Hoppa yfir valmynd
17. febrúar 2000 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 1/2000: Dómur frá 17. febrúar 2000.

Ár 2000, fimmtudaginn 17. febrúar, var í Félagsdómi í málinu nr. 1/2000.

Alþýðusamband Íslands f.h.

Verkamannasambands Íslands vegna

Verkalýðs- og sjómannafélags

Keflavíkur og nágrennis

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.)

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Samtaka ferðaþjónustunnar

vegna Flugleiða hf.

(Hrafnhildur Stefánsdóttir hdl.)

kveðinn upp svofelldur


D Ó M U R :

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi hinn 7. febrúar sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Ingibjörg Benediktsdóttir, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson og Valgeir Pálsson.

Stefnandi er Alþýðusamband Íslands f.h. Verkamannasambands Íslands, Skipholti 50 c, Reykjavík, vegna Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Stefndi er Samtök atvinnulífsins, Garðastræti 41, Reykjavík f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar, Hafnarstræti 20, Reykjavík vegna Flugleiða hf., Reykjavíkurflugvelli, Reykjavík.


Dómkröfur stefnanda

1. Að viðurkennt verði að starfsmenn flugeldhúss á Keflavíkurflugvelli fái úthlutað 8 vöktum í vetrarleyfi og starfsfólk eftir 10 ára starf 4 vöktum til viðbótar í vetrarleyfi annað hvert ár.

2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað vegna meðferðar málsins fyrir Félagsdómi þ.m.t. kostnað stefnanda af virðisaukaskattskyldri lögmannsþjónustu.


Dómkröfur stefnda

Að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.

Að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.


Málsatvik

Milli aðila máls þessa er í gildi kjarasamningur frá 24. mars 1997 en samningurinn er gerður milli Verkamannasambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands og Vinnumálasambandsins og hefur hann gildistíma til 15. febrúar 2000. Þá hefur Verkalýðs- og sjómannafélag Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðs- og sjómannafélag Gerðahrepps annars vegar og Vinnuveitendasamband Íslands vegna Flugleiða hf. hins vegar gert með sér sérkjarasamning fyrir starfsmenn Flugleiða sem vinna í veitingadeild Flugleiða (flugeldhúsi) á Keflavíkurflugvelli. Sá samningur sem dags. er 22. maí 1997 er hluti af aðalkjarasamningi aðila og hefur sama gildistíma og hann.

Í sérkjarasamningi aðila er í 7. gr. um vetrarorlof kveðið á um að fastráðnir starfsmenn í fullu starfi skuli fá fyrir vinnu á helgidögum 7 vinnuvaktir miðað við árs starf. Heimilt sé að greiðsla (12/30 af mánaðarlaunum) komi í stað umsamdra frídaga ef samkomulag náist um það við starfsmenn.

Fastráðnir starfsmenn í flugeldhúsi á Keflavíkurflugvelli höfðu um áraraðir eða allt frá árinu 1981 fengið 8 vaktir í vetrarfrí og þeir sem höfðu náð 10 ára starfsaldri fengu 4 vaktir þar til viðbótar annað hvert ár. Við gerð sérkjarasamningsins 22. maí 1997 var gerð um þetta sérstök bókun sem fylgiskjal með kjarasamningi svohljóðandi:

"Starfsfólk í eldhúsi fær úthlutað 8 vöktum í vetrarleyfi miðað við núverandi 8 klst. vaktafyrirkomulag. Miðað við sama vaktafyrirkomulag fær starfsfólk eftir 10 ára starf 4 vaktir til viðbótar í vetrarleyfi annað hvert ár."

Vorið 1999 var vaktafyrirkomulaginu breytt að ósk Flugleiða hf., sbr. gr. 2 í kjarasamningi aðila, og varð samkomulag um það milli aðila að svo yrði gert. Var vaktafyrirkomulaginu breytt í svokallað 2 2 3 kerfi. Jafnframt því varð breyting á starfshlutfalli starfsmanna, þeir fóru í 74% starf en launagreiðslur miðast við 82% starfshlutfall. Breytingar á vetrarorlofi voru ekki ræddar sérstaklega. Er starfsmenn flugeldhúss hófu töku vetrarorlofs á haustdögum 1999 kom í ljós að þeir áttu að fá 7 vaktir í vetrarfrí í stað 8 vakta og 12 vakta eins og áður hafði verið. Þrátt fyrir ítrekaðar athugasemdir og kröfu VSFK um leiðréttingu hafi stefndi ekki orðið við tilmælum um breytingu á þessari ákvörðun sinni og hefur stefnandi því höfðað mál þetta.


Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi kveður mál þetta vera höfðað fyrir Félagsdómi á grundvelli 2. tl. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur. Um aðild máls er vísað til aðildarreglna 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938.

Krafa stefnanda um að veita beri starfsmönnum flugeldhúss 8 og 12 vakta vetrarorlof sé í samræmi við framkvæmd allt frá árinu 1981, og sem hafi verið staðfest milli aðila með bókun í kjarasamningi 1997. Hefð hafi skapast fyrir greiðslu 8 og 12 vakta vetrarorlofs Flugleiða hf. í flugeldhúsi á Keflavíkurflugvelli með framkvæmd stefnda, Flugleiða hf., með þessum hætti í 18 ár. Flugleiðir hf. geti ekki einhliða við upphaf orlofstöku tilkynnt starfsmönnum sínum að 18 ára framkvæmd á töku vetrarorlofs skuli ekki lengur gilda. Þegar vaktafyrirkomulagi hafi verið breytt vorið 1999 hafi það verið gert með samkomulagi aðila eins og kjarasamningar kveði á um. Ef starfsmönnum hefði þá verið ljóst að hið nýja samkomulag fæli í sér skerðingu á vetrarorlofi hefðu þeir aldrei samþykkt breytt vaktafyrirkomulag.

Verði ekki fallist á að hefð hafi skapast fyrir lengdu vetrarorlofi, er krafan byggð á bókun með kjarasamningi sem gerð var 1997. Bókunin hafi sama gildi og kjarasamningurinn sjálfur. Jafnvel þótt bókunin veiti starfsmönnum rétt til lengra vetrarorlofs en ákvæði kjarasamningsins í 7. gr. geri sé bókunin nýrri en ákvæði samningsins sjálfs. Hún hljóti því að verða lögð til grundvallar. Stefnda beri því að virða bókunina. Um þetta vísast til Fd. IX:280 og IX:567. Jafnvel þótt í bókun sé fjallað um óbreytt vaktakerfi, og því hægt að vísa til þess að bókunin eigi ekki að gilda ef vaktakerfið breytist, hafi sú breyting sem varð á vaktakerfinu vorið 1999 ekki gefið neitt tilefni til að ætla að breytingar yrðu á vetrarorlofi starfsmanna. Vaktafyrirkomulagi hafði nokkrum sinnum verið breytt frá því að vetrarorlofið lengdist á árinu 1985 og 1992, en það hafði aldrei haft áhrif á lengd vetrarorlofsins.

Varðandi málskostnað er vísað í 65. gr. laga nr. 80/1938 sbr. 130. gr. eml. nr. 91/1991.


Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er tekið fram um málsatvik að starfsmenn Flugleiða hf. á Keflavíkurflugvelli gangi vaktir alla daga vikunnar. Um vinnu félagsmanna Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur séu í gildi fimm sérkjarasamningar sem séu í meginatriðum samhljóða. Samkvæmt þeim skuli starfsmenn í fullu starfi fá sérstakt vetrarfrí, 7 vinnuvaktir miðað við árs starf. Heimilt sé að greiðsla (12/30 af mánaðarlaunum) komi í stað umsamdra frídaga ef samkomulag náist um það við starfsmenn, sbr. 7. gr.

Um breytingar á vaktafyrirkomulagi fari samkvæmt 2. gr. fyrrgreindra samninga.

