Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Geðheilbrigðisþjónusta við börn og ungmenni stórefld

150 milljónum króna verður varið á næstu átján mánuðum í að stórauka þjónustu við börn og ungmenni með hegðunar- og geðraskanir. Þegar áætlunin verður að fullu komin til framkvæmda mun það ástand sem nú er ríkjandi í málaflokknum heyra sögunni til.

Ríkisstjórnin samþykkti þessa tillögu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra s.l. þriðjudag. Tillagan er unnin í nánu samstarfi við fagaðila s.s. starfsfólk á barna- og unglingageðdeild Landspítala-Háskólasjúkrahúss og Miðstöðvar heilsuverndar barna.

Samkvæmt áætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra er gert ráð fyrir að leið barna og ungmenna að þjónustu sérfræðinga á sviði geðheilbrigðisþjónustu verði greiðari, að starfsmönnum sem sjá um þjónustuna fjölgi, að samvinna þeirra sem veita þjónustuna verði aukin, að ráðgjafahlutverk og þjónusta Barna- og unglingageðdeildar (BUGL) og Miðstöðvar heilsuverndar barna verði efld og þessum aðilum gert kleift að bregðast við þeirri brýnu þörf sem skapast hefur fyrir þjónustuna.

Þá er gert ráð fyrir að í upphafi næsta árs liggi fyrir úttekt á starfsemi og stjórnun BUGL en á grundvelli hennar verða teknar ákvarðanir um framtíðarskipulag og rekstrarform deildarinnar.

Veigamestu þættirnir í áætlun heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra eru þessir:

  1. Aðgengi barna og unglinga að sjálfstætt starfandi sérfræðingum á sviði geðheilbrigðisþjónustu, s.s. barnalæknum, barnageðlæknum, og sálfræðingum, verði aukið með því að samninganefnd ráðherra verði falið að gera samninga um þjónustu þeirra skv. viðmiðum sem síðar verða kynnt.
  2. Samvinna milli þeirra er veita börnum og ungmennum með geðraskanir frumþjónustu verður aukin með ýmsum hætti, m.a. með því að þróa ný samskiptakerfi. Styrkt verða tvö tilraunaverkefni til að efla samvinnu þjónustuaðila á a.m.k. tveimur stöðum á landinu, á Suðurnesjum og á Austurlandi, með því að fjármagna störf umsjónaraðila á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og Heilbrigðisstofnun Austurlands í eitt ár. Að þeim tíma liðnum verður árangurinn metinn.
  3. Unnin verður aðgerðaáætlun á sviði forvarna um geðvernd barna og ungmenna til lengri tíma og henni hrint í framkvæmd.
  4. Til að ná niður biðlistum á BUGL og taka á uppsöfnuðum vanda þannig að starfsemin verði komin í jafnvægi að ári liðnu verður starfsmönnum m.a. fjölgað.
  5. Ráðgjafarhlutverk BUGL til fyrsta og annars stigs þjónustuaðila verður eflt m.a. með því að ráða fræðslustjóra á BUGL og fjölga ferðum starfsmanna BUGL á heilbrigðisstofnanir úti á landi.
  6. Starfsemi Miðstöðvar heilsuverndar barna (MHB) verður efld til þess að koma á jafnvægi og ná niður biðlistum á einu ári. Þetta verður gert með því að bæta nú þegar við starfsmönnum.
  7. Samhliða ofangreindum aðgerðum verður gerð ítarleg úttekt á starfsemi og stjórnun BUGL. Niðurstöður úttektarinnar verði lagðar til grundvallar ákvörðun um framtíðarskipulag og rekstrarform deildarinnar.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta