Öryggismál rædd á fundi þjóðaröryggisráðs
Þjóðaröryggisráð kom saman í dag og fór yfir ýmis mál er tengjast almennt öryggisvörnum landsins í nútíð og framtíð. Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra gerði grein fyrir vinnu við netöryggismál, utanríkisráðherra kynnti vinnu við gerð viðbúnaðar- og varnaráætlunar fyrir Ísland og Ríkislögreglustjóri kynnti vinnu varðandi hryðjuverkaógn í ljósi atburða í mörgum löndum á undanförnum misserum og árum.
Á fundi þjóðaröryggisráðsins í dag var jafnframt gengið frá skipun Þórunnar J. Hafstein í embætti ritara þjóðaröryggisráðs. Þórunn hefur starfað sem skrifstofustjóri í dómsmálaráðuneytinu en mun nú hefja störf fyrir forsætisráðuneytið.
Í þjóðaröryggisráði sitja 11 fulltrúar. Forsætisráðherra er formaður ráðsins og stýrir fundum þess. Þá eiga þar sæti utanríkisráðherra, dómsmálaráðherra og ráðuneytisstjórar ráðuneytanna þriggja. Enn fremur eiga fast sæti í ráðinu tveir þingmenn, annar úr þingflokki sem skipar meirihluta á þingi en hinn er úr þingflokki minnihluta. Þá sitja í ráðinu forstjóri Landhelgisgæslunnar, Ríkislögreglustjóri og fulltrúi Landsbjargar.