrisrétt og ríkisbankarnir tryggja sínum starfsmönnum, sbr. tilvitnað ákvæði 12.6.1 í kjarasamningi aðila, beri að greiða honum desemberuppbót (13. mánuð) í lífeyri þó svo að Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna telji sér ekki skylt að greiða honum hann.
Mál vegna sömu kröfugerðar og hér er sett fram var þingfest í Félagsdómi þann 21. september 1998. Með úrskurði uppkveðnum 8. febrúar 1999 var því máli vísað frá dómi. Í þeim úrskurði var skírskotað til þess að ekki lægi fyrir neinn haldbær samanburður á annars vegar réttindum Haraldar Ellingsen, sem hann ætti hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, og hins vegar sambærilegum réttindum samkvæmt reglum um lífeyrisréttindi starfsmanna ríkisbanka, fyrir greiðslutímabil það sem um er fjallað.
Með beiðni dags. 4. maí 2000, sbr. dskj. nr. 19, fór SÍB þess á leit að dómkvaddir yrðu tveir matsmenn til að meta hvort einhver munur væri á lífeyrisrétti Haraldar miðað við töku lífeyris úr LSR samanborið við töku lífeyris úr lífeyrissjóðum starfsmanna ríkisbankanna á þeim tíma þegar taka lífeyris hófst þann 1. janúar 1996.
Til voru kvaddir af Héraðsdómi Reykjavíkur tryggingastærðfræðingarnir Bjarni Guðmundsson og Bjarni Þórðarson. Þeir skiluðu niðurstöðu sinni með matsgerð dags. þann 11. júlí 2000. Þar komast þeir m.a. að þeirri niðurstöðu að árleg viðmiðunarlaun úr sjóðunum tveimur miðað við 1. janúar 1996 hafi verið þau að heildarárslaun út úr LSR væru 1.919.307 kr. og út úr Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands (ELS) 2.133.860 kr.
Þá komast matsmenn að þeirri niðurstöðu að á grundvelli þessara viðmiðunarlauna næmi árlegur ellilífeyrir 1.231.619 kr. frá LSR og 1.573.295 kr. frá ELS, og árlegur makalífeyrir næmi 999.767 kr. frá LSR og 972.613 kr. frá ELS.
Loks komast matsmenn að þeirri niðurstöðu að tryggingafræðilegt mat á verðmæti lífeyrisréttinda út frá ofangreindum forsendum nemi hjá LSR 24.801.033 og hjá ELS 30.118.207 kr.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnandi byggir á því að gr. 12.6.1 í núgildandi kjarasamningi eigi við stefnda, Þjóðhagsstofnun. Um tilurð þess ákvæðis er vísað til þess að við gerð kjarasamnings aðila í desember 1980 hafi verið samið um sambærileg lífeyrisréttindi allra félagsmanna SÍB. Komi ákvæðið fram í bókun 5 í kjarasamningnum og hafi ákvæðið staðið nær óbreytt frá þeim tíma til dagsins í dag og sé nú gr. 12.6.1 í núgildandi kjarasamningi. Stefnandi byggir og á því að samkomulag þetta hafi átt við um sambærileg réttindi og bætur í lífeyrisréttindum handa öllum starfsmönnum viðsemjenda SÍB og hafi samkomulagið haft aðdraganda allt frá árinu 1974.
Þá vísar stefnandi í mál nr. 10/1991, sem Íslandsbanki hf. höfðaði fyrir Félagsdómi, þar sem bankinn dró í efa þá skilgreiningu sem SÍB taldi báða samningsaðila hafa á ákvæði þessu. Niðurstaða Félagsdóms hafi staðfest þá túlkun sem SÍB hafi haft á ákvæðinu þar sem í niðurstöðu dómsins segir m.a.:
"Þegar á allt þetta er litið telur dómurinn að með kjarasamningnum frá 15. desember 1980, sem gilti frá 1. ágúst s.á., hafi verið samið svo um að starfsmenn einkabanka, sem hefðu 8 starfsmenn eða fleiri, skyldu öðlast sambærileg lífeyrisréttindi og bætur og starfsmenn ríkisbankanna nutu almennt hinn 1. ágúst 1980. Að þessu marki verða kröfur stefnda teknar til greina."
Allt frá gerð fyrsta kjarasamnings aðila á grundvelli laga nr. 34/1977 frá árinu 1977 hafi hugtakið banki verið skilgreint í kjarasamningi aðila til að forðast endurteknar upptalningar á þeim aðilum sem samningurinn taki til. Hafi sú skilgreining frá upphafi verið höfð þannig að hugtakið taki til allra þeirra sem vinni hjá stofnunum þeim sem félagar SÍB vinna hjá. Skilgreining á hugtakinu komi fram í gr. 12.2 í kjarasamningi aðila og sé svohljóðandi:
"Þar sem orðið "banki" er notað í kjarasamningi þessum er átt við stofnanir þær sem félagar SÍB vinna hjá og eru aðilar að samningi þessum hvort sem þær eru bankar, sparisjóðir eða þjónustustofnanir í eigu einstakra banka eða fleiri banka í sameiningu."
Þannig telur stefnandi engan vafa leika á því að allt frá gerð kjarasamnings aðila á árinu 1980 hafi öll fyrirtæki og stofnanir sem samninganefnd bankanna semji fyrir undirgengist þá skuldbindingu að tryggja samskonar lífeyrisréttindi og ríkisbankarnir tryggja sínum starfsmönnum innan vébanda SÍB.
Þjóðhagsstofnun sem sett hafi verið á laggirnar á árinu1974 hafi allt frá stofnun tekið á sig þá skuldbindingu að greiða starfsmönnum sínum laun eftir þeim kjarasamningi sem SÍB hafi gert við viðsemjendur sína og séu starfsmenn stofnunarinnar félagsmenn í SÍB. Forverar Þjóðhagsstofnunar, þ.e. Efnahagsstofnun frá 1962 og Framkvæmdastofnun ríkisins frá 1972, hafi einnig greitt laun samkvæmt launakerfi bankastarfsmanna og hafi starfsmenn þeirra verið félagsmenn í SÍB.
Þjóðhagsstofnun sem og seinna afsprengi Framkvæmdastofnunar ríkisins, þ.e. Byggðastofnun og Framkvæmdasjóður Íslands, hafi á hinn bóginn greitt af launum starfsmanna til Lífeyrissjóðs opinberra starfsmanna.
Stefnandi leggur sérstaklega áherslu á að aðrir viðsemjendur SÍB hafi hver með sínum hætti leitast við að standa straum af og tryggja lífeyrisskuldbindingar sínar samkvæmt ákvæðinu í grein 12.6.1, þ.m.t. af desemberupbótinni. Eigi það við um ríkisbankana, einkabankana, sparisjóðina og fleiri, eins og ítarlega er rakið í stefnu.
Þannig hafi allir ofangreindir viðsemjendur SÍB, utan Þjóðhagsstofnunar og Byggðastofnunar, auk þess að taka á sig skuldbindingar ríkisbankanna, tekið á sig að greiða starfsmönnum sínum sem á eftirlaun séu komnir desemberuppbótina (13. mánuðinn). Þeir hafi allir talið sig skuldbundna til að tryggja sínum starfsmönnum lífeyri að sama marki og ríkisbankarnir hafi gert, sbr. ákvæði 12.6.1 í kjarasamningi aðila.
Stefnandi telur sig eiga vafalausan rétt til greiðslu desemberuppbótar á lífeyri í desember sem sé jafnhá þeirri greiðslu sem hann fái ár hvert í lífeyri fyrir desembermánuð. Vísar hann í því sambandi m.a til ákvæðis 12.6.1 í kjarasamningi bankamanna, en hann hafi fengið laun sín greidd samkvæmt þeim kjarasamningi í marga áratugi og stefndi, Þjóðhagsstofnun, hafi verið aðili að honum allt frá því að stofnunin hóf starfsemi á árinu 1974. Í ákvæðinu komi skýrt fram að allir viðsemjendur SÍB taki á sig þá skuldbindingu að þeir tryggi sambærileg réttindi og bætur og ríkisbankarnir tryggi sínum starfsmönnum að því er varðar lífeyrisréttindi. Ljóst sé að ríkisbankarnir hafi, allt frá því að fyrstu starfsmenn þeirra hófu töku lífeyris eftir tilkomu desemberuppbótarinnar, tryggt þeim sem greiðslu í lífeyri sérstaka desemberuppbót, þ.e. greiðslu 13. mánaðar.
Þannig hafi ríkisbankarnir ábyrgst að öllu leyti greiðslugetu eftirlaunasjóða sinna til að standa undir lífeyrisskuldbindingum, þ.á m. greiðslu lífeyris á desemberuppbótinni. Þeir hafi, auk þess að greiða inn í sjóðina 4% frá starfsmönnum greitt sjálfir 8% sem hlutfall af desemberuppbótinni eins og gert sé af öðrum föstum launum starfsmanna auk þess sem bankarnir hafi að öllu leyti ábyrgst verðtryggingu lífeyrisréttindanna. Hafi lífeyrisþegarnir fengið greidda desemberuppbótina jafnháa þeirri greiðslu sem þeir hafi fengið í lífeyri fyrir desembermánuð ár hvert.
Stefnandi telur það engu máli skipta að ríkisbankarnir hafi dregið af starfsmönnum sínum árlega 4% af desemberuppbótinni til að leggja í viðkomandi eftirlaunasjóð. Stefnda hafi borið skylda til að draga þá prósentu af sínum starfsmönnum en ekki gert. Hann hafi heldur ekki greitt eða lagt til hliðar þá prósentu sem honum sem atvinnurekanda hafi borið að leggja til hliðar.
Fyrir stefnda hafi það verið lítið mál að ávaxta þá fjármuni sem hann var þannig skyldugur til að halda eftir og nota til greiðslu, þegar starfsmenn hans færu á eftirlaun. Þannig hafi greiðslur þessar verið frágengnar af flestum öðrum viðsemjendum SÍB en
Þjóðhagsstofnun, sem átt hafi sömu möguleika og aðrir til varðveislu og ávöxtunar fjármunanna, virðist ekki hafa notfært sér það eða sinnt því.
Stefnandi vísar til framkvæmdar og gerðar einkabankanna að því er varðar iðgjaldatöku og greiðslu lífeyris vegna desemberuppbótarinnar og telur stefnda hafa á sama hátt og þeim borið skylda til að halda utan um verðmætin, þó svo að viðkomandi lífeyrissjóður hafi ekki viljað taka á móti iðgjöldunum.
Í þessu sambandi vísar stefnandi einnig til laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980, einkum til 2. gr., 3. gr. og 4. gr. Í ákvæðum þessum komi fram sú skylda atvinnurekenda að halda eftir af launum starfsmanna iðgjaldahluta þeirra og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum ásamt mótframlagi sínu.
Þá komi einnig fram að sé tryggingarskyldu ekki fullnægt með greiðslu, þar sem viðkomandi eigi ekki sjálfsagða aðild að ákveðnum lífeyrissjóði, þá skuli henni fullnægt með iðgjaldagreiðslu til lífeyrissjóðs sem fjármálaráðuneytið tiltekur.
Stefnandi vísar til niðurstöðu dómkvaddra matsmanna, þar sem skýrlega komi fram að þegar lífeyrissjóðir LSR og ELS séu bornir saman og metnir heildstætt komi greinilega í ljós að réttindi sem stefnandi hefði notið úr lífeyrissjóðum ríkisbankastarfsmanna væru honum mun hagstæðari en réttindi sem hann nýtur nú frá LSR. Hann telji því að réttindi þau sem hann nýtur úr LSR fullnægi á engan hátt þeim loforðum og skuldbindingum sem Þjóðhagsstofnun hafi tekið á sig þegar hún undirgekkst þá skuldbindingu að tryggja sínum starfsmönnum sambærileg lífeyrisréttindi og ríkisbankarnir tryggðu sínum starfsmönnum.
Stefnandi kveðst byggja varakröfu sína á því að annað sé útilokað en að stefnda beri að tryggja honum lífeyrisrétt sem svarar til 60% af þeim lífeyrisrétti sem honum að öðrum kosti hafi borið að fá vegna desemberuppbótar, sbr. aðalkröfuna. Stefndi hafi tekið á sig þá skuldbindingu með kjarasamningi að tryggja starfsmönnum lífeyrisréttindi jafngóð og ríkisbankastarfsmönnum séu tryggð af þeirra viðsemjendum.
Stefnda hafi borið að leggja fram eða setja til hliðar 6% af desemberuppbót hvers árs sem stefndi hafi notið þeirrar greiðslu til að tryggja honum lífeyrisgreiðslu af uppbótinni þegar þar að kæmi að stefnandi færi á lífeyri. Honum hafi einnig borið að ábyrgjast að þegar til greiðslu lífeyrisins kæmi yrði greidd til stefnanda verðbætt, þ.e. stefndi hafi ábyrgst að stefnandi fengi í lífeyri sín verðbætt. Tæki sú trygging einnig til desemberuppbótarinnar.
Sextíu prósent krafan er byggð á því að með 6% iðgjaldaframlagi frá stefnda og 4% frá stefnanda sé hlutur stefnanda 60% af heildariðgjaldagreiðslunni og þar sem sú fjárhæð sé ógreidd beri stefndi ábyrgð á greiðslu þeirrar prósentu við útborgun lífeyrisgreiðslu vegna desemberuppbótar.
Stefnandi vísar m.a. til laga nr. 34/1977 um kjarasamninga starfsmanna banka í eigu ríkisins, svo og til samkomulags sama efnis milli aðila. Þá vísar hann til laga nr.
58/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Málskostnaðarkrafan er byggð á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991. Stefnandi hefur ekki frádráttarrétt vegna kostnaðar af virðisaukaskatti af aðkeyptri lögmannsþjónustu, sbr. l. nr. 50/1988.
Stefnandi kveður málið eiga undir Félagsdóm samkvæmt 8. gr. laga nr. 34/1977.
Málsástæður og lagarök stefnda
1. Lagareglur um greiðslur til lífeyrissjóðs.
Á þeim tíma sem hér skiptir máli hafi gilt lög nr. 55/1980 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Að því er aðild að lífeyrissjóði varðar voru lögin leyst af hólmi með lögum nr. 129/1997, sem tóku gildi 1. júlí 1998. Samkvæmt 2. gr. l. nr. 55/1980 var öllum launamönnum skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps, enda starfi sjóðurinn skv. sérstökum lögum eða reglugerð, sem staðfest hafi verið af fjármálaráðuneytinu. Í 2. ml. 1. mgr. 2. gr. laganna sagði:
"Atvinnurekendum er skylt að halda eftir af launum starfsfólks síns iðgjaldshluta þess og standa viðkomandi lífeyrissjóði skil á honum, ásamt mótframlagi sínu, samkvæmt þeim reglum, sem settar eru um iðgjaldsgreiðslur í reglugerð viðkomandi sjóðs eða lögum."
Samkvæmt 4. gr. laganna var skylt að greiða til lífeyrissjóðs a.m.k. 10% af viðurkenndum stofni iðgjalda í samræmi við reglur viðkomandi sjóðs. Lagaskylda vinnuveitanda náði því til þess að greiða að lágmarki 10% af iðgjaldastofni til þess sjóðs er launþeginn átti aðild að.
LSR starfar skv. lögum nr. 1/1997, sbr. áður l. nr. 29/1963. Sjóðurinn uppfyllir því skilyrði 2. gr. l. nr. 55/1980. Í lögum um LSR er fjallað um skyldu launagreiðanda til að standa LSR skil á iðgjöldum. Þar sagði í 3. mgr. 10. gr. l. nr. 29/1963, sbr. 1. gr. l. nr. 7/1990:
"Launagreiðendur greiða 6% af föstum launum fyrir dagvinnu, persónuuppbót og orlofsuppbót, er sjóðfélagi tekur hjá þeim, í iðgjöld til sjóðsins og skal greiða þau sjóðnum samtímis iðgjöldum sjóðfélaga."
Það sé hlutverk stjórnar LSR að framkvæma lagareglurnar sem um sjóðinn gilda. Sjóðsstjórnin hafi ákveðið að hugtakið föst laun í lagatextanum nái ekki til launa fyrir "13. mánuðinn" og því sé sú launagreiðsla ekki iðgjaldsstofn. Þessi afstaða sé á margan hátt hliðstæð þeirri afstöðu stjórnarinnar að viðurkenna ekki yfirborgun í formi fastrar (óunninnar) yfirvinnu sem "föst laun", þ.e. til iðgjaldsstofns. Það hafi því hvorki verið á valdi Þjóðhagsstofnunar sem launagreiðanda né Haraldar sem launþega að auka réttindi þess síðarnefnda hjá LSR með því að greiða viðbótariðgjald til sjóðsins. Hins vegar ábyrgist Þjóðhagsstofnun svokallaða verðtryggingu lífeyris Haraldar gagnvart LSR, þ.e.a.s. Þjóðhagsstofnun greiðir sérstaklega til LSR þann mismun sem er á verðmætum iðgjalda sem greidd hafa verið til sjóðsins vegna Haraldar og verðmætis þeirra réttinda sem hann hefur eignast í sjóðnum. Þessi viðbótargreiðsla sé nauðsynleg af því að lífeyrisiðgjöld Haraldar hrökkvi hvergi ein og sér til þess að standa undir þeim réttindum sem hann hafi áunnið sér í sjóðnum.
Samkvæmt framansögðu er á því byggt að stefndi hafi fullnægt þeirri lagaskyldu sem á honum hvílir til greiðslu til lífeyrissjóðs vegna stefnanda.
2. Skylda skv. kjarasamningi.
Stefndi mótmælir því að framangreint ákvæði kjarasamningsins í gr. 12.6.1 leiði til þess að taka eigi til greina stefnukröfur. Fyrir því séu þessar ástæður:
2.A. Réttindi frá LSR séu sambærileg lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisbankanna.
Skipta megi lífeyrissjóðum landsmanna í tvo flokka. Annars vegar almenna lífeyrissjóði sem veiti sjóðfélögum sínum réttindi í samræmi við verðmæti þeirra iðgjalda sem greidd hafa verið. Samkvæmt lögum nr. 129/1997 gildi þessi regla nú um alla lífeyrissjóði, sem ekki njóti sérstakrar undanþágu í lögum. Hins vegar séu nokkrir lífeyrissjóðir þar sem réttindin séu skilgreind í lögum eða samþykktum án tillits til þess hvort iðgjöld sjóðfélaganna dygðu til þess að standa undir réttindaávinningnum. Þessum lífeyrissjóðum hafi verið óheimilt að taka við nýjum sjóðfélögum frá miðju ári 1998. Hjá þessum sjóðum standi vinnuveitandi undir réttindunum með viðbótargreiðslum til sjóðsins þegar til útborgunar eftirlauna eða bóta komi. Í síðari flokknum séu stærstir LSR og lífeyrissjóðir ýmissa sveitarfélaga auk eftirlaunasjóða ríkisbankanna, sbr. undanþáguheimildina í 54. gr. laga nr. 129/1997. Reglugerðum (samþykktum) þessara sjóða hafi nú verið breytt þannig að nýir sjóðfélagar öðlast réttindi einungis með iðgjaldagreiðslum en bakábyrgð launagreiðanda hafi verið felld niður.
Aðaleinkenni lífeyrisgreiðslna frá þessum undanþágusjóðum sé að lífeyrir (eftirlaun) greiðist sem áunnið hlutfall launa í því starfi sem sjóðfélaginn gegndi síðast. Þá geti sjóðfélagar hafið töku lífeyris 65 ára gamlir og í sumum tilvikum 60 ára gamlir, þ.e. þegar samanlagður lífaldur og iðgjaldagreiðslutími til sjóðins nái 95 árum. Þá veiti sjóðirnir sérstök réttindi til örorku-, barna- og makalífeyris. Réttindi í þessum sjóðum innbyrðis kunni að vera mismunandi í einstökum atriðum en í heild sinni séu réttindin sambærileg og allt önnur og miklu betri en hjá sjóðfélögum almennu lífeyrissjóðanna.
Í grein 12.6.1 sé ekki áskilið að lífeyrisréttindi skuli vera hin sömu heldur sé talað um sambærileg réttindi og bætur. Réttindi í tveimur lífeyrissjóðum kunni að teljast sambærileg þótt annar veiti sjóðfélögum meiri réttindi en hinn. Stefndi byggir á því að réttindi frá LSR(b-deild) séu sambærileg því sem starfsmenn ríkisbankanna nutu. Það verði a.m.k. ekki fullyrt á grundvelli gagna málsins að svo sé ekki. Því beri að sýkna af stefnukröfum.
2.B. Lífeyrisréttindi Haraldar séu meiri hjá LSR en væri hefði hann flust til Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans.
Í málinu liggi fyrir að stefnandinn, Haraldur, lét af föstu starfi hjá stefnda í upphafi árs 1996 og hóf töku lífeyris frá LSR samkvæmt 95 ára reglunni. Hann hafi haldið áfram í 45% starfi hjá stefnda. Eftirlaun hans reiknist sem hlutfall af lokalaunum, sem séu dagvinnulaun með sérstöku 8,35% álagi.
Réttarsamband stefnda og stefnanda hófst um áramót 1974/75 þegar stefnandi hóf störf hjá stefnda. Rétt sé að líta á hver eftirlaunaréttindi Haraldar væru ef hann hefði þá óskað aðildar að Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans og Þjóðhagsstofnun hefði þá þegar hafið greiðslur iðgjalda til þess sjóðs en hætt greiðslum til LSR.
Í bréfi LSR dags. 20. nóvember 1998 komi fram að áunninn lífeyrisréttur hjá LSR væri þá 27,17% í stað 64,17% nú. Heimild til töku eftirlauna hæfist 1. júní árið 2000 í stað 1. janúar 1996. Viðmiðunarlaun væru laun í því starfi sem Haraldur gegndi hjá Framkvæmdastofnun ríkisins við starfslok í desember 1974 framreiknuð með þeim hætti sem lýst sé í greindu bréfi. Í því síðasta felist að hvorki nyti Haraldur ofangreinds 8,35% álags á viðmiðunarlaunin, né þeirra stöðuhækkana eða starfsaldurshækkana, sem hann kunni að hafa notið frá árinu 1975 í starfi sínu hjá stefnda. Þá hefði hann ekki notið réttindaávinnings án iðgjaldagreiðslu sem hann naut í desember 1995. Á móti kæmi að Haraldur fengi eftirlaun frá Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans í samræmi við réttindaávinnslu þar á starfstíma hjá ÞHS og hefði jafnframt þurft að greiða hærra lífeyrisiðgjald sökum þess mismunar sem sé á iðgjaldsstofni hjá Eftirlaunasjóðnum og LSR.
Hér að neðan sé samanburður á lífeyrisgreiðslum til Haraldar Ellingsen vegna réttindaávinnings til starfsloka 1. janúar 1996 eins og þær eru og eins og þær væru hefði hann flust í Eftirlaunasjóð starfsmanna Landsbanka og Seðlabanka árið 1975. Um forsendur vísast fyrst og fremst til bréfs LSR dags. 20. nóvember 1998 og samþykkta lífeyrissjóðs bankamanna.
- Tímabilið frá 1. janúar 1996 til 1. júní 2000:
Er |
Væri |
Fær 64,17% af lokalaunum (þ.e. dagvinnulaunum með álagi og orlofsuppbót) í lífeyri frá LSR og hefur rétt til þess að halda áfram allt að 50% starfi á launum án skerðingar á lífeyri. Viðmiðun breytist skv. meðalbreytingum á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu. |
Enginn. Réttur skv. 95 ára reglu ekki fyrir hendi. |
2. Tímabilið eftir 1. júní 2000 (HE 65 ára).
Engin breyting frá fyrra tímabili önnur en sú sem leiðir af breyttri launaviðmiðun. |
Frá LSR greiðast 27,17% af lokalaunum miðað við starf HE hjá Framkvæmdastofnun 1974. Miðað yrði við laun í lok árs 1996 sem breytast framvegis miðað við meðalbreytingar á dagvinnulaunum opinberra starfsmanna. Viðmiðun yrði dagvinnulaun með orlofsuppbót. |
Frá ESLS greiðast 42,0% af lokalaunum (m.v. að HE hafi öll árin verið í 100% starfi). Viðmiðun breytist eins og laun fyrir það starf sem sjóðfélagi gegndi síðast. Greitt væri af dagvinnulaunum (með álagi), persónuuppbót (þ.m.t. launum fyrir 13. mánuð) og orlofsuppbót. |
Tölulegir útreikningar á framangreindum samanburði liggi ekki fyrir. Það sé þó augljóst að samfelld aðild stefnanda að LSR hafi fram til þessa fært stefnanda mun meiri eftirlaunarétt en hann hefði notið hefði hann skipt um sjóð árið 1975. Svona samanburður geti þó ekki átt sér stað að fullu fyrr en að Haraldi látnum, þar sem vægi þeirra eftirlauna sem Haraldur njóti aukalega á grundvelli 95 ára reglunnar í samanburðinum (4 og 1/2 ár) minnki eftir því sem ævi Haraldar verði lengri.
Stefndi heldur því fram að með iðgjaldagreiðslum til LSR hafi hann tryggt stefnanda betri eftirlaunarétt en verið hefði með greiðslu til Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans. Því beri að sýkna af stefnukröfunni.
2.C. Frumkvæði að breyttri lífeyrissjóðsaðild hefði þurft að koma frá stefnanda. Aðild að LSR sé ákveðin í samningi um rekstur Þjóðhagsstofnunar.
Að framan sé rakið að stefndi hafi ótvírætt uppfyllt lagaskyldur um greiðslu til lífeyrissjóðs með greiðslum til LSR vegna Haraldar. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 55/1980, sem gilt hafi lengst af starfstíma Haraldar hjá ÞHS, var Haraldi "&rétt og skylt að eiga aðild að lífeyrissjóði viðkomandi starfsstéttar eða starfshóps&" Í tilviki Haraldar hafi ekki verið um það að ræða að hann ætti rétt til aðildar að ákveðnum lífeyrissjóði bankamanna. Reyndar hafi engum slíkum sjóði verið til að dreifa, eða með öðrum orðum sagt þá hafi bankamenn átt aðildarrétt og aðildarskyldu að eftirlaunasjóðum sem bankarnir hafi hver fyrir sig komið á fót. ÞHS hafi ekki verið aðili að neinum slíkum sjóði. Við þessar aðstæður telur stefndi að honum hafi bæði verið rétt og skylt að greiða iðgjöld til LSR sem eins og áður segir sé sambærilegur sjóður að uppbyggingu og þeir sjóðir sem bankarnir hafi komið á fót.
Stefndi byggir á því að frumkvæði að breyttri lífeyrissjóðsaðild hefði þurft að koma frá Haraldi eða stéttarfélagi hans. Svo var ekki og telur stefndi að með því hafi verið fallist á að greiðslur til LSR væru fullnægjandi efndir á skuldbindingu stefnda um að veita stefnanda réttindi til lífeyris. Vekur stefndi sérstaka athygli á því að starfsmannafélagi ÞHS hafi verið boðið árið 1987 að kannað yrði hvort félagsmenn ættu kost á aðild að Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans. Þegar á reyndi hafi ekki verið áhugi á því meðal starfsmanna.
Þá er vakin athygli á því að samkvæmt 5. gr. í samningi ríkisstjórnar Íslands og Seðlabankans um Þjóðhagsstofnun, beri starfsmönnum ÞHS að vera aðilar að LSR.
-
Dómkrafan lúti að réttindum sem áunnist hafi frá árinu 1961.
Aðalkrafa stefnanda sé um það að viðurkennt verði að vegna ákvæðis 12.6.1 beri stefnda að greiða desemberuppbót sem lífeyrisgreiðslu frá desember 1996. Á því sé vakin athygli að lífeyrisréttindi Haraldar hafi áunnist frá árinu 1961. ÞHS beri ekki ábyrgð á skuldbindingum umfram iðgjöld nema fyrir hluta tímabilsins, þ.e. frá 1. janúar 1975 til starfsloka. Eigi stefnandi þau réttindi sem hann krefst hljóti greiðendur að vera allir þeir aðilar sem ábyrgjast viðbótarlífeyri hans frá LSR, sbr. það sem fram komi í bréfi LSR frá 20. nóvember 1998. Sömu sjónarmið eigi við um varakröfu stefnanda að þessu leyti.
- Ákvæðið í grein 12.6.1 í kjarasamningnum kom inn í kjarasamninginn í desember 1980.
Stefnandi byggir kröfur sínar á ákvæði sem komið hafi inn í kjarasamninginn í desember 1980 með gildistöku 1. ágúst 1980. Ákvæðið sé ekki afturvirkt umfram þetta. Það sé því ljóst að viðsemjendur SÍB hafi ekki ábyrgst svokölluð sambærileg réttindi fyrr en í fyrsta lagi frá 1. ágúst 1980. Í dómkröfum stefnanda séu engin skil gerð á milli þeirra tímabila sem lífeyrisréttindi hans hafi áunnist, þ.e. annars vegar tímans frá 1961 til 1. ágúst 1980 þegar Haraldur hafi áunnið sér lífeyrisréttindi óháð kjarasamningi SÍB og hins vegar tímans eftir 1. ágúst 1980 þegar ákvæðið í gr. 12.6.1 tók gildi. Að mati stefnda hlýtur stefnandi að þurfa að takmarka kröfur sínar um sambærileg réttindi" við ávinnslutímann frá 1. ágúst 1980.
5. Engin heimild er til þess að krefjast greiðslu lífeyrisgreiðslu beint frá stefnda.
Þótt fallist yrði á þá skoðun stefnanda að stefndi hafi ekki staðið við skyldu sína skv. kjarasamningi um að veita stefnanda sambærileg lífeyrisréttindi þá telur stefndi það ekki geta leitt til þess að heimilt sé að dæma hann til þess að greiða desemberuppbótina beint til stefnanda. Hvorki í kjarasamningnum né öðrum gögnum málsins komi neitt fram um að vinnuveitandinn eigi að tryggja lífeyrisréttindin öðru vísi en með framlagi til lífeyrissjóðs og skylda til þess að greiða starfsmanni fastar lífeyrisgreiðslur eftir starfslok verði ekki lögð á vinnuveitanda án beinnar heimildar í lögum eða samningi. Sé stefnandi þeirrar skoðunar að stefndi hafi ekki tryggt honum umsamin lífeyrisréttindi þá væri slíkt hugsanlega grundvöllur bótakröfu og yrði málsókn af þeim sökum að sæta leikreglum skaðabótaréttarins.
Í matsbeiðninni óski stefnandi mats á því hvort réttur hans til lífeyris frá LSR sé sambærilegur ...við þann rétt sem hann hefði áunnið sér hefðu iðgjaldagreiðslur allan starfstíma hans verið inntar af hendi til þeirra lífeyrissjóða sem bankastarfsmenn ríkisbankanna greiddu til."
Í samræmi við matsbeiðnina hafi matsmenn borið saman lífeyrisréttindi stefnanda eins og þau eru hjá LSR annars vegar og hvernig þau væru hjá Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans hins vegar ef greitt hefði verið í þann sjóð árin 1961 til 1996, þ.e. allan starfsferil stefnanda áður en hann hóf töku eftirlauna hjá LSR á grundvelli 95 ára reglunnar. Matsmenn hafi hins vegar ekkert mið tekið af athugasemdum stefnda við matsforsendurnar.
Að mati stefnda geti þessi samanburður enga þýðingu haft fyrir úrslit málsins. Eins og áður sé rakið hafi engin skuldbinding verið fyrir hendi hjá stefnda gagnvart stefnanda fyrstu 19 ár starfsævi hans til þess að veita honum sambærileg réttindi". Sú skuldbinding geti einungis hafa verið virk frá 1. ágúst 1980, þ.e. í rúm 15 ár. Af þessu leiði að við mat á því hvort umbjóðandi minn hafi efnt skuldbindingar sínar skv. kjarasamningnum verði að bera saman réttindi þau sem stefnandi hafi hlotið hjá LSR og þau réttindi sem hann hefði öðlast ef stefndi hefði hafið greiðslur til ELS árið 1980 í stað þess að greiða áfram til LSR. Hvað sem líði útreikningum matsmannanna á mismunandi verðmæti heildarlífeyrisréttinda í þessum tveimur sjóðum þá sé það væntanlega ekki umdeilt í málinu að vegna 95 ára reglunnar urðu lífeyrisréttindi Haraldar Ellingsen betri með samfelldri aðild að LSR en þau hefðu orðið við breytta lífeyrissjóðsaðild árið 1980. Um þetta vísast til kafla 2B. að framan.
Niðurstaða
Í máli þessu er deilt um skilning á niðurlagsákvæði greinar 12.6.1 í kjarasamningi milli samninganefndar bankanna fyrir hönd banka og sparisjóða annars vegar og Sambands íslenskra bankamanna hins vegar er undirritaður var hinn 11. júní 1999, en með kjarasamningi þessum var gildandi kjarasamningur þessara aðila framlengdur til 31. desember 2000 með tilgreindum breytingum og skyldi þá falla úr gildi án sérstakrar uppsagnar.
Kjarasamningurinn er, eins og fyrr greinir, gerður milli samninganefndar bankanna fyrir hönd banka og sparisjóða annars vegar og Sambands íslenskra bankamanna hins vegar, sbr. lög nr. 34/1977 um kjarasamninga banka í eigu ríkisins og samkomulag frá 12. maí 1977 um kjarasamninga félagsmanna Sambands íslenskra bankamanna milli SÍB annars vegar og bankaráða ríkisbankanna og annarra banka og sparisjóða og fyrirtækja þeirra hins vegar. Í máli aðila þessa máls (máli nr. 13/1998), er lauk með úrskurði Félagsdóms, sem kveðinn var upp hinn 8. febrúar 1999 og varðaði hliðstætt ágreiningsefni, var upplýst að stefndi hefði ekki með formlegum hætti gerst aðili að kjarasamningi fyrrgreindra aðila. Þá kom þar fram að starfsmenn hinnar stefndu stofnunar væru félagsmenn stefnanda og óumdeilt væri að um kjör þeirra færi eftir ákvæðum kjarasamningsins. Enn fremur greindi í úrskurðinum að í 5. gr. laga nr. 54/1974 um Þjóðhagsstofnun, sem stefndi starfar eftir, væri svo mælt fyrir að ríkissjóður og Seðlabanki Íslands greiddu í sameiningu kostnað af starfsemi stefnda og skyldu gera með sér samning um fjármál stofnunarinnar. Í 5. gr. gildandi samnings um það efni frá 2. desember 1974 segði m.a. að laun og kjör starfsfólks stefnda skyldu vera samkvæmt reglugerð um störf og launakjör í bankakerfinu. Þá lægi fyrir samkvæmt bréfi samninganefndar bankanna, dags. 12. maí 1998, til stefnanda, sem og liggur fyrir í máli þessu, að stefndi væri meðal þeirra fyrirtækja og stofnana sem notað hafa kjarasamning bankamanna frá upphafi og ágreiningslaust væri að frá stofnun stefnda hefðu kjör starfsmanna stofnunarinnar miðast við launakerfi og kjarasamninga bankamanna. Í úrskurðinum var talið að stefndi væri bundinn af kjarasamningi þeim, sem í málinu greindi, sem var kjarasamningur fyrrgreindra aðila, er undirritaður var 3. apríl 1997 og gilti til 1. september 1999. Á sömu forsendum verður á því byggt í máli þessu að stefndi sé bundinn af kjarasamningi stefnanda og samninganefndar bankanna sem á reynir í máli þessu.
Hið umdeilda ákvæði í grein 12.6.1 í kjarasamningnum hljóðar svo:
"Aðrir bankar með 8 starfsmenn eða fleiri tryggi áfram sambærileg réttindi og bætur til handa sínum starfsmönnum og starfsmenn ríkisbankanna njóta."
Af hálfu stefnanda er þess krafist aðallega að viðurkennt verði með dómi að túlka beri umrætt ákvæði þannig að stefnda sé skylt að greiða stefnanda desemberuppbót (13. mánuð) sem lífeyrisgreiðslu frá desember 1996 þannig að stefnandi fái í desembermánuði ár hvert greiðslu frá stefnda sem á hverjum tíma sé jafnhá þeirri greiðslu sem stefnandi fær greidda í lífeyri í desembermánuði frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og miðast við 64,17% eftirlaunahlutfall af viðmiðunarlaunum. Varakrafan er sama efnis með þeirri breytingu að samkvæmt henni skal greiðsluskylda stefnda miðast við 60% af desemberuppbót.
Stefnandi byggir kröfur sínar einkum á því að með framangreindu kjarasamningsákvæði hafi stefndi undirgengist þá skyldu að tryggja starfsmönnum sínum sambærileg lífeyrisréttindi og fyrrum ríkisviðskiptabankar og Seðlabanki Íslands tryggðu starfsmönnum sínum. Máli sínu til stuðnings vísar stefnandi sérstaklega til framkvæmdar einkabanka og sparisjóða á umræddum samningsskyldum. Þá vísar hann til þess að samkvæmt matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 11. júlí 2000, komi skýrt í ljós, þegar lífeyrisréttindi, annars vegar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og hins vegar í lífeyrissjóðum starfsmanna ríkisviðskiptabankanna og Seðlabanka Íslands, séu borin saman og metin heildstætt, að réttindi sem stefnandi hefði notið í síðastgreindu sjóðunum hefðu verið honum mun hagstæðari en réttindi þau sem hann njóti úr Lífeyrissjóði starfmanna ríkisins.
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að hann hafi fullnægt lagaskyldu sinni til greiðslu í lífeyrissjóð vegna stefnanda, sbr. lög nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nú lög nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, svo og lög nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nú lög nr. 1/1997 um það efni. Í öðru lagi mótmælir stefndi því að fyrrgreint ákvæði kjarasamningsins leiði til þess að taka beri dómkröfur stefnanda til greina m.a. af þeim sökum að réttindi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins séu sambærileg lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisbankanna og lífeyrisréttindi stefnanda hjá þeim sjóði séu meiri en hefði hann flust til Eftirlaunasjóðs starfsmanna Landsbankans og Seðlabankans. Þá er í þriðja lagi á því byggt að stefndi ábyrgist ekki skuldbindingar umfram iðgjöld nema fyrir hluta tímabilsins, þ.e. frá 1. janúar 1975. Í fjórða lagi geti ávinnslutími réttinda ekki reiknast frá fyrra tímamarki en 1. ágúst 1980, enda hafi umrætt ákvæði ekki tekið gildi fyrr. Í fimmta lagi er því borið við af hálfu stefnda að hann verði ekki dæmdur til beinnar greiðsluskyldu gagnvart stefnanda, enda tryggi launagreiðandi lífeyrisréttindi ekki með öðrum hætti en með framlagi til lífeyrissjóðs. Stefndi telur umrædda matsgerð ekki hafa neina þýðingu í málinu m.a. vegna þess að engin skuldbinding hafi hvílt á stefnda gagnvart stefnanda vegna 19 fyrstu áranna í starfsævi stefnanda.
Í málatilbúnaði stefnanda er gerð grein fyrir tilurð umrædds ákvæðis í grein 12.6.1 í kjarasamningi aðila. Við gerð kjarasamnings aðila í desember 1980 hafi verið samið um sambærileg lífeyrisréttindi allra félagsmanna Sambands íslenskra bankamanna og hafi ákvæðið komið fram í bókun 5 með kjarasamningnum og staðið nær óbreytt frá þeim tíma til þessa dags. Umrætt samkomulag um lífeyrismál hafi átt við um sambærileg réttindi og bætur í lífeyrisréttindum handa öllum starfsmönnum viðsemjenda Sambands íslenskra bankamanna og hafi aðdragandi samkomulagsins verið allt frá árinu 1974.
Þá vísar stefnandi til dóms Félagsdóms sem kveðinn var upp hinn 22. apríl 1992 í málinu nr. 10/1991: Íslandsbanki hf. gegn Sambandi íslenskra bankamanna. Í niðurstöðu þess dóms sé staðfest sú túlkun sem Samband íslenskra bankamanna hafi haft á ákvæðinu svo sem nánar er rakið.
Í nefndum dómi Félagsdóms er rakinn aðdragandi að því ákvæði um lífeyrismál sem nú er í grein 12.6.1 í kjarasamningi aðila. Þar kemur m.a. fram að upphaf málsins sé að rekja til yfirlýsingar stjórnar Sambands íslenskra bankamanna og fulltrúa einkabankanna (þáverandi hlutafélagsbanka) frá 16. mars 1974 um lífeyrisréttindi starfsfólks einkabankanna. Í yfirlýsingu fulltrúa einkabankanna hafi komið fram sú skoðun að stefna bæri að því að starfsfólk þeirra banka fengi sömu lífeyrisréttindi og starfsfólk ríkisbankanna. Í yfirlýsingu Sambands íslenskra bankamanna hafi m.a. komið fram að stjórnin fagnaði yfirlýsingu fulltrúa einkabankanna og treysti því að áfram yrði unnið í málinu.
Síðan er í umræddum dómi Félagsdóms gerð grein fyrir ákvæðum um lífeyrismál í kjarasamningum bankamanna, sbr. fylgiskjöl með kjarasamningum frá 18. júní 1976 og 1. nóvember 1977. Þar sé fjallað um fyrirheit og markmið um það að starfsfólki einkabankanna verði tryggð sambærileg lífeyrisréttindi og starfsfólk ríkisbankanna hefði notið. Þá er í dóminum gerð ítarleg grein fyrir aðdraganda að kjarasamningi samninganefndar bankanna og Sambands íslenskra bankamanna sem undirritaður var 15. desember 1980, þ. á m. um tilurð bókunar 5 með kjarasamningnum sem hafði að geyma ákvæði það sem nú er í grein 12.6.1 og á reynir í máli þessu. Samkvæmt því sem rakið er í dóminum og hér hefur verið gerð grein fyrir í megindráttum lutu kröfur Sambands íslenskra bankamanna að því að tryggja starfsfólki einkabankanna sambærileg lífeyrisréttindi og starfsfólk ríkisbankanna naut. Samkvæmt þessu er ljóst að með umræddu ákvæði, sem upphaflega var í bókun 5 með kjarasamningi aðila frá 15. desember 1980, var stefnt að því að rétta hlut starfsmanna einkabankanna að því er varðar lífeyrisréttindi, en starfsmenn þessir voru sjóðfélagar í almennum lífeyrissjóðum.
Fram er komið að Haraldur Ellingsen hefur allt frá upphafi starfsferils síns verið sjóðfélagi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, sbr. bréf lífeyrissjóðsins, dags. 20. nóvember 1998, til lögmanns stefnda, sem liggur fyrir í málinu. Eins og fram er komið varð Haraldur starfsmaður Þjóðhagsstofnunar í ársbyrjun 1975. Í greindum samningi ríkisstjórnar Íslands og Seðlabanka Íslands, dags. 2. desember 1974, segir svo í 5. gr.: "Laun og kjör starfsfólks stofnunarinnar skulu vera samkvæmt reglugerð um störf og launakjör í bankakerfinu. Starfsfólkið heldur áfram að vera félagar í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins."
Eins og fram er komið byggir stefndi m.a. á því að lífeyrisréttindi hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins séu sambærileg lífeyrisréttindum starfsmanna ríkisbankanna. Rökstyður hann þá staðhæfingu m.a. með vísan til skiptingar á lífeyrisjóðum í tvo meginflokka, annars vegar almenna lífeyrissjóði, er veiti réttindi í samræmi við iðgjaldagreiðslur, og hins vegar lífeyrissjóði, m.a. lögbundna lífeyrissjóði, þar sem réttindin séu skilgreind í lögum eða samþykktum án tillits til þess hvort iðgjöld sjóðfélaga standi undir réttindum þeirra. Í síðari flokknum séu m.a. Lífeyrisjóður starfsmanna ríkisins og eftirlaunasjóðir ríkisbankanna. Í þessu sambandi vísar hann til laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Í III. kafla þeirra laga er mælt fyrir um almennar reglur um samtryggingarréttindi í lífeyrissjóðum. Hvað varðar lífeyrisréttindi í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins þá eru þau nú með tvennum hætti samkvæmt lögum nr. 1/1997, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Í A-deild lífeyrissjóðsins, sbr. II. kafla laganna, er lífeyrisréttur reiknaður eftir stigakerfi þar sem réttindaávinningur ársins fer eftir fjárhæð iðgjalda á hverjum tíma. Í B-deild lífeyrisjóðsins, sbr. III. kafla laganna, eru réttindareglur að meginstofni óbreyttar frá þágildandi lögum nr. 29/1963, um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, með síðari breytingum. Fyrir liggur að Haraldur Ellingsen hóf töku lífeyris 1. janúar 1996 samkvæmt 95 ára reglunni á grundvelli síðastgreindra laga.
Í samræmi við það, sem að framan er rakið um aðdraganda og tilurð að umræddu ákvæði sem nú er í grein 12.6.1 í kjarasamningi aðila, verður að byggja á því að ákvæðinu hafi sérstaklega verið ætlað að bæta lífeyrisréttindi starfsmanna þáverandi einkabanka til jafns við lífeyrisréttindi starfsmanna þáverandi ríkisbanka, bæði ríkisviðskiptabanka og Seðlabanka Íslands, enda bjuggu fyrrnefndu starfsmennirnir við mun rýrari réttindi í þessum efnum þar sem þeir voru sjóðfélagar í almennum lífeyrisjóðum. Ekki verður séð að tilætlunin hafi verið að láta þessar ráðstafanir ná til þeirra starfsmanna sem störfuðu hjá stofnunum, þ.á m. Þjóðhagsstofun sem voru aðilar að kjarasamningum bankamanna og nutu lífeyrisréttinda í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Þegar þetta er virt og horft er til þeirra lífeyrisréttinda sem Haraldi Ellingsen eru tryggð í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins verður ekki talið að stefnandi geti sótt kröfur á hendur stefnda á grundvelli umrædds ákvæðis greinar 12.6.1 í kjarasamningi aðila. Af framlagðri matsgerð dómkvaddra matsmanna, dags. 11. júlí 2000, verður heldur ekki ráðið að réttindin séu ekki sambærileg í skilningi umrædds kjarasamningsákvæðis. Samkvæmt þessu ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaðar falli niður.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Samninganefnd bankanna f.h. Þjóðhagsstofnunnar, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Sambands íslenskra bankamanna f.h. Haraldar Ellingsen, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Eggert Óskarsson
Gylfi Knudsen
Ingibjörg Benediktsdóttir
Valgeir Pálsson
Sératkvæði
Guðna Á. Haraldssonar
Um launakjör Haraldar Ellingsen fór samkvæmt kjarasamningi SÍB og samninganefndar bankanna. Mál þetta fjallar um túlkun á ákvæði gr. 12.6.1 í þeim samningi. Málið á því undir Félagsdóm.
Í framhaldi af úrskurði Félagsdóms í málinu nr. 8/1998 hefur stefnandi máls þessa lagt fram matsgerð sem unnin er af dómkvöddum matsmönnum, þeim Bjarna Guðmundssyni og Bjarna Þórðarsyni tryggingafræðingum, þar sem m.a. er tekið mið af 95 ára reglu Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Í launaviðmiðun þeirri sem lögð er til grundvallar samanburði þeirra á verðmætum lífeyrisréttinda, annars vegar úr Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og hins vegar úr Eftirlaunasjóði starfsmanna Landsbanka Íslands og Seðlabanka Íslands kemur glögglega fram, að laun fyrir hinn svokallaða "13. mánuð" leiða til þess að réttindi stefnanda úr ELS hefðu orðið meiri en hann nú hefur samkvæmt aðild sinni að Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins.
Stefnda hefur ekki tekist að hnekkja þessu mati hinna dómkvöddu matsmanna. Verður því að leggja það til grundvallar við úrslausn á ágreiningi aðila.
Stefndi hefur gengist undir þá skyldu skv. gr. 12.6.1 í kjarasamningi Samninganefndar bankanna og Sambands ísl. bankamanna að tryggja starfsmönnum sínum sambærileg réttindi og starfsmenn ríkisbankanna njóta hverju sinni. Fyrir liggur í máli þessu að starfsmenn ríkisbanka fá greiddan lífeyri af launum fyrir 13. mánuð.
Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram að lög og reglur Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins hafi meinað honum að greiða lífeyri af launum fyrir 13. mánuð.
Á það verður ekki fallist að neitun sjóðsins um að taka við iðgjöldum vegna þessa leysi stefnda undan þeirri samningsbundnu skyldu er um getur hér að framan. Þannig gat hann uppfyllt skyldu sína á annan hátt eins og reyndar aðrir bankar hafa gert.
Ekki verður heldur á það fallist að stefnandi hafi glatað rétti sínum sökum þess að hann hafi ekki sinnt um að breyta um lífeyrisaðild þar sem stefndi tók að sér þá skyldu að tryggja honum sambærileg réttindi. Því verður ekki fallist á að um tómlæti hafi verið að ræða hjá stefnanda í þeim efnum.
Réttindi þau er um ræðir í máli þessu, ráðast ekki af samanlögðum innvinnsluárafjölda heldur viðmiðunarlaunum til lífeyris. Þannig ráðast réttindi stefnanda í máli þessu af þeim kjarasamningi og þeim viðmiðunarlaunum sem eru í gildi við starfslok stefnanda. Þannig skyldi upphæð ellilífeyris ráðast af launum þeim er fylgdu stöðunni á hverju tíma eins og þau skyldu vera samkvæmt kjarasamningi viðkomandi stéttarfélags, sbr. 6. mgr. 11.gr. laga nr. 29/1963. Því ræður það ekki úrslitum þótt samanlagður hundraðshluti lífeyrisréttinda eigi rót sína að rekja til ráðningar allt til ársins 1961.
Stefnandi beinir kröfu sinni að stefnda. Það helgast af þeirri staðreynd að iðgjöldum af launum fyrir 13. mánuð hefur ekki verið skilað inn til viðurkennds lífeyrissjóðs. Þannig felst í raun í kröfu stefnanda krafa um viðurkenningu á því að stefnda hafi borið skylda til að uppfylla ákvæði gr. 12.6.1. í kjarasamningi Samninganefndar bankanna og SÍB. Því er á það fallist, að stefnandi geti beint kröfu sinni að stefnda eins og háttar í máli þessu.
Að lokum ber og að hafa í huga að samkvæmt ákvæðum laga nr. 55/1980 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda o.fl. þá var lögð sú skylda á vinnuveitendur að þeir greiddu iðgjöld af launum til viðurkennds lífeyrissjóðs. Lög þessi náðu til bankamanna. Laun fyrir 13. mánuð eru og voru hluti af launum bankamanna.
Með vísan til þessa, svo og þess sem að framan er rakið, verður á það fallist með stefnanda að stefnda beri að tryggja honum lífeyrisgreiðslu af launum fyrir 13. mánuð.
Hins vegar verður ekki fallist á aðalkröfu stefnanda í máli þessu, þar sem fyrir liggur að framlagi stefnanda í lífeyrissjóð af 13. mánuði hefur ekki verið skilað. Þannig verður einungis fallist á að stefnda beri skylda til þess að standa stefnanda skil á lífeyrisréttindum sem eiga rót sína að rekja til þess að 6% mótframlag stefnda var ekki greitt.