Við gerð kjarasamninganna 1997 hafi vaktafyrirkomulag í flugeldhúsi verið þannig að starfsmenn gengu 8 klst. vaktir, en unnir voru 14 dagar á hverjum þremur vikum. Til jafnaðar við aðra starfsmenn Flugleiða sem ganga 12 klst. vaktir, frídagar jafnmargir vinnudögum, og fá því 80 klst. í vetrarleyfi, hafi starfsmönnum flugeldhúss því veriðveittur einn aukavetrarfrídagur eða samtals 8 vinnuvaktir. Þessu vildu starfsmenn halda. Af hálfu Flugleiða hf. hafi verið fallist á það, en aðeins miðað við þáverandi vaktafyrirkomulag, enda eðlilegt að horfa til fjölda klst. í vetrarleyfi samkvæmt því kerfi. Gengið hafi verið frá kjarasamningnum þannig að vetrarfrí væri 7 vinnuvaktir. Í bókun hafi síðan verið tekið fram að úthluta skyldi 8 vöktum í vetrarleyfi "miðað við núverandi 8 klst. vaktafyrirkomulag" og að miðað við "sama vaktafyrirkomulag" fái starfsfólk eftir 10 ára starf 4 vaktir til viðbótar í vetrarleyfi annað hvert ár.

Á síðasta vori hafi vaktafyrirkomulaginu verið breytt, m.a. fyrir áeggjan starfsmanna. Samfara breytingu á starfshlutfalli starfsmanna í 74% starf hafi vinnutími þeirra styttst um 20%. Hver vakt væri nú 8,5 klst. og unnir dagar jafnmargir frídögum, eða 7 á hverjum 14 dögum. Starfsmenn fengju því fleiri frídaga en áður og helgarfrí aðra hverja helgi.

Stefndi byggir sýknukröfu sína á 7. gr. sérkjarasamnings aðila og bókun með þeim samningi. Samningurinn hafi verið gerður og undirritaður í heild þann 22. maí 1997. Meginreglan samkvæmt honum sé að vetrarleyfi starfsfólks í fullu starfi skuli vera 7 vinnuvaktir, eða 12/30 af mánaðarlaunum sé orlofið greitt út. Það sé sama regla og gildir samkvæmt öðrum samningum aðila um vinnu á Keflavíkurflugvelli og lúti því sömu lögmálum.

Úthlutun 8 vakta í vetrarleyfi sé samkvæmt skýru orðalagi bókunarinnar bundið við það 8 klst. vaktafyrirkomulag sem í gildi var við gerð samningsins og þá um leið fullt starf, sbr. 7. gr. Í bókuninni felist því undantekning frá meginreglu samningsins um 7 vaktir sem túlka verði þröngt og í samræmi við orðalag ákvæðisins. Í bókuninni sé tekið fram svo ekki verði um villst að sú úthlutun sem þar sé gert ráð fyrir miðist alfarið við það ákveðna vaktafyrirkomulag sem þá gilti. Það hafi einnig verið augljóst að Flugleiðir hf. hlytu að þurfa að horfa til framkvæmdar varðandi aðra sambærilega hópa í flugstöðinni.

Síðan hafi orðið veruleg breyting á vaktafyrirkomulagi og starfshlutfalli starfsmanna. Það eigi bæði við um fjölda staðinna vakta og vaktafyrirkomulag að öðru leyti. Breytingin hafi verið gerð með heimild í 2. gr. kjarasamningsins og í samráði við starfsmenn eins og þar sé kveðið á um.

Samningurinn frá 1997 liggi til grundvallar lögskiptum aðila. Það verði því hvorki byggt á ákvæðum eldri samninga, né eldri hefðum, hvorki hvað það varðar né annað.

Ekki verði heldur horft fram hjá því að starfshlutfall starfsmanna hafi verið lækkað samhliða breytingunni þannig að þeir eigi ekki lengur rétt á óskertu vetrarfríi. Starfsmaður í hlutastarfi sem vinnur, svo dæmi sé tekið, eina vakt í viku eigi eðli máls samkvæmt ekki rétt á sömu úthlutun orlofs og starfsmaður í fullu starfi.

Fyrrgreindur kjarasamningur aðila hafi að geyma skýr ákvæði um fjölda vetrarorlofsdaga miðað við fullt starf. Því hafi hvorki verið efni né ástæða til að fjalla sérstaklega um það atriði í sambandi við vaktabreytinguna. Af orðalagi bókunarinnar með samningnum og 7. gr. samningsins mátti stefnanda og félagsmönnum hans vera ljóst að breytingar á vaktafyrirkomulagi og starfshlutfalli leiddu til breytinga á vetrarorlofi. Engin skylda hafi legið á stefnda að upplýsa um það sérstaklega. Vetrarorlofsúthlutunin hafi heldur ekki verið nefnd á nafn af hálfu stefnanda eins og full ástæða hefði verið til ef það hefði verið ákvörðunarástæða af hálfu starfsmanna.

Miðað við núverandi aðstæður skuli vetrarfrí vera 7 vinnuvaktir samkvæmt kjarasamningi aðila. Af því leiðir að Flugleiðir hf. höfðu fulla heimild til að úthluta vetrarfríum með þeim hætti sem gert var.

Fyrri breytingar á vaktafyrirkomulagi sem gerðar voru við aðrar aðstæður og samkvæmt öðrum samningum, jafnvel sem liður í samningum aðila um slíkar breytingar, skapi stefnanda engan rétt.

Máli sínu til stuðnings vísar stefndi til framlagðs kjarasamnings.

Um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.


Niðurstaða

Í 7. grein sérkjarasamnings aðila frá 22. maí 1997 undir fyrirsögninni Vetrarfrí", segir svo:

"Fastráðnir starfsmenn í fullu starfi skulu fá fyrir vinnu á helgidögum 7 vinnuvaktir miðað við árs starf. Heimilt er að greiðsla (12/30 af mánaðarlaunum ) komi í stað umsamdra frídaga ef samkomulag næst um það við starfsmenn."

Aðilar eru sammála um að þetta ákvæði muni hafa komið inn sem nýmæli í téðum kjarasamningi.

Í 2. grein þessa kjarasamnings undir fyrirsögninni Um vinnuvaktir" segir svo:

Flugleiðum er heimilt í samráði við starfsfólk að breyta tímasettu upphafi vakta eða hluta þeirra. Flugleiðum er heimilt í samráði við starfsfólk að aðlaga vaktir þörfum félagsins með 30 daga fyrirvara. Vaktaskrár skal skipuleggja einn mánuð fram í tímann og skulu þær liggja fyrir viku fyrir gildistöku. Þær skulu hanga uppi á vinnustað starfsmanna eða afhentar hverjum þeirra."

Óumdeilt er í málinu að vorið 1999 var eldra vaktafyrirkomulagi breytt með samþykki starfsfólks flugeldhúss Flugleiða hf. á Keflavíkurflugvelli.

Með kjarasamningnum er svohljóðandi bókun:

Starfsfólk í eldhúsi fær úthlutað 8 vöktum í vetrarleyfi miðað við núverandi 8 klst. vaktafyrirkomulag. Miðað við sama vaktafyrirkomulag fær starfsfólk eftir 10 ára starf 4 vaktir til viðbótar í vetrarleyfi annað hvert ár."

Í 7. grein kjarasamnings aðila kemur fram meginregla um vetrarfrí starfsfólks í flugeldhúsi Flugleiða hf. á Keflavíkurflugvelli. Með hliðsjón af 2. grein kjarasamningsins verður að túlka fyrrnefnda bókun samkvæmt orðanna hljóðan á þann veg að hún hafi einungis átt að gilda meðan þágildandi vaktafyrirkomulag var notað, enda er í bókuninni vitnað til þess, að þetta samkomulag um vetrarfrí skuli miðað við núverandi" og sama" vaktafyrirkomulag og þá var í gildi. Það styður einnig þessa niðurstöðu að umrædd breyting á vaktafyrirkomulaginu leiddi til lægra starfshlutfalls starfsfólks í flugeldhúsi Flugleiða hf. Þá getur stefnandi ekki byggt rétt á því &"að hefð hafi skapast fyrir lengdu vetrarorlofi&" fyrir gildistöku kjarasamningsins. Stefnandi hefur heldur ekki sýnt fram á að stefndi hafi lofað starfsfólkinu vetrarorlofi umfram það sem greinir í 7. grein kjarasamningsins. Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu.

Rétt þykir að stefnandi greiði stefnda 100.000 kr. í málskostnað. Hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.


D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Samtök atvinnulífsins f.h. Samtaka ferðaþjónustunnar vegna Flugleiða hf., skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Alþýðusambands Íslands f.h.

Verkamannasambands Íslands vegna Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis.

Stefnandi greiði stefnda 100.000 kr. í málskostnað.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta