Hoppa yfir valmynd
24. júní 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 58/2015

Miðvikudaginn 24. júní 2015

58/2015

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Ú r s k u r ð u r

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson hrl., Guðmundur Sigurðsson læknir og Þorsteinn Magnússon lögfræðingur.

Með bréfi til úrskurðarnefndar almannatrygginga, mótt. 23. febrúar 2015, kærir A, synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn um uppbót/styrk til bifreiðakaupa.

Óskað er endurskoðunar. 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að kærandi sótti um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa með umsókn, dags. 30. desember 2014. Með bréfi, dags. 6. janúar 2015, synjaði Tryggingastofnun ríkisins umsókninni á þeim grundvelli að hún væri ótímabær. Í bréfinu kom fram að heimilt væri að veita uppbót/styrk til kaupa á bifreið á fimm ára fresti vegna sama einstaklings og þar sem kærandi hefði fengið greiðslu í nóvember 2013 væri ekki heimilt að úthluta honum aftur uppbót/styrk fyrr en í desember 2018.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga segir m.a. svo:

„Sækji um styrk til bílakaupa vegna verra líkamsástands. eftir árekstur. Á erfiðara með gang.  er með gerfihné og skaðaðist það við áreksturinn. Ég fékk greiddar X úr tryggingum út úr hinum bílnum. Og sækji um viðbót. að upphæð X vegna bifreiðar sem ég keypti að upphæð X.

Ég seldi bílinn sem ekið var á, á X kr“

Úrskurðarnefndin óskaði greinargerðar Tryggingastofnunar ríkisins með bréfi, dags. 24. febrúar 2015. Í greinargerð Tryggingastofnunar, dags. 23. mars 2015, segir:

„1, Kæruefni

Kærð er synjun á umsókn um uppbót til bifreiðakaupa.

2. Lög og reglugerðir sem málið snerta

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 er heimilt að greiða til elli- og örorkulífeyrisþega, örorkustyrkþega og umönnunargreiðsluþega uppbót vegna kaupa á bifreið sem bótaþega er nauðsyn að hafa vegna hreyfihömlunar ef sýnt er að bótaþegi geti ekki komist af án uppbótarinnar. Sama gildir um rekstur bifreiðar eigi í hlut elli- eða örorkustyrkþegar, sbr. 2. mgr. sömu lagagreinar.

Með breytingalögum nr. 120/2009 (sem tóku gildi 1. janúar 2010) var eftirfarandi málslið bætt við þessa málsgrein:

„Heimilt er að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings.“

Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða er sett með heimild í lögum um félagslega aðstoð. Í 3.gr. hennar er fjallað um uppbætur vegna kaupa á bifreiðum. Þar koma fram skilyrði fyrir greiðslu þessara uppbóta og eins upphæðir þessara uppbóta. Þar kemur m.a. fram að uppbót sé einungis heimilt að veita á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. 

Í 7. mgr. þessarar 3.gr. reglugerðarinnar segir síðan:

„Óheimilt er að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt er að víkja frá áðurgreindum tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.”

3. Málavextir

Kærandi sótti um uppbót/styrk til bifreiðakaupa með umsókn dags. 30. desember 2014. Með bréfi Tryggingastofnunar dags. 6. janúar 2015 var kæranda sent bréf þar sem fram kom að umsókn hans um uppbót til bifreiðakaupa væri synjað þar sem að ekki væru fimm ár liðin frá því að hann fékk síðast uppbót til bifreiðakaupa.

Kærandi fékk síðast samþykkta uppbót til bifreiðakaupa þann 4. nóvember 2013 og var hún greidd út í sama mánuði. Kærandi lenti í umferðaróhappi þann 22. desember sl. og telur að hann eigi því rétt á nýrri uppbót þar sem að bifreiðin sé, að hans mati, ónýt.

4. Fimm ára reglan

Eins og áður hefur verið rakið þá er Tryggingastofnun ekki heimilt að veita uppbót vegna bifreiðakaupa vegna sama einstaklings nema á fimm ára fresti. Rétt er að vekja athygli á því að reglan er afdráttarlaus og án undantekninga í 10. gr. laga um félagslega aðstoð.

Í 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 kemur fram þröng undantekningarheimild til þess að heimila sölu á bifreið áður en fimm ár eru liðin frá því að kæranda var veitt uppbót, en það er vegna þess að bifreið hefur eyðilagst eða bótaþegi látist

Í framkvæmd hefur ákvæðið verið túlkað á þann hátt að hægt sé að veita umsækjanda nýja uppbót/styrk þó að ekki séu liðin fimm ár frá síðustu styrkveitingu ef að bíllinn hefur eyðileggst í árekstri, eða sambærilegu atviki og umsækjandinn hefur ekki fengið neinar bætur frá tryggingunum vegna tjónsins.

Það er rétt að vekja athygli á því að þessi framkvæmd Tryggingastofnunar byggir á orðalagi 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar eingöngu og sambærilegu ákvæði í fyrri reglugerð. Framkvæmdin hefur verið svona frá því áður en að fimm ára reglan var lögfest með breytingalögum nr. 120/2009 og það má færa fyrir því rök að hún standist ekki afdrátarlaust orðalag hinnar breyttu 10. gr. laga um félagslega aðstoð. Þ.e. að með réttu ætti ekki að vera heimilt að veita nýja uppbót/styrk til bifreiðakaupa þó að bifreið hafi eyðilagst.

5. Mál kæranda

Af gögnum málsins er ljóst að kærandi fékk greiddar bætur úr tryggingum vegna þess óhapps sem varð þann 22. desember sl. Í samræmi við túlkun Tryggingastofnunar á áðurnefndum laga- og reglugerðarákvæðum þá greiðir stofnunin ekki út nýja uppbót/styrk í þeim tilvikum sem að umsækjandi hefur fengið bætur fyrir fyrri bifreið. Eingöngu er veitt ný uppbót í þeim tilvikum þar sem bifreiðin hefur eyðilagst og engar bætur komið fyrir. Verðmæti fyrri uppbótar/styrks er að finna í andvirði bótana frá tryggingafélaginu og er eðlilegt að kærandi verji því til að afla sér nýrrar bifreiðar. Að sama skapi yrði óeðlilegt ef að Tryggingastofnun myndi aftur veita kæranda uppbót til bifreiðakaupa því þá væri í raun verið að tvíbæta sama tjón.

Rétt er að vekja athygli á því að Tryggingastofnun synjaði umsókn kæranda um nýja uppbót eingöngu á þeim forsendum að hann var búinn að fá tjón sitt bætt hjá tryggingafélaginu. Ekki var tekin efnisleg afstaða til annarra skilyrða sem fram koma í lögum og reglum um uppbót/styrki til bifreiðakaupa. Það er hins vegar rétt að benda á að í gögnum málsins er ekki hægt að sjá að bifreið kæranda hafi verið ónýt eftir áreksturinn 22. desember sl. Lögregluskýrslan og upplýsingarnar frá tryggingafélaginu eru ófullnægjandi til þess að meta það hvort að bifreiðin hafi sannarlega verið ónýt eftir áreksturinn eða hvort að kærandi hafi eingöngu ákveðið að gera ekki við bifreiðina. Eins og sjá má á meðfylgjandi gögnum þá hefur kærandi selt öðrum einstakling bifreiðina og hefur henni ekki enn verið fargað.

6. Niðurstaða

Tryggingastofnun telur að sér hafi ekki verið heimilt að víkja frá þeirri meginreglu að einungis sé heimilt að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Tryggingastofnun stendur við kærða ákvörðun um að synja kæranda um uppbót vegna bifreiðakaup.“

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 23. mars 2015, og honum gefinn kostur á að koma að frekari athugsemdum og/eða viðbótargögnum. Með bréfi, dags. 26. mars 2015, bárust svofelldar athugasemdir frá B, sjúkraþjálfara:

„Það vottast hér með að A notar nú 2 hækjur til göngu til að hlífa gervilið í vinstra hné eftir að hafa lent í umferðaróhappi 22/12 2014 sem leiddi til verulegrar vesnuar á vinstra hné með mikilli bólgu og hreyfiskerðingu. Hann er einnig í stöðugri sjúkraþjálfun vegna þessa.“

Með bréfi, dags. 7. apríl 2015, voru athugasemdirnar kynntar Tryggingastofnun ríkisins. Viðbótargreinargerð, dags. 30. apríl 2015, barst frá stofnuninni þar sem segir:

„Tryggingastofnun bárust viðbótargögn í máli nr. 58/2015. Um er að ræða staðfestingu sjúkraþjálfara á því kærandi noti nú tvær hækjur á göngu til að hlífa gervilið í vinstra hné.

Eftir að farið hefur verið yfir gögnin telur Tryggingastofnun ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðun.

Tryggingastofnun telur samt ástæðu til þess að vekja athygli nefndarinnar á því að synjun stofnunarinnar á uppbót/styrk til bifreiðakaupa þann 6. janúar sl. miðaðist við fyrirliggjandi hreyfihömlunarvottorð, sem hér fylgja með. Þau vottorð staðfesta hreyfihömlun í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til þess að einstaklingur geti fengið uppbót til bifreiðakaupa skv. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009.

Bærist Tryggingastofnun nýtt hreyfihömlunarvottorð þar sem að staðfest væri að ástand kæranda hefði versnað svo að hann uppfyllti nú skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar þá kæmi til skoðunar hvort að hann ætti rétt á mismun á fjárhæð uppbótar skv. 3. gr. og fjárhæð styrks skv. 4. gr. sbr. 6. mgr. 4. gr. reglugerðarinnar, svo framarlega sem að öll önnur skilyrði 4. gr. reglugerðarinnar væru uppfyllt.

Í þessu nýja skjali sem kærandi sendi inn kemur fram að kærandi þurfi nú að nota tvær hækjur eftir bílslysið 22. desember sl. Það er mat Tryggingastofnunar á skjalinu að um sé að ræða tímabundið ástand hjá kæranda og það sé ekki fullnægjandi til þess að kærandi geti átt rétt á styrk skv. 4. gr. Til þess að kærandi gæti átt rétt á styrk skv. 4. gr. reglugerðar þyrfti hann að nota tvær hækjur að staðaldri og að hækjunotkun hans sé varanleg, við það mat hefur verið horft til þess að hækjunotkun vari í a.m.k. tvö ár og hefur það verið staðfest af úrskurðarnefnd í máli nr. 341/2012. 

Tryggingastofnun telur þvi ekki ástæðu til þess að taka málið til nýrrar meðferðar að svo stöddu á grundvelli fyrirliggjandi gagna.“

Viðbótargreinargerðin var kynnt kæranda með bréfi dags. 30. apríl 2015. Frekari athugasemdir bárust ekki.

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins á umsókn kæranda um uppbót/styrk vegna bifreiðakaupa.

Í kæru til úrskurðarnefndar er greint frá því að bifreið sem kærandi hafi fengið styrk fyrir hafi eyðilagst í árekstri og hún hafi verið seld. Keypt hafi verið ný bifreið í stað þeirrar ónýtu. Sú breyting hafi orðið á högum kæranda að líkamsástand hans hafi versnað við áreksturinn. Gervihné hafi skaðast og hann eigi erfiðara um gang.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að í 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð og 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 sé kveðið á um að heimilt sé að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Í 7. mgr. 3 gr. reglugerðarinnar komi fram þröng undantekningarheimild til þess að heimila sölu bifreiðar áður en fimm ár séu liðin frá því uppbót hafi verið veitt, en það sé vegna þess að bifreið hafi eyðilagst eða bótaþegi látist. Af gögnum málsins sé ljóst að kærandi hafi fengið greiddar bætur úr tryggingum vegna óhappsins. Í samræmi við túlkun Tryggingastofnunar á áðurnefndum laga- og reglugerðarákvæðum greiði stofnunin ekki nýja uppbót/styrk í þeim tilvikum sem umsækjandi hafi fengið bætur fyrir fyrri bifreið.

Ágreiningur málsins lýtur að synjun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu uppbótar/styrks vegna bifreiðakaupa. Lagaheimild fyrir veitingu uppbótar vegna kaupa á bifreið er að finna í 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Samkvæmt ákvæðinu er heimilt að veita uppbót á fimm ára fresti vegna sama einstaklings. Reglugerð nr. 170/2009 um styrki og uppbætur til hreyfihamlaða einstaklinga vegna bifreiða hefur verið sett með stoð í 3. mgr. 10. gr. nefndra laga nr. 99/2007. Í 3. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að heimilt sé að greiða uppbót til kaupa á bifreið vegna hreyfihömlunar. Þá segir í 7. mgr. 3. gr. reglugerðarinnar að óheimilt sé að selja bifreið fyrr en fimm árum eftir veitingu uppbótar nema að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar ríkisins. Heimilt sé að víkja frá þeim tímamörkum eyðileggist bifreið á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega.

Samkvæmt gögnum málsins fékk kærandi greidda uppbót til bifreiðakaupa í nóvember 2013 frá Tryggingastofnun ríkisins. Kærandi sótti á ný um uppbót/styrk til bifreiðarkaupa með umsókn, dags. 30. desember 2014, þegar einungis rúmt ár var liðið frá því hann fékk greidda uppbót.

Samkvæmt fyrrnefndri 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð verður sama einstaklingi ekki veitt uppbót vegna bifreiðakaupa fyrr en að fimm árum liðnum frá síðustu greiðslu. Ágreiningslaust er að kæranda var veitt uppbót á árinu 2013 og uppfyllir því ekki skilyrði laganna um fimm ára frest. Skal þá litið til þess hvort skilyrði séu til að víkja frá lögboðnum tímamörkum. Heimilt er að veita undanþágu frá skilyrði laganna um fimm ára frest samkvæmt 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 hafi bifreið eyðilagst á tímabilinu eða vegna andláts bótaþega að fengnu sérstöku leyfi Tryggingastofnunar.

Í kæru til úrskurðarnefndar almannatrygginga greinir kærandi frá því að bifreið sem hann keypti á árinu 2013 sé ónýt eftir árekstur. Ljóst er að kærandi seldi bifreiðina 2. janúar 2015 án leyfis Tryggingastofnunar og hefur henni ekki verið fargað samkvæmt gögnum málsins. Kærandi hefur lagt fram lögregluskýrslu sem staðfestir að árekstur hafi átt sér stað og tjónskvittun frá tryggingafélagi um að fullnaðarbætur hafi verið greiddar en ekki er að finna upplýsingar um ástand bifreiðarinnar að öðru leyti.

Það er skilyrt samkvæmt 1. málsl. 7. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 170/2009 að bifreið sé ekki seld innan fimm ára tímabilsins án leyfis Tryggingastofnunar. Að mati úrskurðarnefndar almannatrygginga er það málefnalegt skilyrði í því tilliti að Tryggingastofnun hafi þann kost að leggja mat á ástand viðkomandi bifreiðar áður en hún sé seld. Þá kemur ekkert fram í lögregluskýrslu vegna umferðaróhappsins hvert tjón bifreiðarinnar hafi verið. Að því virtu verður ekki ráðið að bifreiðin hafi eyðilagst í umferðaróhappinu. Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða úrskurðarnefndar almannatrygginga að skilyrði undanþágu frá fimm ára tímamörkum 1. mgr. 10. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð vegna veitingar uppbótar til bifreiðakaupa séu ekki uppfyllt.

Í viðbótargreinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að synjun stofnunarinnar á uppbót/styrk hafi miðast við fyrirliggjandi hreyfihömlunarvottorð sem legið hafi fyrir við veitingu uppbótar þann 4. nóvember 2013. Í máli þessu hefur kærandi lagt fram nýjar upplýsingar um versnandi líkamsástand hans þar sem fram kemur meðal annars að hann þurfi að styðjast við tvær hækjur eftir slysið. Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009 kemur fram að styrkur samkvæmt greininni skuli einungis veittur ef einstaklingur sé verulega hreyfihamlaður og sé t.d. bundinn hjólastól og/eða noti tvær hækjur að staðaldri. Þá segir í 6. mgr. 4. gr. sömu reglugerðar:

„Ef hinn hreyfihamlaði hefur móttekið uppbót samkvæmt 3. gr. og sjúkdómsástand  hans versnar þannig að hann uppfylli skilyrði styrks samkvæmt þessu ákvæði er heimilt að greiða mismun á fjárhæð uppbótar og fjárhæð styrks. Styrkur og uppbót geta þó aldrei verið hærri en 1.200.000 á fimm ára fresti.“

Ekki verður ráðið af fyrirliggjandi gögnum hvort líkamsástand kæranda sé tímabundið eða varanlegt. Með vísan til þess telur úrskurðarnefnd almannatrygginga rétt að Tryggingastofnun ríkisins meti hvort kærandi uppfylli skilyrði þess að fá styrk samkvæmt 4. gr. reglugerðarinnar.  

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. janúar 2015, um synjun á uppbót til bifreiðakaupa er staðfest. Málinu er hins vegar vísað aftur til stofnunarinnar til mats á því hvort skilyrði fyrir styrk til bifreiðakaupa, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 170/2009, séu uppfyllt.

 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

 

Synjun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 6. janúar 2015, á umsókn A, um uppbót til kaupa á bifreið er staðfest. Málinu er vísað aftur til Tryggingastofnunar ríkisins til frekari meðferðar.

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson, formaður

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta