Hoppa yfir valmynd
15. desember 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Drög að frumvörpum til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði og breytingar á lögum um lífsýnasöfn send til umsagnar

Drög nefndar  að frumvarpi til heildarlaga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði ásamt drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn liggja fyrir. Óskað er eftir skriflegum athugasemdum  fyrir 13. janúar næstkomandi.

Frumvörpin hafa verið send helstu hagsmunaaðilum til umsagnar. Jafnframt er almenningur sérstaklega hvattur til þess að kynna sér efni frumvarpanna og senda inn athugasemdir.

Frá hausti 2008 hefur starfað á vegum velferðarráðherra, áður heilbrigðisráðherra, nefnd til að fara yfir núgildandi reglur og framkvæmd að því er varðar vísindarannsóknir á heilbrigðissviði. Nefndin er skipuð með eftirfarandi hætti:

  • Guðríður Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, formaður.
  • Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga á Landspítala, tilnefndur af landlækni (áður
  • Magnús Gottfreðsson, yfirlæknir smitsjúkdómalækninga á Landspítala)
  • Vilhjálmur Árnason, prófessor í heimspeki við Háskóla Íslands, tilnefndur af Siðfræðistofnun.
  • Magnús Karl Magnússon, sérfræðingur á blóðmeinafræðideild Landspítala og prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, tilnefndur af Landspítala.
  • Helga Þórisdóttir, lögfræðingur, tilnefnd af Lyfjastofnun.
  • Gísli Ragnarsson, skólameistari, tilefndur af Vísindasiðanefnd

Nú liggja fyrir drög nefndarinnar að frumvarpi til heildarlaga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði ásamt drögum að frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn.

Sett verði heildstæð löggjöf um vísindarannsóknir

Meginmarkmið frumvarps til laga um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði er að sett verði heildstæð löggjöf um vísindarannsóknir á heilbrigðissviði sem tryggir annars vegar hagsmuni þátttakenda í rannsóknum og hins vegar hagsmuni almennings af framförum í vísindum og heilbrigðisþjónustu. Frumvarpið byggir að miklu leyti á núverandi framkvæmd og þeim alþjóðlegu reglum sem gilda um siðfræði vísindarannsókna á heilbrigðissviði. Helstu nýjungar sem er að finna í frumvarpinu varða m.a. varðveislu heilbrigðisgagna, sjálfstæði Vísindasiðanefndar, breytt kerfi leyfisveitinga fyrir vísindarannsóknum á heilbrigðissviði, skýrari ákvæði um samþykki fyrir vísindarannsóknum á mönnum og hæfi þátttakenda til að veita samþykki. Sérstök athygli er vakin á tveimur tillögum er varða breytingar á öðrum lögum. Í fyrsta lagi er hér um að ræða tillögu um meðferðarskrár í lögum um landlækni og lýðheilsu og í öðru lagi tillögu um breytingu á lögum um sjúkraskrár þar sem gert er ráð fyrir að sjúklingur geti lagt bann við því að sjúkraskrárupplýsingar hans séu notaðar til vísindarannsókna.

Þær breytingar sem nefndin leggur til á lögum um lífsýnasöfn varða að miklu leyti tillögu um söfn heilbrigðisupplýsinga ásamt tillögu um leitargrunna. Sérstaklega er óskað eftir athugasemdum við útvíkkun gildissviðs laga um lífsýnasöfn að þessu leyti.

Nálgast má drög að frumvörpunum á hér að neðan. Athygli er vakin á að með frumvarpi til laga um breytingu á lögum um lífsýnasöfn fylgir hjálparskjal þar sem breytingar samkvæmt frumvarpinu eru innfærðar inn í lögin til að auðvelda lestur frumvarpsins. Óskað er eftir að skriflegar athugasemdir við frumvarpsdrög verði sendar undir efnislínunni „Frumvarpsdrög til umsagnar“ á  [email protected] eigi síðar en 13. janúar 2012.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta