Hoppa yfir valmynd
4. september 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Nýjar reglugerðir um heilbrigðisþjónustu og landlækni

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur gefið út þrjár nýjar reglugerðir sem kveða nánar á um framkvæmd nýrra laga nr. 40/2007 um heilbrigðisþjónustu og laga nr.41/2007 um landlækni, en þessi lög tóku gildi þann 1. september síðast liðinn.

Reglugerð um heilsugæslustöðvar

Í lögum um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um grunnskipulag heilbrigðisþjónustunnar og byggt á því grundvallarsjónarmiði að landsmenn eigi jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu. Lögð er áhersla á að almenn heilbrigðisþjónusta sé veitt í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga.

Í samræmi við þetta hefur ráðherra sett reglugerð þar sem kveðið er nánar á um starfsemi heilsugæslustöðva og þá þjónustu sem þeim ber að veita. Reglugerðin leysir af hólmi reglugerð nr. 160/1982, fyrir heilsugæslustöðvar.

Samkvæmt nýju reglugerðinni á það að vera markmið með rekstri heilsugæslustöðva að tryggja öllum landsmönnum fullnægjandi heilsugæslu í heimabyggð. Í reglugerðinni er kveðið á um að við skipulagningu heilsugæslu og annarrar heilbrigðisþjónustu í heilbrigðisumdæmum skuli miðað við að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga. Þá er með skýrum hætti mælt fyrir um rétt hvers einstaklings til að fá skráningu á heilsugæslustöð í sinni heimabyggð og þá að jafnaði á þeirri stöð sem er næst heimili hans. Ennfremur er kveðið á að hver einstaklingur skuli að jafnaði skráður sem skjólstæðingur tiltekins heilsugæslulæknis á heilsugæslustöð og að heilbrigðisstofnun sem viðkomandi heilsugæslustöð tilheyrir skuli leitast við að tryggja það.

Í reglugerðinni er kveðið á um þá heilbrigðisþjónustu sem veita skal á heilsugæslustöðvum og um stjórn heilsugæslustöðva í samræmi við ákvæði nýju heilbrigðisþjónustulaganna.

Reglugerð um heilbrigðisumdæmi

Í nýju lögunum um heilbrigðisþjónustu er kveðið á um grunnskipulag heilbrigðisþjónustunnar og um skiptingu landsins í heilbrigðisumdæmi. Heilbrigðisstofnanir sem veita almenna heilbrigðisþjónustu í hverju umdæmi eiga skv. lögunum að hafa með sér samstarf um skipulag heilbrigðisþjónustu á viðkomandi svæði.

Í samræmi við það hefur ráðherra sett reglugerð um skiptingu landsins í eftirfarandi heilbrigðisumdæmi:

Heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins.

Heilbrigðisumdæmi Vesturlands.

Heilbrigðisumdæmi Vestfjarða.

Heilbrigðisumdæmi Norðurlands.

Heilbrigðisumdæmi Austurlands.

Heilbrigðisumdæmi Suðurlands.

Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja.

Í reglugerðinni er einnig kveðið á um að heilbrigðisstofnanir innan heilbrigðisumdæma skuli m.a. hafa samráð um;

  1. skipulag heilsugæslu í umdæminu með það að markmiði að tryggja öllum íbúum aðgengi að heilsugæslu í heimabyggð og að heilsugæslan sé að jafnaði fyrsti viðkomustaður sjúklinga,
  2. skipulag hjúkrunarþjónustu í heimahúsum, hjúkrunarrýmum stofnana og á hjúkrunarheimilum með það að markmiði að allir íbúar í umdæminu eigi kost á fullnægjandi hjúkrunarþjónustu í samræmi við þarfir sínar,
  3. skipulag almennrar sjúkrahúsþjónustu í umdæminu.

Reglugerð um eftirlit landlæknis

Í lögum um heilbrigðisþjónustu og í lögum um landlækni sem tóku gildi 1. september síðast liðinn er kveðið á um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu. Lögin veita ráðherra heimild til að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins og að kveða í reglugerð á um faglegar lágmarkskröfur til reksturs heilbrigðisþjónustu.

Samkvæmt lögunum skal reglugerðin byggjast á þekkingu og aðstæðum á hverjum tíma og ber að endurskoða hana reglulega. Kveðið er á um að þeir sem hyggjast hefja rekstur heilbrigðisþjónustu, þ.m.t. ríkið og sveitarfélög, skuli tilkynna fyrirhugaðan rekstur til landlæknis og ber landlækni að staðfesta hvort fyrirhugaður rekstur uppfylli þær faglegu lágmarkskröfur sem gerðar eru á hverjum tíma.

Frá gildistöku laganna þann 1. september síðast liðinn ber því öllum sem hyggjast hefja rekstur heilbrigðisþjónustu að senda landlækni tilkynningu um það ásamt fullnægjandi upplýsingum um þá fyrirætlan. Óheimilt er að hefja rekstur fyrr en landlæknir hefur staðfest að reksturinn uppfylli faglegar lágmarkskröfur.

Í samræmi við þessi lagaákvæði hefur ráðherra sett reglugerð um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustunnar og um faglegar lágmarkskröfur. Í reglugerðinni eru efnisákvæði framangreindra lagaákvæða tekin upp og eftir atvikum kveðið nánar á um efni þeirra og framkvæmd. Meðal annars er nánar kveðið á um almennt inntak þeirra faglegu lágmarkskrafna sem gera verður til reksturs heilbrigðisþjónustu hér á landi. Þessar faglegu lágmarkskröfur taka til hvers kyns heilbrigðisþjónustu sem veitt er hér á landi að svo miklu leyti sem ekki hafa verið settar ítarlegri reglur um faglegar lágmarkskröfur á einstökum sviðum heilbrigðisþjónustunnar.

  • Reglugerð um eftirlit landlæknis með rekstri heilbrigðisþjónustu og faglegar lágmarkskröfur
    nr. 786/2007
  • Reglugerð um heilbrigðisumdæmi nr. 785/2007
  • Reglugerð um heilsugæslustöðvar nr. 787/2007


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta