Hoppa yfir valmynd
19. febrúar 2001 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 7/2000: Dómur frá 19. febrúar 2000.

Ár 2001, mánudaginn 19. febrúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 7/2000.

Félag íslenskra flugumferðarstjóra

gegn

ríkissjóði Íslands

kveðinn upp svofelldur


D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 29. janúar sl. Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ingólfur Friðjónsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

Stefnandi er Félag íslenskra flugumferðarstjóra, kt. 560372-0199.

Stefndi er Ríkissjóður Íslands, kt. 550169-2829, Arnarhváli, Reykjavík.


Dómkröfur stefnanda

Stefnandi gerir þá dómkröfu að viðurkennt verði að félagsmaður stefnanda, Halla B. Reynisdóttir, hafi átt rétt á dagpeningum í samræmi við reglur og ákvarðanir ferðakostnaðarnefndar á hverjum tíma er hún frá 10. október 1998 til og með 29. maí 1999 dvaldi á vegum Flugmálastjórnar Íslands fjarri starfsstöð sinni vegna námskeiðs- og þjálfunarstarfa á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli og að með því að neita að greiða henni slíka dagpeninga hafi verið brotið gegn grein 5.7.1 í kjarasamningi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og ríkissjóðs frá 1997.

Þá er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi auk álags sem nemur virðisaukaskatti.


Dómkröfur stefnda

Að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati Félagsdóms.

Með úrskurði uppkveðnum í málinu 14. september sl. var hafnað kröfu stefnda um frávísun málsins. Með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 17. október sl. var sá úrskurður staðfestur.

 

Málavextir

Málavextir eru þeir að Halla B. Reynisdóttir, kt. 170967-5189, er félagsmaður í Félagi íslenskra flugumferðarstjóra. Um launakjör hennar fer samkvæmt kjarasamningi aðila sem gildir frá 1. desember 1995 og ráðningarsamningi undirrituðum 2. júní 1998. Hún hóf nám í flugumferðarstjórn í ATS-skóla Flugmálastjórnar Íslands í september 1996 og lauk bóklegum hluta grunnnáms og bóklegu námi fyrir flugturninn í Reykjavík í apríl 1997.

Framangreint nám skiptist annars vegar í grunnnám og hins vegar nám til mismunandi starfsréttinda. Þessi starfsréttindi eru í fyrsta lagi þrenns konar starfsréttindi í flugstjórnarmiðstöðinni, þ.e. innanlands sector, suður-austur sector og norður-vestur sector. Í öðru lagi er um aðflugsstjórnarréttindi að ræða og í þriðja lagi turnréttindi. Auk hins eiginlega starfsréttindanáms þarf hlutaðeigandi að fá sérþjálfun tengda hverjum vinnustað, eða svonefnda staðar-rating, sbr. reglugerð nr. 344/1990 um skírteini gefin út af flugmálastjórn með síðari breytingum, sbr. núgildandi reglugerð nr. 419/1999 um sama efni. Aðstæður á hverjum stað ráða því hvaða starfsréttinda og þjálfunar er almennt krafist, en nám til starfsréttinda fer fram í Reykjavík og í Keflavík.

Starfsréttindanám flugumferðarstjóranema er launað. Samkvæmt grein 13.1.2 í kjarasamningi aðila telst maður vera nemandi frá upphafi náms í flugumferðarstjórn þar til hann hefur staðist próf fyrir fyrstu starfsréttindi. Stefndi kveður að nemar í flugumferðarstjórn taki laun samkvæmt kjarasamningi Félags flugmálastarfsmanna ríkisins á námstímanum frá því að grunnnámi lýkur og þar til fyrstu starfsréttindum er náð en eftir það samkvæmt kjarasamningi aðila máls þessa. Þann 24. mars 1997 lagði Halla B. Reynisdóttir fram ósk um að flytjast til starfa í flugturninn á Akureyri en þar var hún og er búsett. Í apríl 1998 hafði hún lokið við og staðist öll tilskilin próf í bóklegri og verklegri flugumferðarstjórn fyrir flugturnsþjónustu í Reykjavík.

Halla var ráðin flugumferðarstjóri á Akureyrarflugvelli frá 8. apríl 1998 en ráðningarsamningur undirritaður 2. júní 1998. Áður en ráðningarsamningurinn var gerður voru uppi umræður um þau kjör sem Halla skyldi njóta við aðflugsnám sem var lokaþáttur starfsþjálfunar hennar og sem fram skyldi fara í Reykjavík og Keflavík. Kemur fram í bréfi framkvæmdastjóra flugumferðarþjónustu 1. júní 1998 til Höllu B. Reynisdóttur að gert sé ráð fyrir að hún komi til starfa á Reykjavíkurflugvelli í júlí og starfi þar fram til 1. september. Þann tíma muni hún fá greidda fæðispeninga og eigi möguleika á að gista í íbúð FMS í slökkvistöðinni. Einnig muni hún fá greiddar allt að fjórar ferðir til Akureyrar þann sama tíma. Eftir 1. september muni hún fara í flugturninn á Akureyrarflugvelli þar til nám hennar í aðflutningsstjórn hefst og að loknu starfsréttindanámi muni hún halda til starfa í flugturninum á Akureyri. Tekið er fram í bréfinu að á tímabili starfsréttindanáms verði hvorki greiddir dagpeningar né fæðispeningar.

Stefndi kveður að á grundvelli þess sem fram kemur í bréfinu 2. júní 1998 hafi Flugmálastjórn gert samkomulag við Höllu þessa efnis og í framhaldi þess hafi hún ritað undir ráðningarsamninginn 2. júní 1998. Samkomulagið geymi efni ráðningar- samningsins og sé hluti hans og helgist af því að á þeim tíma sem það var gert hafi Halla ekki uppfyllt skilyrði til ráðningar í starfi á Akureyri. Sérstakt fyrirkomulag skyldi því standa þar til þau skilyrði yrðu uppfyllt. Veturinn 1998 til 1999, meðan Halla stundaði nauðsynlegt nám í Reykjavík og Keflavík í aðflugsstjórn, skyldu henni ekki greiddir dagpeningar. Þetta hafi gengið eftir eins og um var samið. Samkomulagið og ráðningarsamninginn verði að skoða í ljósi ákvæða 13.1.2 um að hún hafi ekki lengur verið nemi þó svo að eiginlegu starfsréttindanámi vegna Akureyrar væri ekki lokið. Hún hafi heldur ekki uppfyllt skilyrði til þess að geta starfað í flugturninum á Akureyri. Þá hafi flugmálastjórn viljað koma til móts við óskir hennar um að vinna á Akureyrarflugvelli. Í ljósi þessa hafi samkomulagið verið háð vissum skilyrðum.

Stefndi kveður Akureyri vera í sérstöðu miðað við aðra vinnustaði flugumferðarstjóra í Keflavík, Reykjavík og Vestmannaeyjum að því leyti að bæði aðflugsstjórnun og stjórnun úr flugturni fari fram þaðan. Aðflugsstjórnarréttindi og turnréttindi flugumferðarstjóra séu hvor sín réttindin og útheimti sitt hvort starfsréttindanámið. Á Akureyri séu fjórar stöður flugumferðarstjóra, en einn á hverri vakt sem verði að hafa full réttindi þar. Áskilið sé að allir hafi bæði réttindi í aðflugsstjórn og turni. Um það leyti sem Halla B. Reynisdóttir hóf fyrsta starfsréttindanám sitt hafi verið ljóst að einn þeirra fjögurra sem á Akureyri starfaði yrði senn að láta af störfum fyrir aldurs sakir og hafi það verið kunngjört innan stofnunarinnar. Kveður stefndi að ósk Höllu um að flytjast til starfa í flugturninum á Akureyri hafi verið vel tekið af hálfu yfirstjórnar Flugmálastjórnar, en áskilið hafi verið af hálfu stofnunarinnar og óhjákvæmileg forsenda fyrir því að af þessu gæti orðið að hún aflaði sér þeirra starfsréttinda sem nauðsynleg væru til að geta gengið í starf á Akureyri, þ.e.a.s. lyki því námi til turnréttinda sem hafið var, auk þess sem hún yrði að afla sér starfsréttinda í aðflugsstjórn. Það hafi ekki verið gerlegt, þar sem hún hafi að auki þurft að hafa starfsréttindi fyrir aðflug og hafa lokið nauðsynlegri þjálfun þar að lútandi. Stefnandi heldur því hins vegar fram að þar sem skortur hafi verið fyrirsjáanlegur á flugumferðarstjórum á Akureyri hafi Halla sótt um starfið fyrir áeggjan forráðamanna flugumferðarþjónustunnar. Þeir hafi hins vegar gert hvað þeir gátu til að tryggja að ekki myndi koma til greiðslna dagpeninga til Höllu meðan á hinu fyrirhugaða starfsnámi stæði. Í þessu skyni hafi þeir beitt hana þrýstingi og sett fram tillögur þess efnis í maí og júní 1998. Hafi þeir áður reynt að fá Höllu til að gera tímabundinn ráðningarsamning þar sem starfsstöðin var ákveðin í Reykjavík en sá samningur hafi aldrei verið undirritaður. Hafi verið afráðið að framtíðarstarf Höllu yrði á Akureyri og þjálfun hennar miðast eftir þetta við það.

Halla lauk tilskildum prófum til að geta starfað í flugturninum á Akureyri í júní 1999 og hélt þá til starfa á Akureyri. Sá starfsmaður sem hún leysti af hólmi lét af störfum í ágústbyrjun það sumar.

Ágreiningur aðila snýst um það hvort ákvæði greinar 5.7.1 í kjarasamningi aðila um greiðslu dagpeninga hafi verið brotið þegar Höllu B. Reynisdóttur var neitað um slíka greiðslu það tímabil er hún var í ofangreindum námskeiðs- og þjálfunarstörfum í starfsréttindanámi í Reykjavík og Keflavík, fjarri starfsstöð sinni.


Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir á því að kveðið sé á um dagpeninga starfsmanna í 5. kafla kjarasamnings aðila og skuli dagpeningar vegna námskeiða, þjálfunar- og eftirlitsstarfa vera þeir sömu og hjá öðrum starfsmönnum ríkisins, sbr. grein 5.7.1.

Halla B. Reynisdóttir, félagsmaður stefnanda, hafi ekki fengið greidda dagpeninga á tímabili starfsréttindanáms í Reykjavík og Keflavík eins og kjarasamningurinn geri ráð fyrir.

Stefnandi telur að umrædd framkvæmd Flugmálastjórnar feli í sér skýrt brot gegn kjarasamningi aðila. Stefnandi hafi ítrekað krafist þess að Flugmálastjórn virði kjarasamning aðila. Þá hafi stefnandi borið málið upp á fundum samstarfsnefndar aðilanna en samkvæmt fundargerð fundar samstarfsnefndar Flugmálastjórnar og FÍF sé ljóst að vilji Flugmálastjórnar til lausnar málsins sé enginn. Tilraunir til sátta hafi því reynst árangurslausar og því telur stefnandi málsókn þessa óhjákvæmilega.

Krafa stefnanda byggir á að stefnda beri að sjá til þess að kjarasamningur aðila sé efndur réttilega. Ótvírætt sé að Halla hafi verið send til námskeiðs- og þjálfunarstarfa fjarri starfsstöð sinni og beri því að fá greidda dagpeninga eins og kjarasamningurinn geri ráð fyrir. Telur stefnandi að mál þetta sé mikilvægur prófsteinn á það hvort stéttarfélögum sé unnt að tryggja að kjarasamningar sem þau geri séu haldnir, jafnvel þó að atbeini starfsmannsins sem kjarasamningsbrotið beinist að komi ekki til.

Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á kjarasamningi aðila og meginreglum vinnu- og samningaréttar. Þá byggir stefnandi á lögum nr. 80/1938 og 1. gr. laga um starfskjör launafólks nr. 55/1980. Einnig vísar stefnandi til laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, einkum til 24. gr. og 26. gr.

Stefnandi kveður kjarasamning þann sem um er deilt í málinu vera á forræði aðila máls þessa en framkvæmd hans hafi af hálfu stefnda verið falin Flugmálastjórn Íslands með bréfi dagsettu 17. febrúar 1998. Samkvæmt 3. gr. laga nr. 94/1986 sé stefndi til fyrirsvars í málinu.

Kröfu um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.


Málsástæður og lagarök stefnda

Sýknukrafa er á því byggð að efni ráðningarsamnings Flugmálastjórnar við Höllu B. Reynisdóttur hafi verið lögmætt og í gerð hans felist á engan hátt brot á kjarasamningi aðila. Hafi kjarasamningur í engu verið vanefndur gagnvart Höllu. Er einnig á því byggt að stefnandi eigi ekki aðild að málinu þar sem leitað sé dóms um efni ráðningarsamnings Höllu B. Reynisdóttur, án umboðs hennar eða atbeina. Vísast til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, en ekki verði leitt af lögum nr. 94/1986 að stéttarfélög hafi lögákveðið málsóknarumboð eða aðild að ágreiningi um efni ráðningarsamninga án þess að sérstakt umboð viðkomandi starfsmanns komi til.

Á grundvelli reglna nr. 39/1992, sbr. auglýsingu nr. 569/1994, svo og á grundvelli ákvæða í kjarasamningum ríkisstarfsmanna starfi ferðakostnaðarnefnd. Gefi hún út umburðarbréf um almennar reglur svo og auglýsingar um fjárhæðir dagpeninga og sundurliðanir þeirra vegna ferða, jafnt innan- og utanlands, en þær séu meðal annars birtar í Lögbirtingablaði. Vísast til umburðarbréfs nefndarinnar er tók gildi frá og með l. júní 1997. Í 5. kafla kjarasamnings aðila sé fjallað um ferðir og gistingu. Samkvæmt grein 5.2. skuli greiða gisti- og ferðakostnað með dagpeningum, sé um það samkomulag eða ekki sé unnt að leggja fram reikninga. Af þessum ákvæðum sé ljóst að almenna reglan sé sú að greiða skuli útlagðan kostnað samkvæmt reikningi. Í kafla 5.7 sé fjallað um dagpeninga vegna námskeiða o.fl., sbr. ákvæði 5.7.1. Ákvæði þetta geymi ekki tiltekna efnisreglu heldur vísi almennt til ákveðins fyrirkomulags sem þekkt sé hjá öðrum starfsmönnum ríkisins. Ljóst sé af öðrum kjarasamningum sem stefndi leggur fram að dagpeningar vegna "námskeiða, þjálfunar- eða eftirlitsstarfa" séu ákveðnir af ferðakostnaðarnefnd.

Stefndi telur þann ráðningarsamning sem gerður hafi verið við Höllu B. Reynisdóttur fyllilega réttmætan og ekki fela í sér brot á kjarasamningi. Þá meginforsendu hafi skort fyrir starfi Höllu á Akureyri fyrir júní 1999, að hún uppfyllti þær kröfur sem til starfsmanna þar séu gerðar. Það hafi verið í þágu Höllu að Flugmálastjórn hafi ákveðið snemma á námsferli hennar að stefnt skyldi að starfi á Akureyri í samræmi við óskir hennar þar um, ef hún aflaði tilskilinna réttinda. Í þeirri viljayfirlýsingu Flugmálastjórnar hafi ekki falist að með því skyldi hún teljast ráðin til starfa á Akureyri, svo sem stefnandi heldur fram. Á þessum tíma hafi Halla verið í launuðu námi í Reykjavík til upphafsstarfsréttinda og átti umtalsvert nám fyrir höndum bæði í Reykjavík og Keflavík. Engar forsendur hafi því verið til að telja að vinnustaður hennar eða starfsstöð væri þá á Akureyri, en að því var stefnt að framtíðarstarfsvettvangur hennar yrði þar. Er því mótmælt sem röngu og ósönnuðu að Halla hafi verið beitt þrýstingi í því skyni að ekki kæmi til greiðslu dagpeninga.

Veturinn 1998 til 1999 hafi Halla verið í launuðu námi í Reykjavík og Keflavík. Hún hafi ekki farið úr launuðu starfi á Akureyri til að stunda þetta nám, heldur hafi nám þetta og starfsréttindi að því loknu verið skilyrði þess að hún gæti tekið við starfi á Akureyri, sem hugur hennar hafi staðið til og stefndi hafi unnið að með henni að gæti orðið. Staðfest sé í bréfum skólastjóra ATS-skóla, dags. 7. júní og 29. júní 1999 að Halla hafi lokið tilskildum prófum til þess að starfa í flugturninum á Akureyri. Ljóst sé að námið hafi aðeins getað farið fram í Reykjavík og Keflavík. Með nefndu samkomulagi 2. júní 1998 hafi í raun verið komið út fyrir efni kjarasamnings aðila til hagsbóta fyrir Höllu. Er því mótmælt að með því hafi verið gengið á rétt Höllu eða að réttur hennar hafi verið gerður minni en hún átti samkvæmt kjarasamningi.

Þar sem dagpeningar gætu aðeins átt við þegar svo háttar að maður fari frá starfsstöð sinni til tilfallandi námskeiðs eða þjálfunarstarfa, að öðrum skilyrðum dagpeningagreiðslna uppfylltum, hafi ekki verið heimilt eða skylt að greiða Höllu dagpeninga á þeim tíma sem kröfugerðin tekur til. Er því mótmælt þeirri fullyrðingu í stefnu að Halla hafi verið send til námskeiðs- og þjálfunarstarfa fjarri starfstöð sinni, en framtíðarstarfstöð hennar á Akureyri sem flugumferðarstjóri þar hafi ekki verið komin til framkvæmda. Sé því ekki unnt að leggja þann skilning í atvik málsins að Halla hafi farið úr launuðu starfi á Akureyri til þess að stunda nám í Reykjavík. Hafi því verið fullljóst að starfsstöð Höllu hafi verið í flugturninum í Reykjavík á meðan hún aflaði sér umræddra starfsréttinda veturinn 1998-1999. Liðir 3 og 4 í samkomulagi aðila sé í samræmi við það fyrirkomulag. Af þessari ástæðu beri að sýkna af öllum kröfum stefnanda, enda rangt að halda því fram að Halla hafi dvalið á vegum Flugmálastjórnar fjarri starfsstöð sinni.

Stefndi byggir einnig á því að dagpeningar séu ekki greiddir nema vegna tilfallandi ferða. Gera verði greinarmun á því hvað sé námskeið eða þjálfunarstarf hjá starfsmanni sem uppfylli öll starfsgengisskilyrði þegar hann fari á námskeið eða til þjálfunar fjarri starfsstöð sinni og hinu þegar maður sé að nema til þess að uppfylla starfsgengisskilyrði og það að geta uppfyllt efni ráðningarsamnings. Af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda, þar sem reglur um dagpeninga samkvæmt kjarasamningi hafi ekki átt við um nám Höllu eða nám sem nauðsynlegt teljist til að uppfylla starfsgengisskilyrði.

Samkomulagið frá 2. júní 1998 hafi verið gert í þeim tilgangi að gera Höllu kleift að afla sér nauðsynlegra starfsréttinda fyrir væntanlegt starf á Akureyrarflugvelli. Hér hafi hvorki verið um að ræða tilfallandi námskeið, þjálfunar- eða eftirlitsstarf né var um það að ræða að Halla hefði verið send að ósk Flugmálastjórnar úr launuðu stafi á Akureyri, þar sem hún uppfyllti skilyrði til að gegna. Þar sem samkomulagið hafi fyrst og fremst verið gert í þágu Höllu hafi verið rétt að taka það fram að á tímabili starfsréttindanáms yrðu hvorki greiddir dagpeningar né fæðispeningar. Ef annar háttur sé hafður á hefði það þurft að eiga sér sérstaka stoð í kjarasamningi eða með öðrum hætti, sbr. t.d. atvik félagsdómsmálsins nr. 18/1997 frá 18. nóvember 1997. Hafi það verið almennur skilningur í kjarasamningum ríkisstarfsmanna að dagpeningar greiðist ekki þegar um sé að ræða námskeið til að uppfylla starfsgengisskilyrði. Frávík frá því verði því að byggja á sérstökum heimildum, enda almennt svo að maður kosti sjálfur nám til að uppfylla starfsgengisskilyrði svo og útgjöld í tengslum við það. Ekki hafi verið sett inn heimild í kjarasamningi aðila um dagpeningagreiðslur nema í flugumferðarstjórn. Málsóknin miði því í raun að gerð kjarasamnings en snúist ekki um ágreining um skilning á honum.

Af framangreindum ástæðum sé ljóst að grein 5.7.1 hafi ekki átt við um tímann sem kröfugerð feli í sér að greiða hafi átt dagpeninga. Almennt beri að skýra ákvæðið þröngt þannig að það taki samkvæmt orðan sinni til náms eða þjálfunarferða sem séu ekki eiginlegt starfsnám sem sé skilyrði fyrir starfi sem á annað borð veiti réttarstöðu samkvæmt kjarasamningnum. Sé ákvæðið bersýnilega hugsað þannig að maður í starfi fari til náms eða þjálfunarferðar meðan á starfi stendur og þá frá raunverulegri starfsstöð að undirlagi vinnuveitanda og á vegum hans. Sé þannig ekki uppfyllt það augljósa skilyrði fyrir dagpeningagreiðslum að vinnuveitandi hafi sent Höllu til námskeiðs eða þjálfunarstarfa, heldur hafi starfsnámið verið eftir ósk og vali hennar sjálfrar. Eigi ákvæðið ekki við um þá aðstöðu þegar starfsmaður sé að afla sér starfsgengis en hafi ekki hafið störf á sínum framtíðarvinnustað. Samkvæmt 5. tölulið 6. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, sbr. nánar ákvæði loftferðalaga og reglugerðar um skírteini gefin út af Flugmálastjórn, hafi Halla verið að afla sér starfsgengisskilyrða fyrir tiltekið starf. Með því að viðurkenndur væri réttur hennar til dagpeninga meðan á því stóð væri það andstætt almennum reglum vinnuréttar um að starfsmannsins sé að bera kostnað af því að uppfylla starfsgengisskilyrði, enda hans að uppfylla þau til að verða í stakk búinn að sinna aðalskyldum sínum í réttarsambandinu.

Því er mótmælt að hluti ráðningarsamnings við Höllu hafi verið um lakari kjör en samkvæmt kjarasamningi. Almenn tilvísun stefnanda til laga nr. 80/1938 sé ekki rökstudd. Stefnandi vísi líka til 1. gr. laga nr. 55/1980 og laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna, 24. og 26. gr. Er því mótmælt að tilhögun sú sem var á starfsnámi Höllu áður en hún gæti innt af hendi starf flugumferðarstjóra á Akureyri með því að uppfylla starfsgengisskilyrði, hafi verið ógild vegna framangreindra reglna eða andstæð kjarasamningi. Sé ekki um að ræða ráðningarsamning um lakari kjör en samkvæmt kjarasamningi þegar um sé að tefla skilyrði þess að geta innt af hendi viðkomandi starf. Sé ekki unnt að líta svo á að skilyrði fyrir því að ráðningarsamningurinn gæti verið efndur í starfi á Akureyri af hálfu Höllu fæli í sér lakari kjör en samkvæmt kjarasamningi. Halla hafi ekki sætt lakari kjörum en kjarasamningur hennar gerði ráð fyrir heldur hafi fyrirkomulagið verið henni til hagsbóta. Hafi samkomulagið þannig í engu brotið gegn kjarasamningi og hafi verið Höllu í hag. Hafi Flugmálastjórn gengið lengra og umfram skyldur samkvæmt kjarasamningi henni til hagsbóta með því að útvega henni gistingu, greiða henni fæðispeninga og ferðir til Akureyrar sumarið 1998.

Loks er á því byggt að ekki sé komið fram að Halla hafi haft nokkurn kostnað sem falli undir reglur ferðakostnaðarnefndar og greiða hafi átt dagpeninga fyrir, sbr. 2. og 3. gr, reglna nr. 39/1992. Séu því engin efni til að taka kröfur stefnanda til greina.

Til stuðnings kröfum um málskostnað er af hálfu stefnda vísað til XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 65. gr. laga nr. 80/1938.


Niðurstaða

Vegna málsástæðu stefnda um aðildarskort stefnanda er vísað til niðurstöðu í úrskurði Félagsdóms í máli þessu frá 14. september sl. þar sem stefnandi var talinn uppfylla lagaskilyrði fyrir málsókninni, þ.á m. um aðild að málinu, sbr. 4. mgr. 27. gr. laga nr. 94/1986.

Af hálfu stefnanda er þess krafist "að viðurkennt verði að félagsmaður stefnanda Halla B. Reynisdóttir hafi átt rétt á dagpeningum í samræmi við reglur og ákvarðanir ferðakostnaðarnefndar á hverjum tíma er hún frá 10. október 1998 til og með 29. maí 1999 dvaldi á vegum Flugmálastjórnar Íslands fjarri starfsstöð sinni vegna námskeiðs- og þjálfunarstarfa á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli og að með því að neita að greiða henni slíka dagpeninga hafi verið brotið gegn grein 5.7.1 í kjarasamningi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Ríkissjóðs frá 1997."

Grein 5.7.1 í kjarasamningnum hljóðar svo:

"Dagpeningar vegna námskeiða, þjálfunar- og eftirlitsstarfa skulu vera þeir sömu og hjá öðrum starfsmönnum ríkisins."

Fram er komið í málinu að félagsmaður stefnanda, Halla Björk Reynisdóttir, hóf grunnnám í flugumferðarstjórn 23. september 1996. Hún lauk bóklegu grunnnámi svo og bóklegu námi fyrir flugturninn í Reykjavík 23. apríl 1997. Síðan hóf Halla Björk verklegt nám í Reykjavík og lauk því 8. apríl 1998. Þann dag barst loftferðaeftirliti Flugmálastjórnar, Reykjavíkurflugvelli, svohljóðandi bréf Flugmálastjórnar Íslands-ATS skóla:

"Þar sem Halla Björk Reynisdóttir kt. 170967-5189, Vestursíðu 18, Akureyri, hefur lokið við og staðist öll tilskilin próf í bóklegri og verklegri flugumferðarstjórn fyrir flugturnsþjónustu í Reykjavík, "Aerodrome Control Rating" fer undirritaður þess vinsamlegast á leit að Höllu verði veitt skírteini flugumferðarstjóra og áritun í samræmi við ofanritað."


Með bréfi skólastjóra ATS-skóla, dags. 29. maí 1998, til loftferðaeftirlitsins var óskað eftir að árituninni: Flugturnsþjónusta Akureyri - yrði bætt í skírteini Höllu Bjarkar Reynisdóttur þar sem hún hefði lokið tilskildum prófum fyrir flugturninn á Akureyri. Með bréfum ATS-skóla, dags. 7. og 29. júní 1999, til loftferðaeftirlitsins var óskað eftir að tilgreindum áritunum yrði bætt í skírteini Höllu Bjarkar þar sem hún hefði lokið tilskildum prófum, m.a. fyrir aðflugsratsjá á Akureyri.

Að undangenginni auglýsingu sótti Halla Björk Reynisdóttir með bréfi, dags. 24. mars 1997, þá nemi í flugumferðarstjórn, um að fá að flytjast til starfa í flugturninum á Akureyri. Samkvæmt ráðningarsamningi, dags. 2. júní 1998, réð Flugmálastjórn Íslands Höllu Björk Reynisdóttur sem flugumferðarstjóra til flugumferðarstjórnunar, sbr. tilgreiningu starfsheitis og tegund starfs, á Akureyrarflugvöll og var upphafsdagur ráðningar tilgreindur 8. apríl 1998 og ráðning ótímabundin. Vísað var um laun og starfskjör með hefðbundnum hætti til kjarasamnings Félags íslenskra flugumferðarstjóra. Á sama tíma skráði Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugumferðarþjónustu, sérstaklega skilmála fyrir ráðningunni er hann taldi vera samkomulag um, þar sem m.a. var tekið fram að "Á tímabili starfsréttindanáms í Reykjavík og Keflavík verða ekki greiddir dagpeningar né fæðispeningar." Kvittaði Halla Björk Reynisdóttir fyrir móttöku þessa skjals.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að með því að Halla Björk Reynisdóttir hafi ekki haft tilskilin starfsréttindi, þegar hún var ráðin til starfa með fyrrgreindum ráðningarsamningi, séu engar forsendur til að líta svo á að vinnustaður hennar hafi verið á Akureyri á greindum tíma. Verði ekki talið að hún hafi farið úr launuðu starfi á Akureyri til að stunda umrætt nám, heldur hafi námið og starfsréttindi að því loknu verið skilyrði þess að hún gæti tekið við starfi á Akureyri. Þá teflir stefndi því fram að dagpeningar séu ekki greiddir nema vegna tilfallandi ferða og þar sem nám Höllu Bjarkar hafi verið nauðsynlegt til að uppfylla starfsgengisskilyrði eigi ákvæði kjarasamningsins um dagpeninga vegna námskeiða og þjálfunarstarfa ekki við.

Af þessu tilefni skal tekið fram að samkvæmt ráðningarsamningnum er Akureyrarflugvöllur tilgreindur sem vinnustaður (ráðningarstaður) eins og fram er komið. Á það því ekki við nein rök að styðjast að telja vinnustaðinn á Reykjavíkurflugvelli svo sem stefndi heldur fram. Þá liggur fyrir samkvæmt ráðningarsamningnum og öðrum gögnum málsins að Halla Björk Reynisdóttir var ráðin flugumferðarstjóri til flugumferðarstjórnunar, enda hafði henni þá verið veitt skírteini flugumferðarstjóra, sbr. bréf ATS-skóla, dags. 8. apríl 1998, sem fyrr er getið, sbr. og skilyrði fyrir útgáfu skírteinis flugumferðarstjóra í þágildandi reglugerð nr. 344/1990, um skírteini útgefin af Flugmálastjórn Íslands, sbr. breytingu á þeirri reglugerð með reglugerð nr. 137/1996, sbr. nú reglugerð nr. 419/1999 um sama efni. Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með stefnda að Halla Björk Reynisdóttir hafi verið í eiginlegu námi til að uppfylla starfsgengisskilyrði.

Í málinu hefur komið fram að vegna mannafla og vaktafyrirkomulags á Akureyri, þar sem einn flugumferðarstjóri er á vakt, hafi störf Höllu Bjarkar Reynisdóttur ekki komið að fullum notum þar sem hana hafi skort nauðsynlegar áritanir í skírteini sitt fyrir viðeigandi störf þar á staðnum. Í skýrslutöku hér fyrir dómi gerði Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugumferðarstjórnar, grein fyrir aðdraganda og frágangi ráðningarinnar og kom m.a. fram hjá honum að eins og á stóð hefði verið eðlilegast að miða ráðningarsamninginn við Reykjavík. Hvað sem þessu líður var Akureyrarflugvöllur allt að einu tilgreindur sem vinnustaður í ráðningarsamningnum og ef ráðning Höllu Bjarkar þar kom ekki að þeim notum, sem hentuðu stefnda, þá verður stefndi sjálfur að bera hallann af því. Eftir ráðninguna nýtur Halla Björk réttinda og ber skyldur samkvæmt kjarasamningnum og gegn mótmælum stefnanda verður ekki talið að umræddir skilmálar fyrir ráðningu Höllu Bjarkar, sem Ásgeir Pálsson, framkvæmdastjóri flugumferðarþjónustu, skráði í tengslum við ráðninguna hafi orðið hluti af ráðningarsamningnum, eins og stefndi heldur fram. Þegar af þessari ástæðu hefur skjal þetta ekki þýðingu fyrir úrlausn málsins.

Stefndi hefur borið því við að samkvæmt reglum og ákvörðunum ferðakostnaðarnefndar, sbr. reglur nr. 39/1992, um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins, með áorðnum breytingum, sé meginreglan sú að útlagðan kostnað skuli greiða eftir reikningi, en ekkert liggi fyrir í málinu um það að hve miklu leyti Halla Björk Reynisdóttir hafi þurft að bera kostnað, sem ætlað sé að mæta með dagpeningum, enda hafi engin gögn þar að lútandi verið lögð fram. Þrátt fyrir að þessar upplýsingar liggi ekki fyrir í málinu, stendur það ekki í vegi fyrir því að dómkrafa stefnanda nái fram að ganga, enda lýtur hún að viðurkenningu á rétti til dagpeninga samkvæmt tilgreindu ákvæði kjarasamningsins.

Í samræmi við það sem að framan greinir verður að fallast á það með stefnanda að Höllu Björk Reynisdóttur hafi borið réttur til dagpeninga samkvæmt grein 5.7.1 í kjarasamningnum vegna umræddra þjálfunarstarfa á greindum tíma. Samkvæmt þessu er krafa stefnanda í máli þessu tekin til greina.

Eftir þessum málsúrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 230.000 kr. í málskostnað og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.


D Ó M S O R Ð:

Viðurkennt er að félagsmaður stefnanda, Halla Björk Reynisdóttir, hafi átt rétt á dagpeningum í samræmi við reglur og ákvarðanir ferðakostnaðarnefndar á hverjum tíma er hún frá 10. október 1998 til og með 29. maí 1999 dvaldist á vegum Flugmálastjórnar Íslands fjarri starfsstöð sinni vegna námskeiðs- og þjálfunarstarfa á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli og með því að neita að greiða henni slíka dagpeninga hafi verið brotið gegn grein 5.7.1 í kjarasamningi Félags íslenskra flugumferðarstjóra og Ríkissjóðs frá 1997.

Stefndi, ríkissjóður Íslands, greiði stefnanda, Félagi íslenskra flugumferðarstjóra, 230.000 kr. í málskostnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta