Nýr forstjóri Lýðheilsustöðvar
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis-og tryggingamálaráðherra hefur sett Dr. Þórólf Þórlindsson forstjóra Lýðheilsustöðvar til eins árs.
Dr. Þórólfur Þórlindsson hefur gegnt starfi prófessors við félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Hann hefur sinnt viðamiklum félagsvísindarannsóknum á hegðan ungmenna, birt fjölmargar ritrýndar vísindagreinar í alþjóðlegum tímaritum og ritað bækur um efnið.
Dr. Þórólfur hefur um árabil lagt sitt af mörkum í forvarnastörfum, m.a. verið formaður Áfengis- og vímuvarnarráðs. Hann hefur víðtæka reynslu af stjórnunarstörfum, m.a. sem deildarforseti félagsvísindadeildar Háskóla Íslands og forstöðumaður Rannsóknarstofnunar uppeldis- og menntamála. Þá hefur Dr. Þórólfur gegnt formennsku og setið í fjölmörgum ráðum og nefndum, verið formaður Félags háskólakennara og Félags prófessora og varaformaður Vísindaráðs.
Lýðheilsustöð er stjórnvöldum til ráðgjafar um stefnumótun á sviði lýðheilsu og tók til starfa 1. júlí 2003. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skipar forstjóra Lýðheilsustöðvar en stöðinni er ætlað að efla og samræma lýðheilsustarf í landinu, efla kennslu og rannsóknir á sviði lýðheilsu, vinna að lýðheilsuverkefnum á eigin vegum og í samvinnu við aðra sem og að byggja upp þekkingasetur allra landsmanna, fagfólks jafnt sem almennings, á þessu sviði.
Dr. Þórólfur Þórlindsson tekur við forstjórastarfinu af Önnu Elísabetu Ólafsdóttur. Hún hefur gegnt starfi forstjóra Lýðheilsustöðvar undanfarin fjögur ár og hyggst leggja stund á doktorsnám í lýðheilsufræðum í Bretlandi